Mánudagur 14.12.2015 - 00:08 - FB ummæli ()

Fjölmiðlar fóðri ekki rasista og ýti þannig undir fordóma!

Evrópunefndin gegn kynþáttafordómum og umburðarleysi (European Commission against Racism and Intolerance – ECRI) var stofnuð af Evrópuráðinu árið 1993. Um er að ræða sjálfstæðan eftirlitsaðila á sviði mannréttinda sem sérhæfir sig í málum er varða kynþáttafordóma og umburðarleysi. Nefndin hefur eftirlit með stöðu mála í aðildarríkjum Evrópuráðsins og greinir stöðuna í hverju ríki fyrir sig á sviði kynþáttafordóma og umburðarleysis og leggur fram ráðleggingar og tillögur um hvernig best sé að bregðast við vandamálunum sem komið hefur verið auga á.

Einn af hlutunum sem nefndin skoðar eru kynþáttafordómar í opinberri umræðu. Í síðustu skýrslu sem nefndin gaf út um Ísland, árið 2010, kemur m.a. fram að „samkvæmt rannsókn sem gerð var árið 2010 vildu um 30% Íslendinga takmarka fjölda innflytjenda til landsins. Þar af vildu tveir þriðju setja skorður við innflutningi allra útlendinga en einn þriðji vildi takmarka komu fólks með annan litarhátt, trú og menningu en meirihluti Íslendinga. Niðurstaða rannsóknarinnar var að kynþáttafordómar væru sannarlega til staðar á Íslandi.“

Við það má bæta að árið 2008 unnu Inga Hlín Pálsdóttir og Sigrún Ólafsdóttir skýrslu sem bar nafnið Ímynd Íslands: Staða, styrkur og stefna. Einstaklingar voru valdir í rýnihópa og þeir beðnir um að ræða ímynd þjóðarinnar. Allir hóparnir ræddu um innflytjendur og eftir því sem fram kemur í skýrslunni var enginn sem sá innflytjendur sem hluta af ímynd þjóðarinnar heldur frekar sem innrás sem þurfti að verjast til að Íslendingar héldu sérstöðu sinni. Þegar hátt í 10% þjóðarinnar eru skilgreindir sem innflytjendur hlýtur það að teljast mikið áhyggjuefni.

Vaxandi fordómar og þjóðernisrembingur í íslensku samfélagi er staðreynd. Það þarf ekki að eyða miklum tíma í að skoða opinbera umræðu til þess að komast að þeirri niðurstöðu fyrir þá sem ekki verða fyrir fordómum daglega eða upplifa þá í kringum sig.

Þegar kemur að opinberri umræðu bera fjölmiðlar mikla ábyrgð. Vald þeirra er mikið og þeir vita það. Þeir setja svip sinn á samfélagsumræðuna og ýta þar með undir staðalímyndir hjá fólki, hvort sem þær eru góðar eða slæmar.

Í síðustu skýrslu sinni hvatti ECRI íslensk stjórnvöld til að koma fjölmiðlum í skilning, án þess að ganga á ritstjórnarlegt frelsi þeirra, um mikilvægi þess að tryggja að umfjöllun í fjölmiðlum stuðli ekki að neikvæðu viðhorfi og andúð í garð minnihlutahópa, þ.m.t. innflytjenda, múslima og gyðinga.

ECRI nefnir að algengt sé að íslenskir fjölmiðlar tilgreini ríkisfang eða þjóðerni einstaklinga sem grunaðir eru um glæpsamlegt athæfi jafnvel þótt það hafi enga þýðingu í málinu sem um ræðir. Þetta hefur komið óorði á ákveðna þjóðfélagshópa og ECRI lýsir yfir áhyggjum af því að slík umfjöllun auki hættu á fordómum og leiði til þess að almenningur líti á allt fólk sem tilheyrir þessum þjóðfélagshópum sem glæpamenn.

Þá nefnir ECRI að upplýsingar um að á einkarekinni sjónvarpsstöð sem ber heitið Omega séu fjandsamleg ummæli um múslima gjarnan viðhöfð og alið á þeirri staðalímynd að múslímar séu hryðjuverkamenn. Einnig hafa upplýsingar borist um vefsíður sem birta fjandsamleg ummæli um múslima sem og nokkrar vefsíður sem voru stofnaðar í þeim tilgangi einum að dreifa bröndurum byggðum á kynþáttafordómum sem eru vinsælir á meðal unglinga og ungs fólks.

Eftirfylgni ECRI árið 2012 leiddi í ljós að ekki hefur verið bætt úr ofangreindum atriðum og að ef eitthvað er þá hefur ástandið versnað. Það er erfitt að neita fyrir það. Opinber umræða er orðin töluvert ósvífnari og óhuggulegri fjölmiðlar eru ekki alltaf undantekning þar á. Útvarp Saga er eitt dæmi. Morgunblaðið er annað dæmi.

Um langan tíma hefur Morgunblaðið gerst sekt um að ýta undir fordóma í samfélaginu. Síðasta dæmið er sunnudagsmogginn þar sem Vignir Freyr Andersen svarar spurningunni hvort Ísland ætti að taka á móti fleiri flóttamönnum.

Vissulega er tjáningarfrelsi á Íslandi, sem þó er ekki skilyrðislaus réttur, og Vignir má hafa sína skoðun á fólki af erlendu bergi brotnu. Sennilegast hefði verið betra fyrir alla að hann hefði hugsað sig tvisvar um áður en hann líkti flóttamönnum við „plöntu sem vex á öðrum stað en landeigandinn vill.“ Stundum þarf bara fræðslu og upplýsingar til þess að losna við fordóma sem fólk er oft ekki meðvitað um að hafa og ég get boðið Vigni í kaffi til að ræða þau mál. Eða þau mál að móttaka flóttamanna hefur ekki áhrif á hagsmuni öryrkja og aldraðra.

Það er erfiðara að kyngja því að ekki er útlit fyrir að ritstjórn Morgunblaðsins hafi séð nokkuð athugavert við ummæli Vignis. Ef svo hefði verið hefði blaðið ekki birt þessi ummæli. Meðvituð um áhrif sín og völd ákveður ritstjórn Morgunblaðsins að birta ummælin og leggja þannig sitt af mörkunum svo fordómar og þjóðernisrembingur haldi hér áfram að vaxa. Morgunblaðið gerist enn og aftur sekt um að fóðra rasistana með útgáfu sinni og normalísera þannig fordómafulla umræðu í íslensku samfélagi.

…og hafi þeir skömm fyrir!

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sema Erla Serdar
29 ára stjórnmála- og Evrópufræðingur sem berst fyrir friði, frelsi og jafnrétti þegar hún er ekki að horfa á fótbolta eða leika við hundana sína.

Formaður Samfylkingarinnar í Kópavogi. Fyrrverandi formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar. Ungur jafnaðarmaður!
RSS straumur: RSS straumur