Miðvikudagur 30.12.2015 - 14:59 - FB ummæli ()

Vaxandi þjóðernisrembingur er ein stærsta áskorun ársins 2016

Íslenska fjallkonan árið 2004.

Íslenska fjallkonan árið 2004.

Samfélög nútímans eru í stöðugri þróun og eru fólksflutningar á milli ríkja eitt helsta einkenni þeirrar þróunar. Fólksflutningar eru hins vegar ekki nýtt fyrirbæri og geta ástæðurnar fyrir þeim verið margvíslegar. Með fólksflutningum verða breytingar á uppruna fólks innan samfélaga, tungumálin verða fleiri, menningin fjölbreyttari og trúarbrögðin mörg. Íslenskt samfélag er ekki undanskilið þessari þróun og hefur Ísland um tíma verið skilgreint sem fjölmenningarsamfélag.

Hugtakið fjölmenningarlegt samfélag er skilgreint sem samfélag þar sem fjölbreytni ríkir, þar sem fólk af mismunandi uppruna eða menningarsvæðum býr saman í einu samfélagi, ber virðingu fyrir hvort öðru og hefur samskipti sín á milli. Eðlilegt er að í slíku samfélagi fái allir hópar að halda sinni eigin menningu, tungumáli og einkennum en tileinki sér á sama tíma ríkjandi menningu. Slíkt fyrirkomulag er þekkt á Norðurlöndunum og hefur verið einkennandi fyrir íslenskt samfélag. Stóra spurningin er hins vegar hvort það verði það áfram.

Þrátt fyrir augljósar staðreyndir, td. að hátt í 10% af íslensku þjóðinni eru skilgreindir sem innflytjendur og fleiri en 100 þjóðarbrot er að finna á Íslandi, eru ekki allir tilbúnir til þess að viðurkenna að íslenskt samfélag sé fjölmenningarsamfélag og margir sem ekki eru tilbúnir til þess að innlima innflytjendur í ímynd íslensku þjóðarinnar.

Í skýrslu frá árinu 2008 sem fjallaði meðal annars um ímynd Íslands ræddu þátttakendur í rannsókninni m.a. um innflytjendur og eftir því sem fram kemur í skýrslunni var enginn af þátttakendunum sem sá innflytjendur sem hluta af ímynd þjóðarinnar heldur frekar sem innrás sem þurfti að verjast til að Íslendingar héldu sérstöðu sinni.

Síðan þá hefur innflytjendum á Íslandi fjölgað og umræðan um málefni innflytjenda harðnað í samræmi við það. Auk þess hafa málefni flóttamanna staðið upp úr að undanförnu og hefur sú umræða blandast inn í umræðuna um innflytjendur á Íslandi. Málefni flóttamanna eru orðin að einum stærsta málaflokknum sem Evrópa stendur frammi fyrir, og mun standa frammi fyrir, og þar af leiðandi Ísland, þó vaxandi straumur flóttamanna til Evrópu (sem þó er einungis dropi í hafið ef litið er á stöðu flóttamanna í heiminum) snerti íslenskan almenning lítið sem ekkert, frekar en þeir vilja.

Íslenska krónan eða forngrískur peningur?

Íslenska krónan eða forngrískur peningur?

Þeas. líf flestra Íslendinga breytist ekki neitt þó hingað komi flóttamenn, fólk sem sækir um hæli eða innflytjendur, sem ákveðið hafa setjast hér að, flestir til þess að læra eða vinna og eru algjörlega sjálfbjarga. Fáir Íslendingar hafa það slæma persónulega reynslu af fólki af erlendum uppruna að það geti réttlæt andúð sína á innflytjendum almennt. Sú andúð er frekar byggð á innihaldslausum frösum og skipulögðum hræðsluáróðri um einhverja tilbúna ógn sem íslensku samfélagi stendur af fólki sem fætt er í öðru landi. Slíkt er byggt á fáfræði og fyrirframgefnum hugmyndum um fólk sem endurspeglast í fordómum þeirra sem halda slíkum hugmyndum á lofti. Enda hafa rannsóknir sýnt fram á að andúð á innflytjendum er oftast hvað mest þar sem hvað fæstir innflytjendur eru.

Samt sem áður stöndum við frammi fyrir vaxandi útlendingaandúð, þjóðernisrembing, íslamófóbíu, fordómum og hatri í garð náungans í íslensku samfélagi. Þjóðernishyggjan er orðin svo sterk að til eru einstaklingar sem halda virkilega að „stofna þurfi þjóðhyggjuflokk hér á landi til þess að „sporna gegn þessum viðbjóði““ og verja hin íslensku gildi, menningu og hina heilögu íslensku sjálfsmynd, sem að mörgu leyti er ekki sérstakari en það að hún er fengin að láni.

Merki Akureyrarbæjar eða pólski fáninn?

Merki Akureyrarbæjar eða pólski fáninn?

Þeir sem standa að baki slíkum hugmyndum eru oft afsakandi í framkomu sinni. Þeir segjast ekki vera rasistar heldur vilji þeir einungis „ræða málin.“ Stuttu á eftir fylgir skilgreiningin á “góða” og “vonda” fólkinu og hinni tvískiptu þjóð. Að ræða málin í þessu samhengi er hins vegar ekkert annað en athugun á því hvort rasískar hugmyndir standist skoðun. Stjórnmálamenn, fjölmiðlamenn og fleiri hafa að undanförnu staðið fyrir slíkum athugunum og ýtt þar af leiðandi undir óttann og tortryggnina. Við þekkjum öll niðurstöðuna. Orðræðan snýst um þessa meintu ógn sem  steðjar af fjölmenningu, auknum innflytjendastraumi, eða ákveðnum þjóðfélagshópum. Vegna þessarar „hættu“ sem þeir telja sig skynja, láta þeir sig slík málefni sérstaklega varða. Slík umræða eru helstu einkenni menningarlegs rasisma.

Stærsta áskorun ársins 2016 verður að berjast gegn uppgangi þeirra öfgaafla sem ala á slíkum hugmyndum, öfgaöflum sem eru tilbúin til þess að fórna frelsi einstaklingsins, grundvallarréttindum hans og mannréttindum til þess að fullnægja einhverri heimatilbúnni öryggistilfinningu sem er ekki byggð á neinu öðru en innihaldslausri tilfinningafroðu. Að ala á ótta er elsta trixið í bókinni og það er með þessum ótta sem þessir hópar réttlæta tilvist sína. Stærsta áskorun ársins 2016 er vaxandi þjóðernisrembingur og fordómar í íslensku samfélagi.

Stærsta áskorun næsta árs verður að standa vörð um hin raunverulegu gildi sem íslenskt samfélag er byggt á, réttlæti, frelsi, umburðalyndi, jöfnuður og friður. Gildi sem ofangreindir hópar eru tilbúnir til þess að fórna til þess að réttlæta ógeðfellda hugmyndafræði sína. Íslensku samfélagi stafar ekki ógn af innflytjendum, flóttamönnum eða hælisleitendum. Íslensku samfélagi stafar ekki ógn af fjölmenningarsamfélaginu sem hér hefur verið byggt. Íslensku samfélagi stafar ógn af vaxandi þjóðernisrembingi og fordómum.

Viðbót: Vegna ábendingar Jóns Sigurðssonar, í grein á Pressunni, vil ég taka það fram að þegar ég tala um að stofna eigi „Þjóðhyggjuflokk hér á landi til þess að sporna við þessum viðbjóði“ er ég að vísa í ummæli úr samfélagsumræðunni og því hef ég fært gæsalappirnar aðeins aftar í textanum, en ég er sammála honum í því að aðgreina þurfi ákveðið þjóðernisstolt og þjóðrækni (td. með orðinu þjóðhyggja eins og hann leggur til) frá umræðunni um slæman þjóðernisrembing og þjóðernishyggju sem byggist á öfgum, ofstæki, andúð á öðrum þjóðernum og menningum og öðrum álíka rembingi. Þjóðhyggju hef ég ekki notað yfir slíkt og mun ekki gera.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sema Erla Serdar
29 ára stjórnmála- og Evrópufræðingur sem berst fyrir friði, frelsi og jafnrétti þegar hún er ekki að horfa á fótbolta eða leika við hundana sína.

Formaður Samfylkingarinnar í Kópavogi. Fyrrverandi formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar. Ungur jafnaðarmaður!
RSS straumur: RSS straumur