Sunnudagur 17.01.2016 - 20:51 - FB ummæli ()

Tröllunum svarað!

„Að taka umræðuna“ er frasi sem andstæðingar fjölmenningar og þeir sem ala á andúð á innflytjendum, múslimum og öðrum útlendingum nota til þess að afsaka óhuggulegan málflutning sinn sem byggist á fáu öðru en upphrópunum, ofstopa og rangfærslum.

Þeir sem leggja í „að taka umræðuna“ gefast oftast fljótt upp enda kemst umræðan sjálf ekki langt upp úr skotgröfunum og það er alltaf stutt í heiftina, persónuárásirnar og níðið sem tekur yfir þá sem reyna að réttlæta ömurlegan málstað.

Annað einkenni þess „að taka umræðuna“ er að hún byggist ávallt á sömu innihaldslausu frösunum sem standast ekki skoðun. Frösum sem flestir eru orðnir þreyttir á að heyra, frösum sem oft á tíðum eru ógeðfelldir.

Hér er gerð tilraun til þess að svara þessum frösum í eitt skipti fyrir öll. Það er vonandi að við náum með því að stíga eitt skref áfram í „að taka umræðuna“ (ég veit ég er bjartsýn).

umræðanbloggÉg er ekki rasisti en…

Hin hefðbundna skilgreining á rasisma er að margra mati úrelt. Í dag er áherslan ekki endilega á yfirburði eins kynþáttar heldur er lögð áhersla á menningu og aðgreiningu hennar meðal þjóða og fólks af öðrum litarhætti. Hugmyndin um kynþætti skiptir ekki höfuðmáli lengur heldur menningarleg einkenni og hvað aðgreinir þau hvert frá öðru. Stundum er notað hugtakið menningarlegur rasismi yfir þessa skilgreiningu.

Á Vesturlöndum hefur menningarlegur rasismi hlotið ákveðna ómeðvitaða viðurkenningu og fengið byr undir báða vængi á liðnum árum en þannig hafa t.d. stjórnmálaflokkar sem vilja beita sér gegn fjölmenningarsamfélaginu sótt í sig veðrið að undanförnu en það kristallast einnig í hegðun einstaklinga gangvart fólki af erlendum uppruna, með aðra menningu eða trú. Slíkur rasismi er því beintengdur almennri andstöðu gegn fjölmenningu.

Talsmenn þeirra sem sem aðhyllast slíkar skoðanir og eru andsnúnir fjölmenningu benda gjarnan á að afstaða þeirra sé ekki rasísk vegna þess að þeir segjast ekki leggja neina áherslu á kynþætti. Það séu frekar gagnrýnendur þeirra sem séu rasískir vegna þess að þeir eru að mála múslima og aðra trúarhópa upp sem kynþætti. Hins vegar hefur verið bent á að ekki sé hægt að segja að menningarlegur rasismi sé ekki rasismi, einfaldlega vegna þess að hugtakið eigi ekki við um kynþætti. Menningarlegur rasismi er afbrigði rasisma sem skiptir einfaldlega kynþætti út fyrir menningu. Menning er þannig orðin að hinum nýja kynþætti.

„Að ræða málin“…

Þeir sem tjá þennan nýja rasisma eru oft afsakandi í framkomu sinni, segjast ekki vera rasistar heldur vilji þeir einungis „ræða málin.“ Að ræða málin í þessu samhengi er einmitt hvort rasískar hugmyndir standist skoðun. Þá er algengt að orðræðan snúist um þessa meintu ógn sem  steðjar af fjölmenningu, auknum innflytjendastraumi, eða ákveðnum þjóðfélagshópum. Vegna þessarar „hættu“ sem þeir telja sig skynja, láta þeir sig slík málefni sérstaklega varða.

„Góða“ fólkið og „vonda“ fólkið…

Eitt af höfuðeinkennum menningarlegs rasisma og þjóðernispopúlismans sem honum fylgir er að draga upp tvískipta mynd af þjóð sinni eða sínum menningarheimi annars vegar, og útlendingum eða öllum utanaðkomandi hinsvegar. Það er að segja „við“ og „hinir.“

Þetta er svarthvít mynd sem aðgreinir einnig hið „góða“ frá hinu „illa.“ Slíkum málflutningi hefur verið beitt öldum saman af þeim sem haldnir eru útilokandi þjóðernishyggju og útlendingahræðslu.

Það er elsta trixið í bókinni að ala á ótta til þess að fá fólk með þér á einhverja ákveðna skoðun. Með því að skipta þjóðinni upp í hóp „góða“ fólksins og svo hóp „vonda“ fólksins er einmitt verið að ýta undir ótta með því að búa til ímyndaðan óvin úr náunganum og þeim sem eru á annarri skoðun en þú. Góða fólkið berst gegn vonda og hættulega fólkinu.

Slíkur málflutningur er auðvitað innihaldslaus.

Ég er ekki á móti innflytjendum en…

umræðanblogg5

Þegar talað er um fordóma er átt við þegar einstaklingar eða hópar fólks eru dæmd út frá fyrirfram ákveðnum hugmyndum af staðalmyndum sem hafa myndast í samfélaginu og eru yfirleitt mótaðar af umhverfinu og eru t.d. fengnar úr fjölmiðlum, kvikmyndum, bókum eða öðru slíku. Staðalmynd er hugtak sem skilgreint er sem viðtekin skoðun fólks um sérkenni hópa eða einstaklinga sem tilheyra oft minnihlutahópum innan samfélagsins. Dæmi um þetta geta verið skoðanir fólks á byggingu mosku á Íslandi.

Fordómar geta byggt á hegðun, skoðunum eða öðru í fari einstaklings. Kristján Kristjánsson skilgreinir fordóma sem dóm sem felldur er án þess að einstaklingur hafi kynnt sér réttmæti og rök málsins af sanngirni, því hafa þeir sem hafa fordóma ekki góðar ástæður fyrir skoðunum sem felast í dómunum.

Fordómar hafa mismunandi birtingamyndir og geta þeir verið sýnilegir eða ósýnilegir. Ósýnilegir fordómar eru mun algengari í samfélaginu og oft gerir fólk sér ekki grein fyrir þeim. Dæmi um ósýnilega fordóma getur verið að sýna fyrirlitningu í framkomu eða orðalagi eins og t.d. að veita útlendingum lélegri þjónustu, tala ekki við fólk af erlendum uppruna á vinnustað eða líta niður á fólk af erlendum uppruna. Margir myndu túlka slíka hegðun sem rasíska.

Allir múslimar eru hryðjuverkamenn…

Hátt í tveir milljarðar einstaklinga aðhyllast múhameðstrú, sem eru næst fjölmennustu trúarbrögð í heimi, á eftir kristni. Í samanburði við önnur trúarbrögð á íslam einna mest skylt við kristni auk þess sem múhameðstrú sækir einnig margt til gyðingdóms, td. þegar kemur að matarvenjum, föstu og reglulegum bænum.

Múhameðstrú er fyrir marga lífstíll sem hefur td. áhrif á félagslíf, efnahagslíf og siðferði. Þannig velja td. margir múslimar að drekka ekki áfengi eða neyta annarra vímuefna, borða ekki svínakjöt, biðja fimm sinnum á dag og mæta í mosku. Sumir velja að fylgja lífsreglum eins og þessum að öllu leyti, sumir að einhverju leyti og aðrir láta sér duga að trúa á guð.

Lítill hópur múslima í heiminum misnotar trúarbrögðin sín til þess að réttlæta hermdarverk gegn fólki og ríkjum. Það er ekki einsdæmi í trúarbragðasögunni, hvorki fyrr né nú, það er ekki í fyrsta skipti sem trúarbrögð eru notuð sem réttlæting fyrir ofbeldi og átökum og eflaust ekki í síðasta skipti.

Það er því óásættanlegt að hátt í tveir milljarðar manna og kvenna og barna séu dæmdir vegna hermdarverka fárra. Að ætla að stimpla alla múslima sem hryðjuverkamenn er barnalegt og fráleitt. Ef sagan á að kenna okkur eitthvað er það hversu hættulegt það er.

umræðanblogg4Hin arabíska menning og nauðganir á vestrænum konum…

Nauðganir og aðrir kynferðisglæpir eru ógeðslegir, hvort sem gerandinn heitir Gunnar, Fernando eða Muhammer eða hvort brotið eigi sé stað á Íslandi, í Þýskalandi, Mexíkó eða Íran. Þeir sem gerast sekir um slíka glæpi skulu sæta refsingu samkvæmt þeim lögum sem gilda þar sem brotið er framið.

Það er alveg fráleitt að reyna að klína ógeðfelldum árásum (hvort sem þær eru kynferðislegar eða af öðrum toga) skipulagðra gengja í Þýskalandi (eða hvar sem er) á alla innflytjendur, alla múslima eða flóttamenn í Evrópu og skrifa þetta á fjölmenningu eða arabíska menningu. Nauðganir og aðrir kynferðisglæpir eru vandamál alls staðar og árásir eins og við urðum vitni að í Þýskalandi um áramótin eru ekki einsdæmi. Það eru til nauðgarar, barnaníðingar, morðingjar og þjófar alls staðar – líka á Íslandi. Það eru alltaf rotin epli innan um hin.

Það er ömurlegt og í raun alveg óþolandi að horfa upp á sömu öfgamennina reyna enn og aftur að nota hremmingar fólks til þess að hafa áhrif á afstöðu fólks til innflytjenda og sérstaklega flóttamanna – sem þurfa hvað mest á stuðningi og skilningi fólks að halda nú. Ég hef sagt það áður og segi aftur, að ala á ótta er elsta trixið í bókinni. Hræðsluáróður eins og þessi er þeim sem stunda hann til háborinnar skammar.

Arabísk menning einkennist m.a. af góðum bókmenntum, mat, listum, tónlist og íþróttum. Þeir sem ekki hafa kynnt sér arabíska menningu eru hvattir til þess að gera svo. Hún er að mörgu leyti mjög falleg.

Öryrkjar og aldraðir…

Öryrkjar og eldri borgarar hafa það skítt í þessu blessaða samfélagi okkar. Heilbrigðiskerfið okkar þarf á miklum endurbótum að halda og velferðin stendur höllum fæti. Það eru fái sem munu reyna að verja þann veruleika. Þar þarf að gera svo miklu miklu betur.

Evrópa er að eldast og enn og aftur er Ísland engin undantekning frá þeirri þróun. Það á að vera forgangsatriði þeirra sem hér fara með völd að tryggja að staða þessa samfélagshóp sé og verði í lagi. Það er hins vegar langt í land og hefur verið í langan tíma. Svona hefur staðan verið lengi – lengur en straumur flóttamanna til Evrópu jókst til muna.

Það skal því koma hér skýrt fram að móttaka flóttamanna eða flutningur franskrar fjölskyldu til Íslands sem hér vinnur og lærir er ekki á nokkurn hátt tengt stöðu öryrkja og eldri borgara á Íslandi. Það er ekki verið að taka af þeim málaflokki fjármuni til þess að fæða flóttamenn. Það er ekki verið að taka húsnæði af öryrkjum til þess að hýsa flóttamenn. Það er ekki verið að ganga á lífeyri eldri borgara til þess að kaupa föt á flóttamenn. Og franska fjölskyldan gengur ekki fyrir íslenska fjölskyldu þegar kemur að læknisþjónustu – sá sem hringir á undan mun eflaust fá tíma fyrr.

Þeir sem reyna að fela fordóma sína á bakvið bága stöðu öryrkja og eldri borgara mega skammast sín.

Að sýna hryðjuverkamönnum og nauðgurum samúð…

Að taka afstöðu gegn fordómum, rasisma, þjóðernisrembingi og mismunun byggða á kynþætti, þjóðerni eða trú þýðir ekki að verið sé að taka afstöðu með hryðjuverkum, kvenfyrirlitningu eða ákveðnum trúarbrögðum.

Að tala fyrir mannréttindum, réttlæti og jöfnuði er heldur ekki það sama og að sýna hryðjuverkamönnum, nauðgurum og öðrum ofbeldismönnum samúð.

Að saka fólk um slíka hluti er enn eitt dæmið um hversu lélegan málstað verið er að reyna að verja.

Þetta með aðlögunina…

Fólksflutningar eru ekki nýtt fyrirbæri og geta ástæðurnar fyrir þeim verið margvíslegar.Flestir þeirra sem flytjast á milli landa gera það til þess að sækja sér menntun eða vinnu. Aðrir eru að flýja átök, ofbeldi, stríðsátök eða aðrar hörmungar.

Fólk hefur því mismunandi bakgrunn, sögu og einkenni. Það getur því tekið mismikið á og verið auðvelt fyrir suma en erfiðara fyrir aðra þegar kemur að því að hefja þátttöku í samfélaginu. Því er eðlilegt að fólk leyti uppi aðra einstaklinga með svipaðan bakgrunn – svona eins og Íslendingar hafa gert í Kanda – jafnt til þess að fá aðstoð við koma sér fyrir, leita upplýsinga og halda saman upp á þjóðlegar hátíðir.

Það er eðlilegt að í fjölmenningarsamfélagi fái allir hópar að halda sinni eigin menningu, tungumáli og einkennum en tileinki sér á sama tíma ríkjandi menningu. Til þess þarf aðgengi, upplýsingar og aðstoð og því er ábyrgð stjórnvalda mikil þegar kemur að því að tryggja að þeir sem hingað koma geti tileinkað sér ríkjandi hefðir og venjur, reglur og skyldur.

Í fjölmenningarsamfélagi þarf því að tryggja að þeir sem hingað koma, þeir sem hér eru fyrir, stjórnvöld og stjórnmálamenn, fjölmiðlar, þeir sem taka þátt í umræðunni og aðrir viðeigandi aðilar hjálpist að við að gera það ferli eins auðvelt og hægt er.

Það er íslensku samfélagi til gæfu að hingað flytjist fólk til þess að finna starfskröftum sínum, hugviti og hæfileikum farveg. Þátttaka nýrra íbúa er mikilvæg fyrir samfélagið í heild sinni og því er mikilvægt að leita leiða til að jafna stöðu einstaklinga og hópa í fjölmenningarlegu samfélagi og stuðla þannig að félagslegu jafnrétti og réttlæti og koma í veg fyrir vaxandi rasisma og þjóðernisrembing.

Hin raunverulegu íslensku gildi…umræðanblogg3

Hin íslensku gildi snúast ekki um húðlit, trú eða háralit.

Hin raunverulegu gildi íslensku þjóðarinnar sem mikilvægt er að sameinast um eru mannréttindi, frelsi, virðing og réttlæti.

Trúfrelsi er eitt af þeim, sem og tjáningarfrelsi, sem og bann við mismunun vegna þjóðernis, uppruna, trúar eða menningar. Því miður virðast margir vera tilbúnir til þess að fórna þeim réttindum fyrir ákveðinn hóp í samfélaginu, sem við eigum öll og byggjum saman, til þess að fullnægja einhverri tilfinningafroðu um öryggi, hreinleika og þjóðernishyggju vegna þess þeir telja að þeir séu yfir aðra hafnir vegna þess hvar þeir eru fæddir eða hvað þeir trúa á.

Hin raunverulegu íslensku gildi endurspeglast í samfélagi  þar sem allir eru jafnir, einstaklingum er ekki mismunað vegna uppruna, trúar, þjóðernis, menningar eða öðru sem einkennir þeirra persónu og líf, td. kynhneigð eða fötlun. Þar sem allir hafa sama aðgang að mannréttindum og grundvallarréttindum einstaklingsins.

umræðanblogg6

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sema Erla Serdar
29 ára stjórnmála- og Evrópufræðingur sem berst fyrir friði, frelsi og jafnrétti þegar hún er ekki að horfa á fótbolta eða leika við hundana sína.

Formaður Samfylkingarinnar í Kópavogi. Fyrrverandi formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar. Ungur jafnaðarmaður!
RSS straumur: RSS straumur