Sunnudagur 07.02.2016 - 22:03 - FB ummæli ()

Hver er að hugsa um börnin?

ShowImage

[Lengri útgáfu af þessari grein má finna í Kvennblaðinu]

Samkvæmt Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna eru meira en 60 milljón einstaklinga á flótta í heiminum. Helmingurinn af þeim eru börn. Vegna aukinna átaka, borgarastyrjalda og ofbeldis í Mið-Austurlöndum og Afríku hefur hlutfall þeirra sem sótt hafa eftir alþjóðlegri vernd vaxið svo um munar síðustu ár og ljóst er að ekkert lát verður þar á næstu árin.

Börn á flótta er sérstaklega viðkvæmur hópur sem mikilvægt er að hlúa að. Fyrir utan öryggi þeirra og grundvallarréttindi sem ekki eru tryggð eiga börn á flótta eiga frekar á hættu að verða fórnarlömb misnotkunar, kúgunar, ofbeldis, vændis eða mansals og verða frekar fyrir áföllum en fullorðnir auk þess sem þau eiga hreinlega á meiri hættu að deyja á flótta. Börn á flótta þurfa því á aukinni vernd að halda.

Árið 2014 sóttu 144.550 börn um hæli innan Evrópusambandsins (ESB). Árið 2015 var fjöldi barna yngri en 18 ára sem sóttu um hæli orðinn a.m.k. 363.890, eða 29% allra hælisleitenda. Stofnun umboðsmanna barna og réttinda þeirra hefur gert úttekt á stöðu þeirra barna sem nú eru á flótta í heiminum sem varpar skýru ljósi á þær hörmungar sem börnin upplifa. Kallað hefur verið eftir því að ráðamenn Evrópu og Evrópusambandsins hefji strax aðgerðir til þess að lágmarka skaðann sem börn verða fyrir á flótta.

Börn eru fyrst og fremst börn

Börn á flótta eru fyrst og fremst börn og því ætti það að vera forgangsatriði hjá ráðamönnum í Evrópu að tryggja öryggi og hagsmuni barna þegar kemur að aðgerðum vegna málefna flóttamanna og hælisleitenda. Svo hefur hins vegar ekki verið. Það ríkir neyðarástand.

Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna áætlar að meira en ein milljón einstaklinga hafi komið sjóleiðina til Evrópu árið 2015. 25% af þeim eru börn. Vegna skorts á löglegum leiðum til þess að komast til Evrópu, og sérstaklega til aðildarríkja Evrópusambandsins, til þess að sækja um hæli fara flest öll börn ólöglegar leiðir til þess að komast yfir til álfunnar. Það gera þau t.d. með því að fara með smyglurum á troðfullum bátum en afleiðingin er sú að 30% þeirra sem drukknuðu í Miðjarðarhafinu á síðasta ári voru börn.

Mörg þeirra barna sem komast yfir til Evrópu og mögulega í skjól hafa týnt foreldrum sínum einhvers staðar á leiðinni en fyrir utan troðfulla bátana sem ferðalagið hefst í er oftar en ekki mikil ringulreið á landamærum Evrópu og í móttökustöðvunum fyrir flóttamenn og því er stórt hlutfall þeirra barna sem eru á flótta án fylgdar fullorðinna. Fleiri en 35.000 börn án fylgdar sóttu um hæli í Svíþjóð árið 2015. Útlit er fyrir að hlutfall stúlkna á flótta án fylgdar fari hækkandi. Hið sama á við um fötluð börn.

Það er enginn dans á rósum sem bíður þeirra barna sem komast á lífi yfir til Evrópu. Mörg þeirra eru blaut og köld og mörg þeirra ofkælast þegar þau koma á land sem getur valdið frekari veikindum, meðal annars lungnabólgu, og sum þeirra deyja vegna ofkælingar. Þetta á sérstaklega við á köldum vetrardögum eins og við upplifum nú og á sérstaklega við um nýfædd börn og smábörn.

Veturinn er mikið áhyggjuefni fyrir börn á flótta. Fyrir utan lélega aðstöðu á mörgum móttökustöðvum fyrir flóttamenn þar sem hreinlæti er m.a. oft ábótavant og skortur er á heitu vatni, hita og góðri klósettaðstöðu er minna en helmingur móttökustöðvanna undirbúinn fyrir veturinn, sem felst m.a. í því að vera með hlý föt til þess að koma í veg fyrir frekari veikindi barnanna.

Hætta á kynferðisofbeldi og mansali

En áhyggjuefnin eru fleiri. Þau börn sem komast á áfangastað eru flest án nokkurs öryggisnets eða verndar. Erfiðlega gengur víða að koma börnunum undir hendur forráðamanna, td. hjá fósturforeldrum, en það telst til grundvallarréttinda barna að þau hafi forráðamenn. Mörg barnanna hverfa því af móttökustöðvunum eftir að hafa þurft að dúsa þar vikum eða mánuðum saman án nokkurrar eðlilegrar umönnunar fullorðinna.

Á sumum mótttökustöðum eru börnin hreinlega lokuð inni en það er gert til þess að koma í veg fyrir að þau flýi og haldi áfram ein á flótta en mörg barnanna flýja einmitt vegna þess að þau vilja ekki eiga á hættu að vera sett í umsjón yfirvalda og mögulega lokuð inni. Dæmi eru um að börnin reyni að afmá fingraför sín svo ekki sé hægt að setja þau í gagnagrunn yfirvalda.

Auk þess sem aðgangur að menntun barnanna er mikið áhyggjuefni víða auk þess sem engar frístundir eða leiksvæði eru í boði fyrir börnin og þau hafa takmarkaðan aðgang að heilsugæslu eru grundvallarréttindi eins og þak yfir höfuðið, öryggi, næring og viðeigandi fatnaður ekki alltaf tryggður.

Börn á flótta eiga á sérstakri hættu að verða fórnarlömb kynferðisofbeldis og mansals. Heimildir benda til þess að mikil aukning hefur átt sér stað á mansali með auknum straumi flóttamanna til Evrópu seinni hluta árs 2015 en ómögulegt er að segja til um fjölda þeirra barna sem hafa lent í klóm slíkra glæpamanna.

Börnin eiga einnig á hættu að verða fórnarlömb kynferðisofbeldis og kynferðislegrar misnotkunar. Sum börn þurfa á peningum að halda til þess að komast áfram á ferðalagi sínu og grípa því til vændis. Önnur börn verða fórnarlömb misnotkunar af höndum fullorðinna, m.a. í flóttamannabúðum þar sem ókunnug börn og fullorðnir sofa í sama rými.

Aðstæðurnar sem flóttamenn búa við eru að sjálfsögðu misgóðar en Evrópa getur ómögulega verið sátt við að uppfylla einhverjar lágmarkskröfur þegar kemur að aðstæðum barna, öryggi þeirra og réttindum.

Sú staðreynd að börn á flótta standa frammi fyrir fjölmörgum hættum er til merkis um að ráðamenn Evrópu eru ekki að standa sig þegar kemur að verndun barna innan svæðisins. Það hlýtur að teljast forgangsatriði að tryggja að börn á flótta endi ekki í vændi eða á bak við lás og slá, séu misnotuð eða deyi úr kulda.

Hvað er til ráða?

Þrátt fyrir mikla áherslu á verndun og réttindi barna á flótta í starfi sínu síðustu ár er mikill skortur á aðgerðum í þágu barna á flótta í öllum samþykktum og ákvörðunum Evrópusambandsins sem snúa að málefnum flóttamanna og hafa verið samþykktar að undaförnu. Nýsamþykkt aðgerðaráætlun sambandsins í málefnum flóttamanna minnist einungis á börn tvisvar sinnum og aðgerðir sem snúa að börnum eru nefnd í neðanmálsgrein. Það er að sjálfsögðu óásættanlegt og til marks um getuleysi ráðamanna Evrópu þegar kemur að málefnum flóttamanna og sérstaklega barna á flótta.

Vissulega er þörf á að bæta lagaumgjörðina þegar kemur að málefnum hælisleitenda og sérstaklega börnum. Það er þó ljóst að það mun taka mikinn tíma sem við hreinlega höfum ekki sem og samstarfsvilja sem hvarf fyrir löngu síðan. Umboðsmenn barna hafa því sent frá sér ákall til ráðamanna Evrópu sem eru að þeirra mati í keppni um hvaða ríki sé óviljugast til þess að taka á móti flóttamönnum og veita þeim skjól.

Hvað ætlar Ísland að gera til þess að leysa einn stærsta vanda nútímans? Hvað ætla íslensk stjórnvöld að leggja til málsins? Vissuleg fær ríkisstjórnin þakkir fyrir það sem hún hefur nú þegar gert, eins og að taka á móti 35 sýrlenskum flóttamönnum en það þýðir ekki að við getum ekki og eigum ekki að gera enn betur. Það má ekki hætta að tala um málefni flóttamanna á meðan staðan er svona, á meðan börn deyja á Miðjarðarhafinu. Það má ekki hætta að krefjast þess að stjórnvöld geri meira, á meðan börn á flótta leiðast út í vændi eða verða fórnarlömb mansals. Það má ekki hætta að þrýsta á að Ísland axli ábyrgð eins og allir aðrir. Flest ríki Evrópu hafa lögfest Mannréttindasáttmála Evrópu, Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Það á líka við um Ísland. Þessi börn eru á okkar allra ábyrgð.

[Lengri útgáfu af þessari grein má finna í Kvennblaðinu]

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sema Erla Serdar
29 ára stjórnmála- og Evrópufræðingur sem berst fyrir friði, frelsi og jafnrétti þegar hún er ekki að horfa á fótbolta eða leika við hundana sína.

Formaður Samfylkingarinnar í Kópavogi. Fyrrverandi formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar. Ungur jafnaðarmaður!
RSS straumur: RSS straumur