Fimmtudagur 18.02.2016 - 17:14 - FB ummæli ()

Lögbrot á börnum: opið bréf til barnaverndarstofu

börnáflótta

Kæri Bragi, forstjóri Barnaverndarstofu,

ég skrifa þér þetta bréf eftir að hafa legið andvaka vegna frétta af hælisleitandi börnum sem hafa komið hingað án fylgdar og eru annað hvort vistuð á sama stað og fullorðnir hælisleitendur eða á Stuðlum, sem eru greiningar- og meðferðarúrræði fyrir unglinga á aldrinum 12- 18 ára sem glíma meðal annars við hegðunarörðugleika og vímuefnavanda.

Ég hef miklar áhyggjur af því að hér sé verið að brjóta Mannréttindasáttmála Evrópu, Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og flóttamannasáttmálann, alla á einu bretti.

Samkvæmt Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna eru meira en 60 milljón einstaklinga á flótta í heiminum. Helmingurinn af þeim eru börn. Börn á flótta er sérstaklega viðkvæmur hópur sem mikilvægt er að hlúa að. Fyrir utan öryggi þeirra og grundvallarréttindi sem ekki eru tryggð eiga börn á flótta frekar á hættu að verða fórnarlömb misnotkunar, kúgunar, ofbeldis, vændis eða mansals auk þess sem þau geta auðveldlega orðið fyrir öðrum áföllum, andlegum og líkamlegum, sem geta skaðað þau fyrir lífstíð.

Börn á flótta eru fyrst og fremst börn og því ætti það að vera forgangsatriði að tryggja öryggi og hagsmuni þeirra. Það er m.a. gert með því að koma þeim sem allra allra fyrst í umsjá fósturfjölskyldna. Þannig verður að tryggja aðgengi þeirra að menntun, heilsugæslu, heilbrigðu umhverfi og rétti þeirra til þess að fá að vera börn. Þar sem til Íslands eru komin börn á flótta er það skylda okkar að tryggja einmitt það.

Vissulega getur tekið tíma að koma börnum í fóstur en ég á bágt með að trúa því að það sé jafn erfitt og flókið hér eins og td. í Ungverjalandi þar sem straumur flóttamanna er gífurlegur og það er óásættanlegt að hafa þessi börn í þeim aðstæðum sem þau eru í núna og hafa verið samkvæmt fréttum mánuðum saman.

Það telst til grundvallarréttinda barna að þau hafi forráðamenn. Þar til börnum á flótta er komið í hendur fósturfjölskyldna eru hins vegar nokkrir hlutir sem börn á flótta eiga og mega alls ekki búa við, með tilliti til öryggis þeirra, verndunar, þarfa og möguleika á eðlilegu lífi í framtíðinni.

Börn á flótta eiga á sérstakri hættu að verða fórnarlömb kynferðisofbeldis eða annars konar misnotkunar. Slík misnotkun getur til dæmis átt sér stað á móttökustöðvum fyrir flóttamenn þar sem fullorðnir hælisleitendur og börn sem ekki þekkjast sofa á sama stað. Það er því óásættanlegt að þessi börn á flótta sem hér eru án fylgdar séu vistuð á sama stað og fullorðnir hælisleitendur. Þetta þarf að leysa strax!

Í öðru lagi er aldrei, ALDREI, í lagi að setja fylgdarlaust barn á flótta á stað eins og Stuðla, sem er, eins og áður sagði, meðferðarúrræði fyrir unglinga sem glíma meðal annars við hegðunarörðugleika og vímuefnavanda. Það er hreinlega galið.

Fylgdarlaus börn á flótta hafa upplifað hluti sem flest okkar þora ekki að ímynda sér að hægt sé að upplifa. Fjölskylda þeirra gæti hafa verið drepin, tekin föngum, dáið á flótta eða hreinlega bara týnst. Það eitt er veruleiki sem flestir þora ekki að ímynda sér að sé til.

Börn á flótta geta hafa leiðst út í vændi til þess að sjá fyrir sér, þau gætu hafa orðið fórnarlömb mansals eða upplifað aðrar aðstæður sem flest okkar þekkja bara að bíómyndum.

Það er mikil hætta á að börn sem upplifa slíkt stöðvist í þroska, hætti að tala og glími við alls konar líkamlega og andlega kvilla. Það er því gríðarlega óábyrgt að vista börn sem eiga á slíkri hættu á stað þar sem aðgengi er skert, þau upplifa innilokun og hálfgerða fangavist, þar sem þau ekki fá þá umönnun og þjónustu sem þau þurfa á að halda, svæði til leiks og möguleika á samskiptum við aðra.

Það er grafalvarlegt mál að svona sé fyrir þessum börnum komið. Það þarf að bregðast við þessu strax og koma börnunum í eðlilegt umhverfi, áður en þau hljóta varanlegan skaða af.

Hvernig er hægt að vera svona ábyrgðalaus þegar verið er að ræða um mannslíf? Líf barns.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sema Erla Serdar
29 ára stjórnmála- og Evrópufræðingur sem berst fyrir friði, frelsi og jafnrétti þegar hún er ekki að horfa á fótbolta eða leika við hundana sína.

Formaður Samfylkingarinnar í Kópavogi. Fyrrverandi formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar. Ungur jafnaðarmaður!
RSS straumur: RSS straumur