Þriðjudagur 23.02.2016 - 19:21 - FB ummæli ()

„Voða lítið um að semja“

Í tilefni af því að David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, hefur boðað til þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Breta að Evrópusambandinu, eftir að hafa samið við aðra leiðtoga Evrópusambandsins um breytingar á sambandi Bretlands og ESB, er umræðan um sérlausnir og undanþágur komin á kreik á nýjan leik.

Það er þrátt fyrir að Cameron er nýbúinn að semja við ESB um frávik frá grunnreglum og lögum Evrópusambandsins og nýlegri þjóðaratkvæðagreiðslu Dana um nokkrar af fjölmörgum undanþágum og sérlausnum sem þeir hafa samið um frá samstarfi ESB, m.a. í dóms- og innanríkismálum ESB.

Það er því við hæfi að rifja upp nokkrar af þeim sérlausnum og undanþágum, varanlegum og tímabundnum, sem aðildarríki ESB hafa samið um í aðildarviðræðum sínum.

Það virðist vera nokkuð almennt að í aðildarsamningum sé samið um tímabundnar undanþágur, eða aðlögunarfresti, til dæmis frest til þess að innleiða tiltekna löggjöf ESB eða til þess að afnema reglur sem eru ekki í samræmi við stofnsáttmála eða löggjöf ESB. Sem dæmi má nefna að í samningaviðræðunum fyrir stækkun ESB árið 2004, þegar tíu ríki Mið- og Austur-Evrópu gengu í sambandið, var samið um tímabundin aðlögunartímabil í fjöldamörgum tilvikum.

Það er nauðsynlegt að skilja að af hálfu ESB er lögð áhersla á að lítð sem engar varanlegar undanþágur eru veittar í aðildarsamningum enda er markmiðið að sem mest lagalegt samræmi ríki innan ESB, annars væri erfitt fyrir sambandið að ganga upp í þeirri mynd sem það starfar, en ESB byggir á sameiginlegri löggjöf aðildarríkjanna. Þrátt fyrir það hafa Danir og Bretar varanlega undanþágu frá evrusamstarfi sambandsins, en öll aðildarríki eiga að taka upp evruna sem gjaldmiðil á einhverjum tímapunkti.

Hins vegar er það staðreynd að aðstæður í umsóknarríkjum geta verið mjög ólíkar. Algengast er að komið sé til móts við mikilvæga hagsmuni nýrra aðildarríkja með tímabundnum undanþágum auk þess sem gripið hefur verið til þess ráðs að búa til svokallaðar sérlausnir sem eiga við á tilteknu sviði um tiltekið ríki, frekar en varanlegar undanþágur.

Dæmi um varanlega undanþágu má nefna að Svíar eru undanþegnir almennu banni í regluverki ESB við viðskiptum með munntóbak (sæ. snus). Annað dæmi um varanlega undanþágu er heimild Finnlands og Svíþjóðar til að viðhalda fyrirkomulagi sínu á ríkiseinkasölu áfengis við inngönguna í sambandið árið 1995.

Dæmin um sérlausnir sem umsóknarríki hafa fengið eru mörg. Eitt þekktasta dæmið um sérlausn er að finna í aðildarsamningi Danmerkur, en Danir fengu að viðhalda löggjöf sinni um kaup á sumarhúsum í landinu, en samkvæmt henni mega aðeins þeir sem hafa verið búsettir í Danmörku í a.m.k. fimm ár kaupa sumarhús í landinu. Árið 2004 var Möltu veitt sambærileg undanþága varðandi kaup á húseignum á eyjunni, með vísan til takmarkaðs fjölda húseigna og takmarkaðs landrýmis. Í báðum tilvikum er um að ræða frávik frá meginreglunni um frjálst flæði fjármagns.

Þá er í aðildarsamningi Möltu að finna bókun um að Malta megi viðhalda löggjöf sinni um fóstureyðingar, en sambærilegt ákvæði varðandi Írland er að finna í bókun með Maastricht sáttmálanum 1992.

Þá má finna ýmis dæmi um sérlausnir sem taka tillit til sérþarfa í landbúnaði. Þekktasta dæmið er eflaust að finna í aðildarsamningi Finnlands og Svíþjóðar en sú sérlausn felst í því að Finnum og Svíum var heimilt að veita sérstaka styrki vegna landbúnaðar á norðurslóðum (þ.e. norðan við 62. breiddargráðu). Sú sérlausn felur í sér að þeir mega sjálfir styrkja landbúnað sinn sem nemur 35% umfram önnur aðildarlönd. Þá sömdu Finnar einnig um að styrkja megi svæði sem eiga í alvarlegum erfiðleikum með aðlögun að hinni sameiginlegu landbúnaðarstefnu ESB og Finnar hafa nýtt það ákvæði til að semja við ESB um sérstuðning fyrir Suður-Finnland.

Þá sömdu Bretar og Írar um stuðning við harðbýl svæði (Less Favoured Area, LFA) þegar þau ríki gengu í ESB, og önnur ríki sömdu einnig um þann stuðning í samningaviðræðum sínum. Grikkir fengu sérákvæði um bómullarframleiðslu í aðildarsamning sinn, en bómullarrækt var álitin mjög mikilvæg fyrir grískan efnahag.

Malta og Lettland sömdu um tilteknar sérlausnir í sjávarútvegi, Finnar, Svíar og Austurríkismenn sömdu um hæstu styrki úr uppbyggingarsjóði ESB fyrir svæði sem hafa átta eða færri íbúa á hvern ferkílómetra, en í þeim flokki eru að öðru leyti svæði sem hafa verga landsframleiðslu á mann undir 75% af meðaltali ESB.

Í aðildarsamningi Króatíu, sem gekk í Evrópusambandið árið 2013, má sjá að samið var um fjölmargar tímabundnar undanþágur og aðlaganir að reglum ESB. Vegna sérstakra landfræðilegra aðstæðna í Króatíu, sem er skipt í tvö ótengd landsvæði með nesi sem tilheyrir Bosníu og Hersegóvínu og nær út í Adríahaf, óskuðu króatísk stjórnvöld eftir undanþágu frá ákvæðum tilskipunar um meginreglur um skipulag dýraheilbrigðiseftirlits með afurðum sem fluttar eru inn til bandalagsins frá þriðju löndum. Niðurstaða aðildarviðræðnanna um þetta atriði var sú að Evrópusambandið og Króatar sömdu um sérlausn.

Mörg aðildarríki ESB hafa þar að auki fengið undanþágur á sviði skatta og vörugjalda á ákveðnum mikilvægum vörum. Sem dæmi má nefna vörugjöld á ákveðnar víntegundir í Austurríki, Búlgaríu og Rúmeníu og tilteknar tegundir eldsneytis í Svíþjóð og Finnlandi.

Erfitt myndi reynast að finna dæmi um að ríki hafi óskað eftir ákveðinni sérlausn eða varanlegri undanþágu er varðar sérstakar aðstæður eða mikla þjóðarhagsmuni, og ekki fengið.

Að lokum er mikilvægt að nefna að aðildarsamningar þeirra ríkja sem ganga í ESB hafa sömu stöðu og stofnsáttmálar ESB. Ákvæðum þeirra, þar á meðal sérlausnum og undanþágum, verður því ekki breytt auðveldlega, en til þess þarf samþykki allra aðildarríkja.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sema Erla Serdar
29 ára stjórnmála- og Evrópufræðingur sem berst fyrir friði, frelsi og jafnrétti þegar hún er ekki að horfa á fótbolta eða leika við hundana sína.

Formaður Samfylkingarinnar í Kópavogi. Fyrrverandi formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar. Ungur jafnaðarmaður!
RSS straumur: RSS straumur