Sunnudagur 28.02.2016 - 19:54 - FB ummæli ()

Ísland über alles?

Í þó nokkurn tíma hefur mikið verið talað um pólitíska jarðskjálfta í Evrópu þar sem stjórnmálaflokkar og aðrir formlegir og óformlegir hópar sem eiga það sameiginlegt að ala á þjóðernishyggju, innflytjendaandúð, andúð á múslimum og andúð á fjölmenningarsamfélaginu (sem í dag einkennir flest ríki Evrópu) hafa verið að tröllríða hinum pólitíska vettvangi og m.a. komist í valdastöður í sumum ríkjum. Að sjálfsögðu var auðvitað bara tímaspursmál hvenær þessi þróun myndi ná til Íslands fyrir alvöru.

Allt frá því að frambjóðendur Framsóknar og flugvallarvina opnuðu box pandóru í síðustu borgarstjórnarkosningum og tókst að normalísera þjóðernishyggju, rasisma og útlendingaandúð í opinberri samfélagsumræðu – og tryggðu sér þannig tvo borgarfulltrúa – hafa fjölmargar viðvörunarbjöllur hringt og nú er komið að því, uppgangur öfgaafla er orðinn að raunveruleika á Íslandi.

Þegar Framsókn og flugvallarvinir ákvaðu að keyra á síðasta mögulega útspilinu til þess að sækja sér fylgi, því ljótasta sem hægt er að hugsa sér í stjórnmálum, fengur þeir einstaklingar sem höfðu að mestu legið á skoðunum sínum ekki bara meðbyr og stuðning heldur griðarstað fyrir óhuggulegar skoðanir sínar. Framsóknarflokkurinn varð á einni nótu sú fyrirmynd sem þennan hóp hafði vantað og í kjölfarið stigmagnaðist umræðan um innflytjendamál hér á landi.

Það var fyrirsjáanlegt að einhverjir einstaklingar myndu sjá í þessu tækifæri en þar til í gær höfðu þetta að mestu verið óformlegir og fámennir internethópar sem sóttu fyrirmynd sína til hópa á Norðurlöndum og annarra nágrannaríkja okkar. PEGIDA (Þýskaland), Hermenn Óðins (Finnland) og The Icelandic Defence League (Bretland) eru bara nokkur dæmi. Já, þetta er svona frumlegt.

Í gær var síðan hins íslenska þjóðfylking stofnuð. Íslenski popúlisminn, útlendingaandúðin, hatrið og hræðsluáróðurinn hefur komið sér fyrir í sérstökum stjórnmálaflokki. Samkvæmt stefnuskrá þeirra eru þeir sem standa að baki þjóðfylkingarinnar tilbúnir til þess að troða á mannréttindunum þínum, trúfrelsinu okkar og grundvallarréttindum einstaklingsins og í þágu hvers?

Íslensku samfélagi stafar ekki nokkur ógn af innflytjendum, fjölmenningu eða öðrum trúarbrögðum en við höfum hingað til kynnst. Íslensku samfélagi stafar ógn af öflum sem telja sig yfir aðra hafna vegna þjóðernis, kynþáttar, litarhafts, trúarbragða, menningar eða annarra slíkra þátta.

Friður, frelsi, jafnrétti, mannréttindi, réttlæti og velferð eru á meðal gilda íslensku þjóðarinnar. Aldrei hafa þessi gildi staðið frammi fyrir jafn hættulegri ógn og í dag. Það eru hins vegar ekki flóttamenn eða innflytjendur sem ógna þessum gildum heldur öfga-hægriöfl eins og íslenska þjóðfylkingin.

Marine Le Pen, Geert Wilders og aðrir evrópskir fasistar hafa eignast systurflokk á Íslandi. Þau hljóta að vera ánægð. Það er hins vegar mikilvægt að íslenska þjóðin standi saman gegn þeirri stórhættulegu þróun sem felst í stofnun íslensku þjóðfylkingarinnar – sjáið bara hina frönsku! Það er mikilvægt að íslenska þjóðin sammælist um það að verja hin raunverulegu íslensku gildi.

Við erum öll fyrst og fremst fólk, sama hvar við fæðumst, hvernig við erum á litin eða hvað við trúum á. Mannréttindi eiga að vera ofar öllu, alltaf. Líka á Íslandi.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sema Erla Serdar
29 ára stjórnmála- og Evrópufræðingur sem berst fyrir friði, frelsi og jafnrétti þegar hún er ekki að horfa á fótbolta eða leika við hundana sína.

Formaður Samfylkingarinnar í Kópavogi. Fyrrverandi formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar. Ungur jafnaðarmaður!
RSS straumur: RSS straumur