Föstudagur 11.03.2016 - 14:49 - FB ummæli ()

Ísland über alles, p. II.

Það hlýtur að fara hrollur um hvern þann sem hefur fylgst með opinberri umræðu um málefni flóttamanna og hælisleitenda síðustu daga. Því miður blandast sú umræða oft við umræðuna um málefni innflytjenda á Íslandi sem og umræðu sem snýr að trúarbrögðum og gagnrýni eða skort á gagnrýni á þau (hver sem trúarbrögðin  eru) en það hentar vel þeim sem ala á ótta og hatri.

Umræðan um þessi mál, sem andstæðingum fjölmenningar og alls hins sem er öðruvísi, hefur því miður tekist að samtvinna í eina umræðu, hefur haldið áfram að harðna á síðustu dögum (vægt til orða tekið) í kjölfar þess að samtökin hermenn óðins/soldiers of odin komu fram á sjónarsviðið og hin íslenska þjóðfylking var stofnuð. Til þess að gera hlutina enn verri hafa kjörnir fulltrúar á Alþingi viðrar svipaðar skoðanir og fyrrnefnd samtök. Jú, það er víst rétt, enda hefur td. einum háttvirtum þingmanni verið boðin aðild að íslensku þjóðfylkingunni. Já, ég er að tala um þig Ásmundur.

Umræðan er komin á það stig að fólk er tilbúið til þess að viðra opinberlega skoðanir eins og að það „íhugi nú að sækja sér byssuleyfi“ – að þeir sem „vilja taka á móti þessum gæludýrum séu landráðamenn og föðurlandssvikarar“ og „frelsi og fullveldi okkar sé í hættu vegna þessara skrímsla og hættulegu ónytjunga.“ Aðrir eru tilbúnir til þess að fórna trúfrelsinu í stjórnarskránni „enda sé verið að af-kristna landið og íslamsvæða það.“

Eins og það sé ekki nóg þá er fólk nú tilbúið til þess að skreyta sig með hakakrossinum undir yfirskriftinni „Íslandi alt“ (já, það er bara eitt L í yfirskriftinni) og lýsir yfir hollustu við „foringjann“ á opinberum vettvangi. Fólk sem „venjulega myndi ekki drepa flugu er tilbúið til þess að nota keðjur og önnur vopn á múslima – svo mikið hatar það og fyrirlítur múslimana.“

Já, þetta er Ísland í dag. Popúlismi, útlendingaandúð, hatur á múslimum og íslamófóbía hefur sjaldan verið jafn áberandi í íslensku samfélagi og íslenskri umræðuhefð. Skalinn hefur verið sprengdur.

Á sama tíma eru meira en 60 milljónir einstaklinga á flótta í heiminum. Helmingurinn af þeim eru börn. Mikil fjölgun er á því að ungar stúlkur, konur og fatlaðir einstaklingar leggja á flótta frá stríði, átökum, dauða og öðrum hörmungum og konur og börn eru nú um helmingur þeirra sem komist hafa lífs af til Evrópu. Ekki jakkafataklæddir hryðjuverkamenn með Iphone eins og ofangreindir hópar og einstaklingar halda oft fram.

Um ein milljón af þessum 60 milljónum hefur komist lífs af til Evrópu. Það er dropi í hafið. Það er ekki vandamál, eins og margir vilja halda fram, það er stórt ákall um hjálp. Ákall sem er svarað með táragasi, ofbeldi, misnotkun og ömurlegu aðgerðarleysi ráðamanna í allri Evrópu og víðar. Ákall sem er svarað með uppgangi nasista, fasista og annarra öfgaafla sem m.a. einkennast af rasisma og múslimahatri, já ég segi hatri.

Flóttamenn eru ekki vandamál. Vandamálið er getuleysi ráðamanna í Evrópu. Vandamálið er þeir sem sitja í upphituðu húsunum sínum og ala á ótta og hræðslu um konur okkar og samfélag, kristin gildi og hefðir á meðan það er verið að stráfella fólk, börn drukkna á Miðjarðarhafinu og deyja úr ofkælingu og verið er að leggja landsvæði í rúst. Vandinn er þeirra sem hafa misst allt, orðið fyrir hörmulegum áföllum og upplifað veruleika sem við þorum ekki að ímynda okkur að sé til. Vandinn er ekki þeirra sem sitja heima og ala á ótta og hatri.

Að sama skapi eru flóttamenn ekki hættulegir, þeir eru að flýja hættu. Þeir sem reyna að réttlæta andúð sína á útlendingum, hatur sitt á öllu sem er öðruvísi og þjóðernisrembing með dassi af rasisma, eru þeir sem eru hættulegir íslenskum gildum og hefðum sem byggja á umburðalyndi, virðingu, frelsi og réttlæti. Fordómar, ótti og hatur eru hættuleg öllum samfélögum.

Flóttamenn eru fyrst og fremst fólk eins og ég og þú. Einstaklingar sem þurfa á okkar hjálp að halda því þeir hafa misst allt. Skömmin er og verður alfarið þeirra sem reyna að nýta sér hörmungar og sorg þeirra sem nú eru á flótta í pólitískum tilgangi, sbr. suma ráðamenn hérlendis og nýstofnaðan rasistaflokk. Íslenskum samfélagsgildum stafar ógn af þeim.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sema Erla Serdar
29 ára stjórnmála- og Evrópufræðingur sem berst fyrir friði, frelsi og jafnrétti þegar hún er ekki að horfa á fótbolta eða leika við hundana sína.

Formaður Samfylkingarinnar í Kópavogi. Fyrrverandi formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar. Ungur jafnaðarmaður!
RSS straumur: RSS straumur