Sunnudagur 17.04.2016 - 21:33 - FB ummæli ()

Tröllunum svarað, aftur!

Fyrr á árinu skrifaði ég pistil þar sem ég svaraði nokkrum af helstu upphrópunum og rangfærslum þeirra sem ala á útlendingaandúð, íslamófóbíu og andúð í garð flóttamanna nota til þess að réttlæta óhuggulegan málflutning sinn þegar þeir eru að “taka umræðuna” á netinu.

Í einhverju brjálæðislegu bjartsýniskasti hélt ég að það framlag yrði til þess að við gætum mögulega tekið “umræðuna” einu skrefinu lengra en það er auðvitað ekki hægt að taka þátt í slíkri “umræðu” enda snýst hún yfirleitt ekki um málefnið sjálft heldur persónur þeirra sem reyna að taka þátt í henni. Það er því ávallt stutt í persónuárásirnar, ofstopan og netníðið og sömu innihaldslausu frösunum er slegið fram.

Þið þekkið restina.

„Styður þú nauðganir?“

..spurði John Lawrence Lawrence mig í einkaskilaboðum á dögunum. Með þeirri spurningu er hann að gefa til kynna að ég, sem stuðningsmaður þess að Ísland axli þá ábyrgð sem fylgir því að vera þátttakandi í alþjóðlegu- og evrópsku samstarfi m.a. með því að leggja sitt að mörkum við aðstoða við þann vanda sem snýr að auknu flæði flóttamanna til Evrópu, styðji nauðgarnir á konum.

Auk þess sem mannréttindi eru varin í stjórnarskrá Íslands hefur Ísland m.a. skrifað undir Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna og Mannréttindasáttmála Evrópu, Flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna og Barnasáttmála sömu alþjóðasamstakanna. Slíkir samningar eru ekki skraut heldur fylgir þeim ábyrgð og skyldur sem Ísland, rétt eins og önnur ríki, skulu uppfylla þegar á reynir.

Úr mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna:

„Allir eiga kröfu á réttindum þeim og því frelsi, sem fólgin eru í yfirlýsingu þessari, og skal þar engan greinarmun gera vegna kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúar, stjórnmálaskoðana eða annarra skoðana, þjóðernis, uppruna, eigna, ætternis eða annarra aðstæðna.“

Ekki verður vikið frá þessum staðreyndum þó svo að Gústaf Níelsson hafi sagt í beinni um daginn að honum sé skítsama þó íslensk stjórnvöld hafi skrifað undir slíka samninga.

Með spurningu sinni er John Lawrence og skoðanabræður hans og systur (þetta er ekki í fyrsta skipti sem þessari spurningu er velt upp, þó hún sé oftar sett fram sem staðhæfing) að reyna að tengja nauðganir við málefni flóttamanna, innflytjenda og sérstaklega múslima og arabíska menningu, en þeir reyna, auðvitað meðvitað, að tengja nauðganir við fjölmenningu og sérstaklega arabíska menningu.

Það er auðvitað fráleitt að reyna að klína ógeðfelldum kynferðisafbrotum á ákveðna trúarhópa eða kynþætti og það er eins og þeir hafi aldrei heyrt af íslenskum nauðgurum. Nauðganir og aðrir kynferðisglæpir eru ógeðslegir, hvort sem gerandinn heitir Gunnar, Fernando eða Muhammer eða hvort brotið eigi sé stað á Íslandi, í Þýskalandi, Mexíkó eða Íran. Þeir sem gerast sekir um slíka glæpi skulu sæta refsingu samkvæmt þeim lögum sem gilda þar sem brotið er framið en nauðganir og aðrir kynferðisglæpir eru vandamál alls staðar. Það eru til nauðgarar, barnaníðingar, morðingjar og þjófar alls staðar – líka á Íslandi.

Það óþolandi að horfa upp á sömu öfgamennina reyna enn og aftur að nota hremmingar fólks til þess að hafa áhrif á afstöðu fólks til innflytjenda og sérstaklega flóttamanna – sem þurfa hvað mest á stuðningi og skilningi fólks að halda nú. Hræðsluáróður eins og þessi er þeim sem stunda hann til háborinnar skammar.

“Það á bara að opna landið upp á gátt” – “það er verið að eyðileggja þjóðríkið” – “Ísland úr Schengen”

Í umræðunni um málefni flóttamanna er því oft haldið fram að þeir sem vilja að Ísland leggi sitt af mörkum til þess að leysa þær áskoranir sem fylgja auknum straumi flóttamanna til Evrópu, t.d. með því að taka á móti flóttamönnum vilji “opna landið upp á gátt” og útrýma þjóðríkinu. Ok, það er svo sum óþarfi að eyða miklu púðri í slíkt þó það sé mikilvægt að koma nokkrum hlutum á framfæri.

Fólksflutningar eru ekki nýtt fyrirbæri og geta ástæðurnar fyrir þeim verið margvíslegar. Flestir þeirra sem flytjast á milli landa gera það til þess að sækja sér menntun eða vinnu. Um fólksflutninga á milli ríkja gilda lög og reglur, td. samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið sem gerir flutninga á milli samstarfsríkjanna mjög auðveldan. Það á við um flutninga Íslendinga til annarra landa rétt eins og flutninga annarra hingað. Á meðan sá samningur er í gildi verður engin breyting þar á. Erfiðara er fyrir ríkisborgara annarra ríkja en EES-ríkjanna að fá atvinnu- eða dvalarleyfi á Íslandi, sem má nú deila um hvort sé rétt.

Aðrir eru að flýja átök, ofbeldi, stríðsátök eða aðrar hörmungar og kallast þeir hælisleitendur sem óska eftir alþjóðlegri vernd í öðru ríki en heimalandinu. Um þá gilda aðrar reglur og önnur lög sem Ísland hefur skuldbundið sig til þess að framfylgja.

Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna frá árinu 1951 skilgreinir flóttamann sem þann sem „er utan heimalands síns […] og af ástæðuríkum ótta við að verða ofsóttur vegna kynþátta, trúarbragða, þjóðernis, aðildar í sérstökum félagsmálaflokkum eða stjórnmálaskoðana, og getur ekki, eða vill ekki, vegna slíks ótta, færa sér í nyt vernd þess lands; eða þann sem er ríkisfangslaus, og er utan þess lands, þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur, vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki, vegna slíks ótta, hverfa aftur þangað.

Ísland á aðild að svokölluðu Dyflinnarsamstarfi sem felur í sér viðmið sem ráða því hvaða ríki ber ábyrgð á efnislegri umfjöllun um hælisumsókn hverju sinni. Felur þetta í sér að þó að umsækjandi sæki um hæli á Íslandi þá getur verið að annað ríki beri ábyrgð á umsókn hans samkvæmt ákvæðum Dyflinnarreglugerðarinnar og verður því að afgreiða umsóknina. Þetta leiðir til þess að yfirvöld á Íslandi geta (með áherslu á geta) endursent hluta af því fólki sem sækir um hæli til þess Schengen-lands sem það kom fyrst. Íslensk stjórnvöld verða ávallt að ganga úr skugga um að hælisleitendur fái umsókn sína til meðferðar svo þeir eigi ekki á hættu að vera sendir til heimaríkis þar sem þeir verða fyrir ofsóknum. Einnig þurfa stjórnvöld að ganga úr skugga um að hættulaust sé að senda hælisleitendur til þess Schengen-ríkis sem hælisleitandinn kom fyrst til. Þannig er td. ekki hættulaust að senda hælisleitendur til Grikklands og Ítalíu í dag.

Margir halda því fram að ef Ísland segir upp aðild sinni að Schengen-samstarfinu og þar af leiðandi Dyflinnarsamstarfinu “gætum við fækkað flóttamönnum sem hingað koma.” Því er að sjálfsögðu öfugt farið. Ef Ísland tekur ekki þátt í Dyflinnarsamstarfinu þarf Ísland að afgreiða allar umsóknir um alþjóðlega vernd sem koma fram hér á landi.

“Hún vill þvinga íslensku þjóðina til fjölmenningar, múslimavæða þjóðina” – “auðvitað vill hún fylla landið af múslimum” – “hvernig getur Ísland tekið á móti öllu flóttafólkinu?”

Augljóslega getur Ísland ekki tekið á móti þeim 60 milljónum manna og kvenna og barna sem eru á flótta í heiminum og það er ekkert nema lélegur útúrsnúningur að koma með slíkar fullyrðingar. Það gerir lítið úr vandanum sem við stöndum frammi fyrir en flóttamenn hafa aldrei verið fleiri. Það er heldur ekki hægt að segja að “við eigum bara að hjálpa þessu fólki heima hjá sér” því flóttamenn eiga hvergi heima.

Ísland hreinlega verður að leggja meira af mörkum vegna þess gríðarlega fjölda flóttafólks í heiminum og veita fórnarlömbum stríðsátaka skjól og vernd. Ein leið til þess er að auka fjölda kvótaflóttamanna sem hingað koma. Sem dæmi gætu íslensk stjórnvöld skuldbundið sig til þess að taka á móti 500 kvótaflóttamönnum á næstu tveimur árum. Á því tímabili gæfist stjórnvöldum tími til að undirbúa áætlun um móttöku flóttamanna í samvinnu við Flóttamannahjálpina þannig að Ísland taki á móti flóttafólki til samræmis við íbúafjölda og efnahag landsins.

Ekkert lát virðist vera á straumi flóttamanna til Evrópu og því er mikilvægt að ákvörðun um þann fjölda flóttamanna sem Ísland tekur á móti á næstu árum sé tekin af yfirvegun og á upplýstann hátt. Hversu margir það verða mun svo koma í ljós, talan hér að ofan er einungis dæmi.

Það er líka rætt um hverjum íslensk stjórnvöld eiga að taka á móti. Margir vilja að kristnir flóttamenn séu teknir fram fyrir aðra en hinir sömu halda því fram að þeir sem ekki taka undir slíkt vilji “fylla landið af múslimum.” Ljóst er að í samráði við Flóttamannhjálp Sameinuðu þjóðanna tekur ríkisstjórnin ákvörðun um hverjir koma hingað sem kvótaflóttamenn. Eðlilega fer sú “forgangsröðun” hverju sinni eftir því hverjir þurfa hvað mest á hjálp að halda. Það getur verið fjölskylufólk, það geta verið börn sem eru ein á flótta, það geta verið ungir menn sem eru að flýja það að þurfa að ganga í her ISIS og það geta verið fatlaðar konur sem eru einar á flótta og það geta verið kristnir minnihlutahópar sem eru að flýja hryðjuverkamenn. Ljóst er að flóttamenn eru fjölbreyttur hópur og því ber að treysta að ábyrgðaraðilar láti þá sem eru í hvað mestri hættu hverju sinni ganga fyrir.

“Ísland er kristin þjóð” – “standa þarf vörð um hin kristnu gildi” – “bönnum Íslam á Íslandi”

Í stjórnarskrá Íslands segir:

“allir eiga rétt á að stofna trúfélög og iðka trú sína í samræmi við sannfæringu hvers og eins. Þó má ekki kenna eða fremja neitt sem er gagnstætt góðu siðferði eða allsherjarreglu”

og

“enginn má neins í missa af borgaralegum og þjóðlegum réttindum fyrir sakir trúarbragða sinna, né heldur má nokkur fyrir þá sök skorast undan almennri þegnskyldu”

sem og:

“allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.”

Bann við mismunun er staðfest í sömu stjórnarskrá og ver tjáningarfrelsi þeirra sem hafa ekkert til umræðunnar að leggja nema hatur, útlendingaandúð, íslamófóbíu og fordóma.

Sama stjórnarskráin og ver íslensku þjóðkirkjuna ver rétt annarra til þess að trúa á það sem þeir vilja og rétt þeirra til þess að iðka trú sína. Það er óábyrgt að halda því fram að banna eigi ein trúarbrögð en ekki önnur.

Sama stjórnarskrá ver mannréttindi okkar allra en því miður virðast margir vera tilbúnir til þess að fórna þeim réttindum fyrir ákveðinn hóp í samfélaginu, sem við eigum öll og byggjum saman, til þess að fullnægja einhverri tilfinningafroðu um öryggi og ótta sem verður til út frá þjóðernishyggju þeirra sem telja sig yfir aðra hafna vegna þess hvar þeir eru fæddir eða á hvað þeir trúa.

Svo þetta með kristnu gildin. Hin raunverulegu gildi íslensku þjóðarinnar sem mikilvægt er að sameinast um eru mannréttindi, frelsi, virðing og réttlæti. Hin raunverulegu íslensku gildi endurspeglast í samfélagi  þar sem allir eru jafnir, einstaklingum er ekki mismunað vegna uppruna, trúar, þjóðernis, menningar eða öðru sem einkennir þeirra persónu og líf, td. kynhneigð eða fötlun. Þar sem allir hafa sama aðgang að mannréttindum og grundvallarréttindum einstaklingsins. Það ætti að ríma gildi hinna kristnu, ekki satt?

Að lokum,

að læra á nýja menningu og nýja þjóðfélagshætti er alls ekki vandalaust og getur verið sársaukafullt ef skilningur, virðing og umburðalyndi meirihlutans er ekki fyrir hendi. Því kynntust td. íslensku versturfararnir og okkur er hollt að minnast þess þegar við tökum á móti nýjum íbúum á Íslandi.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sema Erla Serdar
29 ára stjórnmála- og Evrópufræðingur sem berst fyrir friði, frelsi og jafnrétti þegar hún er ekki að horfa á fótbolta eða leika við hundana sína.

Formaður Samfylkingarinnar í Kópavogi. Fyrrverandi formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar. Ungur jafnaðarmaður!
RSS straumur: RSS straumur