Mánudagur 13.06.2016 - 12:44 - FB ummæli ()

Opið bréf til þín!

Í gær urðum við vitni að enn einum mannlega harmleiknum þar sem öfgar og hatur eins einstaklings kostaði fleiri en 50 einstaklinga lífið og særði amk. jafn margra. Auk þess olli þessi eini einstaklingur sorg og reiði um allan heim.

Atburðir eins og hatursglæpurinn í Orlando, hryðjuverkin í Brussel og París, sjálfsmorðsárásir í Tyrklandi eða fjöldamorðin í Útey eru dæmi um atburði sem eru orðnir alltof, alltof, algengir í samfélögum um allan heim og það er kominn tími til þess að við leggjumst á eitt til þess að þeir verði ekki mikið fleiri!

Sumum hlutum breytum við einfaldlega ekki. Það á td. við um hvar við fæðumst, hvernig við fæðumst, erum á litinn eða hvern við elskum og því er stundum erfitt að skilja hvernig nokkrum manni dettur í hug að mismuna fólki eftir slíkum eiginleikum, hvernig hægt er að trúa því að einn einstaklingur sé yfir annan hafinn eða betri en hinn vegna þess að hann er öðruvísi en maður sjálfur.

Að sama skapi fæðast allir fordómalausir og lausir við hatur og öfga. Það er hegðun sem er lærð og þar spila fyrirmyndir, fjölmiðlar, stjórnmálamenn og aðrir sem móta opinbera samfélagsumræðu stórt hlutverk. Sjáið bara td. Donald Trump, Marine Le Pen eða Framsókn og flugvallarvini og áhrifin sem þau hafa haft á opinbera umræðu, vaxandi fordóma, öfga og hatur.

Fordómar, ótti og hatur eru samfélagsmein sem geta lagt heilu fjölskyldurnar, samfélögin og þjóðirnar í rúst. Við þekkjum öll slík dæmi. Þessi mein valda ekki einungis tilfinningalegum skaða, mismunun, ójöfnuði og óréttlæti heldur leiðir slík hugmyndafræði ávallt til ofbeldis og voðaverka að lokum.

Það er einmitt þess vegna sem það er ítrekað verið að hvetja fjölmiðla og stjórnmálamenn til þess að ýta ekki undir fordóma, ótta og hatur í samfélaginu með málflutningi sínum. Það snýst ekki um „nöldur, væl eða þöggun.“ Það snýst um að koma í veg fyrir átök, mismunun og á endanum hatursglæpi. Það er engin ástæða til þess að halda að hið sama geti ekki gerst hér á landi ef við erum ekki á varðbergi og komum í veg fyrir frekari útbreiðslu á þessu samfélagsmeini. Hér er um gríðarlegt áhyggjuefni að ræða, sem ber að taka alvarlega og ræða af yfirvegun.

Hatursglæpir, hryðjuverk og annar mannlegur harmleikur mega aldrei verða normið í neinu samfélagi. Til þess að það gerist ekki þurfum við öll að leggja okkur fram. Við þurfum einfaldlega meiri ást og minna hatur. Við þurfum meiri kærleik og umburðalyndi og minni fordóma, ótta og hatur.

Ástin og kærleikurinn munu á endanum sigra. Þangað til þurfum við að leggjast á eitt og tala saman, leiðrétta staðalímyndir, benda á fordóma, óréttlæti og mismunun alls staðar, alltaf. Við þurfum að tala fyrir umburðalyndi, réttlæti, frelsi og jöfnuði fyrir alla. Við þurfum að fræða og upplýsa.

Ef einn einstaklingur getur valdið svona mikilli sorg og reiði eins og gerðist í gær, spáið í því hvað hvert og eitt okkar getur gert í þágu mannúðar, mannréttinda, kærleiks, ástar og umburðalyndis!

Ekki vera hluti af vandamálinu, vertu hluti af lausninni.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sema Erla Serdar
29 ára stjórnmála- og Evrópufræðingur sem berst fyrir friði, frelsi og jafnrétti þegar hún er ekki að horfa á fótbolta eða leika við hundana sína.

Formaður Samfylkingarinnar í Kópavogi. Fyrrverandi formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar. Ungur jafnaðarmaður!
RSS straumur: RSS straumur