Laugardagur 16.07.2016 - 15:09 - FB ummæli ()

Türkiye Cumhuriyeti!

Árið er 1954 í Istanbúl, Tyrklandi. Drengur að nafni Recep Tayyip Erdoğan er fæddur. Það var eflaust fáa sem óraði fyrir því að þarna væri fæddur drengur sem á næstu áratugum ætti eftir að verða einn umdeildasti stjórnmálamaður sögunnar, drengurinn sem á sínum yngri árum spilaði fótbolta og seldi límonaði á götum úti til þess að safna sér pening.

Erdoğan hóf afskipti af stjórnmálum þegar hann lærði viðskiptafræði í háskóla og trúarlegt uppeldi hans varð til þess að hann gekk til liðs við íslamska stjórnmálahreyfingu sem á stuttum tíma tryggði honum þingsæti (sem hann gat þó ekki tekið vegna fangelsisdóms) og síðar borgarstjórastólinn í Istanbúl, „hinni“ höfuðborg Tyrklands, og nokkrum árum síðar forsætisráðherraembættið sem hann gegndi í 12 ár með algeran þingmeirihluta. Erdoğan var þó alls ekki hættur þegar forsætisráðherratíð hans lauk en hann tók við embætti forseta Tyrklands árið 2014, fyrstur allra forseta til þess að vera kjörinn beinni kosningu.

Leið Erdoğans á toppinn hefur ekki verið áfallalaus, en hann hefur margsýnt fram á að það þarf mikið til þess að slá hann út af laginu og Erdoğan var ekki búinn að vera lengi við völd þegar fólk fór að velta því fyrir sér hvert hann stefndi með Tyrkland, hátt í 80 milljón manna þjóð, í vasanum.

Tyrkneska lýðveldi Atatürks

Árið 1923, þrjátíu árum áður en Erdoğan fæddist, er tyrkneska lýðveldið stofnað. Mustafa Kemal, fyrsta forseta Tyrklands, er minnst sem föður tyrkneska lýðveldisins og Tyrkja (Atatürk viðbótin). Atatürk lagði mikið upp úr því að stofna nútímalýðveldi sem einkennist af vestrænum gildum. Lýðræði, mannréttindi, grundvallarréttindi einstaklingsins, frelsi og aðskilnaður ríkis og trúar var því fest í stjórnarskrá lýðveldisins.

Í stjórnarskrá landsins er einnig kveðið á um að Tyrkland sé veraldlegt lýðræðisríki sem fái fullveldi sitt frá fólkinu í landinu. Alla tíð frá stofnun ríkisins hefur áhersla verið lögð á vestræn gildi og menningu og hefur Tyrkland m.a. alla tíð óskað eftir samvinnu við ríki Evrópu og verið þátttakandi í evrópsku samstarfi.

Tyrkneska lýðveldi Erdoğans

Á síðustu 20 árum hefur Tyrklandi verið haldið í ákveðinni gíslingu. Allan þann tíma sem Erdoğan hefur  verið með stjórn landsins í sínum höndum hefur fólk óttast um hversu langt hann myndi ganga í því að sölsa undir sig völdum. Ljóst er að hann hefur ekki látið hluti eins og lýðræði, mannréttindi eða frelsi einstaklinga, fjölmiðla eða valdhafa stöðva sig í baráttu sinni fyrir einræðistitlinum. Trúleysi, jafnrétti og lýðræði hafa heldur ekki verið í forgangi hjá forsetanum.

Þegar Erdoğan nær kjöri sem forseti Tyrklands voru margir komnir á þá skoðun að nú væri öll von úti. Tyrkneska lýðveldið yrði undir í baráttunni við hugmyndir um stórveldi, um íslam og þau öfl sem höfðu unnið gegn þeim grundvallarhugmyndum sem tyrkneska lýðveldið er byggt á höfðu sigrað. Það varð ljóst þegar Erdoğan forseti hóf strax vinnu við breytingar á stjórnarskránni sem áttu að færa honum öll völdin á nýjan leik.

Tilhugsunin um að Erdoğan, með tvo þriðju hluta þingmanna á tyrkneska þinginu, sem myndi færa honum völdin til þess að breyta stjórnarskrá landsins eins og honum sýnist, virðist hafa skilað köldum hrolli niður bakið á flestum Tyrkjum og þegar til þingkosninga í fyrra kom var ákveðið að reyna að setja punktinn við valdaníð hans í eitt skipti fyrir öll.

Í kjölfar mótmælaöldu og erfiðleika síðustu mánuða og ára mættu 86% kosningabærra Tyrkja á kjörstað í þingkosningunum sem fram fóru þann 7. júní 2014. Ekki tókst þeim einungis að koma í veg fyrir að Réttlætis- og þróunarflokkur Erdoğans næði tveimur þriðju hluta þingsæta heldur tókst Tyrkjum að koma í veg fyrir að þeir næðu hreinum meirihluta á tyrkneska þinginu sem þýðir að í fyrsta skiptið frá því að flokkurinn var stofnaður og komst til valda gat hann ekki stjórnað einn (nema í minnihlutastjórn).

Aldrei hafa fleiri konur náð kjöri á tyrkneska þingið og í þessum kosningum. Aldrei höfðu minnihlutahópar í Tyrklandi fengið jafn marga kjörna fulltrá og í fyrsta skiptið í sögu tyrkneska lýðveldisins náði flokkur með áherslu á friðarviðræður Tyrkja og Kúrda á þing. Tyrkir tóku gleði sína á ný og útlit var fyrir að loksins væri hægt að breyta hlutunum i fyrra horf. Tími takmörkunar á sölu áfengis, lokun samfélagsmiðla og handtökur fjölmiðlamanna, kúgun minnihlutahópa og mótmæla var liðinn.

Sú gleði endist þó ekki lengi og eftir að flokkur Erdoğans náði ekki að mynda ríkisstjórn lét hann endurtaka þingkosningarnar án þess að gefa öðrum flokkum tækifæri á að mynda ríkisstjórn. Í þeim kosningum, sem fóru fram í skugga árása ISIS og árása á Kúrda, sem virðist hafa ýtt undir stuðning við bæði Erdoğan og Réttlætis- og þróunarflokkinn, náði flokkurinn meirihluta á þinginu á ný.

Tyrkneska lýðveldi hvers?

Síðan þá hefur allt verið á suðupunkti í Tyrklandi og því voru ekki allir hissa á því þegar reynt var að taka völdin með hervaldi í gær, eftir að allar aðrar leiðir til þess að ná Tyrklandi úr höndum öfgamanna höfðu mistekist. Vert er þó að taka fram að undirrituð er ekki að lofsama slíkar aðgerðir, enda andstæðingur hernaðar og valdaráns.

Þó er mörgum spurningum enn ósvarað, m.a. spurningunni um hver var raunverulega að baki þessu valdaráni. Sumir nefna Fethullah Gülen, trúarleiðtoga og svarinn óvin Erdoğans (þó fyrrum bandamann) í því samhengi, en hann á heiðurinn að mörgum aðförum að Erdoğan í gegnum tíðina. Það er þó ólíklegt að hann hafi verið þarna að verki.

Þá stendur eftir að mögulega hafi þarna verið lítill armur innan hersins sem ákvað að rísa upp – því Erdoğan var áður búinn að hreinsa til í hernum og fangelsa alla herforingja sem hann sakaði um að vera að skipuleggja valdarán – svo hann hefur mikla stjórn á hernum (rétt eins og öðrum stofnunum ríkisins) sem hann náði með því að skipa sitt fólk í allar æðstu stöður.

Í sögulegu samhengi kemur það þó ekki á óvart ef herinn var þarna á ferð. Tyrkneski herinn hefur áður látið til skara skríða þegar hinum vestrænu gildum og hugsjónum tyrkneska lýðveldsins og Atatürks er ógnað af stjórnvöldum.  Að margra mati var það því einungis tímaspursmál hvenær herinn myndi láta til skara skríða gegn einræðistilburðum Erdoğans og óstjórn.

Miðað við hvað þetta valdarán fór fljótt út um þúfum þá læðist sá grunur að mörgum að þarna hafi hreinlega verið um sviðsettan atburð að ræða. Tyrkneski herinn er stór, sterkur og vel skipulagður svo það er ólíklegt að valdaránstilraun hersins hefði lognast út af á nokkrum klukkutímum. Þetta var illa undirbúið, skotið var á almenning, forsetinn var ekki á staðnum og upplýsingaleiðir voru opnar. Slíkt samræmist ekki aga og gildum hersins – eða því sem nokkur myndi gera ef hann væri að skipuleggja valdarán – held ég.

Það eina sem er ljóst á þessum tímapunkti er að reynt var að ræna völdum í Tyrklandi í gær. Það varð mannfall og það er hræðilegt. Erdoğan, sem er margt, en ekki vitlaus, hefur í kjölfarið styrkt stöðu sína jafnt innanlands sem og utan og ljóst er að erfiðara verður að koma í veg fyrir frekari tilraunir hans til þess að ná frekari völdum og gera þær breytingar á tyrkneska lýðveldinu sem hann vill. Erdoğan, sem áður hefur notað harmleiki til þess að styrkja stöðu sína og völd, hefur nú stuðning og samúð vestrænna leiðtoga sem í fyrradag voru hans helstu óvinir.

Þessi atburðarás mun hafa gríðarlega miklar afleiðingar og málinu er hvergi nærri lokið. Margir óttast hreinlega borgarastyrjöld eða eitthvað ennþá verra.

Ekki mátti tyrkneska þjóðin við því, eða nokkur annar!

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sema Erla Serdar
29 ára stjórnmála- og Evrópufræðingur sem berst fyrir friði, frelsi og jafnrétti þegar hún er ekki að horfa á fótbolta eða leika við hundana sína.

Formaður Samfylkingarinnar í Kópavogi. Fyrrverandi formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar. Ungur jafnaðarmaður!
RSS straumur: RSS straumur