Miðvikudagur 20.07.2016 - 16:35 - FB ummæli ()

Yurtta Sulh, Cihanda Sulh

„Friður heima – friður í heiminum“

Í þessum orðum Mustafa Kemal Atatürks, föður tyrkneska lýðveldisins, sem síðar urðu kjörorð  Tyrklands, felast þau skilaboð um að almenningur í Tyrklandi eiga að búa við frið, velsæld og öryggi. Í þeim felst einnig það markmið að skapa alþjóðlegan frið og öryggi í heiminum.

Þegar tyrkneska lýðveldið var stofnað árið 1923 lagði Atatürk mikla áherslu á vestræn gildi um lýðræði, frelsi, réttaríkið, frið, mannréttindi og aðskilnað ríkis og trúar sem tryggt er í stjórnarskrá lýðveldisins. Þau gildi eru einkennandi fyrir það sem hefur skilið Tyrkland að frá mörgum öðrum ríkjum á svæðinu og hefur tryggt sterka stöðu Tyrklands á alþjóðavettvangi áratugum saman, auk landfræðilegrar stöðu Tyrklands.

Það hefur ekki alltaf verið auðvelt fyrir Tyrki að tryggja að þessi gildi séu í hávegum höfð og ætla má að einmitt þess vegna hafi tyrkneski herinn á sínum tíma verið gerður að „verndara lýðræðisins í Tyrklandi“ og til þess að tryggja hlutleysi hersins var fulltrúum hans bannað að hafa afskipti af stjórnmálum.

Herinn tekur völdin

Recep Tayyip Erdoğan, núverandi forseti Tyrklands og fyrrverandi forsætisráðherra og borgarstjóri í Istanbul, var einungis barn þegar tyrkneski herinn tekur völdin í landinu í fyrsta skipti, árið 1960. Rétt eins og í önnur skipti sem herinn hefur tekið völdin í landinu og þvingað ríkisstjórnir landsins til afsagnar hefur það verið gert í nafni þeirra gilda sem Atatürk stofnaði lýðveldið á og þá sérstaklega til þess að tryggja aðskilnað ríkis og trúar – eins furðulega og það hljómar.

Í fyrsta skiptið sem herinn tók völdin var spennan á milli stríðandi fylkinga í Tyrklandi orðin ólíðandi. Flokkur demókrata, sem þá var við völd, reyndi að samtvinna stjórnmál og trúmál í Tyrklandi, m.a. með því að opna á nýjan leik trúarlega skóla, með því að opna á nýjan leik þúsundir bænahúsa sem áður hafði verið lokað, lögleiða bænakall á arabísku í stað tyrknesku og samþykkja umdeild fjölmiðlalög og banna ákveðna fjölmiðla í landinu.

Um var að ræða blóðugasta valdaránið af þeim fjórum sem hafa verið framkvæmd í Tyrklandi og hélt herinn í völdin um tíma, en þegar herinn lét til skara skríða gegn stjórnvöldum árið 1971 og aftur árið 1980 (sem einnig voru vissulega blóðug) létu stjórnvöld fljótt af völdum og ný komu í staðinn, en á milli 1971 og 1980 var mikill óróleiki í Tyrklandi, efnahagurinn var í molum, mikið var um mótmæli og átök á meðal almennings og stjórnmálaafla og engum af þeim ellefu forsætisráðherrum sem voru við völd á þessum tíma tókst að koma á stöðugleika og ró í landinu.

Íslamski velferðaflokkurinn og Erdoğan

Á þessum tíma er Erdoğan að læra viðskiptafræði og þar hefjast hans afskipti af stjórnmálum. Trúarlegt uppeldi hans kann að hafa leitt til þess að hann verður á stuttum tíma formaður ungliðahreyfingar íslamista í Istanbul. Eftir valdarán hersins árið 1980 gengur hann síðan til liðs við íslamska velferðarflokkinn og verður nokkrum árum síðar formaður flokksins í Istanbul. Árið 1991 var hann kjörinn á þing fyrir flokkinn en gat ekki tekið sætið.

Árið 1994 er Erdoğan síðan kjörinn borgarstjóri Istanbul fyrir íslamska velferðarflokkinn. Á þeim tíma óttuðust margir að hann myndi gera það sem öðrum tókst ekki, að innleiða íslömsk lög og láta trúmálin renna inn í stjórnmálin. Það gerði hann hins vegar ekki og þótti hann standa sig vel sem borgarstjóri, hann kom m.a. efnahag borgarinnar í lag og stóð sig vel í alþjóðasamskiptum.

Í þingkosningunum ári seinna sigrar íslamski velferðaflokkurinn. Herinn fylgdist vel með gangi mála og passaði upp á að nýlega samþykkt stjórnarskrá væri virt og aðskilnaður ríkis og trúar héldist. Það gekk þó ekki betur en svo að árið 1997 lét herinn til skara skríða gegn stjórnvöldum og var forsætisráðherra landsins og náinn vinur Erdoğans, Necmettin Erbakan, þvingaður til þess að segja af sér. Erbakan var bannað að hafa afskipti af stjórnmálum í fimm ár og flokkurinn, sem fáir vita að Erdoğan var meðlimur í, var lagður niður og bannaður. Flokkurinn var talinn vinna gegn stjórnarskrá landsins og ógna veraldlegum gildum Tyrklands.

Erdoğan varð tákn mótmælanna sem fylgdu í kjölfarið og árið 1998 var hann dæmdur í tíu mánaða fangelsi fyrir að ýta undir ofbeldi og hatur og þurfti hann að segja af sér sem borgarstjóri í Istanbul og var honum bannað að taka þátt í komandi þingkosningunum.

Rísandi stjarna íslamista verður forsætisráðherra

Árið 2001 stofnar Erdoğan Réttlætis- og þróunarflokkinn sem nær kjöri á þing árið 2003 og hefur alla tíð síðan verið með meirihluta á tyrkneska þinginu, en síðustu þingkosningar þar sem flokkurinn tapaði í fyrsta skipti meirihluta sínum voru endurteknar svo rétt niðurstaða fengist. Erdoğan verður forsætisráðherra árið 2013 allt til ársins 2014 þegar hann verður forseti Tyrklands.

Allan þennan tíma hefur tyrkneska lýðveldið hægt og rólega orðið undir í baráttunni við hugmyndir um stórveldi, um íslamskt stjórnarfar og átök. Frelsi fjölmiðla, lýðræði og mannréttindi hafa orðið undir í baráttunni við spillingu og einræðistilburði sem hefur m.a. skilað sér í endurteknum kosningum, pólitískum hreinsunum og stöðugum átökum Erdoğans við meinta óvini eins og Fethullah Gülen, sem vert er að segja að er engu skrárri en forsetinn og varast ber að halda slíku fram (nánar um það síðar).

Með þennan bakgrunn, sem fáir þekktu áður, er fátt sem kemur á óvart í nýjasta útspili Erdoğans. Hann hefur alla tíð verið pólitískur refur og mikill valdafíkill og hefur hann beitt öllum mögulegum brögðum til þess að sækja sér meiri völd, þó vissulega hafi aðgerðir hans aldrei verið jafn öfgakenndar og nú.

Hin meinta tilraun til valdaráns sem fór fram á föstudaginn, hefði í sögulegum skilningi talist eðlilegt miðað við tilraunir Erdoğans til þess að afnema lýðveldið og koma á einræði en það er mikilvægt að halda því til haga að lýðræði er meira en kosningar á fjögurra ára fresti, grunnstoðir eins og frjálsir fjölmiðlar, réttarkerfið og mannréttindi verða að vera til staðar, og því á undirrituð erfitt með að segja tyrknesk stjórnvöld lýðræðislega kjörin og réttmæt, þó hún hafni vissulega hernaðaríhlutun, valdaráni og ofbeldi og vert er að minna á að hér er fyrst og fremst um harmleik að ræða og það er tyrkneskur almenningur sem mun sitja uppi með afleiðingarnar.

Það er áhyggjuefni, en í anda tyrkneskra stjórnvalda, að það virðist vera algjört aukaatriði að finna út hverjir stóðu að baki þessari tilraun til valdaráns, Erdoğan og stjórnvöld hafa hreinlega ákveðið hverjir það voru og þeir munu þurfa að gjalda fyrir það. Það er óhuggulegt að sjá meðferðina á þeim sem sakaðir eru um atburðinn og varast ber að lesa fjölmiðla sem ríkisstjórnin hefur á sínum snærum, sem segja td. að einhverjir hafi játað aðild að atburðum síðustu daga.

Fjöldi þeirra sem velta því fyrir sér hvort þetta hafi í raun verið sviðsett af forsetanum eða stuðningsmönnum hans fer vaxandi, enda hefur honum nú gefist það tækifæri sem honum vantaði til þess að styrkja stöðu sína og auka völd sín. Sama hver var að baki þessari tilraun er það eflaust rétt hjá Erdoğan þegar hann segir það hafa verið (guðs) gjöf!

Tyrkneska lýðveldið að líða undir lok?

Pólitískar hreinsanir stjórnvalda hafa náð nýjum hæðum. Þúsundir hermanna og herforingja hafa nú verið reknir og handteknir. Hið sama á við um stjórnlaga-, hæstarréttar- og aðra dómara í landinu, lögreglumenn og nú síðast tugi þúsunda kennara á öllum stigum menntakerfisins. Einnig er verið að hreinsa út úr ráðuneytum og öðrum stofnunum, td. þeim sem gæta eiga að samskiptum ríkis og trúar, og fjölmargar útvarps- og sjónvarpsstöðvar hafa misst útsendingarleyfi sitt. Taugaveiklun forsetans er komin út fyrir öll eðlileg mörk (ef þau voru það einhvern tímann) og erfitt er að sjá fyrir endann á þessu valdabrölti hans.

Þögn þeirra sem voru fljót að fordæma þessa svokölluðu tilraun til valdaráns, vestrænir þjóðarleiðtogar og aðrar stofnanir sem eiga að standa vörð um lýðræði, frelsi og mannréttindi, er ærandi!

Ef fólk er að bíða eftir því að þetta gangi yfir þá munu hinir sömu eflaust verða hissa þegar forsetinn hefur náð markmiði sínu, fært völd landsins frá þinginu til forseta, einræði verður fest í sessi og öll heilbrigð samskipti Evrópu við þennan heimshluta verða úr sögunni. Hið tyrkneska lýðveldi mun líða undir lok og hátt í 80 milljón manna þjóð mun þurfa að taka afleiðingunum og eflaust leggja á flótta. Unga fólkið er amk. velta því fyrir sér hvort framtíð þeirra sé í Tyrklandi.

Ljóst er að staða Erdoğans er mun sterkari í dag en fyrir nokkrum dögum og hætta er á að hann boði til nýrra þingkosninga eða þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrárbreytingar sem munu færa forsetanum öll völdin í landinu. Þá mun hann svo sannarlega hafa fest sig í sessi sem einræðisherra. Tyrkneska lýðveldið sem Atatürk stofnaði og allt sem það stendur fyrir er í hættu og hann myndi eflaust snúa sér við í gröfinni ef hann vissi hvernig fyrir landi og þjóð væri komið.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sema Erla Serdar
29 ára stjórnmála- og Evrópufræðingur sem berst fyrir friði, frelsi og jafnrétti þegar hún er ekki að horfa á fótbolta eða leika við hundana sína.

Formaður Samfylkingarinnar í Kópavogi. Fyrrverandi formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar. Ungur jafnaðarmaður!
RSS straumur: RSS straumur