Föstudagur 22.07.2016 - 21:31 - FB ummæli ()

Tökum afstöðu gegn öfgum og hatri!

Hugvekja flutt á minningarathöfn Ungra jafnaðarmanna um voðaverkin í Útey, föstudaginn 22. júlí 2016.

2016-07-22 21.22.02

Kæru vinir og félagar,

á lífsleið okkar upplifum við öll fjölmarga atburði sem setja svip sinn á líf okkar. Þessir atburðir geta verið góðir og slæmir og þeir hafa mismikil áhrif á okkur. Sumir atburðir sem við upplifum á lífsleið okkar eru af því meiði að þeir fylgja okkur allt okkar líf. Voðaverkin í Útey, Noregi, þann 22. júlí árið 2011 er slíkur atburður fyrir mörg okkar.

Í dag eru fimm ár frá því að maður fullur af öfgum og hatri tók 77 manns af lífi. Árás Anders Breiviks beindist sérstaklega að ungum jafnaðarmönnum, flokkssystkinum okkar, en hann myrti 69 ungmenni, börn og unglinga, sem voru saman komin til þess að ræða um jafnaðarstefnuna og allt það fallega og góða sem henni fylgir. Það var því og er oft erfitt að skilja hvernig og hvers vegna slíkt getur gerst.

Flest munum við ennþá hvar við vorum og hvað við vorum að gera þegar fréttir af voðaverkunum í Útey fóru að berast. Ég man það sérstaklega vel því ég hafði kynnst mörgum norskum ungum jafnaðarmönnum árin fyrir voðaverkin í Útey þegar ég var alþjóðafulltrúi Ungra jafnaðarmanna og því hugsaði ég strax til vina minna og félaga og auðvitað allra hinna sem mögulega gætu hafa látið lífið eða særst í þessari hræðilegu árás.

Þarna var því um að ræða hryðjuverkaárás sem var manni nær en nokkru sinni fyrr.

Eftir fjöldamorðin í Útey og Osló helltist mikil sorg og mikil reiði yfir norskt samfélag og í raun alla heimsbyggðina og enn eru margir í sárum og sumir munu aldrei jafna sig að fullu leyti, eðlilega.

Viðbrögð norsku þjóðarinnar, Jens Stoltenbergs, þáverandi forsætisráðherra Noregs, norskra jafnaðarmanna og aðstandanda þeirra sem létu lífið í voðaverkunum í Útey, vakti á sínum tíma mikla aðdáun!

Bandarísk stjórnvöld lýstu yfir stríði gegn hryðjuverkum í kjölfar hryðjuverkaárásanna á tvíburaturnana í New York 11. september 2001. Stoltenberg sagði að Norðmenn myndu svara hatrinu með ást.

Og norska þjóðin gerði svo.

Stoltenberg talaði um meiri mannúð, meira gagnsæi og meira lýðræði. Hann talaði um samstöðu og lagði mikla áherslu á að svara illsku ekki með meira hatri eða mannvonsku. Hann lagði mikla áherslu á að norska þjóðin skyldi ekki láta hryðjuverkin þagga niður í sér. Hann sagði Norðmenn verða að standa vörð um opið samfélag eins og Noregur var og er. Stoltenber sagði gildi jafnaðarmanna vera sterkasta vopnið í baráttunni gegn hryðjuverkum og ofbeldi.

Í minningarathöfn nokkrum dögum eftir voðaverkin í Útey vísaði Jens Stoltenberg í orð ungrar stúlku í Verkamannaflokknum í ávarpi sínu þegar hann sagði:

„Þegar einn maður getur sýnt af sér svo mikið hatur, hugsið hve mikla ást við öll getum sýnt saman.“

Undir þetta eigum við öll að taka og gera að reglu okkar í þeirri baráttu sem við stöndum nú frammi fyrir, baráttunni gegn öfgum og hatri og mismunun, baráttunni fyrir réttlæti, mannréttindum, umburðalyndi og kærleika, baráttunni fyrir grunngildum jafnaðarmanna og einu samfélagi fyrir alla.

Það er mikilvægt að leggja þessi orð félaga okkar á minnið því ljóst er að voðaverkin í Útey voru ekki þau fyrstu sem maður fullur af hatri og öfgum framdi og voðaverkin í Útey voru heldur ekki þau síðustu.

Í dag minnumst við þeirra sem létu lífið í Útey og Osló.

Við sendum samúðarkveðjur og stuðning okkar til allra þeirra sem eiga um sárt að binda vegna voðaverkanna í Útey. Við megum aldrei gleyma og við megum aldrei hætta að berjast.

Því miður eru dæmin um voðaverk eins og framin voru í Útey orðin of mörg.

Noregur – Bretland – Frakkland – Belgía – Tyrkland – Spánn – Líbanon – Írak – Afganistan – Sýrland – Kanda – Bandaríkin.

Hér eru einungis nokkur dæmi um ríki sem þekkja of vel afleiðingarnar sem öfgar og hatur einstaklinga geta haft í för með sér. Fyrir utan hræðilegt mannfall eiga þessi dæmi eitt sameiginlegt.

Þær hryðjuverkaárásir sem framdar eru af einstaklingum eins og Breivik eða manninum sem myrti bresku þingkonu Verkamannaflokksins á dögunum eða þeirra sem sprengdu sig í loft upp í menningarmiðstöð ungmenna í Suruc í Tyrklandi eru ekki einungis að beina spjótum sínum að fólki.

Þeir sem fremja slík voðaverk eru að ráðast á lýðræðið, mannréttindi okkar, fjölbreytileikann, friðinn, ástina og kærleikann sem finna má í samfélögum nútímans, sem flest eru opin og umburðalynd. Það hugnast þessum hryðjuverkamönnum ekki.

Þeir sem fremja slík voðaverk vilja eyðileggja þessi opnu og umburðalyndu samfélög. Þeir vilja skapa ótta og fordóma, þeir vilja sundrungu og mismunun, sem auðveldlega verður að hatri og öfgum, sérstaklega þegar stjórnmálaflokkar og stjórnmálamenn, fjölmiðlar og aðrir sem bera samfélagslega ábyrgð ýta undir slíkar hugmyndir. Voðaverkin í Útey eru eitt dæmi af mörgum um hvernig slíkt getur endað.

Á sama tíma og við minnumst þeirra sem létust í hryðjuverkaárásinni í Noregi skulum við minnast allra þeirra sem hafa látið lífið í árásum þeirra sem vilja skemma og eyðileggja, þeirra sem vilja meira hatur og meiri öfga, sem nú leynast ekki í skúmaskotum hér og þar heldur birtast okkur víða í samfélaginu, td. í formi hatursorðræðu á netinu, vaxandi fordómum og ofbeldi.

Það er mikilvægt að muna að besta leiðin til þess að minnast þeirra sem látið hafa lífið í árásum öfgamanna er að halda áfram að berjast af fullum krafti gegn þeim öfgum sem verða til þess að fólk taki annað fólk af lífi í fólskulegum árásum.

Við verðum hins vegar að standa saman í þessari baráttu og vera óhrædd við að bregðast við, að fordæma öfgar og hatur og láta ekki þagga niður í okkur, því einungis í sameiningu mun okkur takast að sigra og byggja betri samfélög, laus við mismunun, óréttlæti, fordóma og þjóðernishyggju. Samfélög þar sem öfgar og hatur eru ekki normið. Samfélög þar sem grunngildi jafnaðarmanna eru í hávegum höfð.

Á tímum eins og þeim sem við lifum nú á, þar sem vaxandi fordómar og þjóðernisrembingur, andúð á innflytjendum og andúð á fjölmenningu fer vaxandi og er orðin ein af stærstu áskorunum nútímans, verðum við að taka afstöðu. Við verðum að taka afstöðu gegn hatri og öfgum. Við verðum að taka þessa afstöðu svo það verði ekki normið að hata fólk, að óttast fólk, að meiða fólk.

Afstaða okkar verður að vera sú sama og Norðmenn tóku. Viðbrögð norsku þjóðarinnar eiga að vera okkur fyrirmynd.

Við svörum ekki hatrinu með hefnd eða illsku. Við svörum hatrinu með meiri ást og meira umburðalyndi. Við svörum vaxandi fordómum, þjóðernishyggju og ótta með meiri fræðslu, með meiri þekkingu og rökum. Við svörum öfgum með því að bregðast við þegar við verðum vitni að því að verið sé að brjóta á mannréttindum fólks, þegar verið er að mismuna fólki vegna hluta eins og kynþáttar eða uppruna, hluta sem við höfum enga stjórn á, eða verið er að áreita eða níðast á fólki af sömu ástæðum!

Því sama hversu mikið þeir munu reyna, þá mun hatrið aldrei fá sigra!

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sema Erla Serdar
29 ára stjórnmála- og Evrópufræðingur sem berst fyrir friði, frelsi og jafnrétti þegar hún er ekki að horfa á fótbolta eða leika við hundana sína.

Formaður Samfylkingarinnar í Kópavogi. Fyrrverandi formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar. Ungur jafnaðarmaður!
RSS straumur: RSS straumur