Þriðjudagur 16.08.2016 - 19:41 - FB ummæli ()

Hinar ýmsu birtingarmyndir rasisma!

moskahatursáróður

Samfélög nútímans eru í stöðugri þróun og breytingar á uppruna, tungumálum, menningu og trúarbrögðum eiga sér víða stað. Fólksflutningar á milli samfélaga eru ekki nýtt fyrirbæri og geta ástæðurnar fyrir þeim verið margvíslegar en með aukinni hnattvæðingu hefur fólk öðlast meira frelsi til að flytja á milli landa. Íslenskt samfélag er ekki undanskilið þessari þróun. Þannig er Ísland vissulega fjölmenningarsamfélag ef hugtakið fjölmenning er notað sem lýsingarorð, en fjölbreytileikinn gerir það að verkum.

Fjölmenning á Íslandi á sér fremur stutta sögu en rannsóknir á málefnum og stöðu innflytjenda hófust ekki að ráði fyrr en um síðustu aldamót eða þegar fjöldi innflytjenda fór að aukast hér á landi. Fjölmenning er ennþá tiltölulega nýtt hugtak í íslensku samfélagi og enn eru margir sem líta á Ísland sem einsleitt menningarlega séð en hugtakið fjölmenning kemur þó æ oftar fyrir í samfélagslegri umræðu, sérstaklega í tengslum við fjölgun innflytjenda.

Hugtakið fjölmenningarlegt samfélag er skilgreint sem samfélag þar sem fjölbreytni ríkir, þar sem fólk af mismunandi uppruna eða menningarsvæðum býr saman í einu samfélagi, ber virðingu fyrir hvort öðru og hefur samskipti sín á milli. Í fjölmenningarlegu samfélagi er litið á fjölbreytileika og fjölda mismunandi lífstíla sem sjálfsagðan hlut og varað er við því að horft sé á fjölmenningu eða stöðu ýmissa minnihlutahópa sem utanaðkomandi ásókn. Eðlilegt er að í slíku samfélagi fái allir hópar að halda sinni eigin menningu, tungumáli og einkennum en tileinki sér á sama tíma ríkjandi menningu. Slíkt fyrirkomulag er þekkt á Norðurlöndunum.

Í dag eru hátt í 10% af þjóðinni skilgreindir sem innflytendur. Innflytjendur á Íslandi eru ekki einn einsleitur hópur heldur eru hér á landi yfir 100 mismunandi þjóðarbrot. Samkvæmt Hagstofu er innflytjandi “einstaklingur sem er fæddur erlendis og á foreldra sem einnig eru fæddir erlendis, svo og báðir afar hans og báðar ömmur. Önnur kynslóð innflytjenda eru einstaklingar sem fæddir eru á Íslandi og eiga foreldra sem báðir eru innflytjendur. Fólk er talið hafa erlendan bakgrunn ef annað foreldrið er erlent.

Sambönd milli þjóðfélagshópa geta einkennst af ákveðnum viðhorfum og staðalmyndum um ólíka hópa sem geta leitt til fordóma og spennu þeirra á milli. Fólk virðist eiga auðveldara með að sjá einstaklingsmun í hópnum sem það telur sig tilheyra á meðan þeir, sem taldir eru tilheyra öðrum hópi, eru settir undir sama hatt. Samhliða vexti fjölmenningarsamfélagsins, auknum fólksflutningum og fjölgun innflytjenda vaxa því fordómar og þjóðernishyggja.

Árið 2008 unnu Inga Hlín Pálsdóttir og Sigrún Ólafsdóttir skýrslu sem bar nafnið Ímynd Íslands: Staða, styrkur og stefna. Einstaklingar voru valdir í rýnihópa og þeir beðnir um að ræða ímynd þjóðarinnar. Allir hóparnir ræddu um innflytjendur og eftir því sem fram kemur í skýrslunni var enginn sem sá innflytjendur sem hluta af ímynd þjóðarinnar heldur frekar sem innrás sem þurfti að verjast til að Íslendingar héldu sérstöðu sinni. Að sama skapi segjast meira en 70% innflytjenda á Íslandi hafa orðið fyrir fordómum samkvæmt nýlegum rannsóknum. Það er áhyggjuefni.

fordómar

Hvað eru fordómar?

Þegar talað er um fordóma er átt við þegar einstaklingar eða hópar fólks eru dæmd út frá fyrirfram ákveðnum hugmyndum af staðalímyndum sem hafa myndast í samfélaginu og eru yfirleitt mótaðar af umhverfinu og eru t.d. fengnar úr fjölmiðlum, kvikmyndum og bókum. Staðalímynd er hugtak sem skilgreint er sem viðtekin skoðun fólks um sérkenni hópa eða einstaklinga sem tilheyra oft minnihlutahópum innan samfélagsins. Dæmi um þetta geta verið skoðanir fólks á byggingu mosku á Íslandi eða hugmyndir fólks um múslima.

Fordómar geta byggt á hegðun, skoðunum eða öðru í fari einstaklings. Kristján Kristjánsson skilgreinir fordóma sem dóm sem felldur er án þess að einstaklingur hafi kynnt sér réttmæti og rök málsins af sanngirni, því hafa þeir sem hafa fordóma ekki góðar ástæður fyrir skoðunum sem felast í dómunum. Fordómur getur einnig verið fordómur í munni eins en ekki annars, því við trúum þeim skoðunum sem við höfum þar til annað reynist rétt. Samkvæmt Kristjáni er hægt að flokka fordóma í tvo flokka, fljótadóma eða hleypidóma, og forherta dóma.

Fljótadómar eða hleypidómar eru skoðanir og dómar sem hafa myndast í samfélaginu í gengum tíðina og koma oft upp í samtölum milli fólks, þetta eru dómar sem fólk hefur enga staðfestingu á og hefur aðeins heyrt frá öðrum. Forhertir dómar eru dómar sem eru felldir af einstaklingum sem veit betur eða á að vita betur en þrjóskast í villu sinni. Forhertir dómar eru náskyldir sjálfsblekkingu, þá neitar viðkomandi að leitast réttra svara og trúir skoðun sinni þrátt fyrir að vita að skoðun hans er vitlaus.

Skilgreining Páls Skúlasonar á fordómum er að fordómar séu „staðhæfing eða skoðun sem við trúum og látum hugsun okkar stjórnast af án þess nokkurn tíma að draga þessa staðhæfingu eða skoðun í efa eða gagnrýna hana.”

Fordómar hafa mismunandi birtingamyndir og geta þeir verið sýnilegir eða ósýnilegir. Ósýnilegir fordómar eru mun algengari í samfélaginu og oft gerir fólk sér ekki grein fyrir þeim, hvorki þeir sem beita slíkri hegðun eða verða fyrir henni. Dæmi um ósýnilega fordóma getur verið að sýna fyrirlitningu í framkomu eða orðalagi eins og t.d. að veita útlendingum lélegri þjónustu, tala ekki við fólk af erlendum uppruna á vinnustað eða líta niður á fólk af erlendum uppruna. Margir myndu túlka slíka hegðun sem rasíska, enda eru fordómar náskyldir rasisma.

rass

Hvað er rasismi?

Hugtakið rasismi sem hefur einnig verið kallað kynþáttahyggja á íslensku, er regnhlífarhugtak yfir ýmsar tegundir af pólitískum hugmyndafræðum og fordómum sem ganga út á mismunun og skiptingu fólks í hópa, myndun og viðhaldi staðalímynda, m.a. eftir þjóðerni, kynþætti, menningu og/eða trúarbrögðum. Vegna þess að hugtakið er tiltölulega umdeilt, og á sér ólíkar birtingarmyndir á mismunandi stöðum á mismunandi tímum eru skilgreiningar á því öðruvísi eftir orðabókum og fræðimönnum.

Flestar skilgreiningar eiga það þó sameiginlegt að rasismi sé sú hugmynd að ákveðinn hópur af fólki sé í eðli sínu ólíkur öðrum. Þessi eðlislæga misskipting er síðan notuð til grundvallar við mismunun á þessum tiltekna hópi á ákveðnum sviðum, og til þess að draga upp staðalímyndir og alhæfa um eiginleika einstaklinga og samfélagshópa.

Hinn hefðbundni „líffræðilegi“ rasismi er þekktari tegundin af rasisma og grundvallast á kynþáttum. Hann byggir á trú fólks á því að einhver af öðrum uppruna sé óæðri en aðrir af manns eigin uppruna eða kynþætti. Hann leggur áherslu á að mannkyninu sé skipt í kynþætti sem eru í eðli sínu líffræðilega ólíkir og að ákveðið stigveldi ráði því að einstakir kynþættir séu eðlislega æðri.

ús

Menningarlegur rasismi

Nýtt afbrigði af rasisma hefur sprottið upp á síðustu áratugum sem hefur verið kallað ný-rasismi eða menningarlegur rasismi á íslensku. Í staðinn fyrir að aðhyllast yfirburði eins kynþáttar yfir öðrum, þá er lögð rík áhersla á menningu og aðgreiningu hennar meðal þjóða og fólks af öðrum litarhætti. Hugmyndin um kynþætti skiptir ekki höfuðmáli lengur, það sem skiptir máli eru menningarleg einkenni og hvað aðgreinir þau hvert frá öðru. Nú á dögum þykir slíkur rasismi, sem einnig hefur verið nefndur ný-rasismi, vera sjálfsagðari en þeir voru áður, og kristallast það m.a. í yfirlýstri andúð á innflytjendum, múslimum og útlendingum almennt.

Útlendingaandúð er skilgreind sem ótti eða andúð ákveðins hóps á fólki af öðrum hópi á grunni þess að sá hópur þyki öðruvísi eða framandi. Útlendingaandúð er nátengd þjóðernishyggju og menningarlegum rasisma sem skilar sér í pólitískri andstöðu við innflyjendur, m.a. með áherslu á að draga úr innflytjendastraumi, sem og að herða löggæslu við landamæri.

asm

Á Vesturlöndum hefur menningarlegur rasismi hlotið ákveðna ómeðvitaða viðurkenningu og fengið byr undir báða vængi á liðnum árum en þannig hafa t.d. stjórnmálaflokkar sem vilja beita sér gegn fjölmenningarsamfélaginu sótt í sig veðrið að undanförnu en það kristallast einnig í hegðun einstaklinga gangvart fólki af erlendum uppruna, með aðra menningu eða trú.

Talsmenn þeirra sem sem aðhyllast slíkar skoðanir og eru andsnúnir fjölmenningu benda gjarnan á að afstaða þeirra sé ekki rasísk vegna þess að þeir segjast ekki leggja neina áherslu á kynþætti. Það séu frekar gagnrýnendur þeirra sem séu rasískir vegna þess að þeir eru að mála múslima og aðra trúarhópa upp sem kynþætti. Hins vegar hefur verið bent á að ekki sé hægt að segja að menningarlegur rasismi sé ekki rasismi, einfaldlega vegna þess að hugtakið eigi ekki við um kynþætti. Menningarlegur rasismi er afbrigði rasisma sem skiptir einfaldlega kynþætti út fyrir menningu. Menning er þannig orðin að hinum nýja kynþætti.

Eitt af höfuðeinkennum menningarlegs rasisma og þjóðernispopúlismans sem honum fylgir er að draga upp tvískipta mynd af þjóð sinni eða sínum menningarheimi annars vegar, og útlendingum eða öllum utanaðkomandi hinsvegar; „við“ og „hinir.“ Þetta er svarthvít mynd sem aðgreinir einnig hið „góða“ frá hinu „illa.“ Slíkum málflutningi hefur verið beitt öldum saman af þeim sem haldnir eru útilokandi þjóðernishyggju og útlendingaandúð, enda er það elsta trixið í bókinni að ala á ótta til þess að fá fólk með þér á einhverja ákveðna skoðun.

islþ

Þeir sem tjá þennan nýja rasisma eru oft afsakandi í framkomu sinni, segjast ekki vera rasistar heldur vilji þeir einungis „ræða málin.“ Að ræða málin í þessu samhengi er einmitt athugun á því hvort rasískar hugmyndir standist skoðun. Þá er algengt að orðræðan snúist um þessa meintu ógn sem  steðjar af fjölmenningu, auknum innflytjendastraumi, eða ákveðnum þjóðfélagshópum. Vegna þessarar „hættu“ sem þeir telja sig skynja, láta þeir sig slík málefni sérstaklega varða.

Þetta birtist einkum í því að menningarlegir rasistar staðhæfa í sífellu að innflytjendur sem tilheyra ákveðnum framandi menningarhópi geti ekki, og vilji ekki, aðlagast ríkjandi samfélagi með sínum gildum, hefðum og trúarbrögðum. Nú á dögum er sérstaklega algengt að þessu sé haldið fram um múslima á Vesturlöndum.

Að sama skapi fullyrða þeir sem aðhyllast menningarlegan rasisma gjarnan að menningarheimar Vesturlanda og Mið- Austurlanda, og trúarbrögðin kristni og íslam, séu svo eðlislega ólík að það sé óhugsandi að fólk úr sitt hvorum hópnum geti búið saman í sátt og samlyndi. Hér er um nokkurs konar menningarlega aðskilnaðarstefnu að ræða, sem leitast við að aðskilja hópa af fólki alfarið frá hverju öðru á menningarlegum forsendum.

Snúum þróuninni við

Sú þróun sem lýst er hér að ofan á við Ísland og íslenskt samfélag rétt eins og önnur evrópsk samfélög og eru dæmin um menningarlegan rasisma m.a. í orðræðu stjórnmálamanna, fjölmiðlamanna og annarra sem taka í opinberri umræðu óteljandi og ábyrgð þeirra sem gerast sekir um að ýta undir ótta og hatur í garð minnihlutahópa með menningarlegum rasisma er mikil því fordómum fólks getur verið erfitt að breyta og ekki er hægt að eyða staðalímyndum úr samfélaginu.

Það er mikilvægt að allir leggi sig fram við að leiðrétta þær staðalímyndir sem valda mismunun í garð ákveðinna hópa því það á aldrei að vera í lagi að mismuna fólki eftir uppruna, menningu, trú eða þjóðerni, ekki freka en öðrum einkennum fólks.

Það er íslensku samfélagi til gæfu að hingað flytjist fólk til þess að finna starfskröftum sínum, hugviti og hæfileikum farveg. Þátttaka nýrra íbúa er mikilvæg fyrir samfélagið í heild sinni og því er mikilvægt að leita leiða til að jafna stöðu einstaklinga og hópa í fjölmenningarlegu samfélagi og stuðla þannig að félagslegu jafnrétti og réttlæti og koma í veg fyrir vaxandi rasisma og hegðun tengda honum.

Heimildir:
Fjölmenningarleg kennsla: Forvörn gegn kynþáttahatri og fordómum.
Menningarlegur rasismi á Íslandi
Ný-rasismi í reynd

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sema Erla Serdar
29 ára stjórnmála- og Evrópufræðingur sem berst fyrir friði, frelsi og jafnrétti þegar hún er ekki að horfa á fótbolta eða leika við hundana sína.

Formaður Samfylkingarinnar í Kópavogi. Fyrrverandi formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar. Ungur jafnaðarmaður!
RSS straumur: RSS straumur