Sunnudagur 25.09.2016 - 18:18 - FB ummæli ()

Látum áróður ekki villa okkur sýn!

Samkvæmt Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hafa aldrei verið fleiri á flótta í heiminum en nú. Langstærstur hluti þeirra sem eru á flótta eru að flýja stríðsátök og vegna aukinna átaka, borgarastyrjalda og ofbeldis í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku hefur hlutfall þeirra sem óskað hafa eftir alþjóðlegri vernd vaxið svo um munar síðustu ár og ljóst er að ekkert lát verður þar á á næstu mánuðum og jafnvel árum. Um er að ræða milljónir manna, kvenna og barna sem eru fórnarlömb stríðs sem þau eiga engan þátt í að hafa skapað.

Umræðan um fólk á flótta er oft á tíðum mjög ósanngjörn og óréttlát og einkennist oftar en ekki af rangfærslum, hræðsluáróðri og öfgum. Hér er gerð tilraun til þess að leiðrétta nokkur atriði sem heyrast oft í umræðunni.

Hér er allt að fyllast af flóttafólki og hælisleitendum segja margir. Einungis 30 ríki heims hafa skuldbundið sig til þess að taka á móti ákveðnum fjölda kvótaflótta­manna á hverju ári. Ísland er eitt af þeim.

Fyrsta flóttafólkið kom til Íslands frá Ung­verja­landi árið 1956. Alls tóku íslensk stjórn­völd á móti 204 einstaklingum á flótta á tæp­lega 40 ára tíma­bili, frá 1956 til 1991. Eftir að Flótta­manna­ráð (nú Flóttamannanefnd) var sett á lagg­irnar árið 1995 hefur Ísland tekið á móti 393 flótta­mönn­um, á tímabil­inu 1996 – 2016. Það eru 597 einstaklingar á 60 árum!

Um það bil ein milljón fólks á flótta kom til Evrópu árið 2015. Þrátt fyrir þann fjölda er það einungis dropi í hafið miðað við stöðuna á heimsvísu en meira en 65 milljónir manna, kvenna og barna eru á flótta í heiminum í dag.

Ísland stendur sig ekki vel gagnvart fólki á flótta. Af Vestur-Evrópulöndum eru það aðeins Portúgal og Spánn sem veita færri dvalarleyfi en Ísland.

Dæmi: Árið 2011 sóttu alls 76 einstaklingar um hæli á Íslandi. Útlendingastofnun afgreiddi 50 umsóknir á sama ári og veittu samtals 13 hælisumsækjendum réttarstöðu sem flóttamenn.

Dæmi: Á fyrstu sex mánuðum ársins 2016 voru 310 umsóknir um alþjóðlega vernd á Íslandi afgreiddar. 31 einstaklingur fékk vernd. Það er 10% af afgreiddum umsóknum.

Dæmi: Í ágúst voru 38 umsóknir um alþjóðlega vernd á Íslandi afgreiddar. 7 einstaklingar fengu alþjóðlega vernd.

Því er oft haldið fram að vegna aðildar Íslands að Schengen-landamærasamstarfinu og vegna Dyflinarreglugerðarinnar, sem fellur undir Schengen-samstarfið, sé aukning í umsóknum um hæli á Íslandi og því vilja þeir sem ekki vilja taka á móti fólki á flótta að við segjum okkur frá því samstarfi.

Dyflinnarreglugerðin mælir fyrir um hvaða aðildarríki reglugerðarinnar beri ábyrgð á meðferð umsóknar um hæli og í því felst að taka afstöðu til þess hvort umsækjandi þurfi á vernd að halda. Allar umsóknir um hæli hér á landi eru því fyrst skoðaðar með hliðsjón af því hvort öðru aðildarríki sé skylt að fjalla um umsóknina og taka aftur við umsækjanda. Beri annað aðildarríki ábyrgð á meðferð umsóknar um hæli taka íslensk stjórnvöld ekki afstöðu til þess hvort umsækjandi þurfi á vernd að halda þar sem að viðtökuríkið samkvæmt Dyflinnarreglugerðinni ber meta þörfina og veita tilskylda vernd.

Samkvæmt vef Útlendingastofnunar er um helmingur alla umsókna um hæli teknar til efnismeðferðar hjá íslenskum yfirvöldum. Ljóst er að ef Ísland segir sig úr Schengen-samstarfinu og þar af leiðandi frá Dyflinarreglugerðinni munu íslensk stjórnvöld þurfa að taka hverja einustu umsókn um hæli til efnismeðferðar.

Hinir sömu halda því fram að með nýjum lögum um útlendinga sé góða fólkið að opna landamæri Íslands. Segja mætti að landamærin hafi verið tiltölulega opin allt frá því að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið tók gildi hér á landi ári 1994. Aðild okkar að evrópska efnahagssvæðinum veitir einstaklingum frá 31 ríki leyfi til þess að koma hingað og búa, starfa eða læra, án nokkurra vandkvæða, og að sama skapi getum við farið án vandkvæða til sömu ríkja. Að öðru leyti eru landamærin frekar lokuð og ljóst er að lítil sem engin breyting verður á því með nýjum lögum um útlendinga.

Aðalatriðin í þeim lögum er varða fólk á flótta eru, samkvæmt þeim sem unnu að lögunum, m.a. breytingar á grein­ing­ar­ferli við komu flótta­manna til landsins, t.d. varðandi fólk í viðkvæmri stöðu. Gert ráð fyr­ir að af­greiðslu­tími í hæl­is­leit­enda­mál­um stytt­ist og stjórn­sýsla ein­fald­ist. Verið er að auka möguleika á fjölskyldusameiningu og bæta réttastöðu ríkisfangslausra. Með lög­unum er verið að auka mannúð og skil­virkni í kerf­inu.

Þeir sem vilja ekki að Ísland veiti fólki á flótta skjól og vernd notar oft á tíðum háan kostnað við fjölgun hælisleitenda sem rök fyrir ómannúðlegri stefnu sinni. Þeir sem hins vegar vilja að fólk á flótta og hælisleitendur geti haldið mannlegri reisn og virðingu sinni hafa barist fyrir því að á meðan hælisleitendur bíða úrlausnar sinna mála sé þeim veitt tímabundið atvinnuleyfi. Það er erfitt fyrir alla að sitja aðgerðalausir til langs tíma og flestir hælisleitendur þrá ekkert meira en að fá að lifa eðlilegu lífi, vinna fyrir sér og sínum og njóta þess að vera til.

Þeir sem hafa áhyggjur af kostnaði við hælisleitendur ættu því auðveldlega að geta tekið undir þessa kröfu í stað þess að nota bága stöðu annarra til þess að etja saman hópum í samfélaginu og ala á sundrungu og mismunun.

Að sama skapi heyrist sú röksemdafærsla oft að flóttafólk sé byrði á samfélaginu. Hins vegar hafa fræðimenn í hagfræði bent á að kostirnir sem fylgja móttöku flóttafólks eru langtum fleiri og þyngri á metunum en tímabundin byrði sem þeir hafa í för með sér fyrir móttökusamfélagið. Hér má nefna nýja menntun, þekkingu og hæfileika og aukna neyslu sem örvar svo atvinnulífið og ýtir undir hagvöxt. Það er því beinn efnahagslegur ávinningur sem fylgir því að taka á móti fleira flóttafólki. Þar að auki er rétt að nefna þann ríka menningararf sem kemur með fólki frá öðrum löndum sem skilar sér t.d. í fjölbreyttari menningu, listum og atvinnustarfsemi sem og opnari og víðsýnni þjóð.

Auk þess er ljóst að þjóðin er að eld­ast og ­fjölg­unin okkar er of hæg til að tryggja vel­ferð okkar til lang­frama. Þeir nýju lands­menn sem hingað hafa komið hafa ­sýnt að þeir eru vinnu­samir og dug­leg­ir, góðir náms­menn og góðir Íslend­ing­ar. Við einfaldlega þurf­um á þeim að halda. Að taka á móti flóttafólki er ekki aðeins hið rétta í stöðunni, heldur felur það einnig í sér­ efna­hags­legan ávinn­ing fyrir þjóð­ina.

Sumir vilja stjórna því hverjir fá hæli og einungis taka á móti kristnu flóttafólki. Helgi Helgason, formaður íslensku þjóðfylkingarinnar, hefur m.a. spurt „af hverju má ekki taka við kristnum hælisleitendum ef á annað borð er verið að taka inn hælisleitendur yfir höfuð?

Þessi ummæli Helga (fleiri hafa tekið undir slíkan málflutning) endurspegla ágætlega það sem raunverulega er að baki hugmyndafræði þeirra sem vilja ekki taka á móti fólki á flótta. Það á ekkert skylt við fjárhagslegar áhyggjur, opnun landamærra eða áhyggjur af stöðu öryrkja og eftirlaunaþega, ef svo væri, hvers vegna samþykkti Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, ekki bætt kjör til þeirra þegar hann hafði tækifæri til, en hefur svo áhyggjur af þeim þegar kemur að fjárframlagi vegna hælisleitenda.

Í sama viðtali talaði Helgi um að við þurfum að stöðva íslamsvæðingu Íslands. Ótti við menningarleg áhrif innflytjenda á samfélagið er það sem raunverulega útskýrir hvers vegna fólk vill ekki taka á móti flóttafólki á Íslandi. Þrátt fyrir að hátt í 10% af íslensku þjóðinni eru skilgreindir sem innflytjendur, sem hafa fært þjóðinni og samfélaginu fjölmarga góða hluti, jafnt menningarlega sem og aðra, er þessi ótti enn til staðar, og hann virðist beinast sérstaklega gegn múslimum. Er sá ótti nauðsynlegur? Hafa þeir múslimar sem hér á landi eru nú þegar gefið okkur ástæðu til þess að óttast þá? Ég held ekki. Hvað með alla hina múslimana?

Árið 2010 voru 1,6 millj­arður múslima í heim­in­um. Vegna þess að við fáum oftar en ekki ákveðna birtingarmynd af múslimum og íslam í gegnum fjölmiðla, þar sem fjallað er um aðgerðir öfgahópa, hafa margir þar af leiðandi ákveðn­ar hug­myndir um múslima og tengja þá jafn­vel við hryðjuverkastarf­semi, en slíkt end­ur­speglar að sjálfsögðu ekki skoð­anir meiri­hlut­ans og er í raun frekar ýkt.

Sam­kvæmt gögnum frá FBI voru 94% hryðju­verka sem fram­kvæmd voru í Banda­ríkj­unum á árunum 1980-2005 framin af öðrum þjóð­fé­lags­hópum en múslim­um. Samkvæmt gögnum frá Europol voru framin yfir þús­und hryðju­verk í Evr­ópu á ár­unum 2010-2015 og áttu minna en 2% þeirra rætur sínar að rekja til íslam.

Margir halda því fram að Íslendingar vilji ekki flóttafólk og hælisleitendur til Íslands því við þurfum að hugsa um okkar fólk fyrst, bæta kjör öryrkja og eftirlaunafólks, greiða úr alvarlegu ástandi á húsnæðismarkaðinum.

Auðvitað á að bæta kjör öryrkja og aldraðra, sem hafa búið alltof lengi við ömurleg kjör og mun lengur en aukinn straumur flóttafólks og hælisleitenda til Evrópu fór (mjög takmarkað) að ná til Íslands. Fyrir utan hversu fráleitt það er að etja saman hópum samfélagsins og segja einn hafa af örðum er það einfaldlega rangt og einungis gert til þess af afvegaleiða umræðuna. Þessir samfélagshópar hafa afþakkað það að vera skjól stjórnmálamanna fyrir vondri stefnu í málefnum flóttafólks.

Auðvitað á að greiða úr alvarlegu ástandi á húsnæðismarkaði. Það vandamál á hins vegar ekkert skylt við flóttafólk eða hælisleitendur á Íslandi heldur aðgerðaleysi stjórnvalda í þrjú ár. Þeir sem eru reiðir vegna stöðunnar á húsnæðismarkaðinum, sem við erum flest, ættu því að beina reiði sinni í rétta átt, ekki að fórnarlömbum stríðs sem þau eiga engan þátt í að hafa skapað.

Það er hægt að gera allt af ofangreindu. Það þarf bara að forgangsraða rétt.

Við þurfum líka að huga að íslenskum gildum og menningu. Hin raunverulegu íslensku gildi endurspeglast í opnu velferðarsamfélagi  þar sem allir eru jafnir, einstaklingum er ekki mismunað vegna uppruna, trúar, þjóðernis, menningar eða öðru sem einkennir þeirra persónu og líf, td. kyni, kynhneigð eða fötlun. Þar sem allir hafa sama aðgang að mannréttindum, réttlæti og frelsi og grundvallarréttindi einstaklingsins eru tryggð. Þar sem allir búa við mannlega reisn og virðingu. Það er ekki flóttafólk sem ógnar þessum gildum heldur þeir sem telja sig yfir aðra hafna vegna uppruna, þjóðernis, húðlitar, menningar eða trúar.

Að lokum, samkvæmt nýrri skoðanakönnun Íslandsdeildar Amnesty International vilja 85,5% Íslendinga taka opnum örmum á móti flóttafólki og tæplega 74% aðspurðra voru sammála þeirri fullyrðingu að íslensk stjórnvöld ættu að gera meira til að hjálpa þeim sem eru á flótta undan stríði eða ofsóknum.

Okkur ber ekki einugis siðferðisleg skilda til þess að veita fórnarlömbum stríðsátaka skjól og vernd heldur hefur Ísland m.a. lögfest Mannréttindasáttmála Evrópu, Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Íslensk stjórnvöld verða því að leggja sitt af mörkum svo hægt sé að taka á þeim áskorunum sem fylgja auknum straumi flóttafólks til Evrópu sem er ekki mál einstaka ríkja eða einstaklinga heldur mál sem snertir okkur öll. Látum áróður ekki villa okkur sýn.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sema Erla Serdar
29 ára stjórnmála- og Evrópufræðingur sem berst fyrir friði, frelsi og jafnrétti þegar hún er ekki að horfa á fótbolta eða leika við hundana sína.

Formaður Samfylkingarinnar í Kópavogi. Fyrrverandi formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar. Ungur jafnaðarmaður!
RSS straumur: RSS straumur