Föstudagur 21.10.2016 - 17:01 - FB ummæli ()

Stóra búrkumálið!

Þau eru mörg málin og málefnin sem rædd eru í aðdraganda kosninga, en eins og þau eru mörg málefnin eru þau mis mikilvæg. Þau sem litlu sem engu máli ættu að skipta verða þó stundum að stórum og fyrirferðarmiklum málum þegar stjórnmálamenn setja þau á dagskrá. Búrkubann er eitt af þeim.

Þar sem búrkumálið, ef svo má að orði komast, hefur verið sett á dagskrá er nauðsynlegt að bregðast við því, svo málflutningurinn sé ekki einhliða og í formi áróðurs. Það er auðvitað út af fyrir sig átakanlegt að umræða um hvort banna eigi búrkur, ákveðinn fatnað múslímskra kvenna, sé komin upp á yfirborðið á nýjan leik. Árið er 2016 og í ríki sem státar sig af því að vera framar öðrum á sviði jafnréttis, frelsis og mannréttinda er merkilegt að við séum að ræða hvort skerða eigi frelsi einstaklingsins með því að banna ákveðinn klæðnað.

Það er hins vegar engin tilviljun að við séum nú að ræða hvort banna eigi búrkur á Íslandi. Það er engin tilviljun að umræðan um að banna búrkur sé farin af stað á nýjan leik og í mun meira mæli en áður, þá á ég við hér, í Evrópu og um allan heim, en sú umræða helst auðvitað í hendur við vaxandi fordóma, andúð á múslimum og íslamófóbíu um allan heim.

búrkur

Það er mikilvægt að byrja á því að skilgreina um hvað er verið að tala. Þegar talað er um búrku er ekki skýrt um hvað er átt við því búrka er í raun klæðnaður sem varla sést nema á nokkrum stöðum í Afganistan. Þegar við ræðum um búrku erum við yfirleitt að tala um nikab. Í Evrópu finnst varla búrka og aukningin á notkun á nikab er mjög hæg. Áætlaðar tölur yfir konur í nikab eru 0,15% í Danmörku, 0,09% í Hollandi og 0,015% í Frakklandi. Um er að ræða hlutföll af áætluðum fjölda múslima í hverju landi en það eru auðvitað hvergi til nákvæmar tölur, hvorki um fjölda múslima né um hve margar konur nota nikab eða búrkur í Evrópu. Dæmi svo hver fyrir sig þörfina á að banna þennan klæðnað.

Umræðan um búrkuna er auðvitað nátengd umræðunni um málefni innflytjanda sem hafa verið mikið hitamál víðsvegar um Evrópu og í raun um allan heim síðustu ár. Að undanförnu hefur umræðan beinst sérstaklega að múslimum og íslam. Í fréttum er talað um hryðjuverk og hryðjuverkamenn og það virðist vera orðið sjálfsagt að tengja þá við íslam. Fjölmiðlar einblína á neikvæða hluti er tengjast íslamstrú og múslimum og nota neikvætt orðalag og stjórnmálamenn tala opinberlega niðrandi um múslima og koma með illa ígrundaðar fullyrðingar um þá. Slíkt er mjög varasamt og ýtir undir fordóma og andúð í þeirra garð.

Umræðan um bann á búrku snýst meðal annars um það hvort að það sé eðlilegt að konur í vestrænum samfélögum gangi um huldar og engin geti séð manneskjuna á bakvið klæðin. Umræðan er látin snúast um öryggi, frelsi og kvenréttindi. Það er ágætt að það komi fram að ég er ekki á nokkurn hátt talskona þess að konur gangi í búrkum, en ég er heldur ekki talsmaður þess að skerða eigi frelsi einstaklingsins á þennan hátt.

Það er svosum ekkert nýtt að hinn vestræni heimur hafi þá ímynd af ríkjum þar sem íslam er ríkjandi, að konur þar séu kúgaðar og þarfnist hjálpar til að öðlast betra líf. Þetta má t.d. sjá á innrásinni í Afghanistan árið 2001 þar sem markmiðið var m.a. að frelsa konur frá kúgun. Það er oft er talað um að búrkan og nikab sé tákn um að innflytjendur eða múslimar hafni vestrænum gildum og hefðum og hefur þessi klæðaburður ítrekað verið tengdur við hryðjuverkastarfsemi. Það er rangt. Það er líka algengur misskilningur að í Kóraninum sé farið fram á að konur beri slæður. Svo er ekki, ekki frekar en að konur eigi að hylja sig frá toppi til táar þó vissulega sé tekið fram að konur sem og karlar eigi að klæða sig sómasamlega og að þau eigi bæði að líta niður þegar þau mætast, til þess að halda dyggð sinni. Í gegnum tíðina hafa þessi tilmæli síðan verið túlkuð á mismunandi vegu, og túlka sumir þetta á þann hátt að fela eigi konuna alfarið. Þar liggur vandinn.

Búrkubann í Evrópu

Frelsi – jafnrétti – bræðralag – búrkubann2

Frakkland er það ríki sem hefur gengið hvað lengst í því að banna klæðnað múslímskra kvenna og hefur sætt mikilli gagnrýni fyrir. Árið 2004 tóku gildi lög í Frakklandi sem bönnuðu trúartákn í skólum. Frönsk stjórnvöld héldu því fram að nýju lögin væru réttlætanleg í ljósi aðskilnaðs ríkis og kirkju í Frakklandi, sem reyndar hafði verið til staðar þar í landi í hartnær hundrað ár án þess að þörf hafi þótt á lagasetningu sem þessari. Árið 2010 tóku síðan gildi lög sem banna fólki að hylja andlit sitt á almannafæri. Opinberlega var markmið laganna að auðvelda fólki að bera kennsl hvert á annað, þar sem hulin andlit væru öryggishætta og vegna þess hve mikilvæg svipbrigði væru í samskiptum fólks.

Líkt og með fyrri lagasetninguna var hún umdeilt og þótti mörgum augljóst að lagasetningin var ekki til komin vegna vaxandi tilhneigingu franskra karla til þess að hylja andlit sitt á almannafæri með lambhússettu. Lögin beindust augljóslega að múslímskum konum. Lagasetningin þótti bera vitni um íslamafóbíu og fordóma og hún þótti hefta trúfrelsi einstaklingsins og bera vitni um forræðishyggju gagnvart konum. Ekki er langt síðan frönsk yfirvöld reyndu enn á ný að banna klæðnað sem snýr að múslímskum konum, hið svokalla búrkíní, sem er sundfatnaður sem sumar múslímskar konur klæðast. Eins og alþjóð veit neyddust stjórnvöld til þess að hverfa frá því banni eftir að hafa orðið að athlægi á alþjóðavettvangi.

Frakkland er þó ekki eina ríkið sem hefur bannað eða tekið skref í átt að því að banna klæðnað múslímskra kvenna. Belgía fylgdi á eftir Frakklandi og bannaði búrku og nikab árið 2011.  Búrka var bönnuð í Búlgaríu í september s.l en frumkvæðið að lagasetningunni átti búlgarski þjóðernisflokkurinn. Holland hefur stigið skref í átt að búrkubanni. Hluti af Sviss hefur bannað búrku á opinberum stöðum. Hið sama á við um ríkasta hérað Ítalíu. Egyptaland og Chad eru einnig á meðal ríkja sem hafa tekið skref í átt að banni.

Það sem er sameiginlegt með flestum ef ekki öllum tilfellunum þar sem búrka eða annar klæðnaður múslímskra kvenna hefur verið bannaður er að það er gert af öryggisástæðum, í nafni kvenfrelsis og jafnréttis og til þess að frelsa konur undan kúgun.Augljóst þykir að slíkt er lítið annað en yfirklór yfir fordóma, útlendingaandúð og múslimahatur hjá flestum þeim sem kalla eftir slíku banni eða umræðu þar um. Þessa umræðu var td. varla að finna fyrir árið 2001 og á síðustu 15 árum hefur hún komið upp á yfirborðið öðru hvoru, ávallt í kringum vaxandi hryðjuverkaógn, fjölgun innflytjenda og nú síðast aukinn straum flóttafólks.

Því annað sem tilfellin eiga nefnilega sameiginlegt er að það hafa verið flokkar þjóðernissinna, útlendingahatara og íhaldsmanna sem hafa átt frumkvæðið að og komið lögum um búrkubann á. Þeir stjórnmálaflokkar og stjórnmálamenn sem hafa að undanförnu komið umræðunni af stað og reynt að koma slíku banni á falla í sömu katagoríu. Má þar td. nefna Nigel Farage og breska sjálfstæðisflokkinn, Geert Wilders og hollenska frelsisflokkinn, þjóðernissinnar og útlendingahatar á Ítalíu, í Frakklandi, á Norðurlöndunum, já og íslenska þjóðfylkingin.

Er rétt að banna búrku?

sarahg_CanadianCulturalDiversity

Stutta svarið er nei.

Fyrir það fyrsta, þá hefur öryggi hreinlega ekkert með þetta að gera og eru þau „rök“ einungis sett fram til þess að afvegaleiða umræðuna. Hið sama á við um þegar reynt er að tengja búrkubann við almannahagsmuni og hvernig banna eigi einstaklingum að hylja andlit sitt á almannafæri.

Í öðru lagi, þá er ótrúlegt, að árið 2016, eftir áratugalanga baráttu fyrir jafnrétti kynjanna og frelsi kvenna og alla þá stóru sigra sem við höfum unnið í þeirri baráttu, séum við að ræða möguleikann á því að stíga stórt skref aftur á bak í þeirri baráttu og banna ákveðinn klæðnað kvenna. Ljóst er að baráttukonur fyrir jafnrétti kynjanna og frelsi kvenna myndu snúa sér við í gröfinni ef þær vissu að við værum að ræða þetta, núna, nokkrum dögum fyrir kvennafrídaginn! Ég bíð spennt eftir þeim degi þegar heimurinn lætur af þeim ósið að segja konum hvernig þær eigi eða eigi ekki að klæða sig. Réttindabarátta kvenna hlýtur að snúast um rétt kvenna til að velja hverju þær klæðast.

Sterkustu rökin með búrkubanni eru að verið sé að kúga konur. Möguleikinn er auðvitað alltaf fyrir hendi að það sé verið að þvinga konur til að ganga með slæðu eða klæðast búrku, þá getur verið að karlkyns ættingjar þeirra aðhyllist öfgakenndari hlið af íslam og fylgi þeim túlkunum stranglega. Það getur til að mynda oft verið ástæðan fyrir því að litlar stelpur noti slæðu. Sumar konur kjósa að nota slæðu, m.a. til þess að ögra samfélaginu í kring. Dæmi er um að það hafi gerst t.d. í Frakklandi á tíunda áratugnum þegar til stóð að banna notkun slæðunnar í skólum, en þá jókst notkun hennar töluvert á meðal múslímskra kvenna.

Að banna búrku er gríðarlega vandasamt mál þar sem það getur verið erfitt að sanna eða afsanna að verið sé að kúga konur til að ganga með nikab frekar en að þær geri það af frjálsum vilja. Það er heldur ekki hægt að útiloka hvort tveggja, það er ekki annað hvort eða. Maður getur til að mynda spurt sig hvort að það sé ekki ólíkar aðstæður bakvið notkun búrku eftir því hvort hún er notuð í Afghanistan eða Danmörku.

Margt bendir til þess að búrkan sem slík sé notuð af íslömskum öfgamönnum til að halda konum á „sínum stað“ eða að þær eigi að sinna sínu hlutverki í samfélaginu og ekki vera fjölskyldunni til skammar, það er að segja samkvæmt þeirra túlkun á kóraninum. Í Danmörku var hins vegar gerð eigindleg rannsókn á vegum Kaupmannahafnarháskóla þar sem rætt var við konur sem klæðast nikab. Í þessari  rannsókn sögðu allar sjö konurnar sem rætt var við að þær kusu að nota nikab af frjálsum vilja. Það er ekki fræðilegur möguleiki á því að vita hvort eigi við hverju sinni og því gengur hreinlega ekki upp að banna slíkan klæðnað af þeim ástæðum.

Það sem skiptir mestu máli er að helsta hættan sem stafar af því að banna konum að klæðast búrku er að slíkt bann getur auðveldlega snúist upp í anhverfu sína og ómögulegt er að reyna að meta árangur þess. Hætta er á því að múslímskar konur hreinlega einangrist í samfélaginu ef búrkur verða bannaðar. Bann við búrku sem á að framfylgja með sektum og refsingum verður ekki til þess að karlmenn vakni endurfæddir og hætti hreinlega að kúga konuna sína. Með því að banna búrku væri ekki verið að frelsa konur frá kúgun heldur væri verið að ýta undir slíka kúgun og bannið gæti auðveldlega snúist upp í andhverfu sína. Karlar gætu í auknum mæli haldið konum sínum innan veggja heimilisins til að forðast sektir, frekar en leggja búrkuna af, ungar stúlkur myndu hætta að mæta í skólann enda fengju þær ekki leyfi til þess að fara út úr húsi án slíkra klæða. Það hefur verið raunin þar sem búrkan hefur verið bönnuð.

Það er mikilvægt að koma eins fram við alla og leggja áherslu á það sem sameinar okkur frekar en það sem sundrar okkur.  Við erum komin á óþægilegan stað ef grundvallar mannréttindi eins tjáningarfrelsi, trúfrelsi og frelsi einstaklingsins er skert með illsannanlegum rökum eins og að konur sem klæðist nikab eða búrku séu allar kúgaðar eða að fólki finnist nærvera þeirra óþægileg. Ekki er hægt að banna allt sem maður er á móti.

Það er ekki farsælt fyrir baráttuna fyrir réttindum kvenna að einblína á birtingarmyndir misréttis í stað orsaka þess. Búrkan sjálf er ekki vandamálið og því á ekki að einblína á hana, hún er einungis birtingarmynd kúgunar og því er það alls ekki rétta leiðin til þess að berjast kúgun kvenna að banna hana. Það á einblína á slæma stöðu kvenna múslimaríkjum. Ef þú telur einhvern vera kúgaðan þá frelsar þú hann ekki með því að leggja á hann boð og bönn heldur með því að berjast gegn kúgaranum og hugmyndafræði hans og með fræðslu og aðstoð við þann kúgaða.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sema Erla Serdar
29 ára stjórnmála- og Evrópufræðingur sem berst fyrir friði, frelsi og jafnrétti þegar hún er ekki að horfa á fótbolta eða leika við hundana sína.

Formaður Samfylkingarinnar í Kópavogi. Fyrrverandi formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar. Ungur jafnaðarmaður!
RSS straumur: RSS straumur