Fimmtudagur 01.12.2016 - 21:41 - FB ummæli ()

Hatursorðræða er ofbeldi.

Á dögunum var greint frá því að Pétur á útvarpi sögu hefur verið ákærður fyrir hatursorðræðu. Í kjölfarið fylgdu fréttir af því að tíu einstaklingar hafa verið ákærðir fyrir hið sama, þeirra á meðal Jón Valur Jensson. Síðustu daga hefur skapast áhugaverð umræða um hatursorðræðu. Ég fagna því að við séum farin að ræða um þetta stórhættulega samfélagsmein af alvöru, sem fer vaxandi á sama tíma og við verðum vör við aukna þjóðernishyggju, fordóma og útlendingaandúð.

Að mínu mati er umræðan þó oft á tíðum á villigötum. Umræðan um hatursorðræðu blandast saman við umræðuna um tjáningarfrelsi og mikilvægi þess.  Að mínu mati er það röng nálgun. Hatursorðræða hefur í raun ekkert að gera með tjáningarfrelsi, enda felur tjáningarfrelsi ekki í sér frelsi til þess að níðast á einstaklingum og hópum sem teljast til minnihlutahópa (tja, eða almennt), sem ýtir undir mismunum í þeirra garð. Hatursorðræða er enfaldlega andlegt ofbeldi.

Hvað er hatursorðræða?

0nytt

Hatursorðræða og annars konar áróður á sér stað í öllum samfélögum í mismiklum mæli og af mismiklu kappi. Um er að ræða stórhættulegt samfélagsmein sem getur haft hrikalegar afleiðingar ef hún er látin óáreitt. Hatursorðræða elur á fordómum og hatri og getur ýtt undir þess konar ástand í samfélögum að ákveðnir hópar eru lítilsvirtir og mismunun þeirra almennt viðurkennd. Í alvarlegustu tilvikum leiðir það til samfélagsrofs. Slíkt er ekki líðandi í lýðræðislegu nútímasamfélagi.

Hatursorðræða er flókið hugtak og ekki er til nein ein alþjóðlega viðurkennd skilgreining eða skilningur á því. Flestum er orðið ljóst hversu áhrifamikil hatursorðræða og hatursáróður getur verið og því hefur myndast víðtæk alþjóðleg samstaða um að banna eigi slíkan áróður með lögum.

Í tilmælum ráðherraráðs Evrópuráðsins nr. 97(20) er að finna nokkurs konar skilgreiningu á hatursorðræðu. Þar segir meðal annars að hatursorðræða sé;

„öll tjáning sem dreifir, hvetur til, stuðlar að eða réttlætir kynþáttahatur, útlendingahatur, gyðingahatur eða annars konar hatur sem byggist á umburðarleysi, þar á meðal umburðarleysi sem er tjáð með herskárri/óvæginni þjóðræknisstefnu/þjóðernishyggju eða þjóðhverfum sjónarmiðum, mismunun og fjandskap gegn minnihlutahópum, farandverkafólki og fólki af erlendum uppruna.“

Mannréttindadómstóll Evrópu hefur einnig fjallað um hatursorðræðu og hefur vísað til hennar sem „hvers konar tjáningar, munnlegrar eða skriflegrar, sem dreifir, hvetur til, stuðlar að eða réttlætir hatur sem byggir á umburðarleysi (einnig vegna trúarbragða).“

Það rímar ágætlega við 233. grein almennra hegn­ing­ar­laga sem hljóðar svo:

„Hver sem opin­ber­lega hæð­ist að, róg­ber, smánar eða ógnar manni eða hópi manna með ummælum eða ann­ars konar tján­ingu, svo sem með myndum eða tákn­um, vegna þjóð­ern­is, lit­ar­hátt­ar, kyn­þátt­ar, trú­ar­bragða, kyn­hneigðar eða kyn­vit­und­ar, eða breiðir slíkt út, skal sæta sektum eða fang­elsi allt að 2 árum.“

Það sem þessar skilgreiningar eiga amk. sameiginlegt er að þær tilgreina hvað hatursorðræða er og hvers konar tjáning í garð hvers konar einstaklinga eða hópa hún beinist gegn og hvað hatursorðræða er ekki.

Hvað er svona merkilegt við hatursorðræðu?

3a 4screenshot_2016-08-20-14-36-37

Það sem gerir hatursorðræðu sérstaka eru skilaboðin sem gerandinn sendir til þolenda um stöðu þeirra í samfélaginu. Hún hefur áhrif á og grefur undan rétti annarra til jafnréttis og þess að þurfa ekki að þola mismunun. Hún er notuð til þess að niðurlægja einstaklinga, gera lítið úr persónu þeirra og brjóta þá niður. Í hvert skipti sem hatursorðræða er látin óáreitt kostar hún einhvern hluta af þeim sjálfum, sjálfsmynd þeirra og hluta af sálarlífi þeirra.

Fæstir gera sér grein fyrir að fáein orð á Facebook eða Twitter eða kommentakerfum netmiðlanna geta haft mikil áhrif á einstaklinga og hópa auk þess sem það getur kveikt hugmynd eða sáð fræi í huga manns sem mögulega gengur þegar með einhverjar skaðvænlegar hugmyndir í kollinum enda er hatursorðræða oftast undanfari hatursglæps. Skemmst er að minnast Anders Behring Breivik í því samhengi sem og morðsins á bresku þingkonunni Jo Cox.

Á síðastliðnum árum hefur internetið orðið vinsæll vettvangur hatursorðræðu ásamt því að það er í auknum mæli notað til dreifingar á hatursáróðri. Internetið hefur gert fleiri aðilum kleift að ná til fjölda fólks á skömmum tíma án mikillar fyrirhafnar. Internetið hefur orðið áhrifaríkur vettvangur fordómafullra einstaklinga og hópa til að dreifa hatursfullum hugmyndum til þúsunda og jafnvel milljóna viðtakenda á mjög skömmum tíma og erfiðlega hefur gengið að koma böndum á hatursorðræðu á netinu.

Í skjóli tækni, fjarlægðar og nafnleyndar ná gerendur til þolenda hvar og hvenær sem er. Við erum tengd netinu allan sólarhringinn og hægt er að ná til fólks hvenær dags sem er. Þetta gerir þolendur hatursorðræðu og stafræns eineltis að mögulegum þolendum allan sólarhringinn. Jafnvel þótt þolandi slökkvi á tölvunni og/eða síma getur gerandi haldið áfram að senda efni til hans og áreitt hann. Efnið bíður viðtakandans síðan þegar hann neyðist til að kveikja aftur. Það er auðvelt að segja að þolandi eigi hreinlega bara að sleppa því að lesa það sem um hann er sagt eða það sem honum er sent en þannig er raunveruleikinn hreinlega ekki.

Hverjir verða fyrir hatursorðræðu?

5b14 7

Þeir sem verða fyrir barðinu á hatursorðræðu eru fjölbreyttur hópur og geta einstaklingar jafnt sem hópar liðið fyrir hatursorðræðu á grundvelli einnar eða fleiri mismununarástæðna. Hatursorðræða hefur því fjölbreyttar birtingarmyndir. Gerendur í þessum málum eru einnig fjölmargir. Þeir geta verið fullorðnir, unglingar og börn, opinberir starfsmenn, stjórnmálamenn, fjölmiðlamenn, kennarar og fleiri. Hatursorðræða getur haft meira vægi og áhrif þegar hún kemur frá áhrifamönnum sem tjá skoðanir sínar og viðhorf á opinberum vettvangi. Vegna stöðu þessara einstaklinga setja þeir ákveðin viðmið og ýta undir staðalímyndir fyrir aðra í samfélaginu. Þær staðalímyndir ýta síðan undir fordóma sem geta þróast út í hatur.

Hatursorðræða á grundvelli kynþáttar eða trúarbragða ákveðinna hópa er sá áróður sem almenningur verður mest var við þessa dagana en þetta eru alls ekki  einu hóparnir sem verða fyrir aðkasti í orðum og/eða verki. Þeir hópar samfélagsins sem hatursorðræða getur beinst að eru m.a. fólk frá Afríku/Asíu eða af afrískum/asískum uppruna, samkynhneigðir, tvíkynhneigðir og transgender einstaklingar, innflytjendur, ýmsir þjóðernishópar, trúarhópar, konur (einkum feministar), börn, fólk með fötlun og aðrir minnihlutahópar samfélagsins. Það er nokkuð misjafnt innan Evrópu hvaða hópa um ræðir en margir þeirra hafa sætt mismunun í gegnum aldirnar líkt og sagan hefur sýnt.

Breska blaðið The Guardian hefur greint hatursorðræðuna á kommentakerfunum sínum. Skoðuð voru 70 milljón komment á vefnum og þau greind. Niðurstöðurnar sýndu á skýran hátt hverjum hatursorðræðan beinist gegn. Í tilfelli The Guardian beindist hún að mestu leyti að konum, samkynhneigðum og útlendingum/lituðum einstaklingum. Hún beindist minnst að körlum og var beitt að mestu leyti af körlum – þó ekki einungis. Að sama skapi sýndu niðurstöðurnar að hatursorðræðan var hve mest þegar fréttirnar voru um málefni innflytjenda, flóttafólks, deilu Ísraels- og Palestínumanna og femínisma, m.ö.o. „viðkvæm mál.“

Það er óhætt að fullyrða að niðurstöðurnar yrðu svipaðar ef hatursorðræðan á íslandi yrði rannsökuð.

Hvernig komum við í veg fyrir hatursorðræðu?

screenshot_2016-06-14-22-26-13

Ég er ein af þeim sem fagnaði því að Pétur hefur verið ákærður fyrir útbreiðslu haturs. Viðbrögðin á kommentakerfunum og samfélagsmiðlunum undirstrikaði ágætlega mikilvægi þess að gripið verði til raunverulegra aðgerða til þess að sporna gegn því að hatursorðræða haldi áfram að breiða úr sér. Mín ánægja beinist ekkert sérstaklega að Pétri og því að hann sem einstaklingur hafi verið ákærður. Nú hefur komið á daginn að um tíu ákærur hafi verið gefnar út vegna hatursorðræðu. Það er ennþá betra. Ef dómur fellur í amk. einu af þessum málum er komið fordæmi fyrir því að andlegt ofbeldi í formi hatursorðræðu verður ekki liðið í samfélaginu okkar og fólk mun hreinlega þurfa að bera ábyrgð á orðum sínum og skrifum. Þá verður von fyrir þá fjölmörgu sem búa við daglegt áreiti og andlegt ofbeldi um að hægt sé að stöðva það, eða amk. minnka það að einhverju leyti. Því mögulega munu einhverjir hugsa sig tvisvar um áður en þeir halda áfram að níðast á fólki á internetinu og leggja það í einelti vegna uppruna þeirra, þjóðernis, litarhafts, kyns eða kynhneigðar eða annarra þátta sem einkennir líf og lífstíl fólks.

Það er skiljanlegt að þeir sem ekki þekkja hatursorðræðu eða hafa verið þolendur hennar eigi erfitt með að skilja hana og gera sér grein fyrir afleiðingum hennar. Það er líka skiljanlegt að sumu leyti að umræðan feli í sér deilur um tjáningarfrelsi. Það sem er hins vegar ljóst er að tjáningarfrelsi felur ekki í sér rétt til þess að niðurlægja og mismuna fólki. Við lifum samkvæmt lögum og reglum um jafnrétti og bann við mismunun og þurfum því að gjöra svo vel að bregðast við þegar við verðum vitni að slíku.

Rétturinn til þess að tjá sig er einn og sér ákaflega mikilvægur en hann er einnig mikilvægur í samspili við önnur réttindi. Það felast verulegir hagsmunir í því að frjáls umræða og opinber skoðanaskipti fái að þrífast. Tjáningarfrelsið er þó vandmeðfarið og getur frelsi eins til tjáningar og grundvallarréttur annarra skarast.

Misjafnar skoðanir og jafnvel deilur hafa verið uppi um það hvort tjáning sem felur í sér hvatningu til haturs – hatursáróður – eigi að njóta verndar ákvæða um tjáningarfrelsi. Alþjóðalög leyfa þó ekki aðeins heldur krefjast þess einnig að ríkin banni ákveðna tegund tjáningar á grundvelli þess að hún grafi undan rétti annarra til að njóta jafnréttis og frelsis frá mismunun og í einstaka tilvikum á þeim grundvelli að það sé nauðsynlegt til verndar allsherjarreglu.

Það er þó mikilvægt að setja skýra verkferla og skilgreina með nákvæmum hætti hvað telst til hatursorðræðu og hver viðurlög við henni skuli vera. Því er mikilvægt að stjórnvöld komi inn í þessa vinnu sem fyrst og marki sér skýra stefnu í þessum málum. Auk þess þarf að auka fræðslu og kynningu alls staðar í samfélaginu og mikilvægt er að fjölmiðlar og stjórnmálamenn setji gott fordæmi og ýti ekki undir stðalímyndir og fordóma í samfélaginu.

Þá ættum við í sameiningu að geta stöðvað útbreiðslu þessa hættulega samfélagsmein sem hatursorðræða er.

Flokkar: Óflokkað

«

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sema Erla Serdar
29 ára stjórnmála- og Evrópufræðingur sem berst fyrir friði, frelsi og jafnrétti þegar hún er ekki að horfa á fótbolta eða leika við hundana sína.

Formaður Samfylkingarinnar í Kópavogi. Fyrrverandi formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar. Ungur jafnaðarmaður!
RSS straumur: RSS straumur