Þriðjudagur 31.5.2016 - 19:27 - FB ummæli ()

Stórsigur í baráttunni gegn hatursorðræðu á netinu!

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins skrifaði í dag undir samkomulag við Microsoft, YouTube, Twitter og Facebook sem felur í sér að berjast gegn hatursorðræðu á internetinu. Með samkomulaginu hafa fyrirtækin heitið því að berjast af meiri krafti gegn hatursorðræðu og öfgum á samfélagsmiðlum sínum.

Fyrirtækin hafa með samkomulaginu skuldbundið sig til þess að vinna með samtökum og stofnunum gegn ólöglegri hatursorðræðu á netinu og hafa lofað aðgerðum til þess að sporna gegn því að öfgar og hatur haldi áfram að breiða úr sér á internetinu. Það ætla fyrirtækin m.a. að gera með því að auðvelda notendum sínum að tilkynna hatursorðræðu sem þau sjá á miðlunum og bregðast hraðar við tilkynningunum.

Þá hafa fyrirtækin skuldbundið sig til þess að fjarlægja alla hatursorðræðu á internetinu innan 24. klst og standa fyrir fræðslu og vitundavakningu um hatursorðræðu og hvers konar efni er ekki leyfilegt samkvæmt siðareglum sem fyrirtækin hafa nú undirritað við framkvæmdastjórn Evrópusambandsins.

Hatursorðræða á internetinu hefur vaxið svo um munar síðustu misseri og er það mikið áhyggjuefni. Málefnaleg og upplýsandi umræða um málefni samfélagsins hefur orðið undir í baráttunni við hatursorðræðu, persónuárásir og netníð og því verður þetta samkomulag að teljast stór sigur í baráttunni gegn því samfélagsmeini sem hatursorðræða á internetinu er!

En hvað er hatursorðræða?

Hugtakið hatursáróður eða hatursorðræða (e. hate speech) vísar til tjáningar sem hvetur, stuðlar að eða réttlætir kynþáttahatur, útlendingahatur, gyðingahatur, eða aðrar myndir fjandsamlegs hugarfars sem byggjast á þröngsýni eða skorti á umburðarlyndi. Undir þá skilgreiningu fellur t.a.m. hörð þjóðernisstefna, mismunun og fjandskapur gagnvart minnihlutahópum, innflytjendum og fólki af innflytjendaættum. Í þessum skilningi nær hatursáróður yfir ummæli sem óhjákvæmilega er beint gegn persónu eða sérstökum hópi fólks. – Tilmæli Evrópuráðsins nr. R(97)20

Fordómar , einelti og hatursorðræða, hvort sem það eru hlutir sem fólk upplifir á internetinu eða í sínu daglega lífi, eins og td. í skóla eða á vinnustað, er samfélagsmein sem mikilvægt er að ræða, án þess að gefa þeim sem spúa slíku hatri of mikið svigrúm, til þess að finna leiðir til þess að uppræta það.

Á síðustu vikum og mánuðum höfum við hér á landi upplifað ákveðna vitundarvakningu um fordóma í íslensku samfélagi, hatursorðræðu í opinberri umræðu og netníð. Það er vonandi að þetta stóra skref sem nú hefur verið tekið í þessari baráttu verði að fyrirmynd fyrir fjölmiðla, stjórnmálamenn og aðra sem móta samfélagsumræðuna en áhrif þeirra og vald er mikið þegar kemur að því að vinna gegn hatursorðræðu á netinu!

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 17.4.2016 - 21:33 - FB ummæli ()

Tröllunum svarað, aftur!

Fyrr á árinu skrifaði ég pistil þar sem ég svaraði nokkrum af helstu upphrópunum og rangfærslum þeirra sem ala á útlendingaandúð, íslamófóbíu og andúð í garð flóttamanna nota til þess að réttlæta óhuggulegan málflutning sinn þegar þeir eru að “taka umræðuna” á netinu.

Í einhverju brjálæðislegu bjartsýniskasti hélt ég að það framlag yrði til þess að við gætum mögulega tekið “umræðuna” einu skrefinu lengra en það er auðvitað ekki hægt að taka þátt í slíkri “umræðu” enda snýst hún yfirleitt ekki um málefnið sjálft heldur persónur þeirra sem reyna að taka þátt í henni. Það er því ávallt stutt í persónuárásirnar, ofstopan og netníðið og sömu innihaldslausu frösunum er slegið fram.

Þið þekkið restina.

„Styður þú nauðganir?“

..spurði John Lawrence Lawrence mig í einkaskilaboðum á dögunum. Með þeirri spurningu er hann að gefa til kynna að ég, sem stuðningsmaður þess að Ísland axli þá ábyrgð sem fylgir því að vera þátttakandi í alþjóðlegu- og evrópsku samstarfi m.a. með því að leggja sitt að mörkum við aðstoða við þann vanda sem snýr að auknu flæði flóttamanna til Evrópu, styðji nauðgarnir á konum.

Auk þess sem mannréttindi eru varin í stjórnarskrá Íslands hefur Ísland m.a. skrifað undir Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna og Mannréttindasáttmála Evrópu, Flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna og Barnasáttmála sömu alþjóðasamstakanna. Slíkir samningar eru ekki skraut heldur fylgir þeim ábyrgð og skyldur sem Ísland, rétt eins og önnur ríki, skulu uppfylla þegar á reynir.

Úr mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna:

„Allir eiga kröfu á réttindum þeim og því frelsi, sem fólgin eru í yfirlýsingu þessari, og skal þar engan greinarmun gera vegna kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúar, stjórnmálaskoðana eða annarra skoðana, þjóðernis, uppruna, eigna, ætternis eða annarra aðstæðna.“

Ekki verður vikið frá þessum staðreyndum þó svo að Gústaf Níelsson hafi sagt í beinni um daginn að honum sé skítsama þó íslensk stjórnvöld hafi skrifað undir slíka samninga.

Með spurningu sinni er John Lawrence og skoðanabræður hans og systur (þetta er ekki í fyrsta skipti sem þessari spurningu er velt upp, þó hún sé oftar sett fram sem staðhæfing) að reyna að tengja nauðganir við málefni flóttamanna, innflytjenda og sérstaklega múslima og arabíska menningu, en þeir reyna, auðvitað meðvitað, að tengja nauðganir við fjölmenningu og sérstaklega arabíska menningu.

Það er auðvitað fráleitt að reyna að klína ógeðfelldum kynferðisafbrotum á ákveðna trúarhópa eða kynþætti og það er eins og þeir hafi aldrei heyrt af íslenskum nauðgurum. Nauðganir og aðrir kynferðisglæpir eru ógeðslegir, hvort sem gerandinn heitir Gunnar, Fernando eða Muhammer eða hvort brotið eigi sé stað á Íslandi, í Þýskalandi, Mexíkó eða Íran. Þeir sem gerast sekir um slíka glæpi skulu sæta refsingu samkvæmt þeim lögum sem gilda þar sem brotið er framið en nauðganir og aðrir kynferðisglæpir eru vandamál alls staðar. Það eru til nauðgarar, barnaníðingar, morðingjar og þjófar alls staðar – líka á Íslandi.

Það óþolandi að horfa upp á sömu öfgamennina reyna enn og aftur að nota hremmingar fólks til þess að hafa áhrif á afstöðu fólks til innflytjenda og sérstaklega flóttamanna – sem þurfa hvað mest á stuðningi og skilningi fólks að halda nú. Hræðsluáróður eins og þessi er þeim sem stunda hann til háborinnar skammar.

“Það á bara að opna landið upp á gátt” – “það er verið að eyðileggja þjóðríkið” – “Ísland úr Schengen”

Í umræðunni um málefni flóttamanna er því oft haldið fram að þeir sem vilja að Ísland leggi sitt af mörkum til þess að leysa þær áskoranir sem fylgja auknum straumi flóttamanna til Evrópu, t.d. með því að taka á móti flóttamönnum vilji “opna landið upp á gátt” og útrýma þjóðríkinu. Ok, það er svo sum óþarfi að eyða miklu púðri í slíkt þó það sé mikilvægt að koma nokkrum hlutum á framfæri.

Fólksflutningar eru ekki nýtt fyrirbæri og geta ástæðurnar fyrir þeim verið margvíslegar. Flestir þeirra sem flytjast á milli landa gera það til þess að sækja sér menntun eða vinnu. Um fólksflutninga á milli ríkja gilda lög og reglur, td. samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið sem gerir flutninga á milli samstarfsríkjanna mjög auðveldan. Það á við um flutninga Íslendinga til annarra landa rétt eins og flutninga annarra hingað. Á meðan sá samningur er í gildi verður engin breyting þar á. Erfiðara er fyrir ríkisborgara annarra ríkja en EES-ríkjanna að fá atvinnu- eða dvalarleyfi á Íslandi, sem má nú deila um hvort sé rétt.

Aðrir eru að flýja átök, ofbeldi, stríðsátök eða aðrar hörmungar og kallast þeir hælisleitendur sem óska eftir alþjóðlegri vernd í öðru ríki en heimalandinu. Um þá gilda aðrar reglur og önnur lög sem Ísland hefur skuldbundið sig til þess að framfylgja.

Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna frá árinu 1951 skilgreinir flóttamann sem þann sem „er utan heimalands síns […] og af ástæðuríkum ótta við að verða ofsóttur vegna kynþátta, trúarbragða, þjóðernis, aðildar í sérstökum félagsmálaflokkum eða stjórnmálaskoðana, og getur ekki, eða vill ekki, vegna slíks ótta, færa sér í nyt vernd þess lands; eða þann sem er ríkisfangslaus, og er utan þess lands, þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur, vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki, vegna slíks ótta, hverfa aftur þangað.

Ísland á aðild að svokölluðu Dyflinnarsamstarfi sem felur í sér viðmið sem ráða því hvaða ríki ber ábyrgð á efnislegri umfjöllun um hælisumsókn hverju sinni. Felur þetta í sér að þó að umsækjandi sæki um hæli á Íslandi þá getur verið að annað ríki beri ábyrgð á umsókn hans samkvæmt ákvæðum Dyflinnarreglugerðarinnar og verður því að afgreiða umsóknina. Þetta leiðir til þess að yfirvöld á Íslandi geta (með áherslu á geta) endursent hluta af því fólki sem sækir um hæli til þess Schengen-lands sem það kom fyrst. Íslensk stjórnvöld verða ávallt að ganga úr skugga um að hælisleitendur fái umsókn sína til meðferðar svo þeir eigi ekki á hættu að vera sendir til heimaríkis þar sem þeir verða fyrir ofsóknum. Einnig þurfa stjórnvöld að ganga úr skugga um að hættulaust sé að senda hælisleitendur til þess Schengen-ríkis sem hælisleitandinn kom fyrst til. Þannig er td. ekki hættulaust að senda hælisleitendur til Grikklands og Ítalíu í dag.

Margir halda því fram að ef Ísland segir upp aðild sinni að Schengen-samstarfinu og þar af leiðandi Dyflinnarsamstarfinu “gætum við fækkað flóttamönnum sem hingað koma.” Því er að sjálfsögðu öfugt farið. Ef Ísland tekur ekki þátt í Dyflinnarsamstarfinu þarf Ísland að afgreiða allar umsóknir um alþjóðlega vernd sem koma fram hér á landi.

“Hún vill þvinga íslensku þjóðina til fjölmenningar, múslimavæða þjóðina” – “auðvitað vill hún fylla landið af múslimum” – “hvernig getur Ísland tekið á móti öllu flóttafólkinu?”

Augljóslega getur Ísland ekki tekið á móti þeim 60 milljónum manna og kvenna og barna sem eru á flótta í heiminum og það er ekkert nema lélegur útúrsnúningur að koma með slíkar fullyrðingar. Það gerir lítið úr vandanum sem við stöndum frammi fyrir en flóttamenn hafa aldrei verið fleiri. Það er heldur ekki hægt að segja að “við eigum bara að hjálpa þessu fólki heima hjá sér” því flóttamenn eiga hvergi heima.

Ísland hreinlega verður að leggja meira af mörkum vegna þess gríðarlega fjölda flóttafólks í heiminum og veita fórnarlömbum stríðsátaka skjól og vernd. Ein leið til þess er að auka fjölda kvótaflóttamanna sem hingað koma. Sem dæmi gætu íslensk stjórnvöld skuldbundið sig til þess að taka á móti 500 kvótaflóttamönnum á næstu tveimur árum. Á því tímabili gæfist stjórnvöldum tími til að undirbúa áætlun um móttöku flóttamanna í samvinnu við Flóttamannahjálpina þannig að Ísland taki á móti flóttafólki til samræmis við íbúafjölda og efnahag landsins.

Ekkert lát virðist vera á straumi flóttamanna til Evrópu og því er mikilvægt að ákvörðun um þann fjölda flóttamanna sem Ísland tekur á móti á næstu árum sé tekin af yfirvegun og á upplýstann hátt. Hversu margir það verða mun svo koma í ljós, talan hér að ofan er einungis dæmi.

Það er líka rætt um hverjum íslensk stjórnvöld eiga að taka á móti. Margir vilja að kristnir flóttamenn séu teknir fram fyrir aðra en hinir sömu halda því fram að þeir sem ekki taka undir slíkt vilji “fylla landið af múslimum.” Ljóst er að í samráði við Flóttamannhjálp Sameinuðu þjóðanna tekur ríkisstjórnin ákvörðun um hverjir koma hingað sem kvótaflóttamenn. Eðlilega fer sú “forgangsröðun” hverju sinni eftir því hverjir þurfa hvað mest á hjálp að halda. Það getur verið fjölskylufólk, það geta verið börn sem eru ein á flótta, það geta verið ungir menn sem eru að flýja það að þurfa að ganga í her ISIS og það geta verið fatlaðar konur sem eru einar á flótta og það geta verið kristnir minnihlutahópar sem eru að flýja hryðjuverkamenn. Ljóst er að flóttamenn eru fjölbreyttur hópur og því ber að treysta að ábyrgðaraðilar láti þá sem eru í hvað mestri hættu hverju sinni ganga fyrir.

“Ísland er kristin þjóð” – “standa þarf vörð um hin kristnu gildi” – “bönnum Íslam á Íslandi”

Í stjórnarskrá Íslands segir:

“allir eiga rétt á að stofna trúfélög og iðka trú sína í samræmi við sannfæringu hvers og eins. Þó má ekki kenna eða fremja neitt sem er gagnstætt góðu siðferði eða allsherjarreglu”

og

“enginn má neins í missa af borgaralegum og þjóðlegum réttindum fyrir sakir trúarbragða sinna, né heldur má nokkur fyrir þá sök skorast undan almennri þegnskyldu”

sem og:

“allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.”

Bann við mismunun er staðfest í sömu stjórnarskrá og ver tjáningarfrelsi þeirra sem hafa ekkert til umræðunnar að leggja nema hatur, útlendingaandúð, íslamófóbíu og fordóma.

Sama stjórnarskráin og ver íslensku þjóðkirkjuna ver rétt annarra til þess að trúa á það sem þeir vilja og rétt þeirra til þess að iðka trú sína. Það er óábyrgt að halda því fram að banna eigi ein trúarbrögð en ekki önnur.

Sama stjórnarskrá ver mannréttindi okkar allra en því miður virðast margir vera tilbúnir til þess að fórna þeim réttindum fyrir ákveðinn hóp í samfélaginu, sem við eigum öll og byggjum saman, til þess að fullnægja einhverri tilfinningafroðu um öryggi og ótta sem verður til út frá þjóðernishyggju þeirra sem telja sig yfir aðra hafna vegna þess hvar þeir eru fæddir eða á hvað þeir trúa.

Svo þetta með kristnu gildin. Hin raunverulegu gildi íslensku þjóðarinnar sem mikilvægt er að sameinast um eru mannréttindi, frelsi, virðing og réttlæti. Hin raunverulegu íslensku gildi endurspeglast í samfélagi  þar sem allir eru jafnir, einstaklingum er ekki mismunað vegna uppruna, trúar, þjóðernis, menningar eða öðru sem einkennir þeirra persónu og líf, td. kynhneigð eða fötlun. Þar sem allir hafa sama aðgang að mannréttindum og grundvallarréttindum einstaklingsins. Það ætti að ríma gildi hinna kristnu, ekki satt?

Að lokum,

að læra á nýja menningu og nýja þjóðfélagshætti er alls ekki vandalaust og getur verið sársaukafullt ef skilningur, virðing og umburðalyndi meirihlutans er ekki fyrir hendi. Því kynntust td. íslensku versturfararnir og okkur er hollt að minnast þess þegar við tökum á móti nýjum íbúum á Íslandi.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 12.4.2016 - 18:24 - FB ummæli ()

Að skapa samfélag friðar og samstöðu!

Samkvæmt Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna eru meira en 60 milljónir á flótta í heiminum í dag. Helmingurinn af þeim er börn. Vegna aukinna átaka, borgarastyrjalda og ofbeldis í Mið-Austurlöndum og Afríku hefur hlutfall þeirra sem óskað hafa eftir alþjóðlegri vernd vaxið svo um munar síðustu ár og ljóst er að ekkert lát verður þar á næstu árin.

Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna áætlar að meira en ein milljón einstaklinga hafi komið sjóleiðina til Evrópu árið 2015. Það er dropi í hafið ef litið er á heildarmyndina. Meira en helmingurinn af þeim sem hafa komist lífs af yfir til Evrópu eru konur og börn en 30% þeirra sem drukknuðu á Miðjarðarhafinu í fyrra voru börn. Mikil aukning hefur verið á því að ungar stúlkur og fatlaðir einstaklingar leggi á flótta og ljóst er að ástandið er grafalvarlegt.

Evrópa stendur frammi fyrir gríðarlegri áskorun. Lík rekur upp á strendur Evrópu, örvæntingarfullir hælisleitendur krækja sér undir lestarvagna, gaddavírsgirðingar eru settar upp innan landamæra Evrópu, eigur flóttamanna eru teknar af þeim, fjölskyldum er gert erfitt að sameinast, ofbeldisfullar árásir eru gerðar á flóttamannamiðstöðvar, hrækt er á börn, ráðist er á flóttamenn og aðra sem ekki eru innfæddir og getuleysi evrópskra stjórnvalda veldur áhyggjum.

Samhliða því vex þjóðernishyggja og fordómar aukast í evrópskum samfélögum, samtök og stjórnmálaflokkar sem ala á útlendingaandúð og múslimahatri eru stofnaðir og þeir sem þegar voru til stækka hratt. Reiðin beinist að ákveðnum hópum í samfélaginu og mismunun virðist vera meginstefið í áróðri þeirra sem ala á ótta og andúð í garð náungans.

Þar er Ísland engin undantekning.

Fólksflutningar eru ekki nýtt fyrirbæri og geta ástæðurnar fyrir þeim verið margvíslegar.Flestir þeirra sem flytjast á milli landa gera það til þess að sækja sér menntun eða vinnu. Aðrir eru að flýja átök, ofbeldi, stríðsátök eða aðrar hörmungar eins og lýst er hér að ofan.

Þannig eru hátt í 10% af íslensku þjóðinni skilgreindir sem innflytjendur. Hingað koma einstaklingar, menn, konur, börn og fjölskyldur sem óska eftir alþjóðlegri vernd. Auk þess hefur Ísland skuldbundið sig til þess að taka á móti svokölluðum kvótaflóttamönnum sem eru að flýja stríðsástand og hingað hafa á síðustu mánuðum komið nokkrar flóttafjölskyldur frá Sýrlandi.

Á umrótartímum eins við stöndum frammi fyrir núna er mikilvægt að muna að íslensku samfélagi hefur ekki og mun ekki stafa ógn af innflytjendum, fjölmenningu eða flóttamönnum sem hingað koma, sem eiga ekkert skylt við hryðjuverkamenn, nema að því leyti að þeir eru að flýja vígamenn hryðjuverkasamtaka í Sýrlandi og nágrannaríkjunum.

Um er að ræða menn, konur og börn sem ekki hafa gert neinum neitt nema að hafa fæðst í Sýrlandi. Um er að ræða milljónir manna sem eru fórnarlömb stríðs sem þau eiga engan þátt í að hafa skapað. Þrátt fyrir það er búið að brennimerkja þau, láta þeim líða eins og þau séu óvelkomin og byrði fyrir þennan og hinn sem kvartar undan því að verið sé að ráðast á trú þeirra og menningu með því að taka á móti flóttamönnum, sem er einmitt það sem hryðjuverkamennirnir vilja – að sundra okkur, að ýta undir ótta og hatur, að brjóta upp friðinn og samstöðuna í samfélaginu.

Það er mikilvægt að muna að við erum öll fyrst og fremst fólk, sama hvar við fæðumst, hvernig við erum á litinn eða hvað við trúum á. Við eigum öll sama rétt á mannréttindum, réttlæti og velferð. Það besta sem við getum gert núna er að hjálpast að, taka vel á móti þeim sem hingað koma og gera okkar besta til þess að tryggja að allir sem hér eru fyrir og þeir sem hingað koma verði virkir þátttakendur í samfélaginu. Þar skipta móttökurnar mestu máli.

Ef vel á að takast til þurfa stjórnvöld og aðrir viðeigandi aðilar, fjölmiðlar og almenningur að vinna saman. Það er td. eðlilegt að í fjölmenningarsamfélagi fái allir hópar að halda sinni eigin menningu, tungumáli og einkennum en tileinki sér á sama tíma ríkjandi menningu. Til þess þarf m.a. gott aðgengi að upplýsingum og því er ábyrgð yfirvalda mikil þegar kemur að því að tryggja að þeir sem hingað koma geti tileinkað sér ríkjandi hefðir og venjur, reglur og skyldur. Ljóst er að mun betur megi gera í þeim málum.

Ábyrgð fjölmiðla og kjörinna fulltrúa er líka mikil. Vald þeirra er mikið og þeir vita það. Þeir setja svip sinn á samfélagsumræðuna og geta þar með, meðvitað eða ómeðvitað, ýtt undir staðalímyndir hjá fólki, hvort sem þær eru góðar eða slæmar, en slæmar staðalímyndir ýta undir fordóma og ótta. Í síðustu skýrslu sinni hvatti ECRI íslensk stjórnvöld til að koma fjölmiðlum í skilning, án þess að ganga á ritstjórnarlegt frelsi þeirra, um mikilvægi þess að tryggja að umfjöllun í fjölmiðlum stuðli ekki að neikvæðu viðhorfi og andúð í garð minnihlutahópa, þ.m.t. innflytjenda, múslima og gyðinga. Ekki er hægt að segja að því hafi verið framfylgt að miklu leyti.

Loks þarf almenningur að vera tilbúinn að leggja sig fram til þess að gera þetta ferli sem auðveldast fyrir alla. Til þess að það takist þurfum við að vera opin fyrir því að kynnast einhverju nýju og jafnvel kenna öðrum eitthvað nýtt. Við þurfum að gera meira að því að hittast, eyða tíma saman, spyrja, kenna, aðstoða og sýna að okkur er ekki sama hvort um annað. Við getum eflaust öll lært af slíku fyrirkomulagi.

Það er íslensku samfélagi til gæfu að hingað flytjist fólk til þess að finna starfskröftum sínum, hugviti og hæfileikum farveg. Það er Íslandi til sóma að leggja sitt af mörkunum og aðstoða þá sem hafa þurft að flýja heimaland sitt vegna átaka. Þátttaka nýrra íbúa er mikilvæg fyrir samfélagið í heild sinni og því er mikilvægt að leita leiða til að jafna stöðu einstaklinga og hópa í fjölmenningarlegu samfélagi og stuðla þannig að félagslegu jafnrétti og réttlæti og koma í veg fyrir vaxandi rasisma og þjóðernisrembing.

Það er núna sem við ákveðum hvernig samfélag okkar og komandi kynslóða verður. Það samfélag sem við byggjum og skiljum eftir fyrir næstu kynslóð á ekki að vera samfélag sem elur á þjóðernisrembingi, fordómum og ótta við nágrannann heldur samfélag sem byggist á umburðarlyndi, samstöðu og réttlæti. Leyfum öfgunum ekki að sigra. Hjálpumst að við að skapa samfélag friðar og samstöðu.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 11.3.2016 - 14:49 - FB ummæli ()

Ísland über alles, p. II.

Það hlýtur að fara hrollur um hvern þann sem hefur fylgst með opinberri umræðu um málefni flóttamanna og hælisleitenda síðustu daga. Því miður blandast sú umræða oft við umræðuna um málefni innflytjenda á Íslandi sem og umræðu sem snýr að trúarbrögðum og gagnrýni eða skort á gagnrýni á þau (hver sem trúarbrögðin  eru) en það hentar vel þeim sem ala á ótta og hatri.

Umræðan um þessi mál, sem andstæðingum fjölmenningar og alls hins sem er öðruvísi, hefur því miður tekist að samtvinna í eina umræðu, hefur haldið áfram að harðna á síðustu dögum (vægt til orða tekið) í kjölfar þess að samtökin hermenn óðins/soldiers of odin komu fram á sjónarsviðið og hin íslenska þjóðfylking var stofnuð. Til þess að gera hlutina enn verri hafa kjörnir fulltrúar á Alþingi viðrar svipaðar skoðanir og fyrrnefnd samtök. Jú, það er víst rétt, enda hefur td. einum háttvirtum þingmanni verið boðin aðild að íslensku þjóðfylkingunni. Já, ég er að tala um þig Ásmundur.

Umræðan er komin á það stig að fólk er tilbúið til þess að viðra opinberlega skoðanir eins og að það „íhugi nú að sækja sér byssuleyfi“ – að þeir sem „vilja taka á móti þessum gæludýrum séu landráðamenn og föðurlandssvikarar“ og „frelsi og fullveldi okkar sé í hættu vegna þessara skrímsla og hættulegu ónytjunga.“ Aðrir eru tilbúnir til þess að fórna trúfrelsinu í stjórnarskránni „enda sé verið að af-kristna landið og íslamsvæða það.“

Eins og það sé ekki nóg þá er fólk nú tilbúið til þess að skreyta sig með hakakrossinum undir yfirskriftinni „Íslandi alt“ (já, það er bara eitt L í yfirskriftinni) og lýsir yfir hollustu við „foringjann“ á opinberum vettvangi. Fólk sem „venjulega myndi ekki drepa flugu er tilbúið til þess að nota keðjur og önnur vopn á múslima – svo mikið hatar það og fyrirlítur múslimana.“

Já, þetta er Ísland í dag. Popúlismi, útlendingaandúð, hatur á múslimum og íslamófóbía hefur sjaldan verið jafn áberandi í íslensku samfélagi og íslenskri umræðuhefð. Skalinn hefur verið sprengdur.

Á sama tíma eru meira en 60 milljónir einstaklinga á flótta í heiminum. Helmingurinn af þeim eru börn. Mikil fjölgun er á því að ungar stúlkur, konur og fatlaðir einstaklingar leggja á flótta frá stríði, átökum, dauða og öðrum hörmungum og konur og börn eru nú um helmingur þeirra sem komist hafa lífs af til Evrópu. Ekki jakkafataklæddir hryðjuverkamenn með Iphone eins og ofangreindir hópar og einstaklingar halda oft fram.

Um ein milljón af þessum 60 milljónum hefur komist lífs af til Evrópu. Það er dropi í hafið. Það er ekki vandamál, eins og margir vilja halda fram, það er stórt ákall um hjálp. Ákall sem er svarað með táragasi, ofbeldi, misnotkun og ömurlegu aðgerðarleysi ráðamanna í allri Evrópu og víðar. Ákall sem er svarað með uppgangi nasista, fasista og annarra öfgaafla sem m.a. einkennast af rasisma og múslimahatri, já ég segi hatri.

Flóttamenn eru ekki vandamál. Vandamálið er getuleysi ráðamanna í Evrópu. Vandamálið er þeir sem sitja í upphituðu húsunum sínum og ala á ótta og hræðslu um konur okkar og samfélag, kristin gildi og hefðir á meðan það er verið að stráfella fólk, börn drukkna á Miðjarðarhafinu og deyja úr ofkælingu og verið er að leggja landsvæði í rúst. Vandinn er þeirra sem hafa misst allt, orðið fyrir hörmulegum áföllum og upplifað veruleika sem við þorum ekki að ímynda okkur að sé til. Vandinn er ekki þeirra sem sitja heima og ala á ótta og hatri.

Að sama skapi eru flóttamenn ekki hættulegir, þeir eru að flýja hættu. Þeir sem reyna að réttlæta andúð sína á útlendingum, hatur sitt á öllu sem er öðruvísi og þjóðernisrembing með dassi af rasisma, eru þeir sem eru hættulegir íslenskum gildum og hefðum sem byggja á umburðalyndi, virðingu, frelsi og réttlæti. Fordómar, ótti og hatur eru hættuleg öllum samfélögum.

Flóttamenn eru fyrst og fremst fólk eins og ég og þú. Einstaklingar sem þurfa á okkar hjálp að halda því þeir hafa misst allt. Skömmin er og verður alfarið þeirra sem reyna að nýta sér hörmungar og sorg þeirra sem nú eru á flótta í pólitískum tilgangi, sbr. suma ráðamenn hérlendis og nýstofnaðan rasistaflokk. Íslenskum samfélagsgildum stafar ógn af þeim.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 28.2.2016 - 19:54 - FB ummæli ()

Ísland über alles?

Í þó nokkurn tíma hefur mikið verið talað um pólitíska jarðskjálfta í Evrópu þar sem stjórnmálaflokkar og aðrir formlegir og óformlegir hópar sem eiga það sameiginlegt að ala á þjóðernishyggju, innflytjendaandúð, andúð á múslimum og andúð á fjölmenningarsamfélaginu (sem í dag einkennir flest ríki Evrópu) hafa verið að tröllríða hinum pólitíska vettvangi og m.a. komist í valdastöður í sumum ríkjum. Að sjálfsögðu var auðvitað bara tímaspursmál hvenær þessi þróun myndi ná til Íslands fyrir alvöru.

Allt frá því að frambjóðendur Framsóknar og flugvallarvina opnuðu box pandóru í síðustu borgarstjórnarkosningum og tókst að normalísera þjóðernishyggju, rasisma og útlendingaandúð í opinberri samfélagsumræðu – og tryggðu sér þannig tvo borgarfulltrúa – hafa fjölmargar viðvörunarbjöllur hringt og nú er komið að því, uppgangur öfgaafla er orðinn að raunveruleika á Íslandi.

Þegar Framsókn og flugvallarvinir ákvaðu að keyra á síðasta mögulega útspilinu til þess að sækja sér fylgi, því ljótasta sem hægt er að hugsa sér í stjórnmálum, fengur þeir einstaklingar sem höfðu að mestu legið á skoðunum sínum ekki bara meðbyr og stuðning heldur griðarstað fyrir óhuggulegar skoðanir sínar. Framsóknarflokkurinn varð á einni nótu sú fyrirmynd sem þennan hóp hafði vantað og í kjölfarið stigmagnaðist umræðan um innflytjendamál hér á landi.

Það var fyrirsjáanlegt að einhverjir einstaklingar myndu sjá í þessu tækifæri en þar til í gær höfðu þetta að mestu verið óformlegir og fámennir internethópar sem sóttu fyrirmynd sína til hópa á Norðurlöndum og annarra nágrannaríkja okkar. PEGIDA (Þýskaland), Hermenn Óðins (Finnland) og The Icelandic Defence League (Bretland) eru bara nokkur dæmi. Já, þetta er svona frumlegt.

Í gær var síðan hins íslenska þjóðfylking stofnuð. Íslenski popúlisminn, útlendingaandúðin, hatrið og hræðsluáróðurinn hefur komið sér fyrir í sérstökum stjórnmálaflokki. Samkvæmt stefnuskrá þeirra eru þeir sem standa að baki þjóðfylkingarinnar tilbúnir til þess að troða á mannréttindunum þínum, trúfrelsinu okkar og grundvallarréttindum einstaklingsins og í þágu hvers?

Íslensku samfélagi stafar ekki nokkur ógn af innflytjendum, fjölmenningu eða öðrum trúarbrögðum en við höfum hingað til kynnst. Íslensku samfélagi stafar ógn af öflum sem telja sig yfir aðra hafna vegna þjóðernis, kynþáttar, litarhafts, trúarbragða, menningar eða annarra slíkra þátta.

Friður, frelsi, jafnrétti, mannréttindi, réttlæti og velferð eru á meðal gilda íslensku þjóðarinnar. Aldrei hafa þessi gildi staðið frammi fyrir jafn hættulegri ógn og í dag. Það eru hins vegar ekki flóttamenn eða innflytjendur sem ógna þessum gildum heldur öfga-hægriöfl eins og íslenska þjóðfylkingin.

Marine Le Pen, Geert Wilders og aðrir evrópskir fasistar hafa eignast systurflokk á Íslandi. Þau hljóta að vera ánægð. Það er hins vegar mikilvægt að íslenska þjóðin standi saman gegn þeirri stórhættulegu þróun sem felst í stofnun íslensku þjóðfylkingarinnar – sjáið bara hina frönsku! Það er mikilvægt að íslenska þjóðin sammælist um það að verja hin raunverulegu íslensku gildi.

Við erum öll fyrst og fremst fólk, sama hvar við fæðumst, hvernig við erum á litin eða hvað við trúum á. Mannréttindi eiga að vera ofar öllu, alltaf. Líka á Íslandi.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 23.2.2016 - 19:21 - FB ummæli ()

„Voða lítið um að semja“

Í tilefni af því að David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, hefur boðað til þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Breta að Evrópusambandinu, eftir að hafa samið við aðra leiðtoga Evrópusambandsins um breytingar á sambandi Bretlands og ESB, er umræðan um sérlausnir og undanþágur komin á kreik á nýjan leik.

Það er þrátt fyrir að Cameron er nýbúinn að semja við ESB um frávik frá grunnreglum og lögum Evrópusambandsins og nýlegri þjóðaratkvæðagreiðslu Dana um nokkrar af fjölmörgum undanþágum og sérlausnum sem þeir hafa samið um frá samstarfi ESB, m.a. í dóms- og innanríkismálum ESB.

Það er því við hæfi að rifja upp nokkrar af þeim sérlausnum og undanþágum, varanlegum og tímabundnum, sem aðildarríki ESB hafa samið um í aðildarviðræðum sínum.

Það virðist vera nokkuð almennt að í aðildarsamningum sé samið um tímabundnar undanþágur, eða aðlögunarfresti, til dæmis frest til þess að innleiða tiltekna löggjöf ESB eða til þess að afnema reglur sem eru ekki í samræmi við stofnsáttmála eða löggjöf ESB. Sem dæmi má nefna að í samningaviðræðunum fyrir stækkun ESB árið 2004, þegar tíu ríki Mið- og Austur-Evrópu gengu í sambandið, var samið um tímabundin aðlögunartímabil í fjöldamörgum tilvikum.

Það er nauðsynlegt að skilja að af hálfu ESB er lögð áhersla á að lítð sem engar varanlegar undanþágur eru veittar í aðildarsamningum enda er markmiðið að sem mest lagalegt samræmi ríki innan ESB, annars væri erfitt fyrir sambandið að ganga upp í þeirri mynd sem það starfar, en ESB byggir á sameiginlegri löggjöf aðildarríkjanna. Þrátt fyrir það hafa Danir og Bretar varanlega undanþágu frá evrusamstarfi sambandsins, en öll aðildarríki eiga að taka upp evruna sem gjaldmiðil á einhverjum tímapunkti.

Hins vegar er það staðreynd að aðstæður í umsóknarríkjum geta verið mjög ólíkar. Algengast er að komið sé til móts við mikilvæga hagsmuni nýrra aðildarríkja með tímabundnum undanþágum auk þess sem gripið hefur verið til þess ráðs að búa til svokallaðar sérlausnir sem eiga við á tilteknu sviði um tiltekið ríki, frekar en varanlegar undanþágur.

Dæmi um varanlega undanþágu má nefna að Svíar eru undanþegnir almennu banni í regluverki ESB við viðskiptum með munntóbak (sæ. snus). Annað dæmi um varanlega undanþágu er heimild Finnlands og Svíþjóðar til að viðhalda fyrirkomulagi sínu á ríkiseinkasölu áfengis við inngönguna í sambandið árið 1995.

Dæmin um sérlausnir sem umsóknarríki hafa fengið eru mörg. Eitt þekktasta dæmið um sérlausn er að finna í aðildarsamningi Danmerkur, en Danir fengu að viðhalda löggjöf sinni um kaup á sumarhúsum í landinu, en samkvæmt henni mega aðeins þeir sem hafa verið búsettir í Danmörku í a.m.k. fimm ár kaupa sumarhús í landinu. Árið 2004 var Möltu veitt sambærileg undanþága varðandi kaup á húseignum á eyjunni, með vísan til takmarkaðs fjölda húseigna og takmarkaðs landrýmis. Í báðum tilvikum er um að ræða frávik frá meginreglunni um frjálst flæði fjármagns.

Þá er í aðildarsamningi Möltu að finna bókun um að Malta megi viðhalda löggjöf sinni um fóstureyðingar, en sambærilegt ákvæði varðandi Írland er að finna í bókun með Maastricht sáttmálanum 1992.

Þá má finna ýmis dæmi um sérlausnir sem taka tillit til sérþarfa í landbúnaði. Þekktasta dæmið er eflaust að finna í aðildarsamningi Finnlands og Svíþjóðar en sú sérlausn felst í því að Finnum og Svíum var heimilt að veita sérstaka styrki vegna landbúnaðar á norðurslóðum (þ.e. norðan við 62. breiddargráðu). Sú sérlausn felur í sér að þeir mega sjálfir styrkja landbúnað sinn sem nemur 35% umfram önnur aðildarlönd. Þá sömdu Finnar einnig um að styrkja megi svæði sem eiga í alvarlegum erfiðleikum með aðlögun að hinni sameiginlegu landbúnaðarstefnu ESB og Finnar hafa nýtt það ákvæði til að semja við ESB um sérstuðning fyrir Suður-Finnland.

Þá sömdu Bretar og Írar um stuðning við harðbýl svæði (Less Favoured Area, LFA) þegar þau ríki gengu í ESB, og önnur ríki sömdu einnig um þann stuðning í samningaviðræðum sínum. Grikkir fengu sérákvæði um bómullarframleiðslu í aðildarsamning sinn, en bómullarrækt var álitin mjög mikilvæg fyrir grískan efnahag.

Malta og Lettland sömdu um tilteknar sérlausnir í sjávarútvegi, Finnar, Svíar og Austurríkismenn sömdu um hæstu styrki úr uppbyggingarsjóði ESB fyrir svæði sem hafa átta eða færri íbúa á hvern ferkílómetra, en í þeim flokki eru að öðru leyti svæði sem hafa verga landsframleiðslu á mann undir 75% af meðaltali ESB.

Í aðildarsamningi Króatíu, sem gekk í Evrópusambandið árið 2013, má sjá að samið var um fjölmargar tímabundnar undanþágur og aðlaganir að reglum ESB. Vegna sérstakra landfræðilegra aðstæðna í Króatíu, sem er skipt í tvö ótengd landsvæði með nesi sem tilheyrir Bosníu og Hersegóvínu og nær út í Adríahaf, óskuðu króatísk stjórnvöld eftir undanþágu frá ákvæðum tilskipunar um meginreglur um skipulag dýraheilbrigðiseftirlits með afurðum sem fluttar eru inn til bandalagsins frá þriðju löndum. Niðurstaða aðildarviðræðnanna um þetta atriði var sú að Evrópusambandið og Króatar sömdu um sérlausn.

Mörg aðildarríki ESB hafa þar að auki fengið undanþágur á sviði skatta og vörugjalda á ákveðnum mikilvægum vörum. Sem dæmi má nefna vörugjöld á ákveðnar víntegundir í Austurríki, Búlgaríu og Rúmeníu og tilteknar tegundir eldsneytis í Svíþjóð og Finnlandi.

Erfitt myndi reynast að finna dæmi um að ríki hafi óskað eftir ákveðinni sérlausn eða varanlegri undanþágu er varðar sérstakar aðstæður eða mikla þjóðarhagsmuni, og ekki fengið.

Að lokum er mikilvægt að nefna að aðildarsamningar þeirra ríkja sem ganga í ESB hafa sömu stöðu og stofnsáttmálar ESB. Ákvæðum þeirra, þar á meðal sérlausnum og undanþágum, verður því ekki breytt auðveldlega, en til þess þarf samþykki allra aðildarríkja.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 18.2.2016 - 17:14 - FB ummæli ()

Lögbrot á börnum: opið bréf til barnaverndarstofu

börnáflótta

Kæri Bragi, forstjóri Barnaverndarstofu,

ég skrifa þér þetta bréf eftir að hafa legið andvaka vegna frétta af hælisleitandi börnum sem hafa komið hingað án fylgdar og eru annað hvort vistuð á sama stað og fullorðnir hælisleitendur eða á Stuðlum, sem eru greiningar- og meðferðarúrræði fyrir unglinga á aldrinum 12- 18 ára sem glíma meðal annars við hegðunarörðugleika og vímuefnavanda.

Ég hef miklar áhyggjur af því að hér sé verið að brjóta Mannréttindasáttmála Evrópu, Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og flóttamannasáttmálann, alla á einu bretti.

Samkvæmt Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna eru meira en 60 milljón einstaklinga á flótta í heiminum. Helmingurinn af þeim eru börn. Börn á flótta er sérstaklega viðkvæmur hópur sem mikilvægt er að hlúa að. Fyrir utan öryggi þeirra og grundvallarréttindi sem ekki eru tryggð eiga börn á flótta frekar á hættu að verða fórnarlömb misnotkunar, kúgunar, ofbeldis, vændis eða mansals auk þess sem þau geta auðveldlega orðið fyrir öðrum áföllum, andlegum og líkamlegum, sem geta skaðað þau fyrir lífstíð.

Börn á flótta eru fyrst og fremst börn og því ætti það að vera forgangsatriði að tryggja öryggi og hagsmuni þeirra. Það er m.a. gert með því að koma þeim sem allra allra fyrst í umsjá fósturfjölskyldna. Þannig verður að tryggja aðgengi þeirra að menntun, heilsugæslu, heilbrigðu umhverfi og rétti þeirra til þess að fá að vera börn. Þar sem til Íslands eru komin börn á flótta er það skylda okkar að tryggja einmitt það.

Vissulega getur tekið tíma að koma börnum í fóstur en ég á bágt með að trúa því að það sé jafn erfitt og flókið hér eins og td. í Ungverjalandi þar sem straumur flóttamanna er gífurlegur og það er óásættanlegt að hafa þessi börn í þeim aðstæðum sem þau eru í núna og hafa verið samkvæmt fréttum mánuðum saman.

Það telst til grundvallarréttinda barna að þau hafi forráðamenn. Þar til börnum á flótta er komið í hendur fósturfjölskyldna eru hins vegar nokkrir hlutir sem börn á flótta eiga og mega alls ekki búa við, með tilliti til öryggis þeirra, verndunar, þarfa og möguleika á eðlilegu lífi í framtíðinni.

Börn á flótta eiga á sérstakri hættu að verða fórnarlömb kynferðisofbeldis eða annars konar misnotkunar. Slík misnotkun getur til dæmis átt sér stað á móttökustöðvum fyrir flóttamenn þar sem fullorðnir hælisleitendur og börn sem ekki þekkjast sofa á sama stað. Það er því óásættanlegt að þessi börn á flótta sem hér eru án fylgdar séu vistuð á sama stað og fullorðnir hælisleitendur. Þetta þarf að leysa strax!

Í öðru lagi er aldrei, ALDREI, í lagi að setja fylgdarlaust barn á flótta á stað eins og Stuðla, sem er, eins og áður sagði, meðferðarúrræði fyrir unglinga sem glíma meðal annars við hegðunarörðugleika og vímuefnavanda. Það er hreinlega galið.

Fylgdarlaus börn á flótta hafa upplifað hluti sem flest okkar þora ekki að ímynda sér að hægt sé að upplifa. Fjölskylda þeirra gæti hafa verið drepin, tekin föngum, dáið á flótta eða hreinlega bara týnst. Það eitt er veruleiki sem flestir þora ekki að ímynda sér að sé til.

Börn á flótta geta hafa leiðst út í vændi til þess að sjá fyrir sér, þau gætu hafa orðið fórnarlömb mansals eða upplifað aðrar aðstæður sem flest okkar þekkja bara að bíómyndum.

Það er mikil hætta á að börn sem upplifa slíkt stöðvist í þroska, hætti að tala og glími við alls konar líkamlega og andlega kvilla. Það er því gríðarlega óábyrgt að vista börn sem eiga á slíkri hættu á stað þar sem aðgengi er skert, þau upplifa innilokun og hálfgerða fangavist, þar sem þau ekki fá þá umönnun og þjónustu sem þau þurfa á að halda, svæði til leiks og möguleika á samskiptum við aðra.

Það er grafalvarlegt mál að svona sé fyrir þessum börnum komið. Það þarf að bregðast við þessu strax og koma börnunum í eðlilegt umhverfi, áður en þau hljóta varanlegan skaða af.

Hvernig er hægt að vera svona ábyrgðalaus þegar verið er að ræða um mannslíf? Líf barns.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 7.2.2016 - 22:03 - FB ummæli ()

Hver er að hugsa um börnin?

ShowImage

[Lengri útgáfu af þessari grein má finna í Kvennblaðinu]

Samkvæmt Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna eru meira en 60 milljón einstaklinga á flótta í heiminum. Helmingurinn af þeim eru börn. Vegna aukinna átaka, borgarastyrjalda og ofbeldis í Mið-Austurlöndum og Afríku hefur hlutfall þeirra sem sótt hafa eftir alþjóðlegri vernd vaxið svo um munar síðustu ár og ljóst er að ekkert lát verður þar á næstu árin.

Börn á flótta er sérstaklega viðkvæmur hópur sem mikilvægt er að hlúa að. Fyrir utan öryggi þeirra og grundvallarréttindi sem ekki eru tryggð eiga börn á flótta eiga frekar á hættu að verða fórnarlömb misnotkunar, kúgunar, ofbeldis, vændis eða mansals og verða frekar fyrir áföllum en fullorðnir auk þess sem þau eiga hreinlega á meiri hættu að deyja á flótta. Börn á flótta þurfa því á aukinni vernd að halda.

Árið 2014 sóttu 144.550 börn um hæli innan Evrópusambandsins (ESB). Árið 2015 var fjöldi barna yngri en 18 ára sem sóttu um hæli orðinn a.m.k. 363.890, eða 29% allra hælisleitenda. Stofnun umboðsmanna barna og réttinda þeirra hefur gert úttekt á stöðu þeirra barna sem nú eru á flótta í heiminum sem varpar skýru ljósi á þær hörmungar sem börnin upplifa. Kallað hefur verið eftir því að ráðamenn Evrópu og Evrópusambandsins hefji strax aðgerðir til þess að lágmarka skaðann sem börn verða fyrir á flótta.

Börn eru fyrst og fremst börn

Börn á flótta eru fyrst og fremst börn og því ætti það að vera forgangsatriði hjá ráðamönnum í Evrópu að tryggja öryggi og hagsmuni barna þegar kemur að aðgerðum vegna málefna flóttamanna og hælisleitenda. Svo hefur hins vegar ekki verið. Það ríkir neyðarástand.

Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna áætlar að meira en ein milljón einstaklinga hafi komið sjóleiðina til Evrópu árið 2015. 25% af þeim eru börn. Vegna skorts á löglegum leiðum til þess að komast til Evrópu, og sérstaklega til aðildarríkja Evrópusambandsins, til þess að sækja um hæli fara flest öll börn ólöglegar leiðir til þess að komast yfir til álfunnar. Það gera þau t.d. með því að fara með smyglurum á troðfullum bátum en afleiðingin er sú að 30% þeirra sem drukknuðu í Miðjarðarhafinu á síðasta ári voru börn.

Mörg þeirra barna sem komast yfir til Evrópu og mögulega í skjól hafa týnt foreldrum sínum einhvers staðar á leiðinni en fyrir utan troðfulla bátana sem ferðalagið hefst í er oftar en ekki mikil ringulreið á landamærum Evrópu og í móttökustöðvunum fyrir flóttamenn og því er stórt hlutfall þeirra barna sem eru á flótta án fylgdar fullorðinna. Fleiri en 35.000 börn án fylgdar sóttu um hæli í Svíþjóð árið 2015. Útlit er fyrir að hlutfall stúlkna á flótta án fylgdar fari hækkandi. Hið sama á við um fötluð börn.

Það er enginn dans á rósum sem bíður þeirra barna sem komast á lífi yfir til Evrópu. Mörg þeirra eru blaut og köld og mörg þeirra ofkælast þegar þau koma á land sem getur valdið frekari veikindum, meðal annars lungnabólgu, og sum þeirra deyja vegna ofkælingar. Þetta á sérstaklega við á köldum vetrardögum eins og við upplifum nú og á sérstaklega við um nýfædd börn og smábörn.

Veturinn er mikið áhyggjuefni fyrir börn á flótta. Fyrir utan lélega aðstöðu á mörgum móttökustöðvum fyrir flóttamenn þar sem hreinlæti er m.a. oft ábótavant og skortur er á heitu vatni, hita og góðri klósettaðstöðu er minna en helmingur móttökustöðvanna undirbúinn fyrir veturinn, sem felst m.a. í því að vera með hlý föt til þess að koma í veg fyrir frekari veikindi barnanna.

Hætta á kynferðisofbeldi og mansali

En áhyggjuefnin eru fleiri. Þau börn sem komast á áfangastað eru flest án nokkurs öryggisnets eða verndar. Erfiðlega gengur víða að koma börnunum undir hendur forráðamanna, td. hjá fósturforeldrum, en það telst til grundvallarréttinda barna að þau hafi forráðamenn. Mörg barnanna hverfa því af móttökustöðvunum eftir að hafa þurft að dúsa þar vikum eða mánuðum saman án nokkurrar eðlilegrar umönnunar fullorðinna.

Á sumum mótttökustöðum eru börnin hreinlega lokuð inni en það er gert til þess að koma í veg fyrir að þau flýi og haldi áfram ein á flótta en mörg barnanna flýja einmitt vegna þess að þau vilja ekki eiga á hættu að vera sett í umsjón yfirvalda og mögulega lokuð inni. Dæmi eru um að börnin reyni að afmá fingraför sín svo ekki sé hægt að setja þau í gagnagrunn yfirvalda.

Auk þess sem aðgangur að menntun barnanna er mikið áhyggjuefni víða auk þess sem engar frístundir eða leiksvæði eru í boði fyrir börnin og þau hafa takmarkaðan aðgang að heilsugæslu eru grundvallarréttindi eins og þak yfir höfuðið, öryggi, næring og viðeigandi fatnaður ekki alltaf tryggður.

Börn á flótta eiga á sérstakri hættu að verða fórnarlömb kynferðisofbeldis og mansals. Heimildir benda til þess að mikil aukning hefur átt sér stað á mansali með auknum straumi flóttamanna til Evrópu seinni hluta árs 2015 en ómögulegt er að segja til um fjölda þeirra barna sem hafa lent í klóm slíkra glæpamanna.

Börnin eiga einnig á hættu að verða fórnarlömb kynferðisofbeldis og kynferðislegrar misnotkunar. Sum börn þurfa á peningum að halda til þess að komast áfram á ferðalagi sínu og grípa því til vændis. Önnur börn verða fórnarlömb misnotkunar af höndum fullorðinna, m.a. í flóttamannabúðum þar sem ókunnug börn og fullorðnir sofa í sama rými.

Aðstæðurnar sem flóttamenn búa við eru að sjálfsögðu misgóðar en Evrópa getur ómögulega verið sátt við að uppfylla einhverjar lágmarkskröfur þegar kemur að aðstæðum barna, öryggi þeirra og réttindum.

Sú staðreynd að börn á flótta standa frammi fyrir fjölmörgum hættum er til merkis um að ráðamenn Evrópu eru ekki að standa sig þegar kemur að verndun barna innan svæðisins. Það hlýtur að teljast forgangsatriði að tryggja að börn á flótta endi ekki í vændi eða á bak við lás og slá, séu misnotuð eða deyi úr kulda.

Hvað er til ráða?

Þrátt fyrir mikla áherslu á verndun og réttindi barna á flótta í starfi sínu síðustu ár er mikill skortur á aðgerðum í þágu barna á flótta í öllum samþykktum og ákvörðunum Evrópusambandsins sem snúa að málefnum flóttamanna og hafa verið samþykktar að undaförnu. Nýsamþykkt aðgerðaráætlun sambandsins í málefnum flóttamanna minnist einungis á börn tvisvar sinnum og aðgerðir sem snúa að börnum eru nefnd í neðanmálsgrein. Það er að sjálfsögðu óásættanlegt og til marks um getuleysi ráðamanna Evrópu þegar kemur að málefnum flóttamanna og sérstaklega barna á flótta.

Vissulega er þörf á að bæta lagaumgjörðina þegar kemur að málefnum hælisleitenda og sérstaklega börnum. Það er þó ljóst að það mun taka mikinn tíma sem við hreinlega höfum ekki sem og samstarfsvilja sem hvarf fyrir löngu síðan. Umboðsmenn barna hafa því sent frá sér ákall til ráðamanna Evrópu sem eru að þeirra mati í keppni um hvaða ríki sé óviljugast til þess að taka á móti flóttamönnum og veita þeim skjól.

Hvað ætlar Ísland að gera til þess að leysa einn stærsta vanda nútímans? Hvað ætla íslensk stjórnvöld að leggja til málsins? Vissuleg fær ríkisstjórnin þakkir fyrir það sem hún hefur nú þegar gert, eins og að taka á móti 35 sýrlenskum flóttamönnum en það þýðir ekki að við getum ekki og eigum ekki að gera enn betur. Það má ekki hætta að tala um málefni flóttamanna á meðan staðan er svona, á meðan börn deyja á Miðjarðarhafinu. Það má ekki hætta að krefjast þess að stjórnvöld geri meira, á meðan börn á flótta leiðast út í vændi eða verða fórnarlömb mansals. Það má ekki hætta að þrýsta á að Ísland axli ábyrgð eins og allir aðrir. Flest ríki Evrópu hafa lögfest Mannréttindasáttmála Evrópu, Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Það á líka við um Ísland. Þessi börn eru á okkar allra ábyrgð.

[Lengri útgáfu af þessari grein má finna í Kvennblaðinu]

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 17.1.2016 - 20:51 - FB ummæli ()

Tröllunum svarað!

„Að taka umræðuna“ er frasi sem andstæðingar fjölmenningar og þeir sem ala á andúð á innflytjendum, múslimum og öðrum útlendingum nota til þess að afsaka óhuggulegan málflutning sinn sem byggist á fáu öðru en upphrópunum, ofstopa og rangfærslum.

Þeir sem leggja í „að taka umræðuna“ gefast oftast fljótt upp enda kemst umræðan sjálf ekki langt upp úr skotgröfunum og það er alltaf stutt í heiftina, persónuárásirnar og níðið sem tekur yfir þá sem reyna að réttlæta ömurlegan málstað.

Annað einkenni þess „að taka umræðuna“ er að hún byggist ávallt á sömu innihaldslausu frösunum sem standast ekki skoðun. Frösum sem flestir eru orðnir þreyttir á að heyra, frösum sem oft á tíðum eru ógeðfelldir.

Hér er gerð tilraun til þess að svara þessum frösum í eitt skipti fyrir öll. Það er vonandi að við náum með því að stíga eitt skref áfram í „að taka umræðuna“ (ég veit ég er bjartsýn).

umræðanbloggÉg er ekki rasisti en…

Hin hefðbundna skilgreining á rasisma er að margra mati úrelt. Í dag er áherslan ekki endilega á yfirburði eins kynþáttar heldur er lögð áhersla á menningu og aðgreiningu hennar meðal þjóða og fólks af öðrum litarhætti. Hugmyndin um kynþætti skiptir ekki höfuðmáli lengur heldur menningarleg einkenni og hvað aðgreinir þau hvert frá öðru. Stundum er notað hugtakið menningarlegur rasismi yfir þessa skilgreiningu.

Á Vesturlöndum hefur menningarlegur rasismi hlotið ákveðna ómeðvitaða viðurkenningu og fengið byr undir báða vængi á liðnum árum en þannig hafa t.d. stjórnmálaflokkar sem vilja beita sér gegn fjölmenningarsamfélaginu sótt í sig veðrið að undanförnu en það kristallast einnig í hegðun einstaklinga gangvart fólki af erlendum uppruna, með aðra menningu eða trú. Slíkur rasismi er því beintengdur almennri andstöðu gegn fjölmenningu.

Talsmenn þeirra sem sem aðhyllast slíkar skoðanir og eru andsnúnir fjölmenningu benda gjarnan á að afstaða þeirra sé ekki rasísk vegna þess að þeir segjast ekki leggja neina áherslu á kynþætti. Það séu frekar gagnrýnendur þeirra sem séu rasískir vegna þess að þeir eru að mála múslima og aðra trúarhópa upp sem kynþætti. Hins vegar hefur verið bent á að ekki sé hægt að segja að menningarlegur rasismi sé ekki rasismi, einfaldlega vegna þess að hugtakið eigi ekki við um kynþætti. Menningarlegur rasismi er afbrigði rasisma sem skiptir einfaldlega kynþætti út fyrir menningu. Menning er þannig orðin að hinum nýja kynþætti.

„Að ræða málin“…

Þeir sem tjá þennan nýja rasisma eru oft afsakandi í framkomu sinni, segjast ekki vera rasistar heldur vilji þeir einungis „ræða málin.“ Að ræða málin í þessu samhengi er einmitt hvort rasískar hugmyndir standist skoðun. Þá er algengt að orðræðan snúist um þessa meintu ógn sem  steðjar af fjölmenningu, auknum innflytjendastraumi, eða ákveðnum þjóðfélagshópum. Vegna þessarar „hættu“ sem þeir telja sig skynja, láta þeir sig slík málefni sérstaklega varða.

„Góða“ fólkið og „vonda“ fólkið…

Eitt af höfuðeinkennum menningarlegs rasisma og þjóðernispopúlismans sem honum fylgir er að draga upp tvískipta mynd af þjóð sinni eða sínum menningarheimi annars vegar, og útlendingum eða öllum utanaðkomandi hinsvegar. Það er að segja „við“ og „hinir.“

Þetta er svarthvít mynd sem aðgreinir einnig hið „góða“ frá hinu „illa.“ Slíkum málflutningi hefur verið beitt öldum saman af þeim sem haldnir eru útilokandi þjóðernishyggju og útlendingahræðslu.

Það er elsta trixið í bókinni að ala á ótta til þess að fá fólk með þér á einhverja ákveðna skoðun. Með því að skipta þjóðinni upp í hóp „góða“ fólksins og svo hóp „vonda“ fólksins er einmitt verið að ýta undir ótta með því að búa til ímyndaðan óvin úr náunganum og þeim sem eru á annarri skoðun en þú. Góða fólkið berst gegn vonda og hættulega fólkinu.

Slíkur málflutningur er auðvitað innihaldslaus.

Ég er ekki á móti innflytjendum en…

umræðanblogg5

Þegar talað er um fordóma er átt við þegar einstaklingar eða hópar fólks eru dæmd út frá fyrirfram ákveðnum hugmyndum af staðalmyndum sem hafa myndast í samfélaginu og eru yfirleitt mótaðar af umhverfinu og eru t.d. fengnar úr fjölmiðlum, kvikmyndum, bókum eða öðru slíku. Staðalmynd er hugtak sem skilgreint er sem viðtekin skoðun fólks um sérkenni hópa eða einstaklinga sem tilheyra oft minnihlutahópum innan samfélagsins. Dæmi um þetta geta verið skoðanir fólks á byggingu mosku á Íslandi.

Fordómar geta byggt á hegðun, skoðunum eða öðru í fari einstaklings. Kristján Kristjánsson skilgreinir fordóma sem dóm sem felldur er án þess að einstaklingur hafi kynnt sér réttmæti og rök málsins af sanngirni, því hafa þeir sem hafa fordóma ekki góðar ástæður fyrir skoðunum sem felast í dómunum.

Fordómar hafa mismunandi birtingamyndir og geta þeir verið sýnilegir eða ósýnilegir. Ósýnilegir fordómar eru mun algengari í samfélaginu og oft gerir fólk sér ekki grein fyrir þeim. Dæmi um ósýnilega fordóma getur verið að sýna fyrirlitningu í framkomu eða orðalagi eins og t.d. að veita útlendingum lélegri þjónustu, tala ekki við fólk af erlendum uppruna á vinnustað eða líta niður á fólk af erlendum uppruna. Margir myndu túlka slíka hegðun sem rasíska.

Allir múslimar eru hryðjuverkamenn…

Hátt í tveir milljarðar einstaklinga aðhyllast múhameðstrú, sem eru næst fjölmennustu trúarbrögð í heimi, á eftir kristni. Í samanburði við önnur trúarbrögð á íslam einna mest skylt við kristni auk þess sem múhameðstrú sækir einnig margt til gyðingdóms, td. þegar kemur að matarvenjum, föstu og reglulegum bænum.

Múhameðstrú er fyrir marga lífstíll sem hefur td. áhrif á félagslíf, efnahagslíf og siðferði. Þannig velja td. margir múslimar að drekka ekki áfengi eða neyta annarra vímuefna, borða ekki svínakjöt, biðja fimm sinnum á dag og mæta í mosku. Sumir velja að fylgja lífsreglum eins og þessum að öllu leyti, sumir að einhverju leyti og aðrir láta sér duga að trúa á guð.

Lítill hópur múslima í heiminum misnotar trúarbrögðin sín til þess að réttlæta hermdarverk gegn fólki og ríkjum. Það er ekki einsdæmi í trúarbragðasögunni, hvorki fyrr né nú, það er ekki í fyrsta skipti sem trúarbrögð eru notuð sem réttlæting fyrir ofbeldi og átökum og eflaust ekki í síðasta skipti.

Það er því óásættanlegt að hátt í tveir milljarðar manna og kvenna og barna séu dæmdir vegna hermdarverka fárra. Að ætla að stimpla alla múslima sem hryðjuverkamenn er barnalegt og fráleitt. Ef sagan á að kenna okkur eitthvað er það hversu hættulegt það er.

umræðanblogg4Hin arabíska menning og nauðganir á vestrænum konum…

Nauðganir og aðrir kynferðisglæpir eru ógeðslegir, hvort sem gerandinn heitir Gunnar, Fernando eða Muhammer eða hvort brotið eigi sé stað á Íslandi, í Þýskalandi, Mexíkó eða Íran. Þeir sem gerast sekir um slíka glæpi skulu sæta refsingu samkvæmt þeim lögum sem gilda þar sem brotið er framið.

Það er alveg fráleitt að reyna að klína ógeðfelldum árásum (hvort sem þær eru kynferðislegar eða af öðrum toga) skipulagðra gengja í Þýskalandi (eða hvar sem er) á alla innflytjendur, alla múslima eða flóttamenn í Evrópu og skrifa þetta á fjölmenningu eða arabíska menningu. Nauðganir og aðrir kynferðisglæpir eru vandamál alls staðar og árásir eins og við urðum vitni að í Þýskalandi um áramótin eru ekki einsdæmi. Það eru til nauðgarar, barnaníðingar, morðingjar og þjófar alls staðar – líka á Íslandi. Það eru alltaf rotin epli innan um hin.

Það er ömurlegt og í raun alveg óþolandi að horfa upp á sömu öfgamennina reyna enn og aftur að nota hremmingar fólks til þess að hafa áhrif á afstöðu fólks til innflytjenda og sérstaklega flóttamanna – sem þurfa hvað mest á stuðningi og skilningi fólks að halda nú. Ég hef sagt það áður og segi aftur, að ala á ótta er elsta trixið í bókinni. Hræðsluáróður eins og þessi er þeim sem stunda hann til háborinnar skammar.

Arabísk menning einkennist m.a. af góðum bókmenntum, mat, listum, tónlist og íþróttum. Þeir sem ekki hafa kynnt sér arabíska menningu eru hvattir til þess að gera svo. Hún er að mörgu leyti mjög falleg.

Öryrkjar og aldraðir…

Öryrkjar og eldri borgarar hafa það skítt í þessu blessaða samfélagi okkar. Heilbrigðiskerfið okkar þarf á miklum endurbótum að halda og velferðin stendur höllum fæti. Það eru fái sem munu reyna að verja þann veruleika. Þar þarf að gera svo miklu miklu betur.

Evrópa er að eldast og enn og aftur er Ísland engin undantekning frá þeirri þróun. Það á að vera forgangsatriði þeirra sem hér fara með völd að tryggja að staða þessa samfélagshóp sé og verði í lagi. Það er hins vegar langt í land og hefur verið í langan tíma. Svona hefur staðan verið lengi – lengur en straumur flóttamanna til Evrópu jókst til muna.

Það skal því koma hér skýrt fram að móttaka flóttamanna eða flutningur franskrar fjölskyldu til Íslands sem hér vinnur og lærir er ekki á nokkurn hátt tengt stöðu öryrkja og eldri borgara á Íslandi. Það er ekki verið að taka af þeim málaflokki fjármuni til þess að fæða flóttamenn. Það er ekki verið að taka húsnæði af öryrkjum til þess að hýsa flóttamenn. Það er ekki verið að ganga á lífeyri eldri borgara til þess að kaupa föt á flóttamenn. Og franska fjölskyldan gengur ekki fyrir íslenska fjölskyldu þegar kemur að læknisþjónustu – sá sem hringir á undan mun eflaust fá tíma fyrr.

Þeir sem reyna að fela fordóma sína á bakvið bága stöðu öryrkja og eldri borgara mega skammast sín.

Að sýna hryðjuverkamönnum og nauðgurum samúð…

Að taka afstöðu gegn fordómum, rasisma, þjóðernisrembingi og mismunun byggða á kynþætti, þjóðerni eða trú þýðir ekki að verið sé að taka afstöðu með hryðjuverkum, kvenfyrirlitningu eða ákveðnum trúarbrögðum.

Að tala fyrir mannréttindum, réttlæti og jöfnuði er heldur ekki það sama og að sýna hryðjuverkamönnum, nauðgurum og öðrum ofbeldismönnum samúð.

Að saka fólk um slíka hluti er enn eitt dæmið um hversu lélegan málstað verið er að reyna að verja.

Þetta með aðlögunina…

Fólksflutningar eru ekki nýtt fyrirbæri og geta ástæðurnar fyrir þeim verið margvíslegar.Flestir þeirra sem flytjast á milli landa gera það til þess að sækja sér menntun eða vinnu. Aðrir eru að flýja átök, ofbeldi, stríðsátök eða aðrar hörmungar.

Fólk hefur því mismunandi bakgrunn, sögu og einkenni. Það getur því tekið mismikið á og verið auðvelt fyrir suma en erfiðara fyrir aðra þegar kemur að því að hefja þátttöku í samfélaginu. Því er eðlilegt að fólk leyti uppi aðra einstaklinga með svipaðan bakgrunn – svona eins og Íslendingar hafa gert í Kanda – jafnt til þess að fá aðstoð við koma sér fyrir, leita upplýsinga og halda saman upp á þjóðlegar hátíðir.

Það er eðlilegt að í fjölmenningarsamfélagi fái allir hópar að halda sinni eigin menningu, tungumáli og einkennum en tileinki sér á sama tíma ríkjandi menningu. Til þess þarf aðgengi, upplýsingar og aðstoð og því er ábyrgð stjórnvalda mikil þegar kemur að því að tryggja að þeir sem hingað koma geti tileinkað sér ríkjandi hefðir og venjur, reglur og skyldur.

Í fjölmenningarsamfélagi þarf því að tryggja að þeir sem hingað koma, þeir sem hér eru fyrir, stjórnvöld og stjórnmálamenn, fjölmiðlar, þeir sem taka þátt í umræðunni og aðrir viðeigandi aðilar hjálpist að við að gera það ferli eins auðvelt og hægt er.

Það er íslensku samfélagi til gæfu að hingað flytjist fólk til þess að finna starfskröftum sínum, hugviti og hæfileikum farveg. Þátttaka nýrra íbúa er mikilvæg fyrir samfélagið í heild sinni og því er mikilvægt að leita leiða til að jafna stöðu einstaklinga og hópa í fjölmenningarlegu samfélagi og stuðla þannig að félagslegu jafnrétti og réttlæti og koma í veg fyrir vaxandi rasisma og þjóðernisrembing.

Hin raunverulegu íslensku gildi…umræðanblogg3

Hin íslensku gildi snúast ekki um húðlit, trú eða háralit.

Hin raunverulegu gildi íslensku þjóðarinnar sem mikilvægt er að sameinast um eru mannréttindi, frelsi, virðing og réttlæti.

Trúfrelsi er eitt af þeim, sem og tjáningarfrelsi, sem og bann við mismunun vegna þjóðernis, uppruna, trúar eða menningar. Því miður virðast margir vera tilbúnir til þess að fórna þeim réttindum fyrir ákveðinn hóp í samfélaginu, sem við eigum öll og byggjum saman, til þess að fullnægja einhverri tilfinningafroðu um öryggi, hreinleika og þjóðernishyggju vegna þess þeir telja að þeir séu yfir aðra hafnir vegna þess hvar þeir eru fæddir eða hvað þeir trúa á.

Hin raunverulegu íslensku gildi endurspeglast í samfélagi  þar sem allir eru jafnir, einstaklingum er ekki mismunað vegna uppruna, trúar, þjóðernis, menningar eða öðru sem einkennir þeirra persónu og líf, td. kynhneigð eða fötlun. Þar sem allir hafa sama aðgang að mannréttindum og grundvallarréttindum einstaklingsins.

umræðanblogg6

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 30.12.2015 - 14:59 - FB ummæli ()

Vaxandi þjóðernisrembingur er ein stærsta áskorun ársins 2016

Íslenska fjallkonan árið 2004.

Íslenska fjallkonan árið 2004.

Samfélög nútímans eru í stöðugri þróun og eru fólksflutningar á milli ríkja eitt helsta einkenni þeirrar þróunar. Fólksflutningar eru hins vegar ekki nýtt fyrirbæri og geta ástæðurnar fyrir þeim verið margvíslegar. Með fólksflutningum verða breytingar á uppruna fólks innan samfélaga, tungumálin verða fleiri, menningin fjölbreyttari og trúarbrögðin mörg. Íslenskt samfélag er ekki undanskilið þessari þróun og hefur Ísland um tíma verið skilgreint sem fjölmenningarsamfélag.

Hugtakið fjölmenningarlegt samfélag er skilgreint sem samfélag þar sem fjölbreytni ríkir, þar sem fólk af mismunandi uppruna eða menningarsvæðum býr saman í einu samfélagi, ber virðingu fyrir hvort öðru og hefur samskipti sín á milli. Eðlilegt er að í slíku samfélagi fái allir hópar að halda sinni eigin menningu, tungumáli og einkennum en tileinki sér á sama tíma ríkjandi menningu. Slíkt fyrirkomulag er þekkt á Norðurlöndunum og hefur verið einkennandi fyrir íslenskt samfélag. Stóra spurningin er hins vegar hvort það verði það áfram.

Þrátt fyrir augljósar staðreyndir, td. að hátt í 10% af íslensku þjóðinni eru skilgreindir sem innflytjendur og fleiri en 100 þjóðarbrot er að finna á Íslandi, eru ekki allir tilbúnir til þess að viðurkenna að íslenskt samfélag sé fjölmenningarsamfélag og margir sem ekki eru tilbúnir til þess að innlima innflytjendur í ímynd íslensku þjóðarinnar.

Í skýrslu frá árinu 2008 sem fjallaði meðal annars um ímynd Íslands ræddu þátttakendur í rannsókninni m.a. um innflytjendur og eftir því sem fram kemur í skýrslunni var enginn af þátttakendunum sem sá innflytjendur sem hluta af ímynd þjóðarinnar heldur frekar sem innrás sem þurfti að verjast til að Íslendingar héldu sérstöðu sinni.

Síðan þá hefur innflytjendum á Íslandi fjölgað og umræðan um málefni innflytjenda harðnað í samræmi við það. Auk þess hafa málefni flóttamanna staðið upp úr að undanförnu og hefur sú umræða blandast inn í umræðuna um innflytjendur á Íslandi. Málefni flóttamanna eru orðin að einum stærsta málaflokknum sem Evrópa stendur frammi fyrir, og mun standa frammi fyrir, og þar af leiðandi Ísland, þó vaxandi straumur flóttamanna til Evrópu (sem þó er einungis dropi í hafið ef litið er á stöðu flóttamanna í heiminum) snerti íslenskan almenning lítið sem ekkert, frekar en þeir vilja.

Íslenska krónan eða forngrískur peningur?

Íslenska krónan eða forngrískur peningur?

Þeas. líf flestra Íslendinga breytist ekki neitt þó hingað komi flóttamenn, fólk sem sækir um hæli eða innflytjendur, sem ákveðið hafa setjast hér að, flestir til þess að læra eða vinna og eru algjörlega sjálfbjarga. Fáir Íslendingar hafa það slæma persónulega reynslu af fólki af erlendum uppruna að það geti réttlæt andúð sína á innflytjendum almennt. Sú andúð er frekar byggð á innihaldslausum frösum og skipulögðum hræðsluáróðri um einhverja tilbúna ógn sem íslensku samfélagi stendur af fólki sem fætt er í öðru landi. Slíkt er byggt á fáfræði og fyrirframgefnum hugmyndum um fólk sem endurspeglast í fordómum þeirra sem halda slíkum hugmyndum á lofti. Enda hafa rannsóknir sýnt fram á að andúð á innflytjendum er oftast hvað mest þar sem hvað fæstir innflytjendur eru.

Samt sem áður stöndum við frammi fyrir vaxandi útlendingaandúð, þjóðernisrembing, íslamófóbíu, fordómum og hatri í garð náungans í íslensku samfélagi. Þjóðernishyggjan er orðin svo sterk að til eru einstaklingar sem halda virkilega að „stofna þurfi þjóðhyggjuflokk hér á landi til þess að „sporna gegn þessum viðbjóði““ og verja hin íslensku gildi, menningu og hina heilögu íslensku sjálfsmynd, sem að mörgu leyti er ekki sérstakari en það að hún er fengin að láni.

Merki Akureyrarbæjar eða pólski fáninn?

Merki Akureyrarbæjar eða pólski fáninn?

Þeir sem standa að baki slíkum hugmyndum eru oft afsakandi í framkomu sinni. Þeir segjast ekki vera rasistar heldur vilji þeir einungis „ræða málin.“ Stuttu á eftir fylgir skilgreiningin á “góða” og “vonda” fólkinu og hinni tvískiptu þjóð. Að ræða málin í þessu samhengi er hins vegar ekkert annað en athugun á því hvort rasískar hugmyndir standist skoðun. Stjórnmálamenn, fjölmiðlamenn og fleiri hafa að undanförnu staðið fyrir slíkum athugunum og ýtt þar af leiðandi undir óttann og tortryggnina. Við þekkjum öll niðurstöðuna. Orðræðan snýst um þessa meintu ógn sem  steðjar af fjölmenningu, auknum innflytjendastraumi, eða ákveðnum þjóðfélagshópum. Vegna þessarar „hættu“ sem þeir telja sig skynja, láta þeir sig slík málefni sérstaklega varða. Slík umræða eru helstu einkenni menningarlegs rasisma.

Stærsta áskorun ársins 2016 verður að berjast gegn uppgangi þeirra öfgaafla sem ala á slíkum hugmyndum, öfgaöflum sem eru tilbúin til þess að fórna frelsi einstaklingsins, grundvallarréttindum hans og mannréttindum til þess að fullnægja einhverri heimatilbúnni öryggistilfinningu sem er ekki byggð á neinu öðru en innihaldslausri tilfinningafroðu. Að ala á ótta er elsta trixið í bókinni og það er með þessum ótta sem þessir hópar réttlæta tilvist sína. Stærsta áskorun ársins 2016 er vaxandi þjóðernisrembingur og fordómar í íslensku samfélagi.

Stærsta áskorun næsta árs verður að standa vörð um hin raunverulegu gildi sem íslenskt samfélag er byggt á, réttlæti, frelsi, umburðalyndi, jöfnuður og friður. Gildi sem ofangreindir hópar eru tilbúnir til þess að fórna til þess að réttlæta ógeðfellda hugmyndafræði sína. Íslensku samfélagi stafar ekki ógn af innflytjendum, flóttamönnum eða hælisleitendum. Íslensku samfélagi stafar ekki ógn af fjölmenningarsamfélaginu sem hér hefur verið byggt. Íslensku samfélagi stafar ógn af vaxandi þjóðernisrembingi og fordómum.

Viðbót: Vegna ábendingar Jóns Sigurðssonar, í grein á Pressunni, vil ég taka það fram að þegar ég tala um að stofna eigi „Þjóðhyggjuflokk hér á landi til þess að sporna við þessum viðbjóði“ er ég að vísa í ummæli úr samfélagsumræðunni og því hef ég fært gæsalappirnar aðeins aftar í textanum, en ég er sammála honum í því að aðgreina þurfi ákveðið þjóðernisstolt og þjóðrækni (td. með orðinu þjóðhyggja eins og hann leggur til) frá umræðunni um slæman þjóðernisrembing og þjóðernishyggju sem byggist á öfgum, ofstæki, andúð á öðrum þjóðernum og menningum og öðrum álíka rembingi. Þjóðhyggju hef ég ekki notað yfir slíkt og mun ekki gera.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Sema Erla Serdar
29 ára stjórnmála- og Evrópufræðingur sem berst fyrir friði, frelsi og jafnrétti þegar hún er ekki að horfa á fótbolta eða leika við hundana sína.

Formaður Samfylkingarinnar í Kópavogi. Fyrrverandi formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar. Ungur jafnaðarmaður!
RSS straumur: RSS straumur