Þriðjudagur 23.10.2018 - 17:40 - FB ummæli ()

Leigubílstjórar og rithöfundar

Eins og alþjóð veit, eða amk. ætti að vita, sömdu leigubílstjórar sjálfir frumvarp til laga sem færði félagsmönnum stéttarfélags þeirra, Hreyfli, einokunaraðstöðu á markaðnum. Með þessari stuttu og úthugsuðu ritsmíð skutu leigubílstjórar rithöfundum ref fyrir rass. Rithöfundum þessa lands sem maður fyrirfram hefði haldið að myndu beita stílfærni sinni og útsjónarsemi við að tryggja afkomu sína og velferð í harðri og óvæginni samkeppni. En nei. Þarna voru rithöfundar aldeilis teknir í bólinu.

En það er ekki of seint um rassinn gripið þótt yfir sex áratugir séu liðnir frá þessu snjalla útspili leigubílstjóranna. Það er ekkert því til fyrirstöðu að semja lög sem gefa rithöfundum sem fyrir eru í RSÍ einokunaraðstöðu í bókaskrifum. Eina sem þarf að gæta að er að orða frumvarpið þannig að þingmenn trúi því að verið sé að koma skikki á atvinnugreinina, auka öryggi almennings og spara ríkissjóði fé. Þingmenn munu að sjálfsögðu fagna því ef sérhagsmunaaðilar taka af þeim ómakið við að semja frumvörp. Nóg hafa þeir á sinni könnu.

Texti frumvarpsins gæti hljómað eitthvað á þessa leið:

Frumvarp til laga um rithöfunda á Íslandi.

[Mögul.] Flm.: Guðmundur Andri Thorsson, Katrín Jakobsdóttir, Ari Trausti Guðmundsson, Óli Björn Kárason.

1. gr.

Rithöfundar á Íslandi, hvort sem þeir þýða bækur, skrifa ævisögur, skrifa spennu-,barna,- fræði-, ljóða- eða smá­sögubækur, skulu aðeins gefa út rit, sem hafa fengið viðurkenningu ríkisstjórnar.

Ríkisstjórnir skulu, að fengnu samþykki dómsmálaráðuneytisins, hafa heimild til að takmarka fjölda aðila þeirra er greinir í 1. málsgr.

Bloggarar og „virkir í athugasemdum“ falla ekki undir ákvæði þessara laga.

2. gr.

Dómsmálaráðuneytið skal kveða nánar á um takmörkun skv. 1. gr. með reglu­gerð.

3. gr.

Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

„Frv. þetta er flutt að tilmælum stjórnar Rithöfundasambands Íslands, RSÍ. Fylgir því svohljóðandi greinargerð:

Við undirrituð höfum athugað, hvort nauðsyn bæri til þess að skipuleggja ritstörf hér á landi hjá rithöfundum, aðallega með það fyrir augum, hvort nauðsynlegt væri að setja löggjöf um takmörkun þeirra.

Við athugun höfum við sannfærst um það að atvinnumöguleikar fyrir rithöfunda eru mjög takmarkaðir eins og nú er, miðað við þann fjölda bóka sem gefnar eru út nú.

Aðilar sem telja sig vera rithöfunda hér á landi eru nú um 330 þúsund, og virðist það vera mun fleiri rithöfundar en nokkur þörf er fyrir. Er því fyrirsjáanlegt, að brýn nauðsyn beri til þess að takmarka fjölda rithöfunda við þá sem fyrir eru í RSÍ, eigi að vera nokkur möguleiki til þess að menn sem stunda ritstörf sem aðal­atvinnu, geti haft það sér og sínum til lífsframfæris, enda tíðkast í mörgum menningarlöndum að útgáfa bóka er takmörkuð með löggjöf eða öðrum hætti.

Í þessu sambandi má einnig benda á það, að með því að binda við þessi störf fleiri menn en nauðsyn krefur á hverjum tíma fer geysilega mikið vinnuafl til ónýtis, auk þess sem við þessi ritstörf eru bundnar miklu fleiri tölvur en þörf er á, en það leiðir að sjálfsögðu af sér sóun á rafmagni og aukinn innflutning á alls konar rekstrarvörum tölvubúnaðar.

Loks má benda á það, að fjöldi manna hefur lagt mikið fé í að kaupa sér dýrar tölvur í þeirri von að rithöfundarferill þeirra verði glæstur og arðvænlegur, en margir þessara manna hafa síðan komist í miklar fjárkröggur vegna þessa en af því hefur oft og einatt leitt allskonar spillingu, sem hægt væri að komast hjá með því að takmarka tölu rithöfunda við lesþörfina og tryggja þannig að fullu hagnýtingu vinnuafls og tækja í þessari starfsgrein.

Með tilvísun til framanritaðs erum við undirrituð því sammála um, að nauðsyn beri til þess, að sett verði löggjöf um heimild til takmörkunar á fjölda rithöfunda á Íslandi og að það gæti orðið á Alþingi því, sem nú situr.

Karl Úlfur Ágústsson
formaður RSÍ

Marveig Örnólfsdóttir
ritari RSÍ“

Svona gæti frumvarpið litið út uppsett og tilbúið til samþykktar á Alþingi: Frumvarp til laga um rithöfunda.

 

Flokkar: Menning og listir · Stjórnmál og samfélag
Efnisorð: , , ,

Sunnudagur 12.8.2018 - 15:06 - FB ummæli ()

Kannabis eða Vicodin?

Æ fleiri deyja vegna misnotkunar á lyfseðilskyldum lyfjum í Bandaríkjunum. Áætlað er að 1999 hafi um 5 þúsund manns dáið vegna ofnotkunar. 2010 var fjöldi þeirra sem dó 16 þúsund og á sl. ári um 36 þúsund. Ástandið er ef til vill skárra á Íslandi, en misnotkun róandi-, svefn- og kvíðastillandi lyfja er mikil og fer vaxandi.

Bandarískir stjórnmálamenn hafa gripið til aðgerða til að stemma stigu við „faraldrinum“. Þingið hækkaði stórlega fjárframlag til málaflokksins, meðferðarheimili fá meira fé og refsingar fyrir ólöglega sölu hafa verið hertar. Donald Trump forseti hefur beint þeim tilmælum til lyfjafyrirtækja að minnka framboð slíkra lyfja. Læknar hafa ennfremur verið hvattir til að gæta hófs í að vísa á þau.

Kannabis fækkar stórlega dauðsföllum af völdum verkjalyfja.

En ef til vill er til betri lausn á vandanum en fjáraustur, harðari refsingar og tilmæli.

Lausnin er mögulega að færa kannabis af bannlistanum. 

Í þeim ríkjum Bandaríkjanna sem eru hætt að amast við notkun kannabisefna, hvort sem það er í lækningaskyni eða alveg, er misnotkun á lyfseðilskyldum verkjalyfjum mun minni. Könnun sýndi að í ríki þar sem kannabis er leyft í lækningaskyni fækkaði dauðsföllum af völdum of stórra skammta um fjórðung.

Önnur könnun sem gerð var sýndi að margir einstaklingar sem þurfa á verkjalyfjum að halda velja heldur kannabis en hefðbundin verkjalyf — ef kannabis er í boði. Þeir telja kannabis betra við langvinnum stoðkerfisverkjum. Þar sem kannabis var fáanlegt minnkaði notkun lyfseðilskyldra verkjalyfja um 64%. Lífsgæði þessa hóps jukust ennfremur verulega. 

Í löndum og ríkjum þar sem ekki er amast við kannabis er notkun þess síst meiri en í löndum sem leggja blátt bann við sölu þess. Sérstaklega meðal ungmenna. Nýleg könnun sýnir svo dæmi sé tekið að kannabisneysla ungmenna í Kólóradó hefur ekkert aukist þrátt fyrir að efnið sé nú löglegt þar.

Kannabisbannið sem átti að vera föðurleg hjálp ríkisvaldsins við að halda efninu frá þegnunum virðist þegar upp er staðið lagt fjölda fólks óbeint í valinn. Og ekki nóg með það heldur hefur bannið komið í veg fyrir rannsóknir og þróun á efnunum í plöntunni.

Ísland ætti að slást í hóp með Hollandi, Portúgal, Kólóradó og Kaliforníu og víkja af þessari óheillabraut.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag
Efnisorð:

Mánudagur 6.8.2018 - 16:52 - FB ummæli ()

Leyfileg stærð á samlokum

Saga innanlandsflugsins í Bandaríkjunum er ljómandi góð dæmisaga um muninn á höftum og frelsi.

Loftflutningastofa Bandaríkjanna var lögð niður 1985.

Loftflutningastofa Bandaríkjanna (CAB) var sett á laggirnar með lögum 1938. Í kjölfarið hóf stofan að setja reglur um farmiðaverð, flugrútur og annað. Frá 1939 til 1978 þurftu flugfélög í Bandaríkjunum að sitja og standa eftir dyntum stjórnenda stofnunarinnar. Á tímabilinu var engum nýjum flugfélögum veitt starfsleyfi í innanlandsflugi í ríkjasambandinu. Afleiðingin var ríkisframleiddur einokunarhringur sem kom þeim sem fyrir voru á markaðnum ágætlega en ferðalöngum afar illa.

Í því litla svigrúmi sem var til samkeppni reyndu flugfélögin að lokka til sín viðskiptavini með öðrum ráðum. Til dæmis með því að bjóða „ókeypis“ mat og drykk. Loftflutningastofa brást við með því að setja reglugerð um stærð á samlokum um borð.

Þetta ríkisafskipta fyrirkomulag leiddi af sér að flugferðir voru mjög dýrar. 1974 kostaði flugmiðinn milli New York og Los Angeles 1442 dali. Eftir að höftunum hafði verið aflétt 1978, kostaði þessi sami flugmiði 268 dali. Með öðrum orðum: Farmiðaverð lækkaði gríðarlega.

Hinn megin ábatinn af frelsi til að keppa í innanlandsfluginu var að framleiðni flugfélaganna stórjókst. Með öðrum orðum: Fleiri höfðu efni á að ferðast með flugvélum. Frá 1979 til 1988 fjölgaði áfangastöðum American Airlines úr 50 í 173 og United Airlines úr 80 í 169. Þessi fjölgun áfangastaða átti sér stað án kaupa á öðrum flugfélögum og flugrútum þeirra.

Það varð heimsbyggðinni til mikilla hagsbóta að haftastefnunni í innanlandsfluginu í Bandaríkjunum var fleygt þangað sem allur sósíalismi er best geymdur; á ruslahauga sögunnar.

Heimildir má m.a. finna hér.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

Þriðjudagur 13.3.2018 - 16:57 - FB ummæli ()

Leigubílar í höftum

Fljótlega eftir að bíllinn nam land á Íslandi fyrir alvöru 1913 voru sett „Lög um notkun bifreiða“. Í fyrstu var eitt almennt ökupróf. Um 1920 bættist meirapróf við. Þeir sem stóðust meirapróf gátu hafið útgerð leigubíla. (Alfreð Elíasson stofnandi og forstjóri Loftleiða var einn þeirra manna sem það gerði svo dæmi sé tekið). Þannig var það fram á sjötta áratuginn. Þá fóru leigubílstjórar og samvinnufélag þeirra Hreyfill með Bergstein Guðjónsson í forystu að ókyrrast verulega. Þeim fannst ómögulegt að það þyrfti aðeins meirapróf til að geta gerst leigubílstjóri. Þeir vildu reisa hindranir. Þeir vildu byggja kastala með síki undir þá sem fyrir voru í atvinnugreininni og vinda upp brúna.

Gunnar Thoroddsen, Jóhann Hafstein, Jónas Rafnar, Emil Jónsson og Gylfi Þ. Gíslason voru flutningsmenn frumvarps um að reisa múra um fólksflutninga með leigubílum. Frumvarp þeirra hafði slæmar afleiðingar í för með sér sem þjóðin er enn að bíta úr nálinni með.

Nokkrir þingmenn voru talaðir til um nauðsyn hindrana. Það var samið frumvarp og voru sjálfstæðismennirnir Gunnar Thoroddsen, Jóhann Hafstein og Jónas Rafnar, og kratarnir Gylfi Þ. Gíslason og Emil Jónsson flutningsmenn.

Bergsteinn Guðjónsson formaður samvinnufélagsins Hreyfils skrifaði greinargerðina með frumvarpinu. Hreyfill var stéttarfélag leigubílstjóra. Nafni félagsins var síðar breytt í Frami.

En það var ekki nóg að leggja fram frumvarp. Það þurfti að semja réttlætingar í formi greinargerðar. Hver var betur til þess fallinn en Bergsteinn Guðjónsson formaður Hreyfils? Það þótti greinilega ekkert tiltökumál á þeim tíma að sérhagsmunaaðilar semdu slík plögg með frumvörpum. Hugmyndin að frumvarpinu var jú frá honum og hans mönnum komin. Ásamt Bergsteini reit formaður vörubílstjórafélagsins Þróttar, Friðleifur I. Friðleifsson greinargerðina (vörubílstjórar vildu líka reisa kastala um sína atvinugrein).

Rökin sem Bergsteinn og Friðleifur tíndu til fyrir nauðsyn lagasetningar voru þessi:

1. Of margir leigubílar takmarka atvinnumöguleika þeirra sem vilja aka fólki í fullri vinnu.
2. Önnur menningarlönd hafa skert frelsi til að keppa í fólksflutningum.
3. Of margir stunda þessa atvinnugrein.
4. Of margir bílar notaðir til fólksflutninga.
5. Of mikill innflutningur á rekstarvörum bifreiða.
6. Margir hafa fjárfest í bílum og lent í kröggum þegar afraksturinn var ekki í samræmi við væntingar.
7. Svört atvinnustarfsemi vegna fjárkragga þeirra sem offfjárfestu í bílum.
8. Svo nýta megi bílana sem fyrir eru betur.
9. Að allir bílar séu á stöð til að einfalda opinbert eftirlit.
10. Mikið vinnuafl til ónýtis þegar margir eru um hituna.

Eins og sést eru þetta ákaflega veigalítil rök. Það má jafnvel fullyrða að þetta séu engin rök. „Rökin“ eru öll eðlileg einkenni á samkeppnismarkaði. Sumir hagnast, aðrir tapa, menn hætta akstri, menn byrja akstur, það er offjárfest og það er fjárfest skynsamlega, sumir vinna svart, aðrir vinna síður svart osfrv.

Það virðist ekki hafa staðið í sjálfstæðismönnum þótt frumvarpið sem þeir lögðu fram gengi þvert gegn grundvallarstefnu flokksins um atvinnufrelsi og mannréttindi.

Lögin voru samþykkt.

Síðan eru liðin yfir 60 ár.

Með auknu framboði á bílum upp úr 1950 og lækkandi verði breyttist eðli leigubílaaksturs frá því að vera settleg full atvinna í íhlaupavinnu sem margir nýttu sér. Með ólögunum um leigubifreiðar í kaupstöðum var þessi eðlilega þróun stöðvuð. Tjónið sem lögin unnu samfélaginu er gríðarlegt. Tækifæri manna til að afla sér aukatekna voru skert. Ungt og kraftmikið fólk gat ekki stofnað fyrirtæki á þessu sviði eins og verið hafði meðan frelsi var til að keppa. Viðskiptavinir leigubíla þurftu að greiða miklu hærra verð fyrir þjónustuna. Eins og dæmin sýna með tilkomu Lyft og sambærilegra aðila þá aka færri undir áhrifum áfengis þegar það kostar minna að taka leigubíl og framboðið er meira. Eflaust freistuðust margir til að aka drukknir vegna sjálfskaparvítisins sem þessi lög ollu.

Það blasir við að ef hægt er að samþykkja lög án raka, er líka hægt að afnema þau án raka. Það þarf engar nefndir eða fundi með sérhagsmunaaðilum um hvort frelsi eigi að ríkja á þessum markaði. Það á einfaldlega að afnema þessi gömlu ólög.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál
Efnisorð: , ,

Föstudagur 2.2.2018 - 20:00 - FB ummæli ()

Morðingi æskulýðsins

Skelfilegar fréttir berast nú frá Bandaríkjunum. Ríkjasambandið er við það að hætta að amast við notkun marijuana! Kólóradó, Kalifornía, Alaska, Nevada, Oregon og fleiri hafa stigið það óheillaskref. Talið er að flest ef ekki öll fylgi í kjölfarið á næstunni. Það má ekki gerast!

Ég vona svo sannarlega að engum detti í hug að hætta að amast við þessu skaðræðisefni hér á Íslandi. Það myndi hafa slæmar afleiðingar. Lögreglan hefði til dæmis miklu minna að gera við að leggja hald á pottaplöntur! Það þyrfti kannski að segja einhverjum heiðarlegum og duglegum lögreglumönnum upp! Ekki viljum við að það gerist. Og ríkið gæti þurft að bæta við starfsfólki í skattheimtunni vegna þess að þar sem þetta hræðilega efni er leyft eru innheimtir skattar af því. Skattar af eitri, oj!

Ef sú fáránlega hugmynd hefur læðst að einhverjum að efnið sé skaðlaust langar mig að birta hérna frábærlega góða grein sem ég rakst á í tímariti nýlega. Hún er skrifuð af miklu innsæi og skilningi á MARIJUANA — MORÐINGJA ÆSKULÝÐSINS:

Jazzgeggjarar eru geggjaðir vegna þess að þeir neyta marijuana.

Það er tiltölulega stutt síðan lík ungrar stúlku fanst sundurkramið á gangstétt einni í Chicago. Stúlkan hafði fallið út um glugga, og almenningur hélt, að hér væri um sjálfsmorð að ræða, en í raun og veru hafði stúlkan verið myrt, og morðinginn var enginn annar en eiturlyf nokkurt, sem Ameríkumenn nefna marijuana. Þeir neyta þess á þann hátt, að þeir reykja það í vindlingsformi. Sú neysluaðferð er þó tiltölulega ný í Bandaríkjunum, en skaðsemi lyfsins er líkt við það ógagn, sem skellinöðrur [lbr. mín] geta unnið mönnum.

Ekki verða með tölum talin öll þau sjálfsmorð, manndráp, rán og önnur skemdarverk, sem framin eru árlega vegna áhrifa þessa eiturlyfs, einkum af ungu fólki. Víða er ekkert gert til þess að sporna við verkunum eitursins, og er þar einkum um að kenna fullkomnu tómlæti yfirvaldanna.

Marijuana er allra eiturlyfja dularfylst. Enginn, sem neytir þess, veit fyrirfram, hvort það muni gera hann að heimspekingi, gáskafullum byltingarmanni, bandóðum fábjána eða morðingja.

Frásögnin um ungu stúlkuna í Chicago er ágætt dæmi um áhrif marijuana. Stúlkan hafði heyrt hljóðskrafið, sem gengur um þver og endilöng Bandaríkin, að nú væri hægt að fá dásamlega, áhrifamikla vindlinga, sem ekki hefðu nein skaðleg áhrif á neytendurna. Stúlkuna langaði vitanlega til að kynnast þessari nýjung, og skömmu seinna sat hún kvöld eitt í hópi glaðra vina, þar sem allir reyktu marijuana-vindlinga.

Áhrifin urðu fáránleg. Sumt fólkið fékk æðisgengin hlátursköst. Aðrir, sem ekki voru neinir verulegir söngmenn, urðu að söngsnillingum. Slagharpan dundi látlaust. En nokkrir í samkvæminu ræddu mikilsverð málefni af undursamlegum skilningi og innsæi. Stúlkan, sem áður er getið, dansaði alla nóttina ofsakát, án þess að hún fyndi til nokkurrar þreytu.

Nú gekk ekki á öðru en eilífum reykingarsamkvæmum hjá þessu fólki. En unga stúlkan okkar nálgaðist óðfluga skapadægur sitt. Í síðasta samkvæminu, sem hún tók þátt í, var hún döpur í bragði. Svo var mál með vexti, að hún hafði að undanförnu vanrækt skólanám sitt vegna reykingarástríðunnar og afleiðinga hennar. Allt í einu setti að henni megnan kvíða, þar sem hún sat og reykti. Eins og í leiftursýn opinberaðist henni örugg lausn á öllum vandamálum í sambandi við skólanámið. Án þess að hika við, skundaði hún út að glugganum, opnaði hann og — stökk út í opinn dauðann. Þannig leysir marijuana menn á svipstundu frá áhyggjum jarðlífsins. En áður varar það heila mannsins lítillega við því, sem í vændum er.

Síðastliðið ár var ungur marijuananeytandi hengdur í Baltimore fyrir glæpsamleg mök við tíu ára gamla telpu. Í Chicago myrtu tveir drengir, sem voru undir áhrifum eiturlyfsins, lögregluþjón. Á Flórídaskaga kom lögreglan að pilti einum, sem breytt hafði heimili sínu í eins konar sláturhús. Hafði hann þá drepið, með öxi, foreldra sína, tvo bræður og eina systur. Þegar af honum rann móðurinn, mundi hann ekki til þess, að hann hefði gert neitt fyrir sér. Þetta var mesti stillingarpiltur og dagfarsgóður. Hann hafði orðið bandóður af marijuanareykingum. Auðvelt væri að nefna milli 20 og 30 dæmi um morð og glæpsamlega ástleitni manna af völdum þessa eiturlyfs. Hópur af unglingspiltum í Ohio ruddust eitt sinn þar um bæinn með marghleypur á lofti og rændu og rupluðu búðir. Svipaðir atburðir gerðust í ýmsum öðrum borgum í Bandaríkjunum ekki alls fyrir löngu.

Í Ohio var hópur drengja tekinn fastur, eftir að þeir höfðu ráðist inn í 38 verslanir með marghleypur á lofti og gert þar tilraunir til rána. Piltarnir höfðu keypt marijuanavindlinga af sölukörlum í nánd við skólann, þar sem þeir stunduðu nám, og eftir að þeir höfðu reykt stundarkorn, urðu þeir svo sljóir, að þeir mundu síðar ógerla, hvort þeir höfðu verið heima hjá sér eða að heiman, meðan þeir frömdu fyrrnefnd glæpaverk.

í Los Angeles drap 17 ára gamall piltur lögregluþjón, sem hafði verið vildarvinur hans. Af 37 morðingjum, sem handteknir voru í New Orleans, voru 17 marijuananeytendur.

Jurtin, sem þetta eiturlyf er unnið úr, er það gamalkunn, að Forn-Grikkir þekktu hana. Hómer sagði, að hún kæmi mönnum til að gleyma heimkynnum sínum og gerði þá að svínum. Árið 1090 var myndaður glæpamannafélagsskapur austur i Persíu, og er saga hans öll einn samfelldur blóðferill. Meðlimir þessa félagsskapar neyttu eiturlyfs þess, er að framan greinir, og unnu hryðjuverk sín undir áhrifum þess. Af sömu ástæðum er amok-æði Malayja talið stafa.

Enda þótt eiturlyfið sé þetta gamalt, er neysla þess tiltölulega ung í Bandaríkjunum. Eitrið barst þangað frá Mexíkó og breiddist út með ofsalegum hraða. Nú orðið er neysla þess orðin meiri en nokkurn grunar, og er talið, að nemendur æðri skóla falli einkum í freistni af völdum eitursins.

Hljóðfæraleikarar í Ameríku kváðu reykja marijuana, til þess að verða sem ákafastir jazz-spilarar. Og fólkið á skemtistöðunum hlær að þessum vesalingum, þar sem þeir hamast við hljóðfærin eins og óðir menn, ranghvolfa augunum og finst þeir aldrei geta leikið nógu hart og ofboðslega.

Maður, sem hefir reykt þetta eiturlyf, getur, án þess að láta sér slíkt fyrir brjósti brenna, lagst á fjóra fætur í augsýn fjölda ókunnugra manna og skriðið og gelt eins og hundur. Þess háttar framferði er ekki nema eðlilegt og sjálfsagt í augum þessara reykingamanna. En höfuðnautnin er í því fólgin, að marijuana-fólkinu finnast allir vegir færir, undir áhrifum eitursins. Því var þetta kveðið um eiturlyfið í Bandaríkjunum:

Have you seen
That funny reefer man?
He says he swam to China;
Any time he takes a notion,
He can walk across the ocean.

Samtíðin 1938

Þar höfum við það. Skellinöðrur eru sannarlega mesti skaðvaldur ungmenna næst á eftir marijuana. Áfengi og önnur eiturlyf, lögleg og ólögleg, komast ekki í hálfkvisti við MARIJUANA — MORÐINGJA ÆSKULÝÐSINS.

Flokkar: Menning og listir · Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 15.12.2017 - 16:52 - FB ummæli ()

Über fækkar sjúkabílaferðum

Einhvers misskilnings virðist gæta um merkingu orðsins „hagsmunaaðili“ á Íslandi. Í frétt í Morgunblaðinu í lok september sl. um fjölgun leigubílaleyfa sagði: „Í kjöl­far um­sagna áttu sér­fræðing­ar ráðuneyt­is­ins fundi með hagsmunaaðilum, m.a. full­trúa Frama, og ráðherra hitti full­trúa leigu­bif­reiðar­stjóra frá öll­um stöðvum á höfuðborg­ar­svæðinu.“ Misskilningurinn felst í því að telja „hagsmunaaðila“ vera eingöngu þann sem veitir þjónustuna en ekki þann sem þiggur hana. Lang stærsti hagsmunaaðilinn — almenningur í landinu, ég og þú — er ekki boðaður á fund eða spurður álits. Þetta er sérstaklega bagalegt þar sem ráðherra samgöngumála var kosinn á þing af almenningi, mér og þér, sem fulltrúi okkar, en ekki stjórn Frama eða annarra bifreiðastöðva.

Nema náttúrlega hagsmunasamtök leigubílstjóra á Íslandi séu með stjórnmálamennina í vasanum, hafi látið háar upphæðir af hendi rakna í kosningasjóði þeirra. Það getur tæplega verið, nú þegar stjórnmálaflokkarnir eru komnir á ríkisjötuna (einmitt með þeim rökum að auka sjálfstæði þeirra gagnvart sérhagsmunahópum).

Það kemur betur og betur í ljós hve mikilvægt það er hverju samfélagi að það sé frelsi til að keppa í fólksflutningum. Ísland er því miður ekki frjálst samfélag að þessu leyti. Frétt frá í fyrradag rennir enn styrkari stoðum undir mikilvægi frelsisins til að keppa: Þar sem Über starfar hefur ferðum með sjúkrabílum fækkað um 7% (könnunin var gerð í 766 borgum í 43 ríkjum). Ástæðurnar eru meðal annars þessar: A) Sjúklingar eru sér ágætlega meðvitaðir hversu alvarleg veikindi þeirra eru með tilliti til þess hvor hringja þarf á sjúkrabíl eða skutlu. B) Skutlur eru áreiðanlegri en sjúkrabílar. C) Sjúklingar velja sjálfir á hvaða sjúkrastofnun þeir fara ef þeir taka skutlu en þurfa ekki að sætta sig við það sjúkrahús sem sjúkrabílstjórinn velur.

Ég hef áður bent á það á þessum vettvangi að þar sem skutlur eru leyfðar minnkar ölvunarakstur.

Annar kostur við skutlur er að þörfin fyrir að taka bílaleigubíl minnkar stórlega. Kunningi minn sem heimsótti Kaliforníu nýlega sagðist guðs lifandi feginn að þurfa ekki að dragnast lengur með bílaleigubíl. Það ætti að kæta þá sem telja bíla of fyrirferðarmikla í borgarlandslaginu í Reykjavík. Ferðamaður sem notast við skutlur tekur ekki stæði við íbúðina sem hann leigir svo dæmi sé tekið.

Það er ekki bara sjálfsögð kurteisi gagnvart almenningi í landinu að frelsi ríki í þessu efni heldur líka allverulegur sparnaður í heilbrigðiskerfinu. Ferð með sjúkrabíl kostar stórfé og því færri sem aka undir áhrifum því minni kostnaður fellur á samfélagið. Ég skil ekki eftir hverju stjórnmálamennirnir okkar eru að bíða. Af hverju er þessu sérhagsmunapoti í farþegaflutningum ekki hætt?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál
Efnisorð: ,

Fimmtudagur 17.8.2017 - 18:08 - FB ummæli ()

Leigubílstjórinn sem sigraði heiminn

Eins og flestir vita er atvinnufrelsi í leigubílaakstri af skornum skammti á Íslandi. Er það gert til að vernda þjóðina (einkum unglingsstúlkur) og spara í ríkisrekstrinum (ekki viljum við hafa of marga leigubíla, það kostar svo mikinn gjaldeyri að flytja þá inn!). Þetta ástand er sorglegt og hlægilegt. Hlægilegt vegna þess að rökin eru út í hött og sorglegt vegna þess að bann við frelsi til að keppa á þessum markaði dregur stórlega úr nýsköpun í atvinnulífinu.

Stutt saga gefur vísbendingu um tjónið sem Ísland hefur orðið fyrir á þeim áratugum sem þessi atvinnugrein og aðrar svipaðar hafa verið „í böndum“. Tjónið er að vísu ekki mælanlegt í tölum vegna þess að það sem aldrei byrjar, verður aldrei neitt. Tjónið er engu að síður gríðarlegt.

Alfreð Elíasson stofnandi og forstjóri Loftleiða.

Akstur leigubifreiða er atvinnugrein sem krefst ekki mikillar sérþekkingar. Hún er kjörin fyrir ungt fólk sem er að stíga sín fyrstu skref í atvinnulífinu — eins og til dæmis Alfreð Elíasson stofnanda og forstjóra Loftleiða. Þegar Alfreð var 18 ára hóf hann að reka leigubíl. Um tvítugt var hann kominn með tvo bíla. 22 ára ákvað hann að læra til flugmanns, seldi leigubílana og fór til Kanada í flugnám.

Auðvelt er að gera sér í hugarlund hvað Alfreð sá fyrir sér meðan hann ók farþegum um Reykjavík: Hann áttaði sig á tækifærunum sem voru að verða til í flutningum farþega með flugvélum. Alfreð er einn af brautryðjendum farþegaflugsins á Norður-Atlantshafi. Það er viðurkennt á alþjóðavettvangi. Loftleiðir voru stærsta fyrirtæki landsins.

Án frelsis til að keppa — eins og ástandið er í dag — hefði Alfreð ekki fengið tækifæri til að spreyta sig á þessum markaði, ekki tekið fyrstu skrefin í fyrirtækjarekstri á þessu sviði. Ekki er víst að hann hefði áttað sig á tækifærunum í farþegaflutningum í lofti sem voru að verða til með stærri og fulkomnari flugvélum.

Ég vona að þessi saga sýni hve skaðlegt það er að skerða frelsi til að keppa á markaði og sérstaklega á markaði sem hentar ungu athafnafólki vel. Það er miklu skaðlegra en virðist í fyrstu.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 15.7.2017 - 20:47 - FB ummæli ()

„Við ræddum um ættleiðingar“

„Við ræddum um ættleiðingar,“ sagði Natalia Veselnitskya lögfræðingur frá Rússlandi um fundinn sem hún átti með Donald Trump yngri ofl. sl. sumar. Af hverju skyldi þessi rússnesski lögfræðingur vilja ræða ættleiðingar? Jú, það er vegna þess að vinir hennar í glæpaklíkunni sem er æðsta stjórn Rússlands eru ósáttir við Magnitsky-lögin — bandarísku lögin sem Bill Browder fjárfestir á að hluta heiður af. Lögin frysta eigur, banna viðskipti og hamla ferðum þeirra sem báru ábyrgð á dauða lögfræðings Bill Browders, Sergei Magnitsky. Um 40 einstaklingar, þar á meðal æðsti yfirmaður ríkislögreglu Kremlverja, eru á listanum. Viðbrögð Pútíns voru ekki þau að draga hina seku til ábyrgðar heldur að banna ættleiðingar munaðarlausra barna frá Rússlandi til Bandaríkjanna. Stórmannlegt, eða hitt þó heldur.

Um þetta er fjallað í nýjasta „Planet Money“ þættinum sem er framleiddur af „National Public Radio“ í Bandaríkjunum. Bill Browder rekur sögu sína í stuttu máli og aðdragandann að setningu Magnitsky-laganna, en bók hans Red Notice kom út á íslensku og undir titlinum Eftirlýstur. Frábærlega upplýsandi bók um hvaða mann Pútín og vesalingarnir í hjörð hans hafa að geyma.

Rússnesski lögfræðingurinn Natalia Veselnitskya. Hún hefur þann starfa að reyna að fá Magnitsky-lögunum hrundið.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 14.6.2017 - 22:12 - FB ummæli ()

Über skutlar öldruðum og öryrkjum

Bæjarstjórn Lónsstrandarbæjar í Kaliforníu samþykkti um daginn að ráðast í tilraunaverkefni sem gengur út á að niðurgreiða ferðir aldraðra og öryrkja með skutlþjónustunni Über. Lónsströnd mun vera fyrsta bæjarfélagið í Bandaríkjunum sem það gerir. Þetta mun vera fyrsta slíka verkefnið sem Über tekur þátt í.

Samkomulagið gerir ráð fyrir að öryrkjar og 55 ára og eldri greiði ekki meira en 5 dali (um 500 kr.) fyrir ferðir innan bæjarmarkanna. Niðurgreiðslurnar eru nokkrum takmörkunum háðar. Til dæmis fá 55-75 ára aðeins niðurgreiddar ferðir er snerta heilbrigðisþjónustu. Engar hömlur eru á niðurgreiðslum til 75+ eða öryrkja. Á tilraunatímabilinu sem hefst um miðjan júní er gert ráð fyrir að fyrstu 40 ferðirnar í hverjum mánuði séu niðurgreiddar.

Það sem mér þykir eftirtektarvert við þetta tilraunaverkefni er að enginn virðist hafa teljandi áhyggjur af því hvort bílstjórar hafi meirapróf eða ekki. Nóg er að standast hæfniskröfurnar sem Über gerir til bíls og bílstjóra. Þótt misjafn sauður sé í ökumannahópi Über eins og annars staðar er sá ferðamáti mjög öruggur. Helsta ástæðan fyrir því er gagnkvæm einkunnagjöf sem er órjúfanlegur hluti af viðskiptunum. Ökumenn og farþegar hafa ríka ástæðu til að halda sig á mottunni, annars fá þeir fáar stjörnur. Farþegar með stjörnufæð verða að treysta á aðra samgöngumáta en skutl og ökumenn með stjörnufæð fá færri farþega og þar af leiðandi minni tekjur.

Lónsströnd í Kaliforníu.

Á sama tíma skora rentukóngarnir á Íslandi á yfirvöld að „koma böndum“ á skutlþjónustur með þeim skotheldu rökum að mæður unglinga hefðu komið að máli við þá og lýst yfir áhyggjum. Mér finnst þetta hugtak að „koma böndum“ einstaklega skemmtilegt. Þar sem „bönd“ eru á starfsemi, þar er frelsi lítið, þar er verðið hátt. Þar þarf fólk að vinna lengur til að eiga fyrir hlutunum.

Sannleikurinn er sá að skutlþjónustur eru síst óöruggari en skutl með opinberlega stimpluðum einkaleyfis-leigubílum. Öruggari ef eitthvað er, en þar sem Über starfar aka færri undir áhrifum áfengis.

Sem ég sit hér og skrifa þetta rifjast upp fyrir mér saga sem ég heyrði nýlega. Þannig var að óvandaður einstaklingur í Casablanca í Marokkó komst yfir Über-reikning vandaðs einstaklings í New York í Bandaríkjunum. Sá óvandaði notaði skutlþjónustuna ótæpilega á kostnað þess vandaða. En í staðinn fyrir að vera ósáttur við misnotkunina, var New York-búinn helsáttur. Ástæðan var sú að Casablanca-búinn var einstaklega stundvís og lét Überinn aldrei bíða eftir sér. Það stórhækkaði einkunnagjöf New York-búans sem hafði þann leiða sið að láta Überinn bíða eftir sér með tilheyrandi skítaeinkunn. New York-búinn lét misnotkunina viðgangast þar til einkunnin var orðin ásættanlega há. Það hafði og sitt að segja að Über-ferðir í Casablanca eru hræódýrar, þannig að það var ekki kostnaðarsamt fyrir New York búann að hækka einkunn sína með þessum hætti.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál
Efnisorð: , , , , , , , , ,

Fimmtudagur 9.3.2017 - 17:09 - FB ummæli ()

Ólöglegi naglaklipparinn

Einn góðan veðurdag í Concord-borg í New Hampshire hóf ungur maður, Michael Fisher að nafni, að snyrta neglur í leyfisleysi á túninu fyrir framan Hárklippinga-, snyrtifræða- og fegurðarmálastofu ríkisins.

Naglasnyrting er góður siður.

Þetta var í fyrsta sinn sem Michael snyrti neglurnar á öðrum en sjálfum sér. Aðspurður af fréttamanni sem var á staðnum um hversvegna hann ákvað að byrja að snyrta neglur og það í leyfisleysi fyrir framan ríkisstofnunina sem fer með þessi mál sagði hann: „Ástæðan fyrir því að ég er að þessu er sú að naglasnyrting er einn af þessum meinlausu verknuðum sem ég get gripið til, til að afhjúpa hve lögin eru ósanngjörn.“

Ekki leið á löngu þar til eftirlitsmenn frá Hárklippinga-, snyrtifræða- og fegurðarmálastofu voru mættir á „snyrtistofuna“ hans Michaels til að gera athugasemdir við starfsemina. Skömmu síðar bar lögregluna að. „Upphaflega ætluðum við bara að birta honum stefnu um að mæta fyrir rétt,“ sagði lögreglumaðurinn við fréttamanninn. „En hann gaf í skyn að hann hyggðist ekki láta af starfseminni svo við handtókum hann.“

Michael hafnaði reynslulausn og ákvað að játa sekt sína til að vekja enn meiri athygli á þessu máli.

Hér er fréttin í heild sinni:

Eins og alkunna er þá eru atvinnuleyfi gefin út með hag og öryggi viðskiptavinarins (þjóðarinnar) fyrst og fremst í huga eins og þeir sem fyrir sitja á fleti (rentukóngarnir) eru óþreytandi við að benda okkur á.

En það er önnur hlið á atvinnuleyfum og það var sú hlið sem ólöglegi naglasnyrtirinn vildi draga fram í dagsljósið. Sú hlið er viðskiptahindrunin, viðskiptahindrunin sem felst í allskyns námskeiðum, útgjöldum og kröfum sem fækka tækifærum og draga úr samkeppni, framförum og velmegun. Ennfremur eru þeir sem sækja slíkan „skóla“ að sóa dýrmætum tíma með tilheyrandi tekjutapi og jafnvel skuldasöfnun.

Eða hví skyldu fullorðnir, sjálfráða einstaklingar ekki ráða því sjálfir hvort þeir eiga með sér viðskipti um jafn einfaldan og saklausan hlut og naglasnyrtingu? Ég tala nú ekki um á vorum dögum með hið góða aðhald sem felst í gagnkvæmri einkunnagjöf á netinu (sbr. Uber, Ebay, Yelp, Tripadvisor, Facebook og Airbnb)? Hafi nokkurn tíma verið þörf á löngum lista um nauðsynlegan útbúnað og aðbúnað á snyrtistofum er hún ekki lengur fyrir hendi. Viðskiptavinirnir eru fullfærir um að meta það á eigin spýtur hvort naglasnyrtistofa er verð viðskipta þeirra.

Uppreisn Michael Fishers hefur því miður litlu skilað vegna þess að enn þann dag í dag þarf að sækja námskeið í 60 daga til að öðlast réttindi til að snyrta neglur í New Hampshire. Góðu fréttirnar eru hinsvegar þær að ekki þarf lengur sérstakt leyfi til að mega þvo lubbann á öðrum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál
Efnisorð: , , , , ,

Höfundur

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson
sögumaður. Sagði söguna af Alfreð Elíassyni og Loftleiðum í samnefndri heimildarmynd og Árna Sam. í SAM-bíóunum í bókinni Á fullu í 40 ár.
RSS straumur: RSS straumur