Miðvikudagur 25.01.2017 - 16:21 - FB ummæli ()

Rentukóngurinn – Donald Trump

Ein tegund rentukóngs er sú sem á fasteignir miðsvæðis. Slíkir rentukóngar geta í krafti þeirra forréttinda verðlagt afnotin sér í vil. Ósjaldan hafa þeir fengið konungdæmið í arf frá foreldrum sínum. Donald Trump forseti Bandaríkjanna er slíkur erfðaprins. Manhattan-eyja, þar sem rætur viðskiptaveldis hans eru, er svæði sem afmarkast af náttúrulegum ástæðum (er tæpir 60 ferkílómetrar með um 850 þúsund fasteignum). Þrátt fyrir að vera í Bandaríkjunum gilda af þessum sökum svipuð lögmál á Manhattan og í löndum þar sem rentukóngarnir eru margfalt valdameiri og hagur almennings að sama skapi verri.

Ef til vill mótaðist afstaða Donald Trumps til umheimsins út frá þessum veruleika. Stjórnmálastefna hans er sumpart lituð sjónarmiðum rentukóngsins. Hann vill búa svo um hnútana að innlend framleiðslufyrirtæki standi betur að vígi á innanlandsmarkaði en framleiðslufyrirtæki sem flytja framleiðslu sína til landsins. Eins og Íslendingar hafa kynnst á eigin skinni og gera enn þá hækkar slík verndarstefna vöruverð, dregur úr framþróun, minnkar úrval og almenna hagsæld. Vegna þessa hafa margir talsmenn frjálsra viðskipta ekki stutt forsetaframboð Donalds.

Donald Trump er mikill áhugamaður um samninga og samningatækni. Það er í samræmi við eðli rentukóngsins. Fyrir honum snýst flest um að ná samningum frekar en láta markaðslögmálin njóta sín. Stóri ljóðurinn á samningalist rentukóngsins er sá að þeir sem bera kostnaðinn — almenningur — eiga sjaldnast fulltrúa við samningsborðið.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál
Efnisorð: , , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson
sögumaður. Sagði söguna af Alfreð Elíassyni og Loftleiðum í samnefndri heimildarmynd og Árna Sam. í SAM-bíóunum í bókinni Á fullu í 40 ár.
RSS straumur: RSS straumur