Fimmtudagur 02.03.2017 - 04:13 - FB ummæli ()

Uber fækkar fullum

Tim Kleiser aðstoðarvarðstjóri í lögreglu Lónsstrandarbæjar í Kaliforníu benti á það í viðtali við bæjarblaðið sl. helgi að svo virtist sem skutl með einkabílum á vegum Uber og Lyft drægi úr ölvunarakstri — að tilfellum hefði fækkað um 21% milli ára. „Uber og Lyft er svo aðgengilegur ferðamáti að drukkið fólk freistast síður til að setjast undir stýri,“ sagði hann.

Uber dregur úr freistingunni að aka fullur. Á myndinni má sjá milljónamæringjann og Uber-bílstjórann Paul English aka farþegum í Teslunni sinni.

Þessi óvæntu og ánægjulegu hliðaráhrif hafa ekki farið framhjá bæjarstjórn Lónsstrandar. Hún hefur látið útbúa sérstök stæði á fjölförnum stöðum í miðbænum svo auðveldara og öruggara sé að stíga í og úr bílum.

Það er eflaust bara tímaspursmál hvenær skutl með einkabílum fyrir milligöngu Uber eða Lyft eða sambærilegs fyrirtækis (etv. íslensks?) kemur til Íslands. Þeir sem hyggjast vinna sér inn aukapening með slíkum hætti þurfa að standast þessar kröfur:

  • Vera amk. 21. árs.
  • Hafa ekið bíl í amk. þrjú ár.
  • Hafa almennt bílpróf (ökuskírteini).
  • Hafa fjögurra dyra bifreið til umráða sem er yngri en 10 ára og stenst skoðun.
  • Hafa skráningarskírteini bílsins á reiðum höndum.
  • Vera með tryggðan bíl.
  • Vera með hreint sakarvottorð.
  • Vera með flekklausan ökuferil.

Þeir sem vilja gerast leigubílstjórar á Íslandi eins og fyrirkomulagið er í dag þurfa — fyrir utan að standast svipaðar kröfur — að sækja 52 kennslustunda námskeið sem kostar 155 þúsund krónur.

Þetta hafði ónefndur nemandi um meiraprófið að segja nýlega:

„Þá er þetta komið í vasann eftir 3 daga námskeið í vikunni (ath dagsnámskeið) til viðbótar við aukinn ökuréttindi 18 kvölda námskeið og fjöldann allan af ökutímum og prófum. Verð nú að segja „ÞETTA ER NÚ MEIRA ANDSK BULLIГ! í þessu þjóðfélagi. Tíminn og peningarnir sem hafa farið í þetta er lygilegt 🙁

En núna er þetta búið og gert og verður nýtt til fulls, en ég er í alvörunni að spá í hvað ég eigi nú! að taka mér fyrir hendur næst 😉 Dæs, erfitt líf 😉 —“

En kálið er ekki sopið þótt í ausuna sé komið. Útskrifaður leigubílstjóri getur ekki skellt TAXI-merki á toppinn á bílnum sínum og byrjað að flytja farþega. Fjöldi leigubílaleyfa er takmarkaður með lögum.

Í svari Samgöngustofu vegna fyrirspurnar Fréttablaðsins frá í desember sl. sagði: „Til að Uber gæti starfað hér á landi þyrfti því að koma til breyting á regluverkinu. Eitt það helsta er að gefa þyrfti starfsemina frjálsa.“

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Tölvur og tækni · Viðskipti og fjármál
Efnisorð: , , , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson
sögumaður. Sagði söguna af Alfreð Elíassyni og Loftleiðum í samnefndri heimildarmynd og Árna Sam. í SAM-bíóunum í bókinni Á fullu í 40 ár.
RSS straumur: RSS straumur