Sunnudagur 04.11.2012 - 15:13 - FB ummæli ()

Að uppnefna gagnrýna umræðu sem skítadreifingu

Formaður Besta flokksins skrifar langa grein undir fyrirsögninni „drepum á skítadreifurum“.  Í greininni fer Guðmundur Steingrímsson eins og köttur í kringum heitan graut við að rökstyðja að þjóðin á áfram að búa við verðtryggingu og óbreytt kvótakerfi, hann er á móti niðurfærslu lána hjá almenningi og hann telur að lagning rafstrengs til Evrópu sé töfralausnin á efnahagsvanda Íslendinga.  Engin tilraun er gerð til þess að svara þeim efnislega, sem hafa fært málefnaleg rök fyrir því að afleggja verðtrygginguna og kvótakerfið í sjávarútvegi – Þeir sem hafa lagt til nýjar og vel rökstuddar leiðir, eru einfaldlega uppnefndir skítadreifarar!

Við hrunið varð samdráttur í verðmætaframleiðslu. Laun, eignir og önnur verðmæti lækkuðu að verðgildi.  Nú eru peningar ávísun á verðmæti og það er fráleitt að ætla að hægt sé að tryggja sérstaka „verðtryggingu“ á peningum og lánum þegar andlag þeirra hefur lækkað gríðarlega.   Með leið verðtryggingarinnar er verið að viðhalda gríðarlegu ójafnvægi í hagkerfinu.  Augljóst er að með breyttri fiskveiðistjórn væri hægt að færa mun meira líf í undirstöðuatvinnugrein landsmanna, en núverandi kerfi hefur algerlega brugðist upphaflegum markmiðum sínum. Það eitt að fiskur taki verð á markaði myndi leiða til mikillar framþróunar í fiskvinnslu og tryggja aukinn arð af greininni.

Það að kalla eftir umburðalyndri umræðu í öðru orðinu og kveða niður í hinu orðinu rökstuddar leiðir með uppnefnum fer ekki saman. Ekki bætir úr þegar Guðmundur Steingrímsson gefur ekki rétta mynd og snýr í raun út úr, í langhundi sínum, áhyggjum okkar sveitarstjórnarmanna í Skagafirði, yfir fækkun íbúa í kjölfar gríðarlegrar fækkunar starfa á vegum ríkisins í sveitarfélaginu frá hruni, en þeim hefur fækkað um 15%.

Visssulega fer fram gríðarleg verðmætaframleiðsla hér á landi, en óstjórnin og séríslensk kerfi, eins og verðtryggingin, lífeyrissjóðakerfið og kvótakerfið, hafa orðið til þess að megnið af verðmætunum gluðast úr höndum þjóðarinnar.  Mikils er um vert að fagna gagnrýnni umræðu um breytingar á framangreindum kerfum til hagsældar fyrir þjóðina og þeir sem vilja vinna þjóðinni gagn ættu frekar að hvetja til umræðunnar en að þagga hana niður.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sigurjón Þórðarson
Líffræðingur og sveitarstjórnarmaður á Sauðárkróki.
RSS straumur: RSS straumur