Miðvikudagur 06.03.2013 - 23:53 - FB ummæli ()

Innanhússrannsókn Samtaka Atvinnulífsins

Það sló mig að lesa ræðu fráfarandi formanns Samtaka Atvinnulífsins, en það var einkum tvennt sem hann óttaðist mest, þ.e. að laun landsmanna hækkuðu og svo hitt að verðtryggingin yrði afnumin.   Sönglið úr herbúðum SA er einkar falskt.

Ekki er boðlegt að kenna óhóflegum hækkunum launa almennings um óðaverðbólguna frá hruni.  Kjör launafólks hafa rýrnað mjög og stefnir landið hraðbyri í að verða láglaunaland á evrópskan mælikvarða. Miklu nær væri að Samtök Atvinnulífsins beittu sér fyrir innanhússrannsókn á orsökum verðbólgunnar og líta þá sérstaklega til innstreymis erlends lánsfjár í þúsunda milljarðakrónatali, sem dælt var inn í uppblásin fyrirtæki og í kvótakaup.  Samtökin gætu líka skoðað hvar ábyrgð þeirra liggur á því að hafa glatað mörghundruð milljörðum af lögbundnum sparnaði launafólks í glæfralegum fjárfestingum lífeyrissjóðanna.

Það felst enginn stöðugleiki og framþróun í því að gera nákvæmlega allt eins og fyrir hrun, hvort sem það er séríslenska verðtryggingin, lífeyrissjóðakerfið eða kvótakerfið.  Öllum ætti að vera ljóst, og þá sérstaklega áhrifamönnum SA, sem margir hverjir hafa fengið ríkulegar afskriftir sjálfir, að sjálfvirkar hækkanir á skuldum Jóns og Gunnu ganga ekki.  Dæmið gengur alls ekki upp þegar ekki er hægt að hækka laun þeirra og þaðan af síður þegar SA og ASÍ vilja moka ennþá stærri hluta launa þeirra inn í lífeyrissjóðasukkið.

Auðveldasta leiðin til þess að auka verðmætaframleiðslu þjóðfélagsins er að auka frelsi til fiskveiða.  Núverandi kvótakerfi skilaði minni þorskafla á árinu 2011 en kom á land af Íslandsmiðum árið 1913. Er ekki kominn tími til að tengja?

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sigurjón Þórðarson
Líffræðingur og sveitarstjórnarmaður á Sauðárkróki.
RSS straumur: RSS straumur