Laugardagur 04.05.2013 - 23:51 - FB ummæli ()

Bjarni Ben kemst á sjens

Í síðustu viku, þ.e. vikuna fyrir kosningar, lá Framsóknarflokknum gríðarlega á að aflétta umsátursástandinu um heimili landsins. Eftir hagstæð úrslit kosninganna fyrir flokkinn, hafa Framsóknarmenn tekið því rólega, spáð í spilin og boðið, í umboði Ólafs Ragnars Grímssonar, öðrum flokkum, sem eiga sæti á Alþingi, upp á að gera hosur sínar grænar fyrir Framsóknarflokknum. Þeir hafa verið sætasta stelpan á Alþingisballinu og notið athyglinnar til hins ítrasta. Allir hafa flokksformennirnir blikkað Framsóknarmaddömmuna, nema þá helst Píratar, sem voru alveg til í að leiða dömuna út af ballinu, án þess þó að ganga lengra. Greinilegt er að Bjarni Ben hefur haft upp á mest að bjóða. EnFramsóknarflokkurinn hefur tilkynnt einhliða að það verða teknar upp formlegar viðræður við Bjarna Ben um framhaldið og það algerlega á forsendum Framsóknarflokksins.

Þegar stjórnmálaflokkar taka upp viðræður er ekki óalgengt að leiðtogarnir komi fram sameiginlega, gefi tóninn og tilkynni um hvert skuli stefna og á hvaða forsendum. Það er erfitt að sjá fyrir framhaldið, þ.e. hvort þetta leiði í fyrstu atrennu til farsæls sambands, þar sem Framsóknarflokkurinn virðist algerlega hafa töglin og hagldirnar í viðræðunum.

Síðustu vikuna hefur krafan um að umsátursástandi um heimili landsins verði aflétt dempast og lítið virðist nú liggja á, hlutirnir virðast snúast meira um hver fær að sitja í hvaða sæti. Eitt er víst: Bjarni Ben er kominn á sjens

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sigurjón Þórðarson
Líffræðingur og sveitarstjórnarmaður á Sauðárkróki.
RSS straumur: RSS straumur