Föstudagur 05.07.2013 - 01:24 - FB ummæli ()

Hef engar áhyggjur af Fjórflokknum

Hvernig í ósköpunum var mögulegt að tapa á því að lána skilvísum almenningi pening á gríðarháum verðtryggðum vöxtum?

Tapið á starfrækslu einnar ríkisstofnunar, Íbúðalánasjóðs, sem ætti af framansögðu að skila miklum miklum ágóða, hefur valdið ríkissjóði gríðarlegu tjóni. Svo háu að það nemur hálfum fjárlögum ríkisins.  Í hvaða lýðræðisríki væri almenningi boðið upp á þann málflutning að svo svakalegt tap hafi ekki verið ráðamönnum löngu ljóst?  Tapið er nánast kynnt sem ófyrirséð uppákoma vegna mistaka og vanþekkingar starfsmanna og stjórnenda sjóðsins.  Í framhjáhlaupi eru síðan nefnd feimnislega pólitísk áhrif, hagsmunatengsl og sinnuleysi stjórnsýslunnar.

Við það að renna í gegnum samantekt Rannsóknarskýrslu Alþingis um Íbúðalánasjóð þarf enginn að velkjast í vafa um að pólitískur ruglandi og spilling á æðstu stöðum, strandaði sjóðnum sem hefði átt að mala gull.  Íbúðalánasjóður hefur greinilega verið misnotaður til að hygla pólitískum fylgifiskum um áratugaskeið. Nefnd hafa verið til sögunnar miður falleg dæmi af viðskiptum ráðamanna Kaupfélags Skagfirðinga við sjóðinn, en ekki er síður stingandi að skoða hvar miklu mun hærri upphæðir töpuðust á lánveitingum til fasteigna- og leigufélaga.   Augljóst er að pólitískar tengingar hafa ráðið að miklu leyti þegar á annað hundrað milljarða voru lánaðir í viðkomandi fasteignafélög m.a. á Miðnesheiðina, en þeir peningar skiluðu sér illa til baka.  Sömuleiðis er ljóst sjóðurinn var notaður til þess að kynda undir þensluna í aðdragand hrunsins og hann virðist ekki síður hafa verið notaður sem stuðpúði til þess að taka höggið af völdum aðilum eftir hrun.

Ég hef engar áhyggjur af fjórflokkunum sjálfum, sem eru komnir í þann gamalkunna leik að kenna hverjum öðrum um ruglið. Allur á hann sök á en þó sérstaklega Framsóknarflokkurinn.  Ég hef aftur á móti meiri áhyggjur af kjósendum og þá einkum kjósendum Framsóknarflokksins, sem hljóta að vera að vakna upp af vondum draumi.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sigurjón Þórðarson
Líffræðingur og sveitarstjórnarmaður á Sauðárkróki.
RSS straumur: RSS straumur