Mánudagur 23.09.2013 - 22:54 - FB ummæli ()

Skoðanafrelsi á Sauðárkróki

Í pistli á Eyjunni nýlega var gert að því skóna að á Sauðárkróki, mínum heimabæ, ríkti alger skoðanakúgun, sem ætti sér helst hliðstæður í einræðisríkjum. Ekki get ég með nokkru móti fallist á þá skoðun pistlahöfundar.

Ég hef mætt á félagsfundi Kaupfélagsins og rætt um þá staðreynd að Kaupfélag Skagfirðinga er stórt fyrirtæki á íslenskan mælikvarða og risastórt í krúttlegu skagfirsku samfélagi og bent ráðamönnum Kaupfélagsins á að þeir verði að taka gagnrýni, sýna ákveðið umburðarlyndi og í raun fagna gagnrýninni vegna þess að hún veitir fyrirtækinu nauðsynlegt aðhald. Gagnrýnin er af ýmsum toga á borð við lág laun, lágar greiðslur fyrir afurðir bænda, miklar fjárfestingar í félögum, sem ekki eru með neina atvinnustarfsemi í Skagafirði, á borð við olíufélagið Olís og Morgunblaðið, sem ekki hefur verið þekkt fyrir að vera málsvari samvinnuhugsjónarinnar. Margt fleira má eflaust týna til.

Aldrei hef ég tekið eftir öðru en að ráðamenn Kaupfélagsins hafi umborið gagnrýnina, svarað henni stundum málefnalega og jafnvel sýnt það í verki.

Alþekkt er að grín er notað í þjóðfélagslegri ádeilu. Bæjarbúar gerðu á sínum tíma stólpagrín á Króksblóti, að Háuhlíðarbraski stjórnenda samvinnufélagsins og ég man ekki betur en að allir hafi hlegið með þó svo að ýmsum Framsóknarmönnum hafi fundist gamanið grátt. Ástæðan fyrir því að ádeilan er færð í léttan búning og fer oft ekki í meira hámæli en raun er er alls ekki hræðsla við refsiaðgerðir eða útskúfun, heldur getur verið erfitt í minni samfélögum að halda uppi hvassri gagnrýni á nágrannana þegar óhjákvæmilegt er að fara út fyrir hússins dyr án þess að hitta þá.

Nándin er yfirleitt styrkur smárra samfélaga og verður hún stundum til sjálfsritskoðunar á stöðum eins og Sauðárkróki og reyndar Íslandi öllu, frekar heldur en að fólk sé kúgað til að halda aftur af skoðunum sínum.

 

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sigurjón Þórðarson
Líffræðingur og sveitarstjórnarmaður á Sauðárkróki.
RSS straumur: RSS straumur