Laugardagur 21.03.2015 - 12:51 - FB ummæli ()

Samfylkingin á krossgötum

Það var gott hjá Sigríði Ingibjörgu að bjóða sig fram gegn Árna Páli í formannskjöri Samfylkingarinnar.  Hún greindi hreinskilnislega frá stöðu flokksins og þeirri áru sem umlykur ímynd Samfylkingarinnar. Að mínu viti er ekki persónan Árni Páll Árnason mein flokksins, en hann er sætur og yfirleitt prúður.  Vandinn er sú ábyrgðalausa stefna sem flokkurinn lét leiða sig inn á til að komast til valda með Sjálfstæðisflokknum í hrunstjórninni og síðan öfugsnúin forgangsröðun vinstristjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur.  Ríkisstjórn undir forystu jafnaðarmanna lagði alla krafta sína í að endurreisa óbreytt fjármálakerfi, þvælast fyrir breytingum á stjórnarskrá, standa vörð um ömurlegt kvótakerfi og síðan að sækja um aðild að Evrópusambandinu þrátt fyrir að þingmeirihluti væri ekki fyrir aðild.

Helstu mistök Árna Páls sem formanns voru að fara ekki í neina vinnu við að endurskoða stefnu flokksins. Ekki hefur Samfylkingin verið áberandi í umræðu um að koma á nýrri stjórnarskrá og beinu lýðræði eða nokkurri endurskoðun á fjármálakerfinu.  Formaður Samfylkingarinnar hefur lokað á umræðu sem miðar að endurskoðun á stjórn fiskveiða í átt að jafnræði og hefur haldið fast í óbreytt kerfi með þeirri breytingu að hækka álögur á atvinnugreinina. Það er ljóst að enginn sem tengist greininni á nokkurn hátt sér nokkurt ljós í tillögum Samfylkingarinnar – hvorki þeir fáu sem vilja halda í þrönga sérhagsmuni og hvað þá hinir sem vilja raunverulegar breytingar.

Það munaði einu atkvæði að Árni Páll væri flautaður út af vellinum af landsfundarfulltrúum en mér finnst ekki ólíklegt að hann hefði fengið rauða spjaldið með almennari kosningu í flokknum. Nú er spurningin sú hvort að forysta Samfylkingarinnar muni taka þá vantraustsyfilýsingu helmings landsfundarfulltrúa alvarlega og taka stefnuna til raunverulegrar endurskoðunar.  Sjálfur á ég síður von á því og tel líklegra að forystan reyni áfram með óbreytta stefnu og fækki þá áfram í þeim hópi kjósenda sem telja flokkinn vænlegan kost.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sigurjón Þórðarson
Líffræðingur og sveitarstjórnarmaður á Sauðárkróki.
RSS straumur: RSS straumur