Fimmtudagur 25.02.2016 - 23:38 - FB ummæli ()

Eru háir vextir heilagir?

Umræða um háan húsnæðiskostnað heimila er á algerum villigötum. Ekki virðist mega ræða það augljósa þ.e. vaxtaokrið. Af fréttum af Fasteignaráðstefnunni 2016, í Hörpu í dag, þá virðist sem vaxtokrið hafi ekki borið á góma og það jafnvel þó svo að fréttir hafi borist af því samdægurs að bankarnir hafi grætt á annað hundrað milljarða króna í fyrra!

Vitleysisumræðan er því miður ekki bundin við  Eygló ráðherra eina, sem ætlaði öllu að bjarga. Hún hefur engu að síður verið mjög leiðandi í bullinu. Reiknaði fyrir nokkru sjálf út, að hægt væri að lækka húsnæðiskostnað um heil 10%, með því hver og einn þeirra 10 aðila, sem kæmu að byggingu íbúðarhúss lækkaði sinn reikning um 1%. Ráðherrann sendi síðan orkustangir í fjármálaráðuneytið, til þess að hvetja starfsmenn áfram, þannig að þeir gætu náð sama árangri og hún, í reikniskúnstum.  Hún hefur talað fyrir uppbyggingu félagslegs íbúðarhúsnæðis, en kemur engu í verk, nema þá að selja auðmönnum íbúðarhúsnæði í eigu Íbúðarlánasjóðs.  Hvert mannsbarn ætti að vita hvað það mun leiða af sér nema þá Eygló – húsaleigan mun hækka upp úr öllu valdi. 

Á ráðstefnunni í Hörpu hélt Eygló því fram að sveitarfélögin gætu gert mjög margt til þess að lækka húsnæðiskostnað og í framhaldinu ætlaði hún að funda með stærstu sveitarfélögum landsins og spurja hvað hægt væri að gera!

Í stað þess að Dagur borgarstjóri nýtti tækifræði á ráðstefnunni til þess að kynna stórtækar áætlanir borgarinnar í húsnæðismálum sem hann blés út í aðdraganda síðustu sveitarstjórnarkosninga, þá fór hann í auma vörn og reyndi að kenna ríkinu um skort á byggingarlóðum í borginni. Viðbrögð borgarstjóra benda til þess því miður að kosningaloforð hans hafi verið innistæðulaus.

Hagfræði prófessor í Háskóla Íslands, Ragnar Árnasona bauð upp á mestu vitleysissósuna. Ragnar er þekktastur fyrir baráttu sína fyrir kvótum til lands og sjávar, en í málatilbúnaði sínum skautar  hann jafnan á milli þess að nýta sér rök annars vegar sovéskrar framleiðslustýringar og hins vegar frjáls markaðar. Markmiðið hjá Ragnari er þó alltaf eitt og hið sama  þ.e. að tryggja hag kvótahafa á kostnað almennings eða skattborgara.  Hagfræðiprófessorinn brá ekkert út af vananum þegar komið því að auðvelda fólki leið inn á húsnæðismarkaðinn.  Leiðin fól í sér að ríkisvæða húsnæðismarkaðinn að hluta, til þess að einkaeignarsjónarmið í meðferð og viðhaldi eigna geti ráðið ferðinni!

Allir sem skoða greiðsluseðla eða setja tölur inn í ágætar reiknivélar bankanna, sjá í hendi sér hvar kostnaður þeirra liggur sem eru að fjárfesta í íbúðarhúsnæði . Vextirnir eru jafnan stærsti kostnaðarliðurinn og það ætti að vera leikur einn fyrir stjórnvöld að ná honum niður, ef það er á annað borð vilji til þes. Einhverra hluta vegna þá virðist sem ekki mega ræða vaxtokrið þegar haldnar eru ráðstefnur um húsnæðisvandann.   Ráðandi öfl hvort sem það eru stjórnmálaflokkar, fjármálakerfið eða launþegahreyfingin setja málið aldrei á dagskrá.

Vaxtaokrið virðist vera að ná sömu stöðu og kvótinn í umræðu um vanda sjávarbyggðanna.  Það hafa verið haldnar ófáar ráðstefnur um byggðavandann, þar sem tryggt var að kvótabraskið bæri aldrei á góma og því jafnvel haldið fram að framseljanlegur kvóti væri grundvöllur að byggð. Afleiðinarnar voru að unga fólkið flúði sjávarbyggðirnar og nú berast fréttir af því að fólk sé að flýja land vegna erfiðleika á húsnæðismarkaði.

Það er rétt að staldra við og spyrja þeirrar gagnrýnu spurningar, hvers  vegna ekki var rætt um vaxtaokrið í Hörpu. Ástæðan tel ég að komi fram í því hverjir voru helstu bakhjarlar ráðstefnunnar þ.e. Arion banki og önnur fjármálafyrirtæki í landinu.  Lítil sem enginn hætta var á því að einhver óþægileg rödd slæddist inn á ráðstefnuna þar sem ráðstefnugjaldið var án vsk 37.500 kr.

 

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sigurjón Þórðarson
Líffræðingur og sveitarstjórnarmaður á Sauðárkróki.
RSS straumur: RSS straumur