Miðvikudagur 08.06.2016 - 22:47 - FB ummæli ()

Brynjar – verndari minnihlutahóps

Í nýlegum upplýsandi pistli Brynjars Níelssonar á Facebook er greinilegt að hann ver hlut lítils minnihlutahóps  á kostnað hins venjulega Íslendings.  Hann virtist sjá rautt þegar hann heyrði því hreyft að  rétt væri að færa skattbyrðina af venjulegu launafólki og yfir á stóriðjuna og kvótaþega.  Engu skipti þó svo skattbyrðin sé gríðarlega þungbær á venjulegu launafólki, en fyrir utan 38% launaskatt þá er  rétt að bæta við  þá tölu ríflega 20% vegna  innheimtu ríkisins á trygginga- og lífeyrissjóðsgjaldi.

Brynjar virðist ekki mega heyra á það minnst að stóriðjan og kvótaþegar greiði sanngjarna skatta eða hvað þá að sanngjörn markaðslögmál verði látin ráða við úthlutun aflaheimilda! Einu gilti þó svo íslensk stóriðja greiði aðeins brot af því orkuverði sem hinn venjulegi Íslendingur þarf að reiða fram og sé meira og minna á sérsamningum sem tryggir atvinnugreininni nánast algert skattfrelsi.

Í harðri hagsmunagæslu sinni fyrir minnihlutahópinn, hélt Brynjar því fram að sanngjarnar breytingar á núverandi kvótakerfi, sem kæmu hinum venjulega landsmanni til góða, myndu valda mikilli búseturöskun og ofan í kaupið leiða til bótaskyldu ríkisins.  Hver heilvita maður sem eitthvað fylgist með ætti að sjá að sjávarbyggðirnar hringinn í kringum landið eru nánast í útrýmingahættu,ef kerfið fær að halda að óbreytt áfram.  Sama á við um þá villandi fullyrðingu Brynjars að sanngjarnar breytingar myndu leiða til bótaskyldu, en 1. grein í lögum um stjórn fiskveiða tryggir að svo er alls ekki, auk þess að allar þær breytingar sem gerðar hafa verið þegar einum útgerðarflokki hefur verið bætt upp áföll á kostnað annarra í greininni, þá hafa þær verið gerðar án þess að einhverjar bætur hafa verið reiddar fram af ríkinu.

Í sjálfu sér er ekkert við því að segja þó svo að þingmenn Sjálfstæðisflokksins vilji gæta sérstaklega hagmuna auðugs minnihlutahóps sem deilir ekki kjörum með þjóðinni, en það er furðulegt að flokkurinn skuli enn njóta stuðnings yfir 20 % þjóðarinnar.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sigurjón Þórðarson
Líffræðingur og sveitarstjórnarmaður á Sauðárkróki.
RSS straumur: RSS straumur