Þriðjudagur 13.09.2016 - 10:33 - FB ummæli ()

Illskiljanleg og flókin einföldun

Samráðsvettvangur um aukna hagsæld á Íslandi er „þverpólitískur“ vettvangur undir forystu Rögnu Árnadóttur, sem ætlað er að stuðla að upplýstri umræðu sem á að  hafa það að markmiði að tryggja hagsæld Íslendinga til lengri tíma litið.

Skýrsla 6 sérfræðinga  til Samráðsvettvangs um aukna hagsæld, um hvernig hægt sé að einfalda skattkerfið og gera það skilvirkara, vakti miklu frekar spurningar en svör.  Við lestur á liðlega 100 bls. skýrslu er ekki nokkur leið að átta sig á hvað tillögur um breytingar á persónuafslætti, skattþerpum og barnabótum fela nákvæmlega í sér. Sett voru upp nokkur dæmi án þess að skýra niðurstöður eða gera skýra grein fyrir útreikningum.

Vinnubrögðin eru óneitanlega mótsögn við markmið  Samráðsvettvangsins, sem var ætlað að skapa gagnsæja samantekt! Sama á við um grautarlega framsetningu. Í sama kafla og fjallað er um áhugaverðar tillögur um innheimtu á bílastæðagjöldum á ferðamannastöðum, er að finna algerlega óútfærðar flóknar vangaveltur um hækkun á veiðigjöldum. Ekki er minnst orði á að auðveldasta leiðin til þess að skapa aukna hagsæld og arð fyrir samfélagið af fiskveiðum, er að afli verði seldur á frjálsum markaði.

Eitt er víst að margar af tillögunum sem settar eru fram undir merkjum einföldunar munu leiða til stóraukins flækjustigs. Það á örugglega við um einhvers konar sveiflujöfnun á tryggingagjaldinu en tryggingajaldið er lítið annað en dúlbúinn flatur launaskattur. Sama á við um illskiljanlegar tillögur um veiðigjöld og að fjármagnsskattur nái einungis til raunávöxtunar fjár.

Við skoðun á samsetningu Samráðsvettvangsins er áberandi hve kvótaaðallinn á marga nýja og gamla fulltrúa í samráðinu – það er mjög sláandi ef litið er til þess að stórir hópar á borð við aldraða og öryrkja eru ekki hafðir með í ráðum.

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sigurjón Þórðarson
Líffræðingur og sveitarstjórnarmaður á Sauðárkróki.
RSS straumur: RSS straumur