Fimmtudagur 22.06.2017 - 21:11 - FB ummæli ()

Vilja selja skattasniðgöngurum flugvöll, en eltast baunir

Alvöru undanskot á Íslandi eru hvorki gerð með fimmþúsund króna seðli né tíuþúsund króna seðli – Þetta á fjármálaráðherra að vita manna best.

Spurningin sem vaknar við tillögu Benedikts fjármálaráðherra um að banna seðla er; Hvers vegna í ósköpum veigrar hann sér við að taka á stórum undanskotum?

Stórfelld undanskot á Íslandi verða þegar útflutningsfyrirtækin sem hafa tímabundinn einokunarrétt til að nýta sjávarauðlindina, „selja“ sjávarafurðir til eigin skúffufyrirtækja á lágu verði sem síðan selja vöruna á miklu hærra verði til raunverulegra kaupenda. Hagnaðurinn af viðskiptunum verður  eftir á reikningi skúffufyrirtækja  í skattskjólum á Kýpur, Guernsey eða einhverju álíka og verður því ekki skattlagður á Íslandi.

Sama hefur átt við um að þá iðju sem íslenskir innflytjendur hafa lengi stundað þ.e. flutt inn vörur til landsins, í gegnum milliliði erlendis og skilið eftir fjármuni á erlendum bankareikningum. Eflaust verður þessi iðja snúnari með aukinni samkeppni sem fylgir Costco.

Stór undanskot  stóriðjufyrirtækjanna á Íslandi fara fram með þunnri eiginfjármögnun og háum vaxtagreiðslum af málamyndalánum sem veitt eru af sjálfum eigendum stóriðjufyrirtækjanna. Komið er í veg fyrir að hagnaður myndist í fyrirtækjunum sem hægt væri að skattleggja, með því að búa til kostnað  stóriðjufyrirtækjanna við móðurfélög m.a. með háum vaxtagreiðslum.

Í stað þess að koma með tillögur sem taka á stórum undanskotum, þá leggur Viðreisn fram tillögu um seðlabann til þess að tína upp nokkrar baunir í ríkissjóð! Á sama tíma á flokkurinn í leynilegum viðræðum við erlenda aðila um sölu á Keflavíkurflugvelli.  Áformin um að einkavæða eina raunverulega hliðið inn og út úr landinu gengur í sjálfu sér algerlega í berhögg við hagsmuni almennings.

Það er eftir öðru hjá Viðreisn, að sá erlendi aðili sem á í viðræðum við stjórnvöld, um kaupin á Keflavíkurflugvelli, er fjárfestingafélagið Macquarie, sem er þekkt af stórfelldum undanskotum á hagnaði Kastrup-flugvallar í Kaupmannahöfn. Þau undanskot fóru fram með þunnri eiginfjárfjármögnun og háum vaxtagreiðslum.   Reynsla Dana af sölunni á Kastrup til fyrrgreindra aðila var einfaldlega hræðileg. Í kjölfarið á sölunni rann allur ágóði fyrirtækisins af starfseminni á  Kastrup, sem vaxtagreiðslur beina leið í skattaskjól í gegnum skúffufyrirtæki í Lúxemborg.

Það er engu líkara en að Viðreisn vilji taka með töngum á þeim sem stela fimmþúsundkalli en bugta sig og beygja fyrir þeim sem stela meiru en 500 milljónum!

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sigurjón Þórðarson
Líffræðingur og sveitarstjórnarmaður á Sauðárkróki.
RSS straumur: RSS straumur