Miðvikudagur 19.9.2018 - 17:03 - FB ummæli ()

Hlægileg könnun atvinnurekenda

Samtök atvinnurekenda (SA) birtu í dag niðurstöður könnunar sem þau hafa fengið Gallup til að gera (sjá hér).

Sagt er að hún fjalli um viðhorf landsmanna til áherslna í komandi kjarasamningum.

Ég stýrði gerð svona kannana fyrir Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands um langt árabil. Ég verð að segja að sjaldan hef ég séð jafn hlægilegt dæmi um leiðandi og villandi skoðanakönnun.

 

Leiðandi hagsmunaspurningar – leiðandi útkoma

Atvinnurekendur eru auðvitað áhugamenn um sem minnstar launahækkanir.

Þeir haga spurningum sínum í samræmi við það.

Flest fólk er með verðtryggðar skuldir og þarf því að hafa áhyggjur af verðbólgu.

Þá er kjörið í svona könnun fyrir SA að spyrða spurningu um viðhorf til launahækkana við verðbólgu, rétt eins og launahækkanir leiði sjálfkrafa til verðbólgu (ólíkt því sem var reyndin á síðustu 4 árum).

Undirliggjandi meiningin verður þá til dæmis svona: „Viltu nokkuð fá launahækkun fyrst það leiðir til rosa mikillar verðbólgu (sem hækkar skuldir þínar og er verra fyrir alla)?“

Orðalagið er að vísu aðeins mildara þó þetta sé hin mótandi meining í framsetningunni, sem hefur svo bein áhrif á útkomuna.

 

Spyrja bara um það sem hentar

Svo er þetta líka gert: Að spyrja bara um það sem hentar hagsmunum verkkaupa – en láta annað sem ef til vill er nær veruleikanum ókannað.

Hver eftirtalinna spurninga haldið þið t.d. að sé raunsæust nálgun á könnun á viðhorfi til styttingar vinnutíma, frá sjónarhóli launafólks?

  • Viltu styttri vinnutíma?
  • Viltu styttri vinnutíma ef það felur í sér samsvarandi lækkun tekna?
  • Viltu styttri vinnutíma og hækkun grunnlauna, þannig að heildarlaun verði óbreytt fyrir styttri vinnutíma?
  • Viltu lengri vinnutíma ef þú getur ekki fengið hærri grunnlaun?

Fleiri dæmi mætti nefna…

 

Villandi framsetning niðurstaðna

Svo leika menn þann leik að kynna niðurstöður á afbakandi hátt. Fyrirsögn fréttarinnar sem SA skrifar um þessa könnun er svona:

„Stöðugt verðlag fremur en kauphækkanir“.

Raunar er stór fréttapunktur í þessari frétt SA sá, að verulega hefur dregið úr stuðningi við þessa mjög svo leiðandi spurningu um ímyndað val milli launahækkana og verðbólgu – fer úr 66% 2013 í 49% nú.

En þetta er varla þessi virði að elta ólar við – þegar spurt er á svona leiðandi hátt eins og hér er gert.

Skynsamlegast er að nota brandarann til hins ítrasta – og hlægja hressilega að þessari tilraun SA til að móta viðhorf almennings.


Höfundur starfar í hlutastarfi sem sérfræðingur í vinnumarkaðsmálum hjá Eflingu – stéttarfélagi

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 18.9.2018 - 09:03 - FB ummæli ()

Þjófafossi stolið

Ég var við Heklu og Þjófafoss á föstudag. Búið er að taka stærstan hluta Þjórsár þarna í stækkun Búrfellsvirkjunar. Þessi stórbrotni foss, Þjófafoss sem var, er nú bara spræna og áin við Tröllkonuhlaup rétt eins og hver önnur grjóturð. Mér er óskiljanlegt hvers vegna þetta er hægt. En svona var farið með Hrauneyjarfoss og Sigöldugljúfur – þar standa nú vatnslaus stór gljúfur og í besta falli smá lækjasprænur sem renna þar um.

Verkfræðingunum og stjórnmálamönnunum, sem að þessu stóðu, hefur þó ekki tekist að eyðileggja alla þá fegurð sem þarna er í stórbrotnum gljúfrum neðan við Þjófafoss – með Heklu í baksýn.

Hvað skyldu líða mörg ár þangað til þessi stórbrotna náttúra verður endurheimt með lokun hinnar nýju stækkunar Búrfellsvirkjunar og virkjun sólar-, sjávarfalla- og vindorku í staðinn?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 5.9.2018 - 12:10 - FB ummæli ()

Um framlag stjórnvalda til kjarasamninga – til góðs eða ills?

I. Fagurgali eða alvöru vilji?

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir: “Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir samstilltu átaki með aðilum vinnumarkaðarins til að tryggja að kjarasamningar skili launafólki og samfélaginu raunverulegum ávinningi.”

Einnig þetta: “Hafin verður end­ur­skoðun á tekju­skatts­kerf­inu með áherslu á lækkun skatt­byrði og mögu­leg­ar breyt­ingar á fyr­ir­komu­lagi per­sónu­af­sláttar og sam­spili við bóta­kerfi sem ætlað er að styðja við ­tekju­lægri hópa (lág­tekjur og lægri milli­tekj­ur).”

Þetta eru æskileg markmið.

Hins vegar var reynslan af framlagi stjórnvalda á síðasta samningstímabili (2015 til 2018) öndverð. Þá juku stjórnvöld skattbyrði launafólks, og bitnaði það sérstaklega á láglaunafólki.

Það gerðist vegna þess að skattleysismörk fylgdu ekki launaþróun, eins og nauðsynlegt er til að halda skattbyrði óbreyttri frá ári til árs þó laun hækki. Þá rýrnuðu vaxtabætur verulega og barnabætur sömuleiðis. Mun færri fengu þessar bætur en áður og hækkaði það skattbyrði viðkomandi umtalsvert.

Húsnæðisstuðningur stjórnvalda varð í heildina minni en nokkrum sinnum áður, á sama tíma og bæði kaupverð íbúðarhúsnæðis og húsaleiga fóru úr öllum böndum, með gríðarlegum hækkunum.

Þannig urðu aðgerðir stjórnvalda til þess að rýra stórlega þær kjarabætur sem verkalýðshreyfingin samdi um á síðasta samningstímabili, einkum hvað snertir lægri launahópa. Þetta er ein af stóru ástæðunum fyrir þeirri djúpstæðu óánægju sem er meðal launafólks og innan verkalýðshreyfingarinnar í dag.

Þessari þróun eru gerð greinargóð skil í skýrslu Gylfa Zoega um stöðu efnahagsmála í aðdraganda kjarasamninga (2018), sem unnin var fyrir forsætisráðuneytið. Þetta hefur einnig komið fram í gögnum sem ASÍ hefur lagt fram um þessi mál og í viðamiklum fræðilegum rannsóknum á þróun tekjuskiptingarinnar (sbr. bókin Ójöfnuður á Íslandi, eftir Stefán Ólafsson og Arnald Sölva Kristjánsson, 2017).

Lítum aðeins á gögn um þessa þróun.

 

II. Stjórnvöld hafa vegið að lágtekjufólki

a) Rýrnun persónuafláttar jók skattbyrði láglaunafólks

Hvort sem litið er til áranna frá 1990 til hruns eða áranna eftir 2014 þá hefur þróunin verið á þann veg, að persónufrádráttur (skattleysismörk) tekjuskattkerfisins hefur rýrnað umtalsvert. Það skilar sér beint í aukinni skattbyrði og kemur með mestum þunga á láglaunafólk. Rýrnun skattleysismarka í núverandi tekjuskattkerfi vegur þannig stórlega gegn hagsmunum meðlima verkalýðsfélaganna.

Mynd 1 sýnir rýrnun skattleysismarkanna) frá 1990 til 2018.

Mynd 1: Þróun skattleysismarka í hlutfalli við lágmarkslaun, frá 1990 til 2018. (Heimildir: Ríkisskattstjóri og Efling-stéttarfélag).

 

Á árunum frá 1988 til 1996 voru skattleysismörkin hærri en lágmarkslaun. Það er að segja, umsamin lágmarkslaun á vinnumarkaði voru skattfrjáls í tekjuskatti (allir greiddu samt virðisaukaskatt af neyslu sinni). Hið sama gilti um hámarks lífeyrisgreiðslur frá Tryggingastofnun (þ.e. óskertan lífeyri) – þær voru líka skattfrjálsar á þessum tíma.

Í dag er innan við helmingur lágmarkslauna skattfrjáls!

Stjórnvöld voru að rýra skattleysismörkin ár frá ári eftir 1991 og hélst sú þróun áfram meira og minna til 2006. Vinstri stjórnin hækkaði svo skattleysismörkin aðeins eftir hrun (2009 og 2010) og lækkuðu þau síðan nokkuð til 2013.

Eftir 2014, eða á síðasta samningstímabili, tók svo aftur við umtalsverð rýrnum skattleysismarka (í hlutfalli við laun), sem hefur staðið alveg til 2018. Skattleysismörkin fóru þá úr um 61% árið 2014 af lágmarkslaunum niður í 49% á yfirstandandi ári. Þannig var sífellt stærri hluti lágmarkslauna skattlagður. Skattleysismörkin héldu ekki í við þróun lágmarkslauna og þar með jókst skattbyrði lágmarkslauna.

Þessi skipan, að láta skattleysismörkin ekki fylgja launavísitölu (heldur aðeins verðlagsvísitölu) hækkar skattbyrði láglaunafólks sjálfkrafa þegar laun hækka umfram verðlag.

Þetta er sérstaklega ósanngjarnt og raunar óþolandi, vegna þess að viðmiðunarmörk hærra álagningarþrepsins í rekjuskattinum er bundið þróun launavísitölunnar (eins og bent er á í skýrslu Gylfa Zoega fyrir forsætisráðuneytið).

Það þýðir, að þegar hærri launahóparnir, þeir sem eru með meira en 900.000 kr. á mánuði, fá kauphækkun þá eykst skattbyrði þeirra ekki. Það er aðeins hjá láglaunafólki og millitekjuhópum sem skattbyrði eykst sjálfkrafa með kauphækkunum.

Þetta er óþolandi óréttlæti í garð láglaunafólks sem verkalýðshreyfingin verður að stöðva nú þegar.

b) Rýrnun vaxtabóta og barnabóta veikir velferðina (og hækkar skattbyrði margra í lægri launahópum)

Stjórnvöld voru einnig að rýra vaxtabætur og barnabætur á áratugnum fram að hruni, sem bitnaði einkum á ungu fjölskyldufólki sem var að koma sér upp húsnæði. Margt af því fólki var snemma á starfsferli sínum og því oft á lágum launum. Þannig var stuðningur opinbera velferðarkerfisins til þessara hópa dreginn saman, sem auðvitað rýrði kjör viðkomandi fjölskyldna.

Á árunum eftir hrun voru vaxtabætur auknar mjög mikið af vinstri stjórninni til að milda aukna greiðslubyrði húsnæðisskulda (sem jókst vegna verðbólgu og mikillar lækkunar kaupmáttar ráðstöfunartekna). En eftir 2013 hafa stjórnvöld skert barna- og vaxtabætur stórlega. Bæði hefur dregið úr útgjöldum og þeim sem njóta þessara bóta hefur stórlega fækkað, eins og sjá má á mynd 2.

Mynd 2: Fækkun framteljenda sem fá barna- og vaxtabætur, frá 2013 til 2017. (Heimild: Ríkisskattstjóri).

 

Þiggjendum barnabóta hefur fækkað um nærri fjórðung, eða 23%, á þessum 4 árum (sem jafngildir 13.147 framteljendum).

Þiggjendum vaxtabóta hefur fækkað um hátt í helming, eða um 42%, á tímabilinu. Þannig hafa hátt í 20 þúsund framteljendur misst vaxtabætur sem niðurgreiða vaxtakostnað fjölskyldna af því að koma sér upp eigin húsnæði.

Þetta eru gríðarlega miklar breytingar, sem eru ekkert annað en aðför að velferðarkerfinu og sérstaklega að lífskjörum ungs fjölskyldufólks. Þar eð þessar bætur eru tekju- og eignatengdar og einnig tengdar hjúskaparstöðu þá bitnar þetta hlutfallslega mest á fólki sem er á lægstu launum og lægri milli launum – og þeim sem eru eignalitlir fyrir og oft með umtalsverða barnaframfærslu.

Mynd 3 sýnir svo þróun húsnæðisstuðnings hins opinbera (bæði vaxtabætur og húsaleigubætur) frá 2003 til 2016.

Mynd 3: Húsnæðisstuðningur hins opinbera, sem % af vergri landsframleiðslu frá 2003 til 2016. (Heimild: Hagstofa Íslands).

 

Frá 2003 til 2007 voru stjórnvöld að draga árlega úr húsnæðisstuðningi við ungar fjölskyldur, á sama tíma og verkamannabústaðakerfið hafði verið lagt niður og bönkunum hleypt inn á húsnæðislánamarkaðinn. Frá 2004 tók húsnæðisverð (og húsaleiga) að hækka verulega – samhliða rýrnun opinbers húsnæðisstuðnings við fjölskyldufólk.

Eins og myndin sýnir stórjókst húsnæðisstuðningurinn í tíð vinstri stjórnarinnar eftir hrun og náði hámarki árið 2011. Árið 2013 hafði hann verið lækkaður (með niðurlagningu sérstakra vaxtabóta) og eftir 2014 hefur hann lækkað umtalsvert á ný.

Árið 2016 var opinber húsnæðisstuðningur orðinn lægri en hann hefur nokkru sinni verið frá því kerfið var tekið upp árið 1990. Á sama tíma hefur bæði húsnæðisverð og húsaleiga náður áður óþekktum hæðum, með alvarlegum afleiðingum fyrir kjör láglaunafólks, ekki síst ungs fjölskyldufólks.

Í fjárhagsáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir 2018 til 2022 kemur fram að stjórnvöld eru að gera ráð fyrir að lækka útgjöld til húsnæðisstuðnings umtalsvert til viðbótar á næstu árum. Ótrúlegt – en satt!

Íslendingar hafa lengi búið við eina allra hæstu húsnæðisvexti á Vesturlöndum og í bland við verðtryggingu neyslulána hafa verið lagðar mun meiri byrðar á íslenskar fjölskyldur við að koma sér upp öruggu húsnæði en tíðkast í grannríkjunum.

Þörf er meiri húsnæðisstuðnings (niðurgreiðslu vaxtakostnaðar húsnæðislána og leigu) – en ekki minni eins og stjórnvöld stefna að (skv. fjárhagsáætlun þeirra til ársin 2022).

 

III. Stjórnvöld brugðust síðast – hvað gerist nú?

Á tímabili síðasta kjarasamnings (frá 2015 til 2018) hafa stjórnvöld þannig vegið stórlega að kjörum sem um var samið og hefur það bitnað hlutfallslega mest á lægstu launahópum, en afleiðingarnar ná einnig upp í lægri miðlaunahópana.

Þetta fólk finnur lítið fyrir góðærinu.

Þessari herferð stjórnvalda gegn lífskjörum launafólks þarf að hrinda og snúa við. Stjórnvöld þurfa nú að standa við loforðin sem þau hafa gefið.

En er þess að vænta við núverandi aðstæður?

Mér hefur sýnst að fyrstu skref starfshópa á vegum stjórnvalda við vinnu að breyttu skatta- og bótakerfi boði ekki gott í þessum efnum. Þeir hafa sótt fyrirmyndir til Bandaríkjanna en ekki til Skandinavíu.

Á næstunni mun reyna á hvort stjórnvöld leggi fram eitthvað sem um munar til að breyta þeirri óheillaþróun sem hér að ofan er lýst.

———————————–

Stefán Ólafsson er prófessor við Háskóla Íslands og starfar sem sérfræðingur hjá Eflingu – stéttarfélagi.

 

Síðasti pistill: Stjórnvöld veikja vaxtabótakerfið svo um munar

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 29.8.2018 - 16:14 - FB ummæli ()

Stjórnvöld veikja vaxtabótakerfið svo um munar

Vaxtabætur eru helsta verkfæri stjórnvalda til að auðvelda fjölskyldum með lágar og milli tekjur að eignast íbúðarhúsnæði.

Mikill meirihluti Íslendinga vildi helst geta búið í eigin húsnæði. En eftir hrun hefur þeim fækkað umtalsvert sem það gera um leið og búseta í leiguhúsnæði hefur stóraukist.

Aukin notkun leiguhúsnæðis er ekki vegna þess að fleiri vilji nú leigja. Það sem ræður för er að færri eiga möguleika á því að geta ráðið við afborganir af íbúðarlánum. Íbúðir eru orðnar of dýrar fyrir mun fleiri en áður var.

Ungt fólk neyðist því í auknum mæli til að leita í leigu eða búa lengur í foreldrahúsum en áður.

Allir vita að bæði verð á íbúðum og leiga hafa hækkað með fordæmalausum hætti á síðustu árum, vegna þess að lítið var byggt fyrst eftir hrunið, túristum fjölgaði ört og vegna aukinnar innkomu fjárfesta og braskara á húsnæðismarkaðinn (t.d. Gamma og Heimavalla).

Bæði kaupverð og leiga íbúðarhúsnæðis eru nú í allra hæstu hæðum.

Stjórnvöld höfðu það í  hendi sér að bregðast við og auðvelda fólki með lægri tekjur að eignast íbúðarhúsnæði eins og hér hefur tíðkast.

Virkasta leiðin til þess hefði verið að auka vaxtabætur til ungs fjölskyldufólks í lægri og milli tekjuhópum.

Stefnan í fjármálaráðuneytinu hefur hins vegar sú, að gera það ekki. Þvert á móti að draga stórlega úr slíkum húsnæðisstuðningi.

Þróun opinbers stuðnings við kaup ungs fólks á íbúðarhúsnæði má sjá á myndinni hér að neðan. Hún sýnir vaxtabætur sem hlutfall af vaxtakostnaði vegna íbúðakaupa, frá 1994 til 2016.

Þróun vaxtabóta er augljóslega tengd því hvaða flokkar sitja í ríkisstjórn, eins og myndin sýnir. Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn voru í ríkisstjórn frá 1995 til 2007 og þá minnkaði stuðningur vaxtabótakerfisins um helming, úr 26% af vaxtakostnaði heimila að meðaltali og niður í 13%.

Vinstri stjórnin sem sat frá 2009 til 2013 stórjók stuðning vaxtabótakerfisins við skulduga íbúðareigendur, meðal annars með sérstöku aukaátaki árin 2011 og 2012. Stuðningurinn fór hæst í 35% og lægstu launahóparnir fengu enn meira, eða um 45% af vaxtakostnaði sínum greiddan af ríkinu (vegna tekjutenginga vaxtabótanna).

Eftir að Sjálfstæðisflokkurinn fékk aftur fjármálaráðuneytið á árinu 2013 hélt minnkun þessa stuðnings við ungt fjölskyldufólk áfram.

Á árinu 2016 var þessi stuðningur orðinn minni en nokkru sinni fyrr eftir að vaxtabótakerfið var tekið upp árið 1990.

Stefnt er á enn minni stuðning við ungt fjölskyldufólk

Í fjárhagsáætlun ríkisstjórnar Katrína Jakobsdóttur fyrir árin 2018 til 2022 er gert ráð fyrir áframhaldandi minnkun húsnæðisstuðnings hins opinbera, bæði við kaupendur íbúðarhúsnæðis og leigjendur. Stefna Sjálfstæðisflokksins virðist ráða för í þessum efnum.

Það blasir því við að Sjálfstæðisflokkurinn hefur alveg snúið baki við séreignastefnu í húsnæðismálum og almennri velferðarstefnu í húsnæðismálum. Markaðshyggja fjárfesta og braskara ræður för.

Svipuð óheillaþróun hefur verið á sviði barnabóta á síðustu árum. Stuðningur við barnafjölskyldur stefnir í að verða minni en í áratugi, á tíma þar sem húsnæðismarkaðurinn hefur étið upp stóran hluta þeirra kjarabóta sem samið var um fyrir launafólk í síðustu kjarasamningum.

Raunar juku stjórnvöld einnig skattbyrði láglaunafólks á síðustu árum svo um munaði.

Það þarf að vera verkefni verkalýðshreyfingarinnar að snúa þessari óheillaþróun við í komandi kjarasamningum.

Ef stjórnvöld leggja ekki sitt af mörkum til að bæta úr á þessu sviði hlýtur verkalýðshreyfingin að þurfa að fara fram með mun meiri launakröfur á hendur atvinnurekenda en ella væri.

 

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 8.8.2018 - 14:19 - FB ummæli ()

Ágætt svigrúm til launahækkana

Þeir sem gæta hagsmuna atvinnurekenda og fjárfesta tala nú mikið um að ekkert svigrúm sé til launahækkana í komandi kjarasamningum.

Það kemur svo sem ekki á óvart. Þetta er hefðbundið tal í aðdraganda kjarasamninga.

Það sem kemur þó á óvart er hversu langt menn ganga að þessu sinni.

Yfirleitt leyfa menn sér ekki að útiloka algerlega launahækkanir nema hagkerfið sé komið í djúpa kreppu eða umtalsverðan samdrátt.

Er það sú staða sem við erum komin í núna?

Ó nei! Öðru nær.

 

Ágætur hagvöxtur og góðar horfur

Hér er ágætur hagvöxtur. Mun meiri en almennt er í hagsældarríkjunum á Vesturlöndum. Þó eitthvað myndi hægja á þá væru Íslendingar áfram í góðum málum.

Árið 2017 var hagvöxtur 3,6% á Íslandi en meðaltal Evrópusambandsríkja var 2,4%.

Og það er spáð áframhaldandi hagvexti hér á landi frá 2018 til 2023 (á bilinu 2,5-2,9%) í nýjustu þjóðhagsspá Hagstofu Íslands. Það er mun meira en almennt er á alþjóðavettvangi (sjá myndina hér að neðan).

Slíkar spár nokkur ár fram í tímann eru alltaf varfærnislegar. Þær eru þess vegna undir því sem menn búast við að verði í raun. Því má gefa sér að hagvöxtur verði í kringum 3% á Íslandi á næstu árum – að öðru óbreyttu. Stundum meiri og stundum minni.

Svo má líka færa rök fyrir því að svigrúm til launahækkana sem samræmist verðbólgumarkmiði Seðlabankans (2,5% á ári) sé það markmið að viðbættri framleiðniaukningu (sem til lengdar hefur verið um 1,7%). Samanlagt eru það rúmlega 4% á ári.

Fleiri viðmið mætti nefna. Meginatriðið er að verðmætasköpunin gengur vel og horfur framundan eru ágætar.

 

Eiga atvinnurekendur einir að njóta hagvaxtarins?

Ef ekki yrðu launahækkanir í slíku árferði þá myndi hagvöxturinn renna óskiptur til atvinnurekenda og fjárfesta einna – en ekki til vinnandi launafólks.

Tekjuhlutdeild ríkasta eina prósentsins myndi aukast. Aðrir stæðu í stað eða drægjust afturúr.

Fyrir slíku getur ekki verið neinn hljómgrunnur á Íslandi, ef fólk er upplýst um raunverulega stöðu mála.

Þessu til viðbótar geta aðilar vinnumarkaðarins einnig samið um breytta tekjuskiptingu og sett lægri launahópana í forgang. Slíkt er sérstaklega gagnlegt að gera þegar hægir á hagvexti og raunar einnig í kreppum. Það örvar hagvöxtinn.

Hátekjuhóparnir, stjórnendur á almennum vinnumarkaði og Kjararáðsþjóðin, hafa verið að gera það gott að undanförnu, eins og allir vita. Heldur betur.

Nú er komið að almennu launafólki og sérstaklega láglaunafólkinu.

Ef eigendur fyrirtækjanna vilja halda aftur af launahækkunum þá eiga þeir að beina slíku að hærri tekjuhópunum.

Stjórnvöld geta svo lagt félagslegum stöðugleika lið með því að breyta skattbyrði og velferðaraðgerðum lægri og milli tekjuhópum til hagsbóta – svo um munar.

Það er eðlilegt að félagslegur stöðugleiki kosti eitthvað, enda er hann mjög verðmætur fyrir þjóðarbúið.

Það má ekki gerast aftur að stjórnvöld grafi undan kjarasamningum (og félagslegum stöðugleika) með aukinni skattbyrði lágtekjufólk eins og gerðist í kjölfar kjarasamninganna 2015.

Svigrúm til kjarabóta er þannig klárlega fyrir hendi.

Það er mikilvægt að aðiljar vinnumarkaðar og stjórnvöld nái saman um að nýta það til að bæta sérstaklega kjör þeirra sem minna hafa.


Hér að neðan má sjá nýjustu þjóðhagsspá Hagstofunnar fyrir Ísland til ársins 2023 og spá um hagvöxt á alþjóðavettvangi til samanburðar:

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 10.7.2018 - 11:03 - FB ummæli ()

Samband fjármálavæðingar, ójafnaðar og hruns

Hrunið 2008 var klassísk fjármálakreppa sem kom í kjölfar óvenju viðamikils bóluhagkerfis (sjá umfjöllun um það hér). Bólan sprakk vegna þess að fjármálakerfið hafði safnað svo miklum erlendum skuldum að ekki var við ráðið.

En hvers vegna gerðist það?

Rótin að tilurð bóluhagkerfisins og því gríðarlega óhófi sem þá tíðkaðist liggur í fjármálavæðingunni (financialization).

Fjármálavæðing sprettur af auknu frelsi á fjármálamörkuðum og ónógu aðhaldi eftirlitsaðila (Seðlabanka og Fjármálaeftirlits) og stjórnvalda.

Fjármálavæðing felst í auknu vægi fjármálageirans, hann fær stærra hlutverk og tekur til sín stærri hluta af umsvifum efnahagslífsins. Því fylgir aukið vægi hlutabréfa- og verðbréfamarkaða og verulega aukin spákaupmennska með lánsfé.

Fjármálavæðing gefur af sér mikinn vöxt fjármagnstekna eða eignatekna (financial/capital incomes), en þær koma að langmestu leyti í hlut hátekjuhópanna. Þannig var það alls staðar á Vesturlöndum.

 

Einstakur vöxtur fjármagnstekna

Myndin hér að neðan sýnir vöxt fjármagnstekna í íslenska þjóðarbúinu frá 1992 til 2015, sem var gríðarlegur.

Mynd 1: Fjármagnstekjur sem hlutfall allra framtaldra tekna, 1990 til 2015. (Heimild: Ríkisskattstjóri)

 

Fjármagnstekjur voru alls um 2% allra framtaldra tekna árin 1994-1995 og hækkuðu upp í nærri 25% á toppi bóluhagkerfisins árið 2007.

Þetta var mikil aukning og mun meiri en sást í öðrum vestrænum löndum á þessum tíma – enda var stærð íslenska bóluhagkerfisins einstök.

Stærstu hlutar fjármagnstekna voru söluhagnaður hlutabréfa og annarra eigna, sem tengdist spákaupmennskunni (braskinu), en síðan komu arðgreiðslur úr fyrirtækjum, vaxtatekjur og leigutekjur.

Fjármagnstekjur báru einungis um 10% tekjuskatt (þ.e. fjármagnstekjuskatt) fram að hruni á meðan atvinnutekjur vinnandi fólks og lífeyristekjur báru mun hærri tekjuskatt.

Fjármagnstekjur nutu sem sagt mikilla skattfríðinda – og gera raunar enn (samanber umfjöllun í bókinni Ójöfnuður á Íslandi).

 

Fjármálavæðingin: Einkamál hátekjuhópanna

Fjármagnstekjurna komu fyrst og fremst í hlut tekjuhæstu tíu prósentanna, eignamesta fólksins í landinu. Vöxtur þeirra snerti nær eingöngu hátekjuhópana, eins og sýnt er á mynd 2 hér að neðan.

Mynd 2: Hlutur fjármagnstekna af heildartekjum hátekjuhópa (tekjuhæstu tíu prósentin og hæsta eina prósentið), í samanburði við hin 90 prósentin (allan þorra almennings). (Heimild: Ójöfnuður á Íslandi 2017).

 

Hjá tekjuhæsta eina prósentinu voru fjármagnstekjur tæp 10% árið 1995 en fóru upp í um 80% árin 2005 til 2007. Lækkuðu síðan eftir hrun (niður í um 30% árið 2011), en eru að nálgast helming á síðustu árum.

Hjá tekjuhæstu tíu prósentunum fóru fjármagnstekjur frá um 3% árið 1995 upp í tæp 50% árið 2007.

Hjá öllum þorra almennings, öðrum en tekjuhæstu tíu prósentunum, voru fjármagnstekjur yfirleitt á bilinu 2-8% af heildartekjum til skatts á öllu tímabilinu.

Fjármálavæðingin og vöxtur fjármagnstekna var því sem næst einkamál hátekjuhópanna. Og þær tekjur nutu mikilla skattfríðinda að auki, umfram atvinnutekjur venjulegs vinnandi fólks.

Þannig jók fjármálavæðingin ójöfnuð tekna stórlega á áratugnum fram að hruni.

Mat okkar Arnaldar Sölva Kristjánssonar, í bókinni Ójöfnuður á Íslandi, er að fjármálavæðingin skýri um tvo þriðju af ójafnaðaraukningunni til 2008, en breytt skatta- og velferðarstefna skýri um þriðjung af aukningu ójafnaðarins.

 

Frá fjármálavæðingu til hrunsins

Fjármálavæðingin var drifin áfram af skuldasöfnun, einkum erlendum skuldum en einnig skuldum við lífeyrissjóði almennings.

Það var þessi skuldasöfnun sem á endanum felldi bankakerfið og skildi stóran hluta atvinnulífsins eftir tæknilega gjaldþrota. Fyrirtækjum og fjármálastofnunum var drekkt í skuldum.

Til stærsta hluta þeirra skulda var stofnað vegna eignabrasks yfirstéttarinnar í landinu, tekjuhæstu tíu prósentanna.

Almenningur bar svo mestu byrðarnar af kreppunni sem kom í kjölfar hrunsins.

Braskið eða spákaupmennskan snérist um að komast yfir verulegar eignir (hlutabréf o.fl.) er gáfu af sér verulegar fjármagnstekjur á stuttum tíma, þegar hlutabréfavísitalan blés út, sem og önnur eignaverð.

Þannig var sambandið milli fjármálavæðingarinnar, aukins ójafnaðar og hrunsins á Íslandi.

Þetta þurfa allir að skilja, svo varast megin endurtekningu.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 22.6.2018 - 11:52 - FB ummæli ()

Ísland: Dýrasta land Evrópu

Hagstofa Íslands og Eurostat birtu um daginn nýjan samanburð á verðlagi milli Evrópulanda (sjá hér).

Niðurstaðan er sú, að Ísland er nú dýrasta landið í Evrópu. Jafnvel dýrara en Sviss og Noregur, sem lengi hafa verið með hæsta verðlagið.

Þetta má sjá á töflunni hér að neðan. Dálkur 1 sem sýnir útkomuna fyrir einkaneyslu heimilanna gefur bestu heildarmyndina:

Verðlag á einkaneyslu heimilanna er um 66% hærra en meðaltalið fyrir Evrópu og meira en þrisvar sinnum dýrara en ódýrustu löndin (Búlgaría og Makedónía).

Verðlag einkaneyslu er 16-17% hærra á Íslandi en í Danmörku og Noregi. Það munar um minna.

Verð er um 33% hærra á Íslandi en í Svíþjóð og um 36% hærra en í Finnlandi. Þetta er mjög mikill munur.

Ég man þá tíma að verð á hinum Norðurlöndunum var hærra en á Íslandi. En það er sem sagt liðin tíð og gott betur!

Í töflunni má einnig sjá samanburð fyrir nokkra aðgreinda þætti einkaneyslunnar í Evrópulöndunum. Ísland er þar ýmist langefst eða í einu af allra efstu sætunum.

Mjög dýrt að vera Íslendingur!

Þetta er verkefni almennings í lífsbaráttunni hér á landi.

Laun á Íslandi þurfa að duga til framfærslu í dýrasta landi Evrópu.

En launin eina duga ekki og því þurfa velferðaraðgerðir stjórnvalda einnig að koma til.

Og dreifing skattbyrðarinnar þarf að vera þannig að hún hlífi lægstu tekjuhópum mun betur en nú er.

Þó það komi ekki fram í þessum samanburði þá er verð húsnæðis á Íslandi einnig mjög hátt og hefur hækkað einstaklega mikið á síðastliðnum árum.

Það hefur étið upp þá kaupmáttaraukningu sem samið hefur verið um á vinnumarkaði, einkum fyrir fólk í lægri tekjuhópum.

Ungt fólk sem er að glíma við að koma sér upp fjölskyldu og húsnæði á lágum tekjum finnur sérstaklega mikið fyrir þessari óheillaþróun.

Það er stórt verkefni, ekki síst fyrir verkalýðshreyfinguna, að koma skikk á þessi mál þannig að dæmin gangi upp fyrir þá sem verr standa.

Verðlagning og samkeppnishæfni

Og svo má einnig spyrja hvort álagning sé ekki of mikil á Íslandi?

Landsframleiðsla Íslands er 33% yfir meðaltali Evrópu en verðlag einkaneyslu heimilanna er 66% yfir meðaltali Evrópulanda.

Varla er það náttúrulögmál að Ísland sé dýrasta land í Evrópu…

Verðlagið hlýtur í öllu falli að setja viðmið fyrir launin sem greiða þarf í landinu – svo Íslandi verði samkeppnishæft til búsetu við grannríkin.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 3.6.2018 - 12:15 - FB ummæli ()

Áhugavert viðtal um frelsi, fjármál og hrun

Í morgun ræddu Ævar Kjartansson og Sigurjón Árni Eyjólfsson um fjármál, frelsi og samfélag á Rás 1.

Viðmælandi þeirra var Eyvindur G. Gunnarsson, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands.

Eyvindur er sérfræðingur í lagalegri hlið fjármála og starfaði meðal annars við skýrslugerð Rannsóknarnefndar Alþingis um hrun bankanna svo hann hefur margt fram að færa um þessi mál.

Eyvindur er einstaklega skýrmæltur og greinargóður í umfjöllun sinni um þróun fjármála, markaðsfrelsis, áhættur, ábyrgðir og samfélagslegar afleiðingar í umhverfi hnattvæðingar.

Þetta tengir hann á margvíslegan hátt við þróun lagalegs umhverfis í Evrópu og á alþjóðavettvangi og hvernig þær breytingar hafa haft áhrif til að auka áhættu í fjármálakerfum, þar með talið á Íslandi. Einnig tengir hann þetta við siðferðileg sjónarmið og virkni kapítalisma.

Frelsi fjármagns er eitt – frelsi almennings annað.

Þetta er einstaklega fróðlegt viðtal, skýrt og áhugavert. Ég hvet alla til að hlusta (hér).

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 28.5.2018 - 14:25 - FB ummæli ()

Engin alvöru hægri sveifla í borginni

Sumir tala um niðurstöðu kosninganna í Reykjavík eins og meirihlutinn hafi fallið og að kosningarnar hafi falið í sér einhverja hægri sveiflu.

Sú staðreynd að Sjálfstæðisflokkurinn varð heldur stærri en Samfylkingin er sjálfsagt grundvöllur þeirrar tilfinningar margra að þetta hafi verið hægri sveifla.

En hvernig var heildarmyndin?

Á töflunni hér að neðan má sjá hvernig kjörnir fulltrúar skiptust á hægri – miðju – vinstri ás:

Sjálfstæðisflokkur (D) og Miðflokkurinn (M) voru einu flokkarnir sem skilgreindu sig sem hægri flokka í Reykjavík.

Viðreisn skilgreinir sig sem miðjuflokk og Flokkur fólksins (F) leggur höfuð áherslu á að bæta hag fátækra, sem er vinstra mál, þó þar séu allmargir fyrrverandi Sjálfstæðismenn. Það er því réttast að tala um þau sem miðjuflokk líka – treysta sér til að vinna bæði til hægri og vinstri.

Á vinstri væng eru Samfylkingin (S), Píratar (P), Sósíalistaflokkurinn (J) og V (VG).

Ef samanlagt fylgi þessara þriggja blokka er skoðað þá eru vinstri menn stærstir, með 11 fulltrúa.

Hægri menn eru samanlagt með einungis 9 fulltrúa.

Ef Miðflokkurinn teldist miðjuflokkur (sem þó er andstætt málflutningi Vigdísar Hauksdóttur) þá væru hægri menn einungis með 8 fulltrúa.

Miðjan er með 3 samanlagt, samkvæmt þessari skiptingu. Ef Flokkur fólksins teldist í staðinn sem hægri flokkur þá næðu hægri menn samanlagt einungis 10 fulltrúum.

Vinstri blokkin væri samt stærri, með 11 fulltrúa á móti 10.

Ef Flokkur fólksins teldist vinstri flokkur væri vinstri blokkin með 12 á móti 9 hægri fulltrúum.

Vinstri flokkar og vinstri fulltrúar eru augljóslega stærsti hópurinn í borgarstjórn – eins og var í fráfarandi borgarstjórn.

Samfylking og VG töpuðu í kosningunum en Sósíalistar og Píratar bættu við sig. Þar var sem sagt tilfærsla innan vinstri vængsins.

Sjálfstæðismenn bættu við sig, en Miðflokkurinn (sem að mestu er klofningur úr Framsókn) fékk einungis einn fulltrúa (Vigdísi Hauks). Síðast fékk Framsókn 2 fulltrúa í Reykjavík. Miðflokkurinn og Framsókn samanlagt fá einungis 1 fulltrúa núna – fækkun um helming!

Vigdís segir Miðflokkinn vera mikinn sigurvegara í Reykjavík, en Sósíalistar fengu meira fylgi þar en hún!

 

Var þá stefnu fráfarandi meirihluta hafnað?

Varla er hægt að segja það. Einkum þar sem hin miðjusinnaða Viðreisn er all samhljóma áherslum fráfarandi meirihluta í stærstu málunum, meðal annars um þéttingu byggðar, borgarlínu, skóla- og jafnréttismál.

Viðreisn fékk án efa mikið af fylgi sínu frá fyrrum kjósendum Bjartrar framtíðar – sem voru auðvitað hluti fráfarandi meirihluta.

Raunar má segja að stærstu málefnaáherslur fráfarandi meirihluta hafi fengið stuðning meirihluta kjósenda á ný.

Það er því bæði rangt að kosningarnar feli í sér hægri sveiflu eða að sjónarmiðum fráfarandi meirihluta hafi verið hafnað.

Línurna eru skýrar.

 

Nýlegur pistill:  Hattarnir og hástéttin í Bretlandi

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 27.5.2018 - 10:34 - FB ummæli ()

Pawel og Sanna – góð viðbót í borgarstjórn

Það er athyglisvert að í hópi stærri sigurvegara kosninganna í Reykjavík skuli vera tveir sterkir frambjóðendur af blönduðum eða erlendum uppruna; Pawel Bartoszek frá Viðreisn og Sanna Magdalena Mörtudóttir frá Sósíalistaflokknum.

Bæði hafa vakið athygli fyrir málefnaleg sjónarmið og kröftugan málflutning.

Pawel hefur m.a. verið með áhugaverð sjónarmið í skipulags- og samgöngumálum og Sanna er kröftugur talsmaður bættra kjara fyrir þá sem verst standa.

Fleiri góða nýliða mætti nefna. Til dæmis kemur Guðrún Ögmundsdóttir aftur inn fyrir Samfylkinguna. Hún er góður talsmaður mannréttinda og velferðarmála.

Það verður gott að fá þessar raddir inn í borgarstjórn, hver svo sem meirihlutinn verður.

En svo eru líka nýliðar sem maður fagnar ekkert sérstaklega, eins og gengur.

Allar raddir mega þó heyrast í lýðræðinu.

Vonandi tekst að mynda samhentan meirihluta með skynsamlega stefnu og dugnað til verka.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 25.5.2018 - 09:24 - FB ummæli ()

Mistök Eyþórs og sirkús Vigdísar

Mér sýnist að Dagur og félagar muni halda völdum í borginni.

Núverandi meirihluti er einfaldlega einn um að hafa einhverja vitræna framtíðarsýn fyrir þróun borgarinnar. Borgarlínan er kjarninn í þeirri sýn.

Sjálfstæðismenn hafa ekki náð vopnum sínum. Þar ráða miklu þau mistök sem Eyþór hefur gert. Hér má nefna þrjú (en þau eru fleiri):

  • Hann hafnaði borgarlínunni, sem öll sveitarfélög höfuðborgarsvæðisins voru búin að samþykkja og gera að sinni framtíðarsýn. Líka Sjálfstæðismenn í Garðabæ, Hafnarfirði, Kópavogi, á Seltjarnarnesi og víðar – og einnig konan í öðru sæti á lista Eyþórs!
  • Eyþór og konan í öðru sæti, Hildur Björnsdóttir, bjóða leikskólavist fyrir öll börn 18 mánaða og eldri. En lið Dags er að nálgast það markmið nú þegar og stefna á vistun fyrir öll börn 12 mánaða og eldri.
  • Eyþór bauð upp á friðun Elliðaárdals. En þá kom í ljós að Dagur hafði fengið það í gegn fyrir 4 árum síðan! Búið spil!

Eyþór og hans fólk í Sjálfstæðisflokknum virðast hafa lítið sem ekkert fram að færa.

Vigdís Hauks og Miðflokkurinn yrðu helstu samstarfsmenn Sjálfstæðisflokks ef til kæmi.

En þau hafa heldur ekkert fram að færa. Þess vegna hefur Vigdís lagt áherslu á glaðlegan fíflaskap í kosningabaráttunni.

Ef menn vilja meiri fíflaskap inn í borgarstjórnina þá kjósa þeir Vigdísi.

Og ef menn vilja afturför í samgöngumálum, leikskólamálum og umhverfisvernd og einkarekna grunnskóla þá kjósa þeir Eyþór og uppstillingu hans.

Sjálfstæðismenn bjóða líka upp á markaðslausnir í húsnæðismálum, með fjárfesta í lykilhlutverkum. Pælið í því!

En það er einmitt markaðurinn sem hefur brugðist hrikalega í húsnæðismálunum, með því að fjárfestarnir hafa keyrt leigu og íbúðaverð upp í allra hæstu hæðir.

Á sama tíma hefur Sjálfgræðismaðurinn í fjármálaráðuneytinu lækkað vaxtabæturnar niður úr öllu valdi, svo ungt fólk á enga kosti í húsnæðismálum. Stóraukinn húsnæðiskostnaður étur upp kaupmátt yngra fólksins.

Dagur og Co hefðu að vísu getað gert betur á síðasta kjörtímabili – en þau eru einfaldlega skársti kosturinn sem nú er í boði.

 

Síðasti pistill:  Hattarnir og hástéttin í Bretlandi

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 21.5.2018 - 11:14 - FB ummæli ()

Hattarnir og hástéttin í Bretlandi

Konunglegt brúðkaup í Bretlandi er mikil veisla – fyrir háa sem lága.

Á laugardag voru það Harry og Meghan sem gefin voru saman í Windsor kastala. Ung og ástfangin og allt í fína með það.

Ég fylgdist með útsendingum í sjónvarpinu og hafði gaman að, þó ég sé enginn aðdáandi bresku konungsfjölskyldunnar né annars kóngafólks.

Það er bara gaman að upplifa fjölbreytileika mannlífsins – og í Bretlandi er það stéttaskiptingin sem er hvað athyglisverðust.

Konungleg brúðkaup eru eins og leikhúsverk um stéttaskiptinguna í Bretlandi. Allir ættu að sjá þessa sýningu í Windsor – frá byrjun til enda (hér).

Það er nefnilega mjög mikil stéttaskipting í Bretlandi, að minnsta kosti í samanburði við Ísland. Ég kynntist því allvel á námsárunum.

Breska stéttaskiptingin er ekki bara um muninn á ríkum og fátækum – sem þó er mjög mikill – heldur snýst hún líka um skiptingu þjóðarinnar í æðra og óæðra fólk. Þá sem hafa “status” og hina sem eru ekkert eða því sem næst.

Það er arfleifð frá konunga- og aðalsveldi miðaldanna.

Í Bretlandi er fátt mikilvægara en einmitt að sýna stétt og stöðu sína í samfélaginu – hvort maður tilheyri háum eða lágum.

Þeir ríku sýna ríkidæmi sitt með óðalssetrum í sveitum, glæsivögnum (Rolls Royce bílum, Bentley, Jagúar, Range Roverum o.s.frv.), hestum og refaveiðum, svo dæmi séu tekin.

En það er þó ekki nóg. Nánari stöðutákn eru líka kölluð til. “Status symbol” svokölluð.

Eitt mikilvægt stöðutákn er tungumálið. Allir þekkja muninn á yfirstéttar-ensku og alþýðu-ensku. En fleira kemur til.

Hattar eru til dæmis mikilvægt stöðutákn í bresku samfélagi.

Bowler hattar og pípuhattar hafa lengst af verið tákn yfirstéttarkarla.

Allir alvöru fjármálamenn í City í London gengu til langs tíma með Bowler hatta á virkum dögum og pípuhatta um helgar (á kappreiðum og héraðsmótum). Annars voru þeir núll og nix!

En konurnar í yfirstéttinni slá hins vegar öll met í skrautleika hattanna – ekki síst þegar kemur að konunglegum brúðkaupum. Þar ná hattasýningar þeirra hámarki.

Veislan í Windsor var með þeim bestu fyrr og síðar.

Og allir í hátíðarskapi – nema Victoría Beckham!

 

Páfuglar og smáfuglar

Að horfa á brúðkaupið í Windsor var svolítið eins og að horfa á skrautlega dýralífsmynd eftir David Attenborough.

Myndir af mökunar-hegðun páfugla kom upp í hugann.

Konurnar í hópi boðsgesta, sem voru auðvitað fyrst og fremst úr yfirstéttinni, kepptust við að skarta sem ævintýralegustum höfuðbúnaði. Með sperrtar fjaðrir og annað glingur. Hér eru smá dæmi…

Höfuðbúnaðurinn verður að vonum skrautlegur í meira lagi þegar mikið stendur til, rétt eins og í dýraríkinu hjá David Attenborough.

Sumt er smart og smekklegt en annað getur orðið svona og svona…

En allt er það skrautlegt og yfirleitt til marks um merkilegheit.

Hjá sumum þeim sem standa næst drottningunni og eldra aðalsfólki er hins vegar mjög sérstakur leikur í gangi, sem snýst um að vera með afkáranlegasta hattinn.

Elísabet drottning leggur gjarnan línuna í þeirri keppni. Oft með því að tjalda litríkum lampaskermum með álímdu ávaxtaskrauti – hún hefur sinn stíl segja menn.

Camilla Parker Bowles (verðandi drottning) reynir iðulega að slá drottningunni við í furðulegheitum. Hún skorar oft glæsilega.

Svo er hún líka hugmyndarík og ráðagóð, eins og þegar hún tók gamla bláa skúringamoppu og setti öfuga á kollinn – og sló í gegn!

Hún er mitt uppáhald í þessari fjölskyldu…

 

Svart og hvítt í eina sæng

Það sætir líka tíðindum í þessu skemmtilega brúðkaupi að kvonfang Harrys er af svörtum rótum runnin. Þess sá líka merki í kapellunni.

Þar var menningu svartra Bandaríkjamanna gerð góð skil, með frábæru tónlistarfólki úr þeirra átt og svo kom hinn stórkostlegi svarti eldklerkur sem talaði af jafnvel enn meiri innlifun og ástríðu en Marteinn Lúter King.

Ég hygg að það hafi farið um margan aðalsmanninn í kapellunni þegar klerkurinn talaði um að við ættum öll að hafa ástina að leiðarljósi í lífinu – svo mannkynið yrði þar með eins og ein fjölskylda.

Það er nú ekki beint í samræmi við hugmynd bresku yfirstéttarkarlanna um samfélag. Í huga þeirra er fátt mikilvægara en stór og breið gjá milli fjölskyldna yfir- og undirstétta;  milli æðri og óæðri;  milli páfugla og smáfugla; milli svartra og hvítra.

Hvað um það! Harry og Vilhjálmur eru meira synir Díönu prinsessu en Karls prins. Strákarnir hennar eru föðurbetrungar. En eins og menn muna þá var Díana full nútímaleg fyrir gömlu stemminguna í höllinni.

Þess vegna var Camilla aftur kölluð til verka.

En áfram þokast tíminn og þá heldur meira í rétta átt. Meghan kemur sennilega með góða blöndun inn í konungsfjölskylduna og er það vel.

En gamli tímann verður þó áfram við völd í höllinni. Camilla sér um það.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 15.5.2018 - 11:01 - FB ummæli ()

Hverjir ættu að eiga Ísland?

Í fjölmiðlum  hefur undanfarið verið sagt frá því að ríkasti maður Bretlands sé stór landeigandi á Íslandi.

Hann á Grímsstaði á fjöllum og ýmsar jarðir við laxveiðiár. Fleiri dæmi eru um slíkt.

Þetta er eitt af því sem hnattvæddur kapítalismi án landamæra bíður uppá.

Fyrir erlenda sem innlenda auðjöfra er lítið mál að eignast flestar verðmætustu landspildur og auðlindir á Íslandi.

Sjálfsagt eru talsverðar líkur á að það gerist – að öðru óbreyttu.

Peningaöflin reyna iðulega að leggja allt undir sig.

Mér finnst hins vegar æskilegast að landið sé sem mest í dreifðri eign, en ekki í eigu örfárra auðmanna og greifa.

Og ég vil hafa hálendið, orkulindir og helstu náttúruperlur í sameiginlegri eign þjóðarinnar.

Hver er hinn kosturinn? Jú, hann er sá að auðmenn eigi allt og ráði öllu í landinu. Sumir tala fyrir slíkri skipan – einkum nýfrjálshyggjufólk og hægri róttæklingar.

En það er alls ekki spennandi fyrir íslenska þjóð að stórir hutar landsins og þeirra náttúruverðmæta sem hér eru séu í eigu og ráðstöfun fárra yfirstéttarmanna – hvort sem þeir eru innlendir eða erlendir.

Hvað finnst ykkur?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 6.5.2018 - 21:20 - FB ummæli ()

Kröftugur Ragnar Þór

Ég hlustaði á Ragnar Þór Ingólfsson formann VR á 1. maí og svo aftur á Sprengisandi í morgun.

Ragnar Þór mætti talsverðri andstöðu í fyrstu og átti svolítið á brattann að sækja innan launþegahreyfingarinnar.

Hann hefur hins vegar eflst mjög í leiðtogahlutverki sínu og kemur nú fram af öryggi og krafti.

Hann og aðrir framsæknir leiðtogar sem standa saman (Sólveig Anna Jónsdóttir, Vilhjálmur Birgisson og Aðalsteinn Baldursson, og ef til vill fleiri) eru með góðan almennan málflutning og afar athyglisverða hugmynd um þriggja til fjögurra ára samfélagssáttmála sem mér sýnist geta hitt í mark.

Þau eru t.d. að tala um krónutöluhækkun sem skiptir þá lægra launuðu mestu máli og sem aftrar verðbólgusprengju því hækkunin í efri hópum verður ekki svo mikil (hlutfallslega).

Þá eru þau með mjög tímabærar hugmyndir um breytta skattbyrði og velferðarumbætur, t.d. varðandi barna- og vaxtabætur – og auðvitað heildstæðar tillögur í húsnæðismálum.

Talsmenn atvinnurekenda hafa sagst hissa á þessum velferðaráherslum launþegahreyfingarinnar, eins og það sé einhver nýlunda í kjarabaráttunni! En þær eru alvanalegar.

Talsmenn ASÍ eru raunar á sömu línu með þau atriði, enda hefur ASÍ iðulega samið við stjórnvöld um umbætur á sviði velferðar- og skattamála – þó lengra hefði stundum mátt ganga á þeim sviðum.

Í seinni tíð hefur ASÍ lagt mikla áherslu á hófsemd í kjarabaráttu og launaaðhald. Á meðan hafa talsmenn atvinnurekenda og fjáraflanna (SA, Viðskiptaráð, Mogginn, Viðskiptablaðið o.fl.) verið í harðdrægri stéttabaráttu í þágu eigin hagsmuna – leynt og ljóst.

Í hverr i einustu viku segja þau stjórnvöldum hvað þau eigi að gera og allt snýst það um fleiri krónur í vasa atvinnurekenda og fjármagnseigenda. Og svo bæta þau auðvitað við að ekki megi hækka laun meira en orðið er – þrátt fyrir mikinn og áframhaldandi hagvöxt!

Það er greinilega komið það vor í verkó, sem um var rætt í vetur. Nú gæti stéttabaráttan jafnast á ný – launafólki til hagsbóta.

Þessi nýbylgja á vinnumarkaði gæti markað mikil tímamót í kjaraþróun þjóðarinnar ef vel tekst til.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 25.4.2018 - 09:19 - FB ummæli ()

Ætti verkafólk ekki frekar að fá bónusa?

Ofurlaun og bónusar til forstjóra og bankastjóra hafa verið áberandi á Vesturlöndum í seinni tíð.

Á árunum fram að hruni tíðkuðust gríðarlegir bónusar í bönkunum og hjá hæstu stjórnendum í atvinnulífinu á Íslandi (og víðar). Þessir bónusar áttu sinn þátt í óhóflegri áhættutöku stjórnenda sem leiddu til ófarnaðar og hruns.

Bónusar í bönkum hvetja stjórnendur banka til að lána of mikið og án nægjanlegra trygginga. Þeir fara offari vegna græðgi sinnar (sem bónusarnir næra og magna). Slíkir bónusar eru hvatar til ófarnaðar.

Minna fór fyrir bónusum hjá almennu starfsfólki og verkafólki á bóluárunum – og reyndar enn í dag.

Ný skýrsla sýnir að um 70% fyrirtækja í íslensku kauphöllinni eru með (ofur)bónusa fyrir stjórana en einungis hjá 15%  eru einhverjir bónusar til almenns starfsfólks (sjá hér).

Þetta er öfugsnúið, því lengst af hafa bónusar einkum verið notaðir í þágu verka- og iðnaðarfólks, en síður til stjórnenda. Þeim dugði lengst af að hafa hæstu launin.

Þetta ástand er ein af afleiðingum nýfrjálshyggjunnar í nútímanum. Hún boðar að mikilvægast sé að fjárfestar, stjórar og hátekjufólk almennt græði sem allra mest. Aðrir skipta engu máli.

Því fara bónusar til toppanna nú á dögum en ekki lengur að ráði til annarra.

 

Lærdómurinn úr stjórnunarfræðunum

Í byrjun 20. aldarinnar varð svokölluð “vísindaleg stjórnun” ríkjandi aðferð við að auka framleiðslu og hagkvæmni í fyrirtækjum, bæði í Bandaríkjunum og Evrópu.

Frederick Winslow Taylor var höfundur þessa nýja skóla og gaf út merka bók um efnið árið 1911 (Principles of Scientific Management), sem byggði á reynslu hans af stjórnunarstörfum í iðnaði.

Þar var hugsunin sú, að verðlauna mætti það almenna starfsfólk sem legði sig vel fram eða næði góðum árangri í hversdagslegum verkefnum vinnustaðarins. Adam Smith talaði líka um að verkafólk sem fengi greitt eftir afköstum skilaði meiri árangri – öllum til hagsbóta (sjá hér).

Nýfrjálshyggjan hefur aldrei tekið mark á þessu þó hún þykist fylgja Adam Smith að málum! Hún hugsar bara um þá ríkustu.

Svona bónuskerfi verka- og iðnaðarfólks geta verið með margvíslegum hætti: einstaklingsbónusar (eftir frammistöðu viðkomandi) eða vinnustaðabónusar (eftir árangri vinnustaðarins þar sem allir njóti) – og allt þar á milli.

Þetta var stundum hugsað sem góð leið til að gefa láglaunafólki kost á að fá extra umbun fyrir dugnað eða útsjónarsemi. Slíkt má þó ekki verða til þess að halda grunnlaunum of lágum né leggja of mikið álag á fólk. Útfærslan skiptir öllu máli.

Einhver notkun bónusa tíðkast enn í sumum fyrirtækjum og greinum hér á landi. Hlutaskiptakerfið á veiðiflotanum er eitt dæmi, uppmælingar í iðnaði annað, o.s.frv.

Í sjávarútvegi hefur þó verið þrengt að hlut sjómanna af skiptakerfinu í seinni tíð, með því að taka olíukostnað og fleira af sameiginlegu áður en til hlutaskipta kemur.

 

Stjórarnir taka bónusana í eigin vasa!

Það er sem sagt orðið eitt af einkennum atvinnulífs nútímans að hæstu laun stjóranna hafa víða hækkað gríðarlega á síðustu áratugum. Því til viðbótar hafa þeir gjarnan fengið ofurbónusa í ýmsu formi.

Topparnir fá aldrei nóg.

Á meðan hefur launþegahreyfingin tekið að sér að vera “ábyrg” og sætta sig við hóflegar launahækkanir í nafni “stöðugleika”.

Þjóðarsáttin 1990 og SALEK samkomulagið gengu út á það.

Er ekki ranglega skipt þegar svona er í pottinn búið?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar