Þriðjudagur 26.06.2012 - 10:18 - FB ummæli ()

Veiðigjaldið – sigur þjóðarinnar

Samþykkt nýja frumvarpsins um veiðigjöld í síðustu viku var ekki bara mikill sigur fyrir ríkisstjórnarflokkana. Þetta var stórsigur fyrir þjóðina.

Loks kom að því að útvegsmenn greiða gjald sem um munar fyrir afnot af sjávarauðlind þjóðarinnar, sem þeir hafa hingað til farið með sem sína einkaeign. Þeir hafa braskað með veiðileyfin, veðsett þau og fénýtt til eigin ábata, en þjóðin hefur ekki notið auðlindarentunnar svo neinu hafi numið.

Eftir að þjóðin tók á sig um 50% gengisfellingu í hruninu, með tilheyrandi 25-30% kjaraskerðingu, þá hafa útvegsmenn baðað sig í gróða, sem gengisfellingin færði þeim. Okkar kjaraskerðing var þeirra gróði.

Nýja veiðigjaldið færir þjóðinni hluta af þeim gróða til baka – en þó bara hluta. Harma má að gefið var eftir í samningum við stjórnarandstöðuna á síðustu metrunum. Um 15 milljarða veiðigjald af 78 milljarða framlegð var ekkert of mikið. Og síst af öllu er veiðgjaldið landsbyggðaskattur.

Árangurinn er samt mikill, um 13,5 milljarðar á næsta ári. Og þá sjáum við strax áhrifin af því á hag almennings í fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar, sem sýnir hvernig milljarðarnir verða notaðir.

Ávinningurinn fer m.a. í vegagerð um land allt (alls 7,5 milljarðar á næstu þremur árum), stóraukið framlag til vísinda, rannsókna og nýsköpunar (6 milljarðar – m.a. verða samkeppnissjóðir RANNÍS tvöfaldaðir strax á næsta ári), og loks til framkvæmdar á landshlutaáætlunum í samræmi við Ísland 2020 áætlunina (3,6 milljarðar). Allt frábær markmið.

Í stað þess að auðmenn í sjávarútvegi flytji arðinn út úr greininna í brask í Reykjavík eða erlendis, þá mun þjóðin a.m.k. njóta auðlindarentunnar. Líka landsbyggðin.

Loksins! Loksins!

Almenningur ætti hins vegar að leggja á minnið hvaða stjórnmálaöfl gengu erinda auðmanna í sjávarútvegi í málinu. Þau tóku sérhagsmuni fram yfir almannahag.

Nú lofa Sjálfstæðismenn að skila fénu aftur til auðmanna, ef þeir komast til valda. Ef til slíks kæmi hlyti forseti þjóðarinnar að skjóta málinu í þjóðaratkvæði, hver sem hann/hún verður. Það mætti hann raunar gera strax, til að negla málið fast.

Almenningur mun auðvitað samþykkja veiðigjaldið í þjóðaratkvæðagreiðslu.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar