Föstudagur 29.06.2012 - 01:00 - FB ummæli ()

Forseti litrófsins

Ólafur Ragnar Grímsson hefur vissulega verið athyglisverður og áhrifamikill forseti.

Hann hefur þegar skapað sér sess í sögunni með langri valdasetu á Bessastöðum og vasklegri framgöngu á innlendum og erlendum vettvangi.

Hann byrjaði í pólitík sem umbótamaður í Framsóknarflokknum á sjöunda áratugnum, en umbótavilji hans varð snemma of mikill til að rúmast innan þess flokks.

Þá sveigði hann sig til vinstri og gekk til liðs við Samtök frjálslyndra og vinstri manna. Síðar fór hann í Alþýðubandalagið og varð loks formaður þess á árunum 1987 til 1995.

Þaðan fór hann í forsetaembættið og varð fyrsti sósíalistinn til að gegna því. Hægri menn voru með böggum hildar yfir uppákomunni!

Nú býður hann sig fram í fimmta skiptið og virðist ætla að ná kosningu – og þá ekki síst með stuðningi hægri manna!

Hann er þá á sinn hátt búin að fara hringinn í hinu pólitíska litrófi, ef þetta gengur eftir. Það þarf mikla pólitíska útsjónarsemi til að ná slíkum árangri. Svona ferð er bara fyrir pólitíska töframenn!

Ég hef lengi verið mikill aðdáandi Ólafs Ragnars, eða a.m.k. frá því við vorum samstarfsmenn í háskólanum upp úr 1980. Hann er eldklár og hefur góða kímnigáfu.

Mitt fyrsta verk í HÍ var reyndar að taka við kennslu í námskeiði um þjóðfélagsfræði í viðskiptafræðideild háskólans, sem Ólafur hafði kennt. Hann var kominn í full mikið annríki í pólitíkinni, þegar þarna var komið sögu.

Í gær skrifaði ég á Eyjuna að Ólafur Ragnar hefði gert alvarleg mistök þegar hann vísaði síðasta Icesave samningnum í þjóðaratkvæði. Það mátti verja það að greiða atkvæði um fyrri samninginn, en hitt var hættulegt glapræði.

Auðvitað er hann líka orðinn full hofmóðugur af langri valdasetu og auðvitað sagði hann á nýársdag að hann ætlaði að hætta og auðvitað daðraði hann of mikið við útrásarliðið.

En Ólafur Ragnar var samt ekki mesta klappstýra útrásarinnar, eins og Hannes Hólmsteinn titlaði hann strax eftir hrun. Það er Hannes sem öðrum fremur verðskuldar þann titil, sjálfur grillmeistari græðginnar.

Þrátt fyrir þessa bresti verður það ekki tekið af Ólafi Ragnari að hann er afar öflugur talsmaður Íslands erlendis. Það er okkur mikilvægt.

En þeir hægri menn sem vilja kjósa hann nú geta ekki gengið að honum sem vísum bandamanni, ef svo ólíklega færi að þeir kæmust til valda að ári.

Forseti litrófsins mun halda sinni stefnu, óháður flokkum, stjórnum og stjórnarandstöðum.

Hann mun skrifa sína eigin hringadróttinssögu til enda…

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar