Mánudagur 23.07.2012 - 15:44 - FB ummæli ()

Skjaldborg um stóreignafólk

Þórður Snær Júlíussson er vandaður blaðamaður á Fréttablaðinu, ekki síst á sviði fjármála. Í dag skrifar hann öflugan leiðara um hvernig stóreignafólk var verndað í hruninu og segir meðal annars:

„Þegar öll innlán voru tryggð tók íslenska ríkið á sig nokkur þúsund milljarða króna ábyrgð á innlánum. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis kemur fram að ef fimm milljón króna hámarksvernd hefði verið sett á innstæður þá hefðu skuldbinding ríkisins vegna þeirra verið 555 milljarðar króna miðað við umfang þeirra í maí 2008. Hefði slík aðferðarfræði orðið ofan á hefðu 95 prósent einstaklinga verið með allan sparnað sinn í vari. Sama hefði átt við um 90 prósent lögaðila. Stórir fjármagnseigendur hefðu verið látnir sitja uppi með stóran reikning. Þess í stað ábyrgðist ríkið eignir þeirra.

Samkvæmt niðurstöðu ESA voru kaup á ónýtum skuldabréfum úr peningamarkaðssjóðum líka ákvörðun stjórnvalda. Þau ákváðu því, með báðum þessum ákvörðunum, „að skýla fjárfestum frá enn stærra tapi á sparifé sínu“. Þetta gerðu þau á kostnað þeirra sem áttu lítið eða ekkert sparifé og gátu ekki tekið þátt í gullgrafaraævintýrum fyrir-hruns-áranna. Skattgreiðendur greiða reikninginn þótt einungis lítið brot þeirra hafi hagnast á ákvörðuninni. Það kann að vera samrýmanlegt við EES-löggjöf, en það er hvorki réttlátt né boðlegt“.

Það voru forsætisráðherra og fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins, Geir Haarde og Árni Matthiesen sem léku lykilhlutverk í ákvarðanatöku um þetta. Samfylkingin sem var einnig í stjórninni sat hjá að því er virðist, eða lét þetta yfir sig ganga, eins og annað í ævintýralegri fjármálastjórn Sjálfstæðisflokksins á árunum fram að hruni.

Samfylkingin gerði í reynd mikil mistök að fela Sjálfstæðisflokknum alla mikilvægustu þætti fjármála og efnahagsmála í stjórnarsamstarfinu frá 2007.

Að auki hafði Sjálfstæðisflokkurinn æðsta yfirvald íslenskra peningamála, í höndum Davíðs Oddssonar sem aðalbankastjóra Seðlabankans. Það voru einkum Sjálfstæðismenn í bönkum og stjórnkerfinu sem stýrðu fjármálakerfi þjóðarinnar í ógöngur og endanlega fyrir björg.

Aldrei hefur verið almennilega upplýst hvers vegna ekki var látið nægja að verja sparifé upp að eðlilegu hámarki, t.d. 5 milljónum króna, eins og Þórður Snær nefnir. Um 95% sparifjáreigenda hefðu þar með verið varðir.

Vitað er að einstaklingar sem áttu fé að upphæð mörg hundruð milljónir og jafnvel yfir einn milljarð á sparireikningum nutu þarna mikils örlætis í formi tryggingar að hálfu skattborgara, sem margir bera nú þungar byrðar vegna fjármálahrunsins.

Það var í senn óþarft, óréttlátt og óverjandi.

Spyrja má hvort nálægð við forystu Sjálfstæðisflokksins hafi þarna ráðið miklu um að skjaldborg var reist um eignir stóreignafólks á innlánsreikningum og í peningamarkaðssjóðum? Margir helstu auðmenn landsins eru nátengdir og áhrifamiklir í Sjálfstæðisflokknum. Hvaða aðrar skýringar geta verið á þessu?

Sjálfstæðismenn reistu þannig skjaldborg um stóreignafólk í hruninu. Fyrir hrun höfðu þeir líka þjónað stóreigna- og hátekjufólki vel með miklum raunlækkunum á skattbyrði þeirra, auk annarra nýrra forréttinda.

Núverandi stjórnvöld geta hins vegar hælt sér af því að hafa að hluta varið lágtekju- og millitekjufólk gegn kjaraskerðingu hrunsins.

Þarna er ef til vill kominn skilgreinandi munur á hægri stjórn undir forystu Sjálfstæðisflokks og vinstri stjórn Samfylkingar og Vinstri grænna.

Hægri menn reisa skjaldborgir um auðmenn en vinstri stjórnir reisa skjaldborgir um milli og lægri tekjuhópa.

Svo sjá vinstri menn auðvitað um skúringarnar!

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar