Miðvikudagur 25.07.2012 - 13:50 - FB ummæli ()

Valdið bak við tjöldin

Jóhann Hauksson skrifar mjög athyglisverða grein í DV í dag um þræði valdsins á Íslandi. Jóhann, sem er vel menntaður félagsvísindamaður, skrifaði bók um þetta efni í fyrra sem dróg upp afar skýra mynd af valdasamþjöppuninni á Íslandi (Þræðir valdsins).

Megineinkenni valdakerfisins á Íslandi eru óvenju náin tengsl auðmanna, stjórnmálaflokka (einkum Sjálfstæðisflokks og Framsóknar) og fjölmiðla. Mesta valdið liggur hægra megin í stjórnmálunum.

Vinstri menn eru oftast veikburða gagnvart valdi auðmanna og fjölmiðla. Áður fyrr var verkalýðshreyfingin meira til vinstri og mikilvægt mótvægisafl gegn þessum valdakjarna, en nú skiptir hún minna máli.

Dæmisaga Jóhanns fjallar um þessi tengsl eins og þau koma fram hjá LÍU, Morgunblaðinu og hægri flokkunum á Alþingi. Þó það vald sem þar situr sé mikið tókst þrátt fyrir allt, með samstöðu vinstri og miðjumanna á Alþingi, að sigra það í veiðigjaldamálinu.

Hér er grein Jóhanns, nokkuð löng en afar gagnleg innsýn:

Á dögunum var upplýst að Íslandsbanki hefði enn á ný afskrifað skuldir Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins. Ég staldraði við eftirfarandi viðbrögð Jónasar Kristjánssonar við þeim tíðindum: „Með nýjasta milljarðinum eru afskriftir Íslandsbanka af skuldum Moggans komnar yfir fimm milljarða. […] Allir, sem taka upp varnir fyrir þjóðina í orrahríð kvótagreifanna, sæta árásum og illmælum Moggans. Þetta er bezta dæmið um, að ekkert breyttist við þriggja ára stjórn annarra flokka. Bófaflokkur sjálfstæðismanna heldur samt fast um stjórnartaumana.“
Er vald sjálfstæðismanna mikið þrátt fyrir að við stjórnvölinn sé lýðræðislega kjörin ríkisstjórn annarra flokka? Og hverjar eru rætur þessa valds ef Jónas hefur rétt fyrir sér?
Auðvelt er að komast að því að útgerðarmenn og félög þeirra eiga a.m.k. 80% í Árvakri sem gefur út Morgunblaðið. Forvitnilegt er að skoða hluthafalistann og hverjir forsvarsmenn félaganna eru sem eiga samanlagt 99% Árvakurs undir hatti Þórsmerkur ehf. Á þessi tengsl benti Ingimar Karl Helgason blaðamaður í úttekt á Smugunni í febrúar síðastliðnum. Hér verða þau útfærð nánar.

 

Hvað sem það kostar
Stærsti eigandi Árvakurs (Þórsmerkur)  eru félög í eigu Guðbjargar Matthíasdóttur í Vestmannaeyjum. Þau eru Hlynur A með 16,4% hlut og Ísfélagið sem á um 13,4% hlut. Fyrir Ísfélaginu fer Stefán Friðriksson sem á sæti í stjórn LÍÚ, Landssambandi íslenskra útvegsmanna. Samanlagt er þetta um 30% ráðandi eignarhlutur. – Handgengnir Guðbjörgu eru Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson sem annarst fjármál Ísfélagsveldisins og Sigurbjörn Magnússon lögfræðingur, stjórnarformaður Árvakurs, en lögfræðistofa sem hann rekur á sjálf nærri 2% hlut í Árvakri. Óskar Magnússon, útgáfustjóri Árvakurs,  hefur einnig verið handgenginn Ísfélagsveldinu og Guðbjörgu og var meðal annars forstjóri Tryggingarmiðstöðvarinnar hf. á sínum tíma þegar hún var í meirihlutaeign Ísfélagsveldisins.Óskar er persónulega skrifaður fyrir litlum hlut í Árvakri en Ármót ehf., félag sem hann fer fyrir, á 12,3% hlut.

Allt eru þetta gallharðir sjálfstæðismenn og voru lengi í innsta hring Davíðs Oddssonar sem nú ritstýrir Útgerðarmogganum. Hér má bæta við að Friðbjörn Orri Ketilsson, sem stýrir penna á AMX-áróðursvefnum, er tengdasonur Gunnlaugs Sævars. Þess má geta að Stefán Friðriksson, framkvæmdastjóri Ísfélagsins, er sonur Friðriks Sophussonar, en hann er formaður bankastjórnar Íslandsbanka (sem afskrifar skuldir Árvakurs)  og fyrrverandi fjármálaráðherra og þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Segja má að bandalag þessara manna og félaga Guðbjargar Matthíasdóttur myndi samanlagt um 45% eignarhlut í Árvakri.
Næst stærsti útgerðarhluthafinn í Morgunblaðinu er Krossanes ehf. sem Þorsteinn Már Baldvinsson fer fyrir. Eign félagsins er um 18,5%. Kristján Vilhelmsson, frændi Þorsteins og meðeigandi í Samherja hf. situr í stjórn LÍÚ. Sjálfur sittur Þorsteinn Már í varastjórn LÍÚ. – Síldarvinnslan í Neskaupstað á liðlega 6% hlut í Árvakri en hún er í helmingseign Samherja. Því má segja að Samherji fari með um 23% hlut samanlagt í Árvakri. Forstjóri Síldarvinnslunnar er Gunnþór Ingvarsson en hann á sæti í stjórn LÍÚ.
Þriðji stærsti útgerðareigandi Morgunblaðsins er Kaupfélag Skagfirðing með liðlega 9 prósenta hlut. Forsvarsmaður KS í Árvakri er Sigurjón Rafnsson, einn nánasti samstarfsmaður Þórólfs Gíslasonar kaupfélagsstjóra sem reyndar er náskyldur Davíð Oddssyni ritstjóra Moggans. Annar náinn samstarfsmaður Þórólfs, Jón Edvald Friðriksson, á sæti í varastjórn LÍÚ.
Rammi hf. á jafn stóran hlut og Síldarvinnslan eða 6,14% í Árvakri. Fyrir félaginu og eignarhlutnum fer Ólafur H. Marteinsson en hann á einnig sæti í stjórn LÍÚ.
Þingey ehf. á 4,1% hlut í Árvakri en forsvarsmaður fyrir hlutnum er Aðalsteinn Ingólfsson hjá Skinney Þinganesi og bróðursonur Halldórs Ásgrímssonar. Gunnar Ásgeirsson situr í stjórn LÍÚ fyrir hönd Skinneyjar Þinganess.
Páll H. Pálsson hjá Vísi í Grindavík er persónulega skrifaður fyrir rúmlega 2% hlut í Árvakri. Bróðir hans og meðeigandi, Pétur H. Pálsson á sæti í varastjórn LÍÚ.
Loks á félagið Skollaborg ehf. 1,72% í Árvakri en forsvarsmaður þessa félags gagnvart eignarhlutnum í Árvakri er Einar Valur Kristjánsson forstjóri Hraðfrystihússins – Gunnvarar hf á Ísafirði.  Einar Valur á jafnframt sæti í stjórn LÍÚ.

 

Þar sitja þeir saman
Hér hafa verið nefndir 10 einstaklingar sem gæta samtímis hagsmuna í stjórn LÍÚ og Árvakurs. Þræðina má rekja í fleiri áttir eins og til Íslandsbanka, viðskiptabanka Árvakurs.  Nær undantekningarlaust tengjast öll nöfnin, um 25 alls, Sjálfstæðisflokknum en einnig Framsóknarflokknum. Sem dæmi sitja mennirnir 10 í stjórn og varastjórn LÍÚ fundi með Þorsteini Erlingssyni eiganda útgerðarinnar Saltvers á Suðurnesjum. Þorsteinn var um árabil bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ og formaður stjórnar Sparisjóðs Keflavíkur meðan hann var skafinn að innan af vinum og klíkubræðrum.

Það virðist ekkert hlaupið að því að uppræta íslenska kunningja- og klíkuþjóðfélagið með opinberum aðgerðum. Enda er ekki um það að ræða að uppræta fjölskyldu- eða kunningjatengsl. Óheilbrigð tengsl af þeim toga verða aðeins upprætt með siðsemi, ráðvendni og prinsípfestu að vopni. Margfalt betur hefur gengið að reisa við efnahag þjóðarinnar eftir hrunið. Svo vel, að eftir er tekið langt út fyrir landsteinana.

Auk þess er engin samstaða innan stjórnmálastéttarinnar um hreingerningar af þessu tagi. Sjálfstæðisflokkurinn hefur t.d.  kyrfilega læst ofan í skúffu samþykktir um að koma hrunverjum úr forystu flokksins og forherðist í sérhagsmunagæslu við fótskör þessa valds sem hér er lýst.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar