Þriðjudagur 31.07.2012 - 17:41 - FB ummæli ()

Þróun ójafnaðar – mat Hagstofunnar

Benedikt Jóhannesson rembist eins og rjúpan við staurinn við að gera athugasemdir við greinar mínar, sem virðast hafa komið illa við hann. Í dag sendir hann mér enn eina greinina og fullyrðir þar að ég hafi gert mistök við að birta tölur Hagstofunnar um tekjuójöfnuð frá 2003 til 2010. Segir Benedikt að ég hafi sett röng ártöl á tölur Hagstofunnar, fært allt um eitt ár afturábak.

Það er reyndar rétt. En það er einmitt það sem á að gera (sjá hér)!

Eins og Hagstofan sjálf upplýsir í skýrslum sínum, þá koma upplýsingar um tekjur hvers árs úr skattskrám ársins á undan! Þær tölur sem þeir birta fyrir árið 2004 eru tekjutölur fyrir 2003 og tölurnar fyrir 2009 eru tekjutölur fyrir 2008, o.s.frv. Það er því allt rangt sem Benedikt segir í þessari grein sinni.

Þar eð Benedikt sparar ekki hroka og yfirlæti í skrifum sínum væri nú við hæfi að hann biðji bæði mig og Hagstofuna afsökunar á kunnáttuleysi sínu um þau gögn sem hann vísar í.

Ég birti svo aftur hér að neðan grein mína sem stendur óhögguð í einu og öllu.

—————————————

 

Í umræðum síðustu daga hefur ójafnaðarþróun fyrir hrun borið á góma (t.d. hér og hér og hér). Þar er farið ranglega með og sagt að tölur Hagstofu Íslands rekist að einhverju leyti á það sem ég hef sagt og skrifað. Það er allt rangt.

Ég sýndi í nokkrum fræðilegum greinum með ábyggilegum gögnum að ójöfnuður hefði aukist á Íslandi fram að hruni og að sú aukning hefði verið óvenju mikil, samanborið við önnur lönd. Síðan hefði dregið úr ójöfnuði á ný eftir hrun (sjá t.d. hér og með öðrum höfundi hér).

Hægri menn fullyrtu á hinn bóginn að tekjuskiptingin hefði ekki orðið ójafnari fram að hruni. Einn þeirra fullyrti jafnvel að hún hefði orðið jafnari.

Hvað segja tölur Hagstofunnar um málið?

Mynd 1: Þróun Gini ójafnaðarstuðla fyrir ráðstöfunartekjur á mann, skv. könnunum Hagstofu Íslands.

Ójafnaðarstuðullinn fór úr 24 upp í tæplega 30 á 6 ára tímabili fram að hruni, sem er hækkun um 22,8%. Það er aukning ójafnaðar, en ekki óbreytt staða eins og hægri menn sögðu!

En er það mikil aukning? Já, mjög mikil.

Hækkun um eitt Gini stig á ári er mjög mikil aukning ójafnaðar. Ísland fór úr einna jöfnustu tekjuskiptingunni í Evrópu árið 2003 (2-3. sæti) upp í 18. sæti 2008, þegar mest var og síðan aftur niður í 8unda sæti 2010 (skv. könnunum Hagstofunnar og Eurostat).

OECD hefur viðmið um hvað teljist mikil aukning ójafnaðar. Þeir segja að hækkun Gini stuðuls um 1,2% á ári teljist “mikil breyting”, einkum ef hún er viðvarandi um eitthvert árabil.

Samkvæmt viðmiði OECD telst hækkun um 7,2% á 6 ára tímabili því vera “mikil aukning ójafnaðar”. Hér varð hækkunin sem sagt 22,8%, eða rúmlega þrisvar sinnum meiri en viðmið OECD!

Aukning ójafnaðar hér fram að hruni var því mjög mikil. Raunar finnst ekki dæmi á Vesturlöndum um aðra eins aukningu ójafnaðar á jafn skömmum tíma.

Samt sleppir Hagstofan hluta fjármagnstekna (söluhagnaði hlutabréfa og annara eigna) sem var óvenju mikill í íslenska bóluhagkerfinu. Þegar það er talið með (eins og gert er í gögnum Ríkisskattstjóra) þá er aukning ójafnaðar talsvert meiri en tölur Hagstofunnar þó benda til.

NIÐURSTAÐA: Aukning ójafnaðar hér á landi fram að hruni var mun meiri en sést hefur í öðrum vestrænum löndum. Raunar var hún fordæmalaus.

Umskipti til aukins jafnaðar eftir hrun voru einnig fordæmalaus. Nú er staðan svipuð og var á árinu 2003 eða fyrr.

Niðurstöður mínar og samstarfsmanna minna eru vendilega studdar af gögnum Hagstofunnar (eins og hér hefur verið sýnt), en einnig af skýrslum OECD og skýrslum Eurostat.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar