Laugardagur 25.08.2012 - 14:56 - FB ummæli ()

Mistök Lilju

Lilja Mósesdóttir tilkynnti í vikunni að hún ætli að snúa baki við flokknum sem hún stofnaði. Hún ætlar ekki að vera í framboði til formennsku og mun einbeita sér að þingstörfum fram að kosningum.

Hún virðist sem sagt ekki ætla að einbeita sér að kosningabaráttunni fyrir hönd Samstöðu.

Þetta er auðvitað dauðadómur yfir Samstöðu. Flokkurinn sem kallaði sig “Samstaða um lýðræði og velferð” nær sér ekki á strik og endar sem “Samstaða um sundurlyndi”.

Gott og vel.

Þetta var hvort eð er slæm hugmynd hjá Lilju og félögum frá byrjun. Lilja gerði reginmistök er hún sagði sig úr VG. Þar á hún sitt eðlilega pólitíska heimili.

Mistök Lilju voru þau að vera of óþolinmóð og setja sig upp á móti formanni flokksins. Hún virtist móðgast yfir því að Steingrímur hlustaði meira á hagfræðinga Alþjóða gjaldeyrissjóðsins en hana. Samt gat hún alveg gert sig gildandi í umræðunni, stundum með ágæta punkta. Tíminn hefði unnið með henni.

Hún hafði líka AGS fyrir rangri sök, áður en hún vissi fyrir hvað þeir myndu standa hér á landi. Þeir hafa reynst Íslendingum afar vel, ólíkt því sem segja má um sum fyrri verka þeirra.

Svo kann Lilja einnig hafa verið fórnarlamb daðurs frá hægri mönnum, sem iðuglega reyna að stýra vinstri mönnum til klofnings. Styrmir, Björn Bjarna, Mogginn o.fl. hömpuðu Lilju í sífellu á meðan hún var í stjórnarmeirihlutanum og hugsanlegur kandídat til að kljúfa þá fylkingu.

Henni var þannig sérstaklega mikið hampað í hægri miðlunum og með því fékk hún talsverða sérstöðu um tíma. Sama gilti um Ásmund Daðason, Atla Gíslason og Ögmund Jónasson.

Allt bullið um “aðlögunarferli að ESB”, sem hægri menn fundu upp til að sá eitri inn í raðir VG-manna, hafði áhrif á suma, ekki síst Ásmund og Atla.

Þau þrjú sem fóru úr VG eru hins vegar nær ósýnileg núna í hægri miðlunum. Lilja kennir því m.a. um fylgistap Samstöðu. Jón Bjarnason, sem enn er innanbúðar í VG en súr eftir að hafa misst ráðherrastól, á hins vegar góðu gengi að fagna í hægri pressunni. Hann gæti enn glatt hægri menn með klofningi eða óþægilegu tali um formanninn og ESB málið! Ef hann klýfur missa þeir svo áhuga á honum í kjölfarið. Þannig er það alltaf.

Þau sem klufu sig út úr VG munu öll enda sinn pólitíska feril í lok þessa kjörtímabils. Lilja stimplaði sig út nú í vikunni. Atli er þegar horfinn og Ásmundur mun ekki ná öruggu þingsæti í forvali hjá Framsókn. Ef þau hafa enn áhuga á stjórnmálum þá voru það stór mistök hjá þeim að yfirgefa VG. Fleira kemur líka til.

VG-fólk sem stóð vaktina og studdi sitt fólk í rústabjörguninni eftir frjálshyggjuhrunið mun hins vegar uppskera eins og það sáði. Það hefur tekið þátt í að vinna gott verk við óvenju erfiðar aðstæður og almenningur mun smám saman sjá það betur í aðdraganda kosninga. VG fær án efa meira fylgi þá en kannanir gefa nú.

Sagan verður síðan á bandi stjórnarflokkanna ef fram heldur sem horfir, hvort sem þeir ná að vera áfram við völd eftir kosningar eða ekki.

Árangurinn af góðu starfi mun ilja stjórnarliðum VG um hjartarætur það sem eftir er, en flóttafólkið hefur fyrst og fremst vonbrigðin í pólitísku farteski sínu.

Klofningur á vinstri vængnum hefur aldrei gert vinstri mönnum neitt gott, en iðuglega tryggt Sjálfstæðisflokknum óeðlilega mikil völd. Það er dómur reynslunnar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar