Föstudagur 31.08.2012 - 09:29 - FB ummæli ()

Síminn – misheppnuð einkavæðing

Nú berast fregnir af því að skuldir séu að sliga félagið Skipti sem er eignarhaldsfélag Símans. Félagið tapaði nærri tveimur milljörðum í fyrra og tapið á fyrri helmingi núverandi árs er 2,6 milljarðar.

Forstjóri Skipta segir að þetta gangi ekki upp til lengri tíma og skuldirnar skerði samkeppnishæfni og fjárfestingargetu félagsins. Megnið af skuldunum er sagt vera vegna kúlulána sem tekin voru til að fjármagna kaup á Landssímanum við einkavæðingu hans árið 2005. Þau á að greiða upp á næstu tveimur árum!

Einkavæðing félaga í eigu ríkisins var trúaratriði á frjálshyggjutíma Davíðs og Hólmsteins – og er enn hjá Sjálfstæðismönnum og mörgum öðrum.

En rifjum aðeins upp rökin fyrir einkavæðingu Landssímans. Helstu rökin voru sú trúarsetning hægri róttæklinga að einkaaðilar (auðmenn) geri allt betur en ríkið. Því eigi að skera ríkið niður eins og hægt er og komu öllu verðmætu sem þar er í hendur auðmanna.

Landssíminn var hins vegar gott fyrirtæki, með tækni í fremstu röð, ágæta þjónustu og símagjöld sem voru með þeim lægstu í Evrópu.

Halló! Tókuð þið eftir þessu?

Landssíminn var með ein lægstu notendagjöld fyrir símaþjónustu í Evrópu fyrir einkavæðingu og hafði lengi verið. Flest verð á Íslandi eru með þeim hæstu í heimi. En ekki símagjöldin hjá Landssímanum. Þau voru óvenju lág!

Auk þess skilaði Landssíminn ágætum hagnaði af rekstri á hverju ári í ríkissjóð og hafði gert um langt árabil. Þetta var fyrirtæki í eigu þjóðarinnar og ágætlega rekið af fagmönnum.

Þetta var sem sagt afhent auðmönnum og bröskurum sem tóku kúlulán til að greiða kaupverðið. Nú ræður reksturinn ekki við skuldirnar og er ekki samkeppnishæfur. Stefnir í þrot árið 2013 nema hægt verði að endurfjármagna kúlulánin til langs tíma.

Skuldirnar eru innan rekstrarins og því greinilega gert ráð fyrir að rekstur Símans borgi kaupverðið. Viðskiptavinum Símans var ætlað að greiða kaupverðið fyrir “eigendurna”.

Þetta er það sem kallað var “algjör snilld” af bröskurum Sjálfstæðisflokksins í áramótaskaupinu eftirminnilega.

Gott fyrirtæki sem þjóðin hafði byggt upp með viðskiptum sínum á löngum tíma var afhent auðmönnum til að braska með í spilavítum. Þeir lögðu ekkert til en græddu vel.

Nú, sjö árum eftir einkavæðingu, blasir kaldur veruleikinn skýrlega við.

Einkavæðing Landssímans voru gríðarleg mistök. Hagsmunum þjóðarinnar var fórnað fyrir skammtímagróða auðmanna.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar