Miðvikudagur 19.09.2012 - 00:15 - FB ummæli ()

Skattar og hagvöxtur í USA – Nokkrar lexíur

Á myndinni hér að neðan er sýnd þróun hátekjuskatts á einstaklinga í Bandaríkjunum, frá 1913 til 2012. Súlurnar sýna hæstu álagningu á háar tekjur.

Þetta er ansi lærdómsrík mynd. Ekki síst fyrir algenga – en mjög villandi – umræðu um samband milli skatta og hagvaxtar.

Staðreyndin er sú, að þegar hátekjuskattar voru hæstir í USA þá var hagvöxturinn jafnframt mestur. Skattalækkanir Reagans og Bush-feðganna juku ekki hagvöxt.

Við sjáum á myndinni hvernig hátekjuskatturinn var mjög lágur í byrjun 20. aldar (7%) en hækkaði svo stórlega í fyrri heimsstyrjöldinni og fyrstu árin á eftir henni, upp í rúmlega 70% álagningu. Hann tífaldaðist, til að fjármagna stríðsreksturinn.

Síðan kom frjálshyggjutími þriðja áratugarins, þá var skatturinn lækkaður aftur í um 25%. Þessi tími einkenndist af vaxandi braski, skuldasöfnun og auknum ójöfnuði. Frjálshyggjutíminn endaði með hruninu á Wall Street haustið 1929  og við tók Kreppan mikla. Skatturinn var áfram lágur til 1932, en það var síðasta ár Hoovers forseta og við tók Franklin D. Roosevelt. Hann hélt skattinum í 63% til 1936 er hann var hækkaður í 79% (ATH: hátekjuskattur er nú rúmlega 46% á Íslandi).

Athyglisvert er að fyrsta stjórnarár Franklin D. Roosevelts fór hagvöxtur loks af stað og atvinnuleysi tók að minnka, eða beint í kjölfar skattahækkunar úr 25% upp í 63%. Skattahækkunin hamlaði ekki hagvexti þrátt fyrir mikla dýpt kreppunnar.

Svo hækkuðu hátekjuskattarnir í seinni heimsstyrjöldinni upp í 88% og í lok styrjaldarinnar í 94%. Þá þurfti að greiða stríðskostnaðinn og hátekjufólki var ætlað stórt hlutverk í því (enda höfðu margir þeirra grætt vel á stríðstímanum, ekki  síst iðnjöfrar).

Frá 1950 til 1963 héldust hæstu hátekjuskattar í um 91%. Það tímabil var jafnframt mesta góðæri Bandaríkjanna fyrr og síðar, með met hagvöxt, lítið atvinnuleysi og met kaupmáttaraukningu almennings. Þetta var gullöld blandaða hagkerfisins. Þessir gríðarlegu hátekjuskattar (91%) stóðu samt ekki í vegi fyrir þessu mikla góðæri. Lyndon Johnson lækkaði svo skattana 1964-5 niður í 70%.

Síðan má sjá hvenær nýtt frjálshyggjutímabil hefst með stjórn Ronald Reagans upp úr 1980 og voru þá hátekjuskattar snarlega lækkaðir úr 70% í 50% og áfram hjá Bush eldri niður í 28%. Ekki sáust nein sérstök merki aukins hagvaxtar í kjölfarið.

Clinton hækkaði hátekjuskattinn svo aftur 1993, til að greiða uppsafnaðan halla vegna skattalækkana ríka fólksins á Reagan-tímanum. Þrátt fyrir þá hækkun tók við mikið hagvaxtargóðæri frá 1994 til 2000. Sú hækkun stóð uns Bush yngri komst til valda og lækkaði hátekjuskattana aftur úr 39,6% í 35%. Þar hafa skattarnir verið til 2012, því Obama hefur ekki tekist að hækka þá, þó hann hafi lýst vilja til þess.

Lexíur:

  • Háir hátekjuskattar hafa oft verið taldir nauðsynlegir til að greiða mikinn kostnað samfélaga, svo sem af styrjöldum og kreppum.
  • Skattahækkanir á hæstu tekjur hafa almennt ekki hamlað hagvexti (sjá nýleg dæmi hér og hér).
  • Mesta góðæri 20. aldarinnar (1945-70) var jafnframt með hæstu hátekjuskattana í USA (og víðar á Vesturlöndum).
  • Frjálshyggjumenn lækka iðuglega skatta á hátekjufólk þegar þeir eru við völd. Það er yfirleitt höfuð baráttumál þeirra (leynt eða ljóst). Segja það auka hagvöxt, en sannanir skortir algerlega fyrir þeirri fullyrðingu.
  • Skattalækkanir á háar tekjur auka einfaldlega ójöfnuð.
  • Hátekjuskattur í Bandaríkjunum er nú með allra lægsta móti m.v. síðustu 100 árin. Samt eru frjálshyggjumenn og auðmenn þar í landi að ærast yfir skattbyrðinni og vilja lækka skatta og fórna velferðarkerfinu.

Hátekjuskattar voru hækkaðir hóflega á Íslandi eftir hrun. Það stóð ekki í vegi fyrir endurreisn hagvaxtar og framþróunar. Nú er Ísland með einna mesta hagvöxtinn í Evrópu og Norður Ameríku.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar