Föstudagur 21.09.2012 - 09:29 - FB ummæli ()

61% Íslendinga eru aular – segir Viðskiptaráð

Það voru tímamót í kosningabaráttu Mitt Romneys í Bandaríkjunum er birt voru leynd ummæli hans á fjáröflunarfundi með auðmönnum þar vestra í vikunni (sjá hér).

Hann sagði m.a. þetta: „… það eru 47 prósent … sem eru háð ríkinu, … sem telja að ríkið eigi að sjá fyrir þeim, sem telja sig eiga rétt á heilbrigðisþjónustu, mat, húsnæði og ég veit ekki hvað. Að þetta séu réttindi. Og að ríkið eigi að gefa þeim þetta. …Þetta er fólkið sem greiðir engan tekjuskatt. … Ég mun aldrei sannfæra þau um að þau eigi að bera ábyrgð og sjá um sig sjálf.”

Margir hrukku við. Meira að segja hægri sinnaðir fjölmiðlamenn voru orðlausir af hneykslan, eins og t.d. David Brooks á New York Times. Sumir telja þetta náðarhögg fyrir kosningabaráttu Romneys.

Ummælin þóttu sýna algenga mannfyrirlitningu auðmanna gagnvart alþýðufólki, en einnig ótrúlega fákunnáttu um samfélagið sem hann vill stýra sem forseti.

Hugsunin sem Romney tjáir á svo hispurslausan hátt er sú, að um 47 prósent landsmanna séu ómagar sem hin 53 prósentin þurfa að sjá fyrir. Þetta er einmitt hið harða viðhorf auðmanna til velferðarríkisins, sem þeir vilja ekki að sé rekið af skattfé. Þeir telja sig sjálfa og aðra í ríkari helmingi samfélagsins skapa verðmæti – en allir aðrir séu afætur.

Þetta er auðvitað ógeðfellt – en einnig kolröng hugsun.

Er ég heyrði þessu ummæli Romneys rifjaðist upp fyrir mér að Viðskiptaráð Íslands hefur orðað sömu hugsun á skýran og jafnvel róttækari hátt.

Það var í fréttabréfi um svokallaðan “stuðningsstuðul atvinnulífsins” frá 11. maí á síðasta ári (sjá hér og hér).

Þar birta þeir útreikning sem á að sýna að 61 prósent þjóðarinnar (192.700 manns) séu á framfæri þeirra 39 prósenta (125.000) sem starfa í einkageira atvinnulífsins. Þeir sem eru sagðir á framfæri einkafyrirtækjanna eru: opinberir starfsmenn, þeir sem eru atvinnulausir og allir aðrir (börn, eldri borgarar, öryrkjar, fólk sem er utan vinnumarkaðar, stúdentar).

Þetta eru ómagar atvinnurekenda einkageirans, alls 61% þjóðarinnar, segir Viðskiptaráð. Mitt Romney nefndi þó bara 47%! Hér má sjá útreikning Viðskiptaráðs:

Romney taldi hins vegar ekki opinbera starfsmenn til ómaga eins og Viðskiptaráð gerir. Ef það er gert, þá er tala “ómaga” á Íslandi 47% – rétt eins og í Bandaríkjunum!

Viðskiptaráð reiknar stuðningsstuðulinn sem á að sýna hversu miklar byrðar þeir hafa af þessum  ómögum. Hann er sagður hafa hækkað mikið í kreppunni og vera orðinn 1,5 árið 2010. Það þýðir að hver og einn sem vinnur í einkageiranum hafi 1 og hálfan ómaga á framfæri sínu (fyrir utan sjálfan sig).

Svona hugsa einmitt auðmenn eins og Mitt Romney og segja það upphátt á fundum með öðrum auðmönnum – en ekki opinberlega. Viðskiptaráð Íslands er þó ófeimið við að tjá svona hugsun.

Hér eru dæmi úr skrifum Viðskiptaráðs sem undirstrika boðskapinn frekar:

  • “Einkageirinn er forsenda þess að hið opinbera geti veitt nauðsynlega þjónustu s.s. heilsugæslu og menntun, greitt atvinnuleysistryggingar til þeirra sem eru án vinnu og greitt lífeyri eða bætur til þeirra sem standa utan vinnumarkaðar.”
  • “Árið 2010 stóð hver einstaklingur á almennum vinnumarkaði að baki 1,54 einstaklingi (fyrir utan sjálfan sig) sem studdur var með opinberu fé eða millifærslum. Þarna er um að ræða þá sem starfa hjá hinu opinbera, auk þeirra sem njóta stuðnings sameiginlegra sjóða, en það eru börn, lífeyrisþegar, öryrkjar og atvinnulausir.”
  • “Eftir því sem stuðningsstuðull atvinnulífsins er hærri því fleirum stendur hver starfsmaður í einkageiranum undir, sem felur almennt í sér aukna skattbyrði. Til samanburðar þá stóð hver starfsmaður undir 1,29 einstaklingi árið 2007. Því hafa byrðar einkageirans aukist um tæp 20% frá árinu 2007.”
  • “Hærri stuðningsstuðull atvinnulífsins eftir efnahagshrun er áhyggjuefni. … Umsvif hins opinbera eru enn á mörgum sviðum í anda þess þanda hagkerfis sem var hér í aðdraganda bankahrunsins, en í stað eðlilegrar aðlögunar á opinbera geiranum hefur sú leið verið farin að stórauka byrðar á atvinnulífið til að halda við rekstri hins opinbera.”

Þetta er hugsun og boðskapur Viðskiptaráðs Íslands árið 2011. Viðskiptaráðs sem sagði að þeir hefðu fengið 95% af stefnumálum sínum samþykkt af ríkisstjórnum fyrir hrun. Þeir voru sem sagt leiðsögumennirnir í brú þjóðarskútunnar þegar henni var siglt í strand.

Margir af áhrifamönnum og meðlimum Viðskiptaráðs voru einmitt leiðandi í útrásinni og skuldsetta braskinu sem setti þjóðarbúið á hausinn. Þeir voru í senn boðberar amerísku auðhyggjunnar sem réð ferðinni og atkvæðamestir í dansinum í kringum gullkálfinn. Þeir sögðu okkur hinum að hætta að líta til hinna norrænu ríkjanna eftir fyrirmyndum, við værum þeim framar á öllum sviðum!

Nú segjast þeir þurfa að bera auknar byrðar af samfélaginu vegna hrunsins – hrunsins sem var í boði þeirra sjálfra! Vilja niðurskurð velferðarkerfisins og fá skattalækkanir, svo þeir geti grætt meira á daginn.

Þarf að segja meira?

Jú, við þurfum líka að leiðrétta þessar ranghugmyndir Viðskiptaráðs og Mitt Romneys.

Opinberir starfsmenn eru ekki afætur á starfsmönnum og eigendum einkafyrirtækja. Þeir lækna fólk, hjúkra fólki, mennta fólk, þjálfa vinnuafl, gera rannsóknir og leggja grunn að nýsköpun í tækni, vísindum, atvinnu og listum. Þeir stýra mörgum mikilvægum þáttum samfélagsins. Þeir bjarga t.d. einkageiranum þegar hann hefur rekið sjálfan sig og samfélagið allt í þrot – með græðgi sinni og stjórnleysi.

Opinberir starfsmenn reka flesta þætti grunngerðar samfélagsins, samgöngukerfi, öryggisþjónustu (löggæslu, slökkvilið, o.fl.) og landvarnir. Þeir annast og uppfræða ungabörnin á leikskólum og margt fleira. Þeir sjá um margt af því sem gerir einkarekstur arðbæran og samkeppnishæfan. Allt eru þetta mikilvægir þættir – í senn verðmætasköpun og nauðsyn.

Verðmætasköpun samfélagsins er samvinnuverkefni allra – ekki bara verk atvinnurekenda í Viðskiptaráði.

Lífeyrisþegar og atvinnulausir eru að stórum hluta fjármagnaðir með eigin fé. Þeir leggja hluta launa sinna í lífeyrissjóði, atvinnuleysistryggingasjóð og skatta þegar þeir eru á vinnualdri, til að hafa til tryggingar og framfærslu þegar heilsan gefur sig, aldur sækir að eða þegar ekki er vinnu að fá. Þeir lifa ekki á ölmusugreiðslum frá atvinnurekendum einkageirans.

Velferðarkerfið er þannig eins konar sparibaukur samfélagsins. Menn leggja meira af mörkum þegar þeir eru á vinnualdri til að hafa örugga framfærslu síðar. Opinberir starfsmenn gera það ekki síður en aðrir, sennilega meira en margir í einkageiranum.

Þeir sem fá barnabætur eru ekki þiggjendur ölmusu frá atvinnurekendum. Nei, þeir fá stuðning frá þeim sem komnir eru úr barneign. Þetta eru tilfærslur frá einu skeiði lífshlaupsins til annars, frá einni kynslóð til annarrar, í formi kynslóðasamnings.

Atvinnurekendur greiða í nafni fyrirtækja sinna sem svarar um 2% af þjóðarframleiðslu í tekjuskatt. Útgjöld hins opinbera eru nærri 40% af þjóðarframleiðslu. Mest af því er fjármagnað af sköttum frá öllu vinnandi fólki og einnig að hluta frá lífeyrisþegum. Fólk greiðir hluta launa sinna í sparibauk velferðarkerfisins (skatta og iðgjöld) og nýtur þess svo þegar á þarf að halda. Þannig er það í samfélagi samvinnu og samtryggingarinnar.

Viðskiptaráð hefur ekkert lært af hruninu. Iðrast einskis. Það boðar sömu hættulegu ranghugmyndirnar og fyrir hrun.

Það er því rík ástæða til að auðmenn Íslands láti af hroka sínum og yfirlæti. Þeir og þeirra fyrirtæki eru ekki það eina sem máli skiptir í samfélaginu.

Flestir Íslendingar leggja sitt af mörkum – en eru ekki aular á framfæri atvinnurekenda.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar