Mánudagur 24.09.2012 - 00:07 - FB ummæli ()

Hverjir drekktu Íslandi í skuldum?

Það var alltof mikil skuldasöfnun sem setti Ísland á hliðina, með hruni bankanna og krónunnar. Skuldasöfnun er algengasta ástæða alvarlegra fjármálakreppa í heiminum. Þær koma gjarnan í kjölfar aukins frelsis á fjármálamörkuðum, óhóflegrar spákaupmennsku, brasks eða annarrar umframeyðslu.

Það sama gildir um þjóðarbúið og rekstur heimilis: Of mikil skuldsetning skapar áhættu. Alltof mikil skuldsetning skapar alltof mikla áhættu.

Íslendingar settu heimsmet í aukningu erlendra skulda, frá 2002 til 2008. Heimsmet.

Við vitum auðvitað hverjir gerðu ofurskuldsetningu Íslands mögulega. Það voru eigendur og stjórnendur ný-einkavæddu bankanna: Landsbankans, Kaupþings og Glitnis. Þeir fleyttu alltof miklu erlendu lánsfé inn í landið. Eftirlitsaðilar eins og Fjármálaeftirlit og Seðlabanki horfðu aðgerðalausir á.

En hverjir tóku lánin, aðrir en bankarnir sjálfir?

Ein af fyrstu kenningunum um orsakir hrunsins kom frá Björgólfi Guðmundssyni, stjórnarformanni Landsbankans. Hann sagði að þjóðin hefði eytt of miklu í flatskjái.

Var þá skuldaaukning heimilanna helsta orsök hrunsins?

Hvað segja tölur Seðlabankans um þetta?

Mynd 1: Skuldir fyrirtækja og heimila, sem % þjóðarframleiðslu, 2001 til 2012. Heimild: Fjármálastöðugleiki 1:2012.

Hér má sjá að þó heimilin hafi aukið skuldir sínar umtalsvert þá var skuldsöfnun fyrirtækjanna margfalt meiri, eða hátt í tífalt meiri. Frá árslokum 2002 til ársloka 2007 jukust skuldir fyrirtækja um 222% en skuldir heimila um 26%.

Þegar skuldirnar höfðu svo náð hámarki eftir hrunið (á árinu 2009), þá höfðu skuldir fyrirtækja aukist frá sama tíma árið 2002 um 276% en skuldir heimila um 43%.

Það voru þannig fyrirtækin sem stóðu fyrir hinni hættulegu skuldasöfnun er setti Ísland á hliðina. Skuldaaukning heimila, þó hún hafi verið of mikil, var smá  samanborið við skuldaaukningu fyrirtækjanna. Skuldir heimilanna í Danmörku jukust svipað og á Íslandi. Ekki leiddi það til hruns danska fjármálakerfisins.

Á seinni myndinni má sjá skuldaaukningu íslenskra fyrirtækja í samanburði við fyrirtæki í öðrum löndum. Þar kemur sérstaða íslensku fyrirtækjanna aftur í ljós.

Mynd 2: Skuldir fyrirtækja sem % af landsframleiðslu, 2003 til 2011. Heimildir: Eurostat og Seðlabankinn

Hvergi í þessum löndum jukust skuldir fyrirtækja neitt í líkingu við skuldasöfnun íslenskra fyrirtækja fyrir kreppu, þó víðast hafi gætt aukningar (ekki þó í Þýskalandi, Finnlandi og Noregi). Það er helst Írland sem nálgast okkur, en stærstur hluti skuldaaukningarinnar á Írlandi varð eftir að út í kreppuna var komið – ekki fyrir kreppu eins og hér.

Þó skuldir íslenskra fyrirtækja hafi lækkað mjög mikið eftir hrun, eða úr um 329% af landsframleiðslu í 194%, þá eru þau enn mjög skuldsett. Aðeins írsk fyrirtæki eru nú skuldsettari í þessum landahópi.

Það liggur þannig ljóst fyrir, að fyrirtækjageirinn ber ábyrgð á skuldsetningunni sem setti Ísland á hliðina – ekki heimilin.

Það gerðist með því að allt of margir eigendur og stjórnendur fyrirtækja fóru að braska með lánsfé (það var kallað “fjármálastarfsemi” eða fjárfestingastarfsemi”). Þessu tengdust einnig mjög auknar úttektir fjár úr fyrirtækjum og oft flutningur þess í erlend skattaskjól.

Blóði var þannig tappað af atvinnulífinu og skuldir skildar eftir. Í stað “framleiðslu-kapítalisma” kom eins konar “blóðsugu-kapítalismi” til sögunnar. Eigendur og stjórnendur fyrirtækjanna voru blóðsugurnar, eða braskararnir (eins og það hét hér áður fyrr)!

Þetta var róttæk breyting á viðhorfum í fyrirtækjarekstri á Íslandi. Og hættuleg.

Skyldu nýju viðhorfin enn vera við lýði?

Flest virðist benda til þess. Enda græddu eigendur margra fyrirtækjanna gríðarlega á bóluhagkerfinu.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar