Fimmtudagur 27.09.2012 - 15:53 - FB ummæli ()

Góðir og slæmir kapítalistar

Það er mikilvægt að greina á milli góðra og slæmra kapítalista, góðra og slæmra athafnamanna á sviði atvinnu- og fjármála. Ekki síst þegar menn gagnrýna atvinnulífið, fjármálamenn og fyrirtækjamenn, eins og ég geri stundum.

Steven Jobs er gott dæmi um góðan kapítalista. Hann hefur um langa hríð verið leiðandi í nýsköpun. Búið til tölvutæki margvísleg sem gagnast fólki og fyrirtækjum um allan heim. Hann hefur tengst nýsköpun sem hefur gert fólki mikið gagn og stuðlað að stórkostlegum framförum.

Sama má segja um marga kollega hans í Kísildal í Kaliforníu, þaðan sem margt af nýju upplýsingatækninni kom. Það er almennt til mikill fjöldi slíkra framtaksmanna í heiminum, frumkvöðla og framfaramanna sem eru góðir kapítalistar. Fólk sem hannar og framleiðir nýja hluti, aðferðir eða þjónustu (húsgögn, tæki og tól, ferðaþjónustu, afþreyingarþjónustu, listir, föt, heilbrigðisvöru, o.s.frv.).

Slíkt fólk á skilið að hljóta góða umbun fyrir framtak sitt. Enginn getur kvartað yfir að það efnist á því sem vel er gert – ef það gagnast fjöldanum.

Þeir slæmu eru hins vegar fólk sem liggur eins og afætur eða blóðsugur á raunhagkerfinu. Sumir fjármálamenn nútímans eru oft nefndir sem dæmi um slíka. Þeir braska með eignir, fjármálagerninga og eru á kafi í spákaupmennsku alls konar – oftast með lánsfé.

Slíkir aðilar reyna að græða sjálfir á braski með alvöru fyrirtæki, fénað og fólk, breyta þeim í vettvang fyrir spákaupmennsku – en gera engum gagn. Þeir eru höfundar froðuhagkerfisins og sjúga gjarnan blóðið úr raunhagkerfinu. Vogunarsjóðir eru skýrustu dæmin um slíka starfsemi. Starfsemi forsetaframbjóðandans Mitt Romney hjá Bain Capital var af þeim toga.

Það var slík brask- og blóðsugustarfsemi sem bjó til fjármálakreppuna sem nú geysar – sem og hrunið á Íslandi. Sagt var í erlendum fjölmiðlum um Ísland fyrir hrun að það væri orðið að vogunarsjóði, svo umfangsmikið þótti braskið hér á landi. Ísland var sagt vera vogunarsjóður skreyttur jöklum!

Þegar við gagnrýnum það sem miður fór í braski og skuldasöfnun áranna fram að hruni erum við að gagnrýna slíka aðila – braskara sem engum gera gagn en græða sjálfir vel á að tappa blóði af  hagkerfinu.

Við eigum þó líka að hafa góðu kapítalistana í huga. Þeir gera gagn og bera ekki sök af hinum sem verri eru.

Hins vegar gildir almennt um kapítalista og auðmenn, að stjórnvöld mega ekki dekra of mikið við þá. Þeir taka sér þá aukin völd og nota í eigin gróðasókn, oft gegn hagsmunum almennings. Með því að auðmenn fá of mikil völd veikist lýðræðið.

Þannig er það t.d. í Bandaríkjunum. Auðmenn eru þar búnir að stórskaða lýðræðiskerfið og gera veg peningaafla allt of mikinn. Þó eru enn til málefnalegir og vel viljaðir auðmenn þar, eins og t.d. Warren Buffett og Bill Gates sem gagnrýna græðgi kollega sinna.

Við skulum sjá báðar hliðar. Kosti og galla. Magna kostina en hefta gallana.

Til þess þarf ríkisvald í lýðræðiskapítalisma. Það er forskrift blandaða hagkerfisins – þar sem þróttmikið lýðræði og þróttmikill markaður fara saman.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar