Laugardagur 27.10.2012 - 13:18 - FB ummæli ()

Marxisti í gær – kapítalisti í dag!

Umræðan á Íslandi er ekki alltaf vönduð. Ef birtar eru staðreyndir sem eru óþægilegar, þá er gjarnan hjólað í manninn frekar en efnisatriði.

Reynt er að sverta persónuna eða stimpla hana á neikvæðan hátt.

Ég hef ekki farið varhluta af þessu í gegnum tíðina – jafnvel þó ég hafi stundum það eitt til saka unnið að birta opinberar tölur Hagstofu Íslands.

Um daginn kallaði einn skrifari mig marxista, af því ég leyfði mér að nota orðið “yfirstétt” í texta sem ég skrifaði um baráttu fyrir lýðréttindum og stjórnarskrárbreytingum. Þegar ég leiðrétti það hjá honum endurtók hann einfaldlega stimplunina. Honum kemur ekkert við hvað er satt og rétt og heitir Páll Vilhjálmsson.

Í dag er vakin athygli á því í “frétt” í Viðskiptablaðinu að ég sé kapítalisti, sem hafi stofnað einkahlutafélag utan um ráðgjafastarfsemi sem ég stunda erlendis í frítíma mínum. Þau skrif koma frá róttækum frjálshyggjumanni, Gísla Frey Valþórssyni. Hann reynir að gera þetta grunsamlegt með því að segja að hagnaður hafi verið af starfseminni og keyptur bíll. Honum yfirsást að vísu að bíllinn er 6-7 ára, en látum það liggja milli hluta.

Það er almennt ekki fréttaefni í viðskiptalífinu að fólk kaupi 6-7 ára gamlan bíl, en ef maður skrifar eitthvað sem er óþægilegt fyrir frjálshyggjumenn eða Sjálfstæðisflokkinn, þá getur slíkt orðið að “frétt”. Það getur verið gagnlegt til að ófrægja, jafnvel þó léttvægt sé. Svo dúkkar “málið” upp með nýju áleggi á amx-mykjudreifaranum og í nafnlausum dálkum Moggans.

Hvort er ég marxisti eða kapítalisti? Hvorugt – eða sitt lítið af hvoru og annað í bland.

Ég hef sjálfur lýst mér þannig að ég sé talsmaður blandaða hagkerfisins, þar sem saman fer þróttmikill markaðsbúskapur og öflugt velferðarríki. Það hefur sýnt sig að vera farsælasta skipan þjóðmála fyrir flesta og er næst því að vera miðjustefna í nútímanum.

Við sem viljum hafa það sem sannara reynist megum ekki láta öfgamenn til hægri eða vinstri þagga niður í okkur með ófrægingum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar