Þriðjudagur 20.11.2012 - 22:47 - FB ummæli ()

Pólitík í þágu efnafólks

Frjálshyggju-hugveita Hannesar Hólmsteins (www.rnh.is) og Skafti Harðarson, róttækur frjálshyggjumaður í Reykjavík, buðu til fundar í Háskóla Íslands sl. föstudag. Fundarefnið var skattastefna.

Þetta væri ekki í frásögu færandi nema vegna þess hver frummælandi fundarins var. Hann kom frá Cato hugveitunni í Bandaríkjunum og mælti sérstaklega með lækkun skatta á hátekjufólk, fjárfesta og fyrirtækjaeigendur.

Cato hugveitan er áróðursmiðlun sem fjármögnuð er af auðmönnum. Starfsmenn hennar boða róttæka hægri pólitík sem þjónar hagsmunum auðmanna. Þeir berjast einnig gegn opinbera velferðarkerfinu, sem þeir kalla “skrímsli”. Margar slíkar áróðursveitur eru í Bandaríkjunum og hafa þær haft nokkur áhrif á þjóðmálastefnuna þar í landi.

Þegar sagt er að íslenskir hægri menn sæki hugmyndir sínar til hinna róttækustu hægri manna í Bandaríkjunum, er einmitt verið að vísa í talsmenn fyrirbæra eins og Cato Institute. Aðrar slíkar áróðursveitur sem sótt er til eru t.d. Frazer Institute, Heritage Foundation, AEI – auk talsmanna Teboðshreyfingarinnar.

Hannes Hólmsteinn og félagar standa í vetur fyrir innflutningi fjölda slíkra áróðursmanna. Virðast þeir telja þörf á að skerpa á hægri öfgunum í Sjálfstæðisflokknum á kosningaári.

Þessir aðilar höfðu mikil og vaxandi áhrif á Íslandi á áratugnum fram að hruni og náðu því m.a. að innleiða hér á landi skattfríðindi fyrir hátekjufólk, stóreignafólk og fyrirtækjaeigendur sem ekki áttu sér fordæmi á Vesturlöndum.

Ísland var orðið að skattaparadís fyrir efnafólk, um leið og skattbyrði lægri tekjuhópa var aukin. Þetta var pólitík í þágu efnafólks.

Gamla kjörorð Sjálfstæðisflokksins, “stétt-með-stétt”, varð þar með úrelt!

Eftir hrun var gerð breyting á skattastefnunni, með hóflega auknum álögum á hærri tekjuhópa, stóreignafólk, fjármagnstekjur og fyrirtæki, sem færði skattbyrðina nær því sem algengast er á Vesturlöndum.

Nú er hins vegar í fullum gangi barátta fyrir því að afnema þær breytingar. Sjálfstæðismenn lofa því í gríð og erg að þeir muni láta breytingarnar sem vinstri stjórnin gerði ganga til baka ef þeir komast til valda. Þeir boða flatan tekjuskatt án þeirra frádráttarliða sem nú tíðkast, samkvæmt formúlu Cato áróðursveitunnar.

Stefna Cato og nýfrjálshyggjumanna mun létta sköttum af yfirstéttinni en stórauka byrðar lægri tekjuhópa, líkt og gerðist á Davíðs-tímanum. Ég hef áður sýnt hvernig slík breyting yrði í framkvæmd nú (sjá hér). Næst virðist eiga að ganga enn lengra en áður var gert.

Skattar ellilífeyrisþega, ungra barnafjölskyldna, öryrkja og lágtekjufólks á vinnumarkaði munu stórhækka, verði þessar hugmyndir að veruleika. Einnig skattar millitekjufólks.

Samhliða slíkum skattabreytingum er boðaður mikill niðurskurður opinberra velferðarútgjalda, sem mun bitna harkalega á venjulegum fjölskyldum.

Þetta er róttæk hægri pólitík í anda Cato áróðursveitunnar bandarísku.

Pólitík í þágu efnafólks.

Það er sú pólitík sem Sjálfstæðisflokkurinn rak fram að hruni. Þeir virðast ætla að bjóða áfram upp á sama prógram, komist þeir til valda í vor.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar