Mánudagur 26.11.2012 - 21:10 - FB ummæli ()

Hverju breytir Hanna Birna?

“Ákall um breytingar”, sögðu menn er niðurstaða prófkjörs Sjálfstæðisflokksins lá fyrir, með sigri Hönnu Birnu Kristjánsdóttur í fyrsta sæti.

En hvað ætti að breytast? Er Hanna Birna með aðra stefnu eða áherslur en tíðkast hafa frá því nýfrjálshyggjan hélt innreið sína í Valhöll?

Nei, ekki hefur örlað á því. Raunar er hún alin upp, innvígð og innmúruð af Kjartani Gunnarssyni á Davíðs-tímanum.

Helsta einkennið á stjórnmálaferli Hönnu Birnu er vélbyssutalandi frekar en vel ígrundaður og hraustlegur boðskapur. Hún er ekki einu sinni fulltrúi gamla Sjálfstæðisflokksins sem þóttist stundum vera hófsamur velferðarflokkur er vildi að stétt stæði með stétt.

Andrés Magnússon blaðamaður sagði t.d. eftirfarandi í fréttaskýringu á Eyjunni á sunnudag:

“…þrátt fyrir að Hanna Birna hafi verið þetta lengi í pólitík þá virðist enginn vita fyrir hvað hún stendur, svona í pólitísku tilliti. Yfirlýsingar hennar um stjórnmál eru flestar mjög almenns eðlis og hún lætur yfirleitt ekki þröngva sér til svars um umdeild álitamál.”

Hanna Birna sagði í aðdraganda síðustu borgarstjórnarkosninga að Orkuveita Reykjavíkur stæði vel og gæti greitt borginni arð án þess að hækka þyrfti notendagjöldin. Veruleikinn var hins vegar sá, að Orkuveitan rambaði á barmi risagjaldþrots og alls óvíst var þá hvort borgin gæti bjargað henni.

Hanna Birna var borgarstjóri þegar þetta var – og borgarbúar höfnuðu henni í kosningunum í kjölfarið! Kusu frekar Jón Gnarr og félaga…

Í dag sagðist hún þó vilja hætta samningaviðræðum við Evrópusambandið. Hún vill sem sagt banna þjóðinni að kanna til hlítar hvað gæti falist í öðrum af tveimur helstu valkostum þjóðarinnar í gjaldmiðilsmálum, sem Seðlabankinn hefur skilgreint.

Það er afgerandi afstaða, en er það þó ekki fyrst og fremst heimskuleg afstaða, sem sæmir öfgamönnum eða blindum þjónum útgerðarmanna?

Og svo tilkynnti hún líka í dag að hún færi ekki fram gegn Bjarna Benediktssyni formanni á næsta landsfundi. Þar fór það líka!

Hugmyndin um að Hanna Birna breyti einhverju sem máli skiptir, til að gera Sjálfstæðisflokkinn meira stjórntækan, virðist byggja á því að hún gæti verið ný forsíðumynd, flekklaus af skuldavafningum braskáranna sem svo margir Sjálfstæðismenn tóku þátt í.

Hún gæti verið gagnlegt ímyndarskjól fyrir braskarana sem að baki búa – og öllu ráða.

Hanna Birna breytir því litlu sem engu í Sjálfstæðisflokknum.

 

 

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar