Miðvikudagur 28.11.2012 - 09:47 - FB ummæli ()

Skattstjóri afhjúpar atvinnurekendur

Í vikunni birti Indriði H. Þorláksson, fyrrverandi ríkisskattstjóri, athyglisverða og mikilvæga grein um skattamál í Fréttablaðinu. Þar flettir hann ofanaf blekkingum sem Samtök atvinnulífsins (SA) settu fram í nýlegri skýrslu.

Boðskapur SA var sá að skattar á fyrirtæki og aðra hafi hækkað mikið og þeir kynntu svo hugmyndir sínar um æskilegar skattalækkanir á næstu árum.

Indriði sýnir að útreikningar SA um aukna skattheimtu standast enga skoðun og að hugmyndir þeirra um skattalækkanir eru einfaldlega krafa um aukin forréttindi til hátekju- og stóreignafólks – þ.e. til þeirra sjálfra.

Misræmi er á tölum SA um álagningu skatta og rauntölum ríkisreiknings fyrri ára og tölum fjárlaga fyrir næsta ár. Indriði segir SA áætla sínar tölur með röngum hætti og því verði þær fjarri veruleikanum.

  • Ég hef áður sýnt að skattbyrði fyrirtækja og fjármagnseigenda er enn með því minnsta sem þekkist meðal OECD-ríkja, þrátt fyrir hóflega hækkun álagningar eftir hrun (sjá hér og hér).
  • Indriði bendir á að skattbyrði sumra hafi hækkað en annarra lækkað. Ég hef einnig sýnt hvernig raunverulega greiddir skattar hærri tekjuhópa hækkuðu um leið og skattbyrði lægri tekjuhópa lækkaði frá 2007 til 2010 (sjá hér, kafla IV).

Það athyglisverðasta í grein Indriða er þegar hann sýnir hvað felst í hugmyndum SA um skattalækkanir á næstu árum. Ég hef niðurstöðu Indriða orðrðétta eftir honum:

“Framangreindar tillögur SA fela í sér 30 mia. kr. lækkun á sköttum. Yfir 20 mia. kr. rynnu til þeirra 5% skattgreiðenda sem hæstar tekjur hafa og allt að 27 mia. kr. til um 30% tekjuhæstu skattgreiðenda. Þeir 3 mia. kr., sem eftir eru myndu deilast á þá sem eftir eru.

Tillögur SA miða að því að færa þeim sem nutu forréttinda í skattamálum í aðdraganda hrunsins þá stöðu aftur. Með breytingum síðustu ára var sköttum á þennan hóp þokað frá “vinnukonuútsvari” upp í meðalskatthlutfall launamanna. Því vill SA breyta og færa þeim með blómvendi 30 milljarða króna á hverju ári, sem almenningur myndi taka á sig með hærri sköttum eða frekari skerðingu á opinberri þjónustu.”

Atvinnurekendur eru sem sagt að leggja til sérstakar skattalækkanir á ríkustu atvinnurekendur og fjármálamenn, en ekki á almenning! Þetta er eins og hjá róttækustu Repúblikönum í Bandaríkjunum.

Enginn getur véfengt útreikninga fyrrverandi ríkisskattstjóra. Talsmaður SA, Halldór Árnason, svarar grein Indriða í FB í gær, með upphrópunum einum – en engum efnislegum aðfinnslum (sjá svar Indriða til Halldórs). Niðurstaða Indriða stendur óhögguð.

Allir Íslendingar vilja atvinnulífinu vel.

Það er hins vegar alger óþarfi að íslenskir atvinnurekendur og fjármálamenn njóti skattfríðinda langt umfram það sem almennt er á Vesturlöndum.

 

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar