Laugardagur 08.12.2012 - 15:07 - FB ummæli ()

Sambúð lýðræðis og markaðar

Í þessari grein færi ég rök fyrir því, að aukin áhersla á óhefta markaðshyggju á Vesturlöndum á síðustu áratugum hafi þrengt að lýðræðinu. Þeirri þróun fylgir aukið vald og aukið frelsi peningaafla, ásamt auknum ójöfnuði lífskjara. Hagvöxturinn nýtist yfirstéttinni meira en áður var og reynt er í vaxandi mæli að grafa undan velferðarríkinu. Hagur millistéttarinnar og lágtekjufólks hættir að batna eins og áður var. Aukin samþjöppun peningavalds ógnar þannig almannahag og lýðræði í senn.

Farsælli sambúð lýðræðis og markaðar virðist í auknum mæli vera ógnað. Hér koma röksemdirnar:

 

Lýðræðisskipan stjórnmála og markaðsskipan framleiðslu og viðskipta eru tvær höfuðstoðir vestræna þjóðskipulagsins, lýðræðiskapítalismans. Hvor stoð um sig hefur mikilvægu hlutverki að gegna og saman þurfa þær að vinna og veita gagnvirkt aðhald.

Ef lýðræðið veikist færist meira vald til markaðarins, en þar ræður vald peninganna. Ef of mikil völd færast yfir í stjórnmálin þá getur þrengt um of að markaðinum. Samspil lýðræðis og markaðar er línudans sem þarf að miða að jafnvægi og farsælum útkomum.

Það er áhyggjuefni þegar róttækir markaðshyggjumenn tala af fyrirlitningu um hlutverk og mikilvægi lýðkjörinna stjórnvalda. Það er líka áhyggjuefni þegar auðmenn geta keypt sér völd og áhrif á vettvangi stjórnmála með fjárframlögum til stjórnmálaflokka, eins og er svo algengt í Bandaríkjunum – og reyndar einnig hér á landi.

Það er líka áhyggjuefni þegar þátttakendur í lýðræðislegum stjórnmálum vanda ekki málflutning sinn og virða ekki almannahag, heldur þjóna sérhagsmunum.

Ríkissósíalismi sóvétkerfisins gekk alltof langt í útþenslu ríkisvaldsins og afneitun lýðræðis, sem leiddi einnig til afneitunar markaðsbúskapar. Afraksturinn varð vægast sagt skelfilegur, bæði fyrir mannréttindi og lífskjör almennings.

Óheftur kapítalismi felur í sér hættur, jafnvel þó hann tengist ekki víðtækum mannréttindabrotum eða fjöldamorðum í okkar heimshluta. Helsta hættan af óheftum kapítalisma er sú, að lýðræðið veikist gagnvart peningaöflunum, sem ráða ferðinni á markaðinum.

Eftir 1980 sveiflaðist tíðarandi stjórnmálanna á Vesturlöndum í átt til aukinnar markaðshyggju. Það tengdist bæði breyttu viðhorfi til þjóðmála og hnattvæðingu markaðar og fjármála. Í kjölfarið veiktist lýðræðið, fjármálageirinn varð of valdamikill, brask og skuldasöfnun jókst með aukinni áhættu á fjármálakreppum.

Þegar markaðsöflin verða of sterk í samanburði við lýðræðisöflin, er hætta á að sérhagsmunir yfirstéttar fjármálamanna taki völdin, brjóti niður eftirlits- og aðhaldsstofnanir og grafi undan velferðarríkinu sem þjónar almannahag. Þá eru hagsmunir auðmanna teknir fram yfir hagsmuni almennings.

Þetta er það sem hefur gerst víða á Vesturlöndum í sívaxandi mæli eftir um 1980. Helsta hugmyndarót þessarar breytingar liggur í auknum áhrifum nýfrjálshyggju (neoliberalism). Í þeim hugmyndum er fjandskapur við lýðkjörið ríkisvald höfuðboðskapur.

Allt sem ríkið gerir er sagt slæmt en allt sem einkageirinn gerir er sagt gott, í kreddu nýfrjálshyggjunnar. Slíkur boðskapur hljómar enn á Íslandi, jafnvel þó ekki sé lengra en fjögur ár frá því einkageirinn setti þjóðfélagið á hausinn, með taumlausri græðgi sinni. Það var jú yfirstétt fjármálabraskara og atvinnurekenda sem setti þjóðarbúið í þrot með ofurskuldsetningu.

Millivegurinn (blandaða hagkerfið), með þróttmiklu lýðræði og öflugum samkeppnismarkaði, hefur sýnt sig að vera farsælasta skipan þjóðmálanna. Þannig skipan var víða við lýði á Vesturlöndum á árunum frá um 1950 og fram undir 1980. Það var mesta framfaraskeiðið í sögu mannkyns. Hagvöxtur var mikill og nýttist öllum tekjuhópum og stéttum samfélagsins í svipuðum mæli.

Eftir að róttæk markaðshyggja nýfrjálshyggjunnar varð áhrifameiri frá og með 1980 fór hagvöxturinn að nýtast yfirstétt auðmanna í meiri mæli og almenningur naut ekki framfaranna að sama skapi og áður. Síðan hafa auðmenn víða sótt í sig veðrið og keypt sér aukin áhrif í stjórnmálum og þar með búið enn betur í haginn fyrir sig – oftast á kostnað almennings.

Þetta hefur leitt til aukins ójafnaðar eftir 1980. Slík þróun getur hugsanlega af sér vítahring, með síaukinni samþjöppun auðsins og valdsins í samfélaginu.

Þegar það gerist eru lýðræði og almannahagur í hættu.

Markaðssamfélag án öflugs aðhalds frá lýðræðinu breytist í samfélag þar sem auðmenn einir ráða för.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar