Föstudagur 14.12.2012 - 15:18 - FB ummæli ()

Kjarabarátta ASÍ á villigötum

Ef ég væri í forystu fyrir ríkisstjórninni væri ég búinn að takmarka samstarf við SA og ASÍ all verulega fyrir nokkru síðan.

Samt er ég ekki andvígur því að ríkisstjórnir komi að gerð kjarasamninga með eitthvert innlegg. Hins vegar hefur slík aðild ríkisstjórna farið inn á nýjar brautir á síðustu árum sem eru komnar út úr öllu korti. Stundum súrrealískar. Allt að kröfu aðila vinnumarkaðarins.

Tímabært er því að endurskilgreina samráðskerfið og takmarka aðkomu ríkisstjórna að frágangi kjarasamninga.

Ástæða þess er sú, að kjarabarátta ASÍ er hætt að snúast um að sækja kjarabætur til atvinnurekenda, en gengur í of miklum mæli út á að skrifa langlokur um ástand og horfur í þjóðmálunum í kjarasamninga, sem svo eru túlkaðar út og suður sem “svik” stjórnvalda.

Stöðugleikasáttmálinn 2009 var pakkaður með slíkum hugvekjum og æskilegum markmiðum, sem mörg voru langt utan áhrifasviða aðila samningsins. Til dæmis var þar ákvæði um að stýrivextir skyldu hafa lækkað niður í eins stafs tölu tiltekinn dag nokkrum mánuðum eftir undirritun. Samt gátu samningsaðilar engu ráðin um þá niðurstöðu, heldur Selabankinn einn. Síðar mátti þó nota þetta til að væna ríkisstjórnina um “svik” eða laka stjórn peningamála!

Annað dæmi er ákvæði í kjarasamningum vorið 2011 um fjárfestingu í atvinnulífinu. Þar segir: “Það er markmið stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins að (…) fjárfesting verði ekki lægri en 350 ma.kr. á ári.” Ekkert var sagt um hver ætti að fjárfesta – og alls ekki gert ráð fyrir að gjaldþrota ríkiskassinn stæði undir slíkum útgjöldum, enda óhugsandi.

Þegar ljóst varð að þetta markmið náðist ekki að fullu risu atvinnurekendur og forysta ASÍ upp á afturlappirnar og hrópuðu í fjömiðlum að ríkisstjórnin hefði “svikið” samninginn! Þetta var ekki bara ósanngjarnt, heldur beinlínis óheiðarlegt.

Í gær birti ASÍ svo nýja auglýsingu með svikabrigslum. Það sem þar var borið á borð var bæði svo hæpið og ósatt að mann rekur í rogastans!

Lexían getur ekki verið önnur fyrir ríkisstjórnina en að hætta að hleypa aðilum vinnumarkaðarins inn í stefnumótun stjórnvalda eins og gert hefur verið – án þess að þessir aðilar beri ábyrgðina. Sú þróun var hvort eð er komin allt of langt. Valdahroki SA og ASÍ manna er líka orðinn of mikill.

Aðkoma ríkisins að kjarasamningum ætti að vera mjög þrönglega skilgreind og takmörkuð, en ekki fela í sér eins konar ígildi stjórnarsáttmála, eins og tíðkast milli stjórnarflokka.

ASÍ og SA eiga að semja um kjör á vinnumarkaði, en ekki um að senda reikning fyrir hluta samningsins til stjórnvalda. Þeir hafa heldur ekkert umboð frá þjóðinni til að móta stefnu í öllum málum samfélagsins. Þeir geta lýst skoðunum sínum – en ríkisstjórnir hljóta að ráða stefnunni.

Það er líka alveg óþarfi fyrir stjórnvöld að leyfa aðilum vinnumarkaðarins að skreyta sig með því sem ríkisstjórnin gerir vel í störfum sínu og greiðir fyrir. Ekki þurfti t.d. aðkomu SA+ASÍ að áformum um hækkun barnabóta og nýja öfluga fjárfestingaráætlun, sem ríkisstjórnin setur í gang á næsta ári.

Flest af því sem vel hefur tekist og sem ríkisstjórninni hefur verið hælt fyrir erlendis þurfti enga sérstaka aðkomu SA og ASÍ.

  • ASÍ og SA eiga að skemmta hvor öðrum í karphúsinu og takast á, en ekki að fá að þykjast vera eins konar skuggaríkisstjórn. Við þurfum því að breyta samráðskerfinu og ASÍ þarf að skila meðlimum sínum kjarabótum frá atvinnurekendum.
  • ASÍ menn eiga að vera meira en sjóðstjórar lífeyrissjóða og vörslumenn vertryggingarinnar. Þeir eiga að semja um kauphækkanir og styttingu vinnutíma.
  • Þjóðin þarf nú kauphækkun – en ekki síendurtekna áróðursleiki SA og ASÍ forystunnar. Síðasti kjarasamningur fól í sér of hægfara aukningu kaupmáttar.
  • Það ætti einnig að vera mikilvægt markmið fyrir framtíðina, að aðilar vinnumarkaðarins hafi ekki of mikil áhrif á þróun þjóðfélagsins, eins og þeir gerðu fyrir hrun.
  • Samtök atvinnurekenda voru meðal helstu höfunda þeirrar stefnu sem keyrði þjóðarbúið fyrir björg. Þeir virðast enn aðhyllast sömu stefnuna.
  • ASÍ forystan horfði aðgerðalaus upp á þá gríðarlegu ójafnaðar- og óheillaþróun sem reið húsum eftir aldamótin og fram að hruni.
  • ASÍ gerði ekkert þegar barnabætur, vaxtabætur og skattleysismörk lækkuðu ár frá ári, alveg frá 1995 til 2006, sem rýrði verulega kjör félagsmanna launþegahreyfingarinnar, einkum þeirra lægst launuðu.

Menn mættu hafa þetta í huga á jólaföstunni.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar