Sunnudagur 16.12.2012 - 14:44 - FB ummæli ()

Styrmir í vélarúmi valdsins

Það er mikill fengur að nýrri bók Styrmis Gunnarssonar, fyrrverandi ritstjóra Morgunblaðsins, um átök og uppgjör innan Sjálfstæðisflokksins. Þar fæst ómetanleg sýn inn í hin reykfylltu bakherbergi flokksins, þar sem vélað er með valdið í samfélaginu.

Megin erindi bókarinnar er að rétta hlut Geirs Hallgrímssonar í stjórnmálasögunni, en hann hrökklaðist úr formennsku í Sjálfstæðisflokknum og í reynd úr stjórnmálunum, eftir að hafa orðið fyrir nokkrum niðurlægingum á seinni hluta ferilsins.

Bókin nær þó út fyrir þann ramma og reifar ýmis athyglisverð atriði, eins og um eðli og starfshætti Sjálfstæðisflokksins, sem og um uppgjörið við stefnu og starfshætti flokksins frá aldamótum og þátt flokksins í hruninu, sem aldrei var lokið við. Styrmir telur að flokkurinn þurfi að ganga hreinna til verks og horfast í augu við það sem misfórst við frelsisvæðingu athafnalífsins og einkavæðinguna sem flokkurinn framkvæmdi í aðdraganda hrunsins.

Bók Styrmis verður án efa skoðuð í alvöru greiningum fræðimanna á þessu tímabili, vegna þess að hún er innsýn frá þátttakanda úr innsta hring. Styrmir segir að vísu að í bókinni birtist sýn áhorfanda (bls. 12), en við lestur bókarinnar sjáum við hvernig hann var mjög virkur þátttakandi í beitingu valdsins sem Sjálfstæðisflokkurinn hafði í samfélaginu.

Ritstjórar Morgunblaðsins birtast sem nánir ráðgjafar og samstarfsmenn forsætisráðherra og annarra í flokksforystunni. Raunar gegndu þeir hlutverkum sem eðlilegra hefði verið að framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins gegndi.

Bókin er þó ekki fræðilegs eðlis eða hlutlaus frásögn. Hún er meira eins og dagbók þátttakanda sem vill draga upp „rétta“ mynd af mönnum og málefnum flokksins eða þeim hópi sem hann sjálfur tengdist. Þannig fegrar höfundur mjög formannstíð og störf Geirs Hallgrímssonar, oft á kostnað annarra. Þá er hann stundum afar ósanngjarn gagnvart pólitískum andstæðingum og fer beinlínis með rangfærslur um verk þeirra.

Innsýnin í vélarúm valdsins er mikilvægasta framlag bókarinnar, enda erum við að tala um mesta valdakjarnann í samfélaginu. Það er röstin þar sem mætast forysta Sjálfstæðisflokksins, samtök atvinnurekenda, helstu fjármálamenn og áhrifamestu fjölmiðlar í stjórnmálunum á þeim tíma (Morgunblaðið og Vísir).

Geir Hallgrímsson var, eins og Styrmir segir sjálfur, “höfðingi establishmentsins – hinna ráðandi afla í landinu” (bls. 44). Geir var í senn formaður stærsta stjórnmálaflokks landsins, atvinnurekndi og áhrifamaður í samtökum atvinnulífsins og einn af stærstu eigendum Morgunblaðsins – raunar  stjórnarformaður þess um langt árabil.

Styrmir lýsir m.a. hvernig hann upplifði merkisafmæli Geirs þannig, að liðsmennirnir voru “komnir til að votta höfðingja sínum virðingu”. Þetta var jú allt “innvígt og innmúrað” í valdakjarnanum, eins og Styrmir sagði í öðru samhengi. Manni verður ósjálfrátt hugsað til senu í einni af Godfather-myndum Coppola!

Óvenjulegt er að stjórnmálamaður sé í svo fjölþættri valdastöðu í okkar heimshluta eins og Geir var, ekki síst á Norðurlöndum. Fara þarf til suður Evrópu eða suður Ameríku til að finna slík dæmi valdasamþjöppunar.

Miðað við lýsingu Styrmis (sem var í senn vinur, stuðningsmaður og skjólstæðingur Geirs) þá var Geir vandaður maður, stefnufastur og heiðarlegur. Hann varð hins vegar fórnarlamb átaka innan flokksins, sem var að sögn Styrmis líkari ormagryfju en lýðræðislegum samtökum (bls. 262).

En um hvað snérust átökin innan flokksins?

Átökin voru fyrst og fremst persónuleg en ekki um ólík viðhorf til málefna. Þetta voru átök manna sem voru málsvarar eigin metnaðar og hagsmuna, segir Styrmir (bls. 226).

Hér á líka við það sem Styrmir sagði við rannsóknarnefnd Alþingis: „ … þetta er allt ógeðslegt. Það eru engin prinsipp, það eru engar hugsjónir, það er ekki neitt. Það er bara tækifærismennska, valdabarátta.“

Sjálfstæðisflokkurinn hefur reyndar alltaf talað fyrir einstaklingshyggju og gegn samfélagshyggju. Einstaklingshyggjan virðist hafa náð yfirhöndinni líka í starfsháttum innan flokksins, ef marka má lýsingu Styrmis. Svo slapp hún alveg laus út í óhefta græðgisvæðingu á frjálshyggjutímanum eftir aldamótin 2000, með skelfilegum afleiðingum fyrir þjóðina.  Þetta síðasta er þó útlegging mín, en ekki Styrmis.

Hvað sem líður átökum milli einstaklinga innan flokksins þá horfir Styrmir nokkuð framhjá því að Geir Hallgrímsson var ekki sterkur stjórnmálaleiðtogi. Það gerði hann viðkvæman fyrir samkeppni frá öðrum, eins og Gunnari Thoroddsen, sem hafði augljóslega mun sterkari leiðtogaeiginleika en Geir.

Það má auðvitað segja að Sjálfstæðisflokkurinn hafi valið rangan mann sem formann, þegar valið stóð á milli þeirra Gunnars og Geirs. Geir hafði betur, enda betur tengdur í heimi atvinnurekenda, á Morgunblaðinu og í klíkum ættarveldanna í flokknum. Hann sat hins vegar uppi með skuggann af Gunnari Thoroddsen allan sinn feril. Síðar ógnaði Albert Guðmundsson honum líka, annar sterkur leiðtogi – sem þó var annarar gerðar en Gunnar.

Þegar Geir gerði þau strategísku mistök að afnema kjarasamninga verkalýðshreyfingarinnar (Sólstöðusamningana) skömmu fyrir kosningar 1978 þá hækkaði gengið á keppinautum hans innan flokksins, enda tapaði flokkurinn illa í kosningunum. Illa var líka haldið á stefnumótun fyrir desemberkosningarnar 1979. Staða Sjálfstæðisflokksins veiktist þannig undir forystu Geirs á þessum tíma og á endanum fór Gunnar Thoroddsen fram gegn forystunni og klauf flokkinn með myndun ríkisstjórnar með Framsókn og Alþýðubandalagi í byrjun árs 1980.

Það var meiriháttar áfall fyrir Geir Hallgrímsson og stuðningsmenn hans. Í prófkjöri 1983 höfnuðu flokksmenn síðan formanni sínum. Hann lenti í sjöunda sæti í Reykjavík, tók sætið og féll út af þingi. Lét svo af formennsku í kjölfarið.

Samt tók Geir sæti í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar haustið 1983. Þar sat hann sem utanríkisráðherra uns eftirmaður hans á formannsstóli, Þorsteinn Pálsson, gerði bandalag við aðra ráðherra ríkisstjórnarinnar um að reka Geir úr ríkisstjórninni 1985, svo Þorsteinn gæti tekið sæti í stjórninni. Enginn hinna ráðherranna vildi víkja fyrir Geir Hallgrímssyni, enda allir alltaf að gæta eigin hagsmuna.

Þetta var auðvitað niðurlægjandi fyrir Geir – jafnvel þó honum væri boðið að setjast í stól seðlabankastjóra, en flokkurinn gat ráðstafað því embætti með þeim hætti, bæði fyrr og síðar.

Síðan ver Styrmir talsverðu rými í umfjöllun um formannstíð Þorsteins Pálssonar (1983-1991), sem hann telur misheppnaða. Það var bæði vegna þess að Þorsteinn hafði ekki vit á að sýna Geir og arfleifð hans næga virðingu (sem hann segir Davíð Oddsson á hinn bóginn hafa gert) og vegna þeirra “mistaka” að reka Albert Guðmundsson úr ríkisstjórninni, þegar upplýstist að hann hafði framið skattsvik sem fjármálaráðherra.

Þó Þorsteinn hafi gert rétt frá siðferðilegu sjónarmiði varð afleiðingin sú, að sérhagsmunagreifinn Albert stofnaði Borgaraflokkinn og fékk um 10% atkvæða í kosningunum 1987, en Sjálfstæðisflokkurinn beið afhroð. Þar með var brautin rudd fyrir formannsframboð Davíðs gegn Þorsteini árið 1991.

Á heildina litið er bók Styrmis vel læsileg og fróðleg. Þrátt fyrir augljósa hlutdrægni og ósanngirni gagnvart sumum sem ekki eru innvígðir og innmúraðir í sömu fylkingu og Styrmir má mikið af bókinni læra.

Þarna sjáum við í skýru ljósu hversu mikil valdasamþjöppunin í kringum Sjálfstæðisflokkinn hefur verið og hvar þræðirnir liggja. Samtök atvinnurekenda, fjármálamenn, fjölmiðlar og flokkurinn spila saman sem einn aðili. Þeir standa saman, þrátt fyrir persónulegu átökin og einstaklingsbundinn metnað.

Að halda völdum er þrátt fyrir allt mikilvægast.

Ritstjórar Morgunblaðsins koma þarna skýrlega fram sem stórvirkir gerendur á sviði stjórnmálanna og taka meðal annars þátt í að falsa fréttir og myndir til að fegra hlut flokksins og halla gegn andstæðingum hans. Þannig var Morgunblaðinu miskunnarlaust beitt sem hluta af flokkskerfinu.

Þetta minnir á stöðu Pravda, málgagns sovétska kommúnistaflokksins, sem gjarnan var gantast með hér á árum áður. Þetta fyrirkomulag er augljóslega enn við lýði á Morgunblaði Davíðs Oddssonar og LÍÚ-manna. Svo harðdræg þjónkun fjölmiðils við stjórnmálaflokk og hagsmunasamtök er auðvitað óvenjuleg í vestrænu samfélagi.

———————————

Í framhaldinu mun ég skrifa tvo styttri pistla um bók Styrmis, annan um það hvernig flokkur Sjálfstæðisflokkurinn er og hinn um áhrif flokksins á þróunina að  hruni.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar